Fara í efni

RÁÐHERRA HEILBRIGÐIS-MÁLA TEKUR Á ÁFENGIS-VANDANUM MEÐ SÍNU LAGI

Hinn 7. maí 2015 voru Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, og Valgerður Rúnarsdóttir, læknir á sjúkrahúsinu Vogi, gestir í hlaðvarpsþættinum Hip hop og pólitík á vef Vísis. Í dagskrártilkynningu stendur að þau hafi m.a. rætt um áfengis- og vímuefnastefnu stjórnvalda og hugbreytandi efni.

Ráðherrann upplýsti að hann hefði stutt það að áfengislagafrumvarp var lagt fram haustið 2014 af þrettán alþingismönnum, sjö vígreifum sjálfstæðismönnum af báðum kynjum og nokkrum einföldum og hrekklausum sálum úr öðrum flokkum, samtals rúmlega fimmta hluta þingheims. Það var semsagt ekki ákveðið gegn vilja ráðherrans sem fer með heilbrigðismál í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs!

„Ég studdi það að þetta yrði lagt fram og fengi umfjöllun í þinginu," sagði ráðherrann.

Ekki fer á milli mála að ýmsir létu sér fátt um finnast þegar sú umfjöllun fór af stað og hugsuðu sem svo: Sjálfstæðisflokkurinn enn við sama, gamla heygarðshornið. Er þetta ekki orðið ansi lúið?

Hins vegar er ekki nokkur vafi á að þingmennirnir fimm og átta hafa fagnað undirtektum ráðherrans þótt hann að vísu tæki ekki fram hvort hann hygðist greiða atkvæði með frumvarpinu. Ekki virðist samt mikil hætta á að hann bregðist í því: hann var einn af aðstandendum áfengislagafrumvarpsins 2007!

Í fréttum Vísis 11. júlí 2014 var greint frá því að enn eitt frumvarpið væri í uppsiglingu, og þessu bætt við:

„Álíka frumvörp hafa MARGOFT (leturbr. mín jsá) verið lögð fram áður. Þingið 2007-2008 var svipað frumvarp lagt fram og voru fjórir núverandi ráðherrar flutningsmenn þess. Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson og Ragnheiður Elín Árnadóttir.
"

Hér verður ekki fjallað ítarlega um þá hneykslun sem ráðherrann, æðsti maður heilbrigðismála í landinu, hefur kallað yfir sig með yfirlýsingu sinni, einungis minnt á hve ámælisverð hún er og gjörsamlega fáránleg í ljósi alls þess sem nú er vitað um hættulegar afleiðingar aukins aðgengis, bæði vegna beinnar reynslu af því víða um lönd og vegna þess að viðamiklar rannsóknir sýna að ungu fólki stafar miklu meiri hætta af víni en áður var talið. Ungmenni sem leiðast út í slark eiga það á hættu að greindarvísitalan verði lægri en efni standa til. Sumt af þessu unga fólki fær skorpulifur þegar fram líða stundir, og svo er að sjá sem óregla á unga aldri sé algengasta orsök vitglapa sem hefjast snemma, þ.e. fyrir 65 ára aldur (Young-Onset Dementia, YOD).

Glöpin munu skýrast af því að heilinn nær að jafnaði ekki fullum þroska fyrr en upp úr tvítugu, og fram að því er sérstök hætta á ferðum ef áfengis er neytt að einhverju ráði.

RÁÐHERRANN LEGGUR FRAM SÍN RÖK Í MÁLINU

Í umfjöllun sinni setti ráðherrann fram eftirfarandi athugasemd sem óneitanlega er ofurlítið ýkjukennd: „Ég held að hvaða Íslendingur sem er geti í rauninni nálgast áfengi hvar og hvenær sem honum dettur það til hugar." Þessi orð áttu væntanlega að sannfæra fólk um að engu máli skipti hvort aðgengið er mikið eða lítið, glórulaus alhæfing ætluð þeim sem ekki nenna að hugsa um málið. Reyndar gæti þessi lýsing átt ágætlega við ef frumvarpið verður samþykkt og aðgengið eykst til muna eins og eðlilegt virðist að gera ráð fyrir.

Látum nægja að segja að þetta hafi ekki verið merkilegt innlegg í umræðuna.

Ráðherranum þótti alveg nóg um umsvifin hjá ÁTVR og hafði þetta um þau að segja: „það er verið að opna vínbúðir út og suður um allt land og auglýsingar og svo framvegis og svo framvegis og þetta er farið að starfa sem í rauninni hvert annað fyrirtæki á markaði."

Samkvæmt upplýsingum ÁTVR hefur lítið verið að gerast á seinni árum. Útþensla síðasta árs var í því fólgin að búð var opnuð á Kópaskeri. Á þessu ári verður Vínbúðin í Spönginni enduropnuð, en henni var lokað 2009. Búðinni í Garðabæ var lokað 2011.

Þetta með auglýsingarnar virðist ekki alveg í samræmi við veruleikann. Enginn kannast við að ÁTVR hafi nokkurn tíma auglýst vörur sínar, enda er það viðurkennt í greinargerðinni með frumvarpinu. Þar stendur skýrum stöfum: „ÁTVR sinnir hlutverki sínu af ábyrgð, t.d. eru engar söluhvetjandi aðgerðir leyfðar."

Hvað ráðherrann átti við með orðunum „og svo framvegis og svo framvegis" er ekki ljóst.

Ráðherrann hélt áfram og bætti við: „Flestar stofnanir á mínum vegum og fagfélög sem álykta gegn þessu og ég held að það beinist miklu fremur að neyslu áfengis fremur heldur en því beinlínis hver er að rétta þetta, eða afgreiða, raunar, við kassann." Þetta var sérkennileg túlkun og það er erfitt að ímynda sér að þessir aðilar hafi í þessu tilviki bara verið að álykta gegn áfengisneyslu almennt. Ætli hitt sé ekki líklegra að þeim sé ekki alveg sama hverjir það eru sem rétta veigarnar yfir borðið.

Því má bæta við að fjármálaráðherrann fullyrti í eldhúsdagsumræðunum í byrjun október að það sé alveg sama hverjir það eru sem rétta bokkurnar yfir borðið. Það var það eina sem hann hafði um málið að segja. Eins og allir sjá heldur hann sig á sama lága planinu og félagi hans í Heilbrigðisráðuneytinu.

NÁNAR UM AUKIÐ AÐGENGI

Ráðherranum blöskrar alveg fyrirferðin á ÁTVR eins og áður kom fram. Vel má vera að aðgengið sé óþarflega mikið þar á bæ, en varla myndi það minnka við markaðsvæðingu sölunnar. Í því sambandi mætti kannski rifja upp ummæli Vilhjálms Árnasonar í morgunviðtali í Ríkisútvarpinu 10. mars síðastliðinn: „Það er oft talað um að það sé verið að gera þetta til að setja þetta í matvöruverslanir, en svo er ekki. Þetta má vera í sérvöruverslunum og má vera til dæmis í ostabúðum eða þess vegna blómabúðum, þannig að þetta er ekkert bundið við matvöruverslanirnar." Vilhjálmur er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Ölkærir sjá fyrir sér að brátt renni upp betri tíð: Stressaðir iðnaðarmenn sem eiga erindi í Byko eða Húsasmiðjuna fá sér um leið eitthvað sem hjálpar þeim að komast í gegnum daginn, bókavinir kaupa sér koníakspela og nýjustu bók Arnaldar hjá Eymundsson eða Máli og menningu, Reykvíkingur sem ekur til Akureyrar kaupir bjórinn og bensínið til fararinnar hjá N einum.

Tekið er fram í greinargerðinni með frumvarpinu að „Ekki [sé] ólíklegt að aukið aðgengi að áfengi hafi aukin áfengiskaup í för með sér, a.m.k. til byrja með" verði það samþykkt. Þarna er aldeilis ekki djúpt tekið í árinni! Í framhaldinu er því svo slegið fram með einkennilega þokukenndu orðalagi að neyslan myndi „líklega" dragast „eitthvað" saman aftur. Þarna höfum við það svart á hvítu: Þingmennirnir (ásamt ráðherra heilbrigðismála) sætta sig ágætlega við þær horfur að neyslan aukist með tilheyrandi áfengisböli og heilsutjóni, og ef hún minnkar aftur, sem þó er alls ekki víst, fer hún ekki niður á fyrra stig.

Sú kenning að aukin neysla gangi hugsanlega lítið eitt til baka eftir stuttan tíma án þess að dregið sé úr aðgenginu kemur illa heim og saman við erfiða og afar sársaukafulla reynslu Breta og fleiri Evrópuþjóða. Sumt af því sem kemur upp á skjáinn ef gúgglað er saman, til dæmis, UK alcohol deregulation, er hreint og beint skelfilegt.

Að aðgengið gæti aukist gríðarlega (jafnvel margfaldast) og neyslan rokið upp úr öllu valdi, samanber það sem gerst hefur í Bretlandi og víðar, er einmitt það sem gagnrýnendur frumvarpsins óttast mest.

Guðbjartur Hannesson (í beinskeyttri smágrein um frumvarpið, Hagsmunagæsla á kostnað almennings, DV 3. mars 2015) segir meðal annars: „Bent er á að fjöldi sölustaða gæti tífaldast." Ef þingmennirnir og ráðherrann hefðu kynnt sér rannsóknir á því hver yrðu áhrif haftalosunar í löndum með svipaðar takmarkanir og tíðkast hér á landi, hefðu þeir séð síst lægri tölur en þá sem Guðbjartur nefndi.

Jafnvel þótt þessi ískyggilegu orð Guðbjarts rættust ekki öll væri það samt alveg grafalvarlegt mál. En hvað ef háleitar hugsjónir Vilhjálms Árnasonar verða að veruleika? Það er umhugsunarefni hvaða afleiðingar það hefði ef neyslan ykist til dæmis um 10% vegna fjölgunar sölustaða - hversu mörg mannslíf færu í súginn beinlínis vegna þess? Þorum við að hugsa um 15 - 20%, eða jafnvel ennþá meiri aukningu? Við ættum kannki að búa okkur undir það.

Þótt fjölgun sölustaða, og þarmeð söluaukningin, yrði ekki nema örlítil væri það samt of mikið.

Hví skyldum við taka áhættuna? Hvaða áhættu? Væri ekki nær að tala um fulla vissu?

Þegar talið barst að samdrætti í reykingum kom greinilega í ljós á hverra bandi ráðherrann er. Valgerður Rúnarsdóttir gerði ágætlega grein fyrir þróun þeirra mála og þakkaði árangurinn fyrst og fremst verðhækkunum og skertu aðgengi, en ráðherrann vildi sem minnst af því frétta og lagði á það þunga áherslu að fræðslustarf landlæknis og fleiri aðila hefði skipt meginmáli.

Hina kostulegu afstöðu ráðherrans verður að skoða í ljósi þess að forvarnarþvættingurinn í greinargerðinni með frumvarpinu, með hinu afspyrnufáránlega ákvæði um tveggja ára sérstakt átak í upphafi („til þess að bregðast við þeim tímabundnu breytingum (leturbr. mín jsá) sem kunna að verða á áfengisneyslu eftir að smásala á áfengi verður gefin frjáls," eins og segir í greinargerðinni), er einmitt það sem á að fá fólk til að trúa því að það sé alveg í fínasta lagi að ÁTVR hætti að selja áfengi og fjárplógsmenn sjái um það framvegis.

Það kann vel að vera að Landlæknisembættið hafi staðið sig vel í forvörnunum, en almennt munu menn sammála Valgerði um að verðið á tóbakinu ásamt tiltölulega erfiðu aðgengi hafi ráðið úrslitum, en ekki fræðslustarfið.

Varla þarf að vekja athygli á því að auðmennirnir myndu hirði gróðann af áfengissölunni en ekki taka neinn þátt í varnaraðgerðunum. Til þess þyrfti opinbert fé. Ekki þarf mikla spádómsgáfu til að sjá, að verði salan markaðsvædd, kemur í beinu og rökréttu framhaldi af því frumvarp um áfengisauglýsingar til að núlla út allar forvarnir, þar með taldar forvarnirnar sem fengjust fyrir þá hækkun framlags til lýðheilsusjóðs sem lögð er til í frumvarpinu.

MERKILEG YFIRLÝSING

En ráðherranum lá fleira á hjarta.

Hann bætti því við að hann væri í ákveðinni tilvistarkreppu sem sjálfstæðismaður (ekki sem heilbrigðisráðherra?) vegna þess að „meðferðin á þessu máli ... er í grunninn sú að þetta [er] fyrst og fremst spurningin um það hvort þetta eigi að vera ríkisstarfsmenn, opinberir starfsmenn, sem að annist um söluna á þessu eða hvort við eigum [að] láta einhverja aðra úti á almennum markaði vinna með þetta."

Þetta hljómar allt saman afar einkennilega. Hafi ráðherrann lent í meiriháttar sálarháska fór það alveg framhjá hlustendunum því ekki var annað að heyra en að hann væri í ágætu stuði.

Sjá menn fyrir sér að frumvarpið sem hann fagnaði svo innilega á sínum tíma, og er í stíl við frumvarp sem hann sjálfur lagði fram ásamt öðrum fyrir nokkrum árum, sé farið að halda fyrir honum vöku? Er hugsanlegt að hann hafi um síðir áttað sig á að ekki fari vel á því að ráðherra heilbrigðismála styðji frumvarp um áfengismál sem er fullkomlega óverjandi út frá öllum lýðheilsulegum viðmiðum? Eigum við að trúa því að hann kveljist mikið því innst í hugarfylgsnum sínum langi hann til að hafna sótthitakenndum nýfrjálshyggju-órum flokksystkina sinna?

Hvernig sem þetta mál er vaxið hljóta menn að velta því fyrir sér hvort er framar í forgangsröðinni hjá ráðherranum, hollustan við Sjálfstæðisflokkinn eða skyldutilfinningin gagnvart embættinu sem hann gegnir.

HVAÐ Á FÓLK AÐ LÁTA SÉR FINNAST UM SVONA MÁLFLUTNING?

Það sem ráðherran sagði var alveg afdráttarlaust. Hann sá ekki neina vankanta á frumvarpinu og gaf ekki mikið (þ.e.a.s. ekki neitt) fyrir gagnrýnisraddirnar.

Umfjöllun ráðherrans um frumvarpið hefur nú verið rakin hér að ofan með beinum tilvitnunum. Að hans dómi er málið einfalt; það snýst bara um það hverjir eiga að afgreiða veigarnar, ríkisstarfsmenn eða einkaaðilar, og gallarnir á núverandi fyrirkomulagi eru að hans mati þessir:

  • Íslendingar komast alltaf í áfengi ef þeir vilja
  • ÁTVR er að opna vínbúðir um allt land og líkist helst markaðsfyrirtæki
  • ÁTVR auglýsir áfengið!?!

Niðurstaða ráðherrans: Það er ekkert vit í öðru en að markaðsvæða vínsöluna.

Ráðherrann minntist hinsvegar ekki einu orði á smáatriði eins og þau að

  • sölustöðum fjölgar mikið
  • neyslan eykst verulega og varanlega
  • niðurstöður merkilegra rannsókna sýna að ungmenni sem lenda í óreglu eru í miklu meiri hættu en áður var talið
  • fleiri mannslíf fara í súginn
  • fleiri fjölskyldur leysast upp
  • fleiri börn verða illa úti félagslega eða lenda á hrakhólum
  • fleiri börn alast upp á óregluheimilum - þau eru líklegri til þess en önnur börn að leiðast út í drykkjuskap og eiturlyfjaneyslu síðar meir
  • afbrotum fjölgar

Hann minntist að sjálfsögðu ekki heldur á það sem er þó mergurinn málsins, þá mikilvægu staðreynd að

  • frumvarpið var alls ekki lagt fram til að tryggja landsmönnum betri þjónustu, þótt það hafi alla tíð verið hinn yfirlýsti tilgangur; hinn raunverulegi tilgangur hefur frá upphafi verið sá að tryggja fjárfestunum meiri gróða

Það sem ráðherrann lét hafa eftir sér um orsakir minnkandi reykinga var örugglega gegn betri vitund. Hann er tæpast svo skyni skroppinn að hann skilji ekki pottþétta og almennt viðurkennda niðurstöðu Valgerðar Rúnarsdóttur.

Reyndar er alveg auðséð hvað fyrir honum vakti. Hann talaði í notalegum rabbtón eins og málefnið væri nú ekkert sérstaklega mikilvægt og ástæðulaust að vera að velta því fyrir sér. Það sem hann sagði, sagði hann til að slá ryki í augun á fólki og til að koma í veg fyrir að það hugsi málið til enda.

AFSTAÐA LANDLÆKNIS

Birgir Jakobsson landlæknir er ekki alveg eins spenntur fyrir frumvarpinu og heilbrigðisráðherrann. Í viðtali sem Fréttablaðið átti við Birgi 15. maí síðastliðinn kemur þetta fram: „Ég hef ekki verið hér lengi en mér finnst eins og íslenskt hugarfar einkennist af svolítilli léttúð. ÞAÐ ER MIKIL HUGMYNDAFRÆÐILEG FRJÁLSHYGGJA Í ÞESSU LANDI (leturbr. mín jsá). Jafnvel þegar hún gengur inn á svið sem gengur gegn lýðheilsu þá segja ráðamenn bara allt í lagi og loka augunum fyrir því,‘ og [Birgir] vísar í áfengisfrumvarp og afnám tolla á sykur. ‚ÞETTA STANGAST HVORT TVEGGJA ALGERLEGA Á VIÐ ÖLL ÞEKKT MARKMIÐ UM LÝÐHEILSU OG HEILBRIGÐI ALMENNINGS (leturbr. mín jsá)."

Á SJÖ ÁRA FRESTI

Sjálfstæðisflokkurinn hefur stefnt að því áratugum saman að markaðsvæða áfengissöluna fyrir klíkuna sem gerir hann út. Hann hefur hvað eftir annað lagt fram frumvörp þar um, samanber Vísisfréttin hér að ofan, nú síðast í tvígang með sjö ára millibili. Ef áhlaupinu sem hófst síðla árs 2014 verður hrundið, er vísast að blásið verði til næstu stórsóknar Sjálfstæðisflokksins og hinna leiðitömu samherja eigi síðar en á árinu 2021.

En þá kemur upp spurningin hvort bandaríska smásölukeðjan COSTCO sættir sig við svo langa bið. Mörgum fannst það ákaflega óviðeigandi að Nefndasvið Alþingis neitaði ekki að taka við umsögn COSTCO um frumvarpið í nóvember 2014, og nú er spurt hvort eitthvað sé hæft í því að fyrirtækið hafi á æðri stöðum fengið ádrátt um afnám hafta á sölu áfengis fyrir opnun risaverslunar (skv. RÚV) í Garðabæ sem líklega fer senn að styttast í.

LOKAORÐ

Þó menn voni að allt fari vel eru sumir uggandi því við ýmsu má búast af löggjafarsamkundu þar sem harðsnúið lið barðist fyrir því í nokkur ár að klukkan yrði, í þágu utanríkisviðskiptanna, færð til um heila klukkustund svo sól yrði í hádegisstað í Reykjavík um klukkan hálfþrjú og sex ára börn færu í skólann fyrir sólarupprás mánuðum saman á hverjum vetri. Það er sama samkundan og sú er á sínum tíma lögleyfði barsmíðar og líkamsmeiðingar undir samheitinu hnefaleikar.

Sjálfstæðisflokkurinn er skaðræðisskepna og það er löngu kominn tími til að kveða hann í kútinn. Það liggur mikið við að góðir menn og góðar konur sem kunna að koma fyrir sig orði og halda á penna fordæmi í fjölmiðlunum fyrirliggjandi áfengislagafrumvarp og önnur óhæfuverk flokksins. 

er ekki kominn tími til að mótmæla á austurvelli?