Fara í efni

JÓN VILL AÐ ÓSKAR FÁI AÐ SEKTA!

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 29.05.15.
Á ýmsu hefur gengið eftir að landeigendur tóku að láta til skarar skríða í baráttu sinni fyrir að einkavæða náttúrufegurð Íslands. Samkvæmt lögum er þeim óheimilt að rukka fyrir aðgang að landi nema að uppfylltum sérstökum skilyrðum og samningum.
Þeir hafa sumir  hins vegar reynt að skapa sér hefðarrétt með því að rukka í trássi við lögin í von um að komast upp með það. Hugmyndin er þá sú að með tímanum öðlist þeir sambærilegan rétt og kvótahafar til sjávarins en þrátt fyrir lög um fiskveiðar sem kveða á um eignarrétt þjóðarinnar á sjávarauðlindinni, fara þeir sínu fram, veðsetja auðlindina í eigin þágu og leigja hana og framselja dýrum dómum. Þegar reynt hefur verið að hrófla við þessu kerfi er jafnan  kveðið upp mikið ramakvein og talað um brot á einkaeignarrétti. Samkvæmt hefð sé þessi réttur kominn í hendur kvótahafa!

Þjóðin á auðlindirnar

Auðvitað er alrangt að tala á um hefðarrétt til auðlinda landsins  í þessu samhengi  því með réttu næði sá réttur til meira en þúsund ára Íslandsbyggðar og er kvótakerfið í því samhengi sem dagur ei meir!
Það breytir því ekki að tilraunir núverandi ríkisstjórnar ganga allar út á að festa í sessi „rétt" landeigenda til einkaeignar á náttúruperlum landsins.
Náttúrupassinn er vitanlega stórfenglegasta tilraunin í þessa veru en með honum stóð til að formgera þá grunnhugsun að réttmætt væri að rukka fyrir að njóta náttúrufegurðar  og einnig var hugmyndin sú að einkaaðilar fengju hlutdeild í afrakstrinum.
Þetta gekk ekki upp enda hugmyndin ekki góð að neinu leyti. Af ummælum formanns atvinnunefndar þingsins, Jóns Gunnarssonar, um náttúrupassann mátti merkja að hann var ekki ýkja hrifinn af þessari tillögu samflokkskonu sinnar Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ferðamálaráðherra  úr Sjálfstæðisflokki.

Ráð finnast!

En Jón Gunnarsson er ekki af baki dottinn. Nú er hann kominn fram með nýja hugmynd um gjaldtöku. Samkvæmt henni er ekki nóg með að einkaaðilar fái heimild til að rukka heldur mega þeir samkvæmt hugmynd  hans líka sekta. Ætlunin er nefnilega sú að landeigendur fái sams konar heimild og bílasjóðir ríkis og sveitarfélaga, að taka stöðumælagjald á bílastæðum og fái síðan lögregluvald til að fylgja gjaldheimtu sinni eftir þráist menn við að borga.
Jón Gunnarsson opnaði sig um þessa nýju gjaldheimtuhugmynd Sjálfstæðisflokksins í vikunni og vék hann í máli sínu sérstaklega að Geysissvæðinu og Kerinu í Grímsnesi: „ Með bílastæðaleiðinni fengju þessir aðilar heimild til að innheimta bílastæðagjöld og sekta með sama hætti og bílastæðasjóðirnir." Þetta er haft eftir formanni atvinnunefndar Alþingis í Morgunblaðinu sl. þriðjudag. 

Lögregluvald til lögbrjótanna!

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að Óskar Magnússon, sem í trássi við lög og undir blaktandi þjóðfánanum, hefur rukkað ferðamenn um aðgang að Kerinu,  á nú í ofanálag að fá leyfi til að krefjast gjalds fyrir að fólk leggi bílum sínum á bílastæðin sem Vegagerðin hefur útbúið og auk þess fái hann heimild til að sekta okkur ef við ekki borgum!
Eigendur Kersins hafa ekki enn valdið óafturkræfum náttúruspjöllum við Kerið því fjarlægja má rukkunarskúrinn og girðinguna sem á að halda þeim sem ekki hafa greitt utangarðs. En auðvitað eiga allar framkvæmdir að vera á vegum náttúruverndaraðila en ekki þeirra sem hafa gróðann fyrst og fremst að leiðarljósi.

Orðsending

En við Jón Gunnarsson vil ég segja þetta: Ég útiloka alls ekki að gjöld verði tekin fyrir að nýta aðstöðu við ferðamannastaði en allt slíkt á að vera á hendi opinberra aðila en einkahagsmunir komi þar hvergi nærri. Bjóði einkaaðilar upp á sérstaka þjónustu eða söluvöru gegnir allt öðru máli um slík viðskipti.
Þetta leggur hinu opinbera hins vegar miklar skyldur á herðar og hef ég fullan skilning á stöðu þeirra einstaklinga sem eiga land þar sem fjölsóttar náttúruperlur er að finna.
Þar ber samfélaginu að stíga inn með aðstöðu og þjónustu sem sómi er að. Á of mörgum stöðum skortir þar á þótt ég taki engan veginn undir sönginn um „allt í ólestri" sem landeigendur sumir hafa kyrjað til að knýja á um einkavæðingu náttúrufegurðarinnar á  Íslandi í þágu eigin pyngju.