Jónas Ingimundarson býður til veislu
Að lokinni setningu Alþingis í gær héldu þingmenn og starfslið þingsins suður í Kópavog. Í tónlistarhúsinu þar hafði Jónas Ingimundarson boðið til tónleika með nokkrum helstu stórsöngvurum þjóðarinnar. "Það er fólk eins og þetta, sem gerir okkur að þjóð", sagði Jónas og vísaði þar jafnt til tónsmiða frá fyrri tíð söngvaranna sem stóðu á senunni, Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, Gunnars Guðbjörnssonar, Ólafs Kjartans Sigurðarsonar og Kristins Sigmundssonar. Allt eru þetta þjóðkunnir listamenn en svo mögnuð voru þau á þessum tónleikum að allir sem á hlýddu voru sem bergnumdir. Ekki var hlutur Jónasar Ingimundarsonar minnstur. Það var ekki nóg með að hann annaðist undirleik. Hann fílósóferaði um ljóð og tóna á skemmtilegan og fræðandi hátt og gaf hlustandanum þá innsýn í tónlistina sem þessi næmi og mikli listamaður býr yfir. Þetta var ógleymanleg stund.