Fara í efni

RÍKI OG KIRKJA

Á landsfundi Vinstri grænna sem haldinn var um síðustu helgi bar að vonum mörg þjóðþrifamál á góma, flest mikilvæg fyrir einhverja en önnur þó léttvægari.

Eitt mál hefur dúkkað upp á landsfundi eftir landsfund í nánast allri sögu Vinstri hreyfingarinnar og það er afstaða flokksins til sambands ríkis og kirkju. Ekki er ætlunin að ræða það mál efnislega að sinni, frekar að velta fyrir sér hvaða rök liggja að baki þess að þetta mál er rætt af svo miklu kappi.

Hér er rétt að hafa í huga að samband ríkisins og hinnar lúthersku evangelisku þjóðkirkju hefur á undanförnum árum verið gert skýrara en áður var, þannig að stór skref hafa í raun verið stigin í átt að aðskilnaði ríkis og kirkju. Endanlegur skilnaður eða einhvers konar fullnaðar lausn er hins vegar talsvert flókið. Þetta mál snýst í raun um þann styrk eða stuðning sem ríkið veitir þjóðkirkjunni umfram önnur trúfélög og hvort flokkurinn sem slíkur þurfi eða eigi að taka ákveðna afstöðu til þess.

Mér hefur virst að innan Vinstri grænna séu það einkum tveir hópar sem ákafast berjast fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Í annan stað eru það vinir mínir Þingeyingarnir, sem ég kýs að kalla svo, sem viðhalda af miklum sóma þeirri baráttu sem Þorgils gjallandi, Benedikt frá Auðnum, Sandsskáldin og samherjar þeirra hófu á síðari hluta 19. aldar, gegn afturhaldssömum og stöðnuðum kirkjukreddum. Þeir eiga alla virðingu skilið fyrir að hlú að og viðhalda arfi forfeðra sinna þannig í andanum. Gallinn er bara sá að sú kirkja, sem Þorgils gjallandi skrifaði sínar hörðu ádeilusögur gegn, er löngu upp numin og í staðinn komin dálítið þunglamaleg en mjög umburðarlynd samfélagsstofnun sem gegnir þýðingarmiklu menningarlegu og umfram allt félagslegu hlutverki í þjóðfélaginu.

Hinn hópurinn samanstendur af ungu fólki í flokknum. Á yngri árum er eðlilegt að menn berjist fyrir stórum málum, vandinn kannski helstur sá að finna nógu háleitar hugsjónir. Hversdagsleg vandamál eins og úrbætur í húsnæðismálum, afnám komugjalda í heilbrigðiskerfinu eða hækkun lægstu launa virkar stundum nokkuð „þreytt” hjá þeim sem storma með himinskautum og hafa lítið sem ekkert þurft á slíkum úrræðum að halda. Þess vegna grípa menn upp réttlætismál eins og trúfrelsi enda hafa verið háðar blóðugar og mannskæðar styrjaldir til að berjast fyrir slíku frelsi og slík barátta hljómar vel. Það er líka kostur við slíkt hugsjónamál að á Íslandi ríkir trúfrelsi enda er alltaf erfiðisminnst að berjast fyrir máli sem er þegar komið í höfn.

Á þessum landsfundi voru samþykktar nokkrar ályktanir sem munu jafna hlutskipti trúfélaga í landinu, ef samkomulag næst um að hrinda þeim í framkvæmd, og ættu allir að geta unað bærilega við þá niðurstöðu. En best væri að minnka aðeins hugsjónaeldinn og beina kröftunum að þarfari málefnum.

 Jón Torfason