Kaldar kveðjur frá Kára og misskilin söguskýring
Heldur eru þær kaldranalegar kveðjurnar sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sendir ríkisstjórninni þessa dagana. Nú segist hann þakka sínum sæla fyrir að hafa ekki fengið 20 milljarða ríkisábyrgð á lán fyrir fyrirtæki sitt eins og meirihluti Alþingis samþykkti árið 2002 eftir miklar umræður í þinginu. Hann segist nú skilja þau rök sem mæltu gegn því að veitt yrði ríkisábyrgð á skuldabréf fyrirtækisins, en bætir því við "að betra hefði verið að rökin hefðu komið fram fyrr" (sbr. Mbl.11.apríl).
Fyrir okkur sem tókum þátt í þessari umræðu hljómar þetta óneitanlega undarlega því allar röksemdir lágu fyrir í aðdraganda málsins og þegar það kom til kasta Alþingis færðu menn fram ítarlegar skýringar á afstöðu sinni. Eitt var þó ógert og það var að skjóta málinu fyrir ESA, dómstól hins Evrópska efnahagsvæðis, en hann hefur það verkefni að fjalla um það sem allra heilagast þykir á okkar tímum, jafnræði á markaði.
Íslenska ríkið gerði aldrei neitt fyrir fyrirtæki Kára - að hans eigin sögn
Davíð Oddsson, forsætisráðherra, hefur einnig komið fram í fjölmiðlum um helgina og hefur hann gagnrýnt seinagang hjá ESA. Áður hafði Kári sagt að sennilega hefði ríkisstjórnin aldrei þrýst á niðurstöðu í málinu hjá ESA og um stuðning ríkisstjórnarinnar og meirihluta Alþingis fer Kári fremur háðulegum orðum. Ekki hafi skort á hlýhug og góðan vilja og viðmót, en þess utan "þá höfum við nú ekki fengið mikið hjá íslensku ríki." Hann viðurkennir að vísu að ríkisstjórnin hafi beitt sér fyrir því að samþykkt voru lög um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Neikvæð umræða hafi hins vegar leitt til þess að lögin hafi orðið svo gölluð að þau hafi reynst nánast ónothæf fyrir fyrirtækið Annarri aðstoð hafi ekki verið til að dreifa. "Ef þú horfir til baka þá er erfitt að finna þessa hjálp", segir Kári Stefánsson við blaðamann Morgunblaðsins.
Í rassvasanum
Fyrir ríkisstjórn sem nánast hefur verið í rassvasa Kára Stefánssonar öll þessi ár hljóta þetta að vera kaldar kveðjur. Þegar verið var að koma fyrirtækinu á laggirnar lét forsætisráðherra þjóðarinnar stilla sér upp eins og glitrandi tryggðapanti við undirskrift samninga í Perlunni í Reykjavík, á milli forstjóra ÍE annars vegar og fjölþjóðafyrirtækisins Hoffman La Roche hins vegar. Þetta voru augljós skilaboð til fjárfesta. Enginn vafi leikur á að þessi nána tenging fyrirtækisins við ríkisvaldið styrkti mjög stöðu þess í öllum viðskiptasamningum. Þá var það nú meira en sýndargreiði þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn keyptu bandaríska áhættufjárfesta út úr fyrirtækinu á sínum tíma fyrir litlar sex þúsund milljónir. Þetta mun að uppistöðu til hafa verið afskrifað, þannig að þarna var um beinan stuðning við fyrirtækið að ræða.
Allur þessi mikli stuðningur ríkisvaldsins og ríkisbankanna og endalaus blessunarorð urðu að sjálfsögðu einnig til þess að fjöldi einstaklinga fjárfesti grimmt í fyrirtækinu – sumir aleiguna – með misjöfnum árangri fyrir fjárfestana en óneitanlega jafnan til hagsbóta fyrir ÍE.
Á móti ríkisafskiptum?
Stórfenglegust þykir mér sú yfirlýsing Kára Stefánssonar að ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafi átt erfitt með sig þegar afskipti að atvinnulífinu hafi verið annars vegar. Kára virðist að "ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sé í eðli sínu svo mikið á móti íhlutun ríkisins í starfsemi atvinnufyrirtækja að í þau fáu skipti sem hún hafi einbeittan brotavilja á því sviði þá fallist henni hendur".
Þetta er fullkomlega rangt hjá Kára Stefánssyni. Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa verið stórtækir gerendur í atvinnulífinu, að vísu með öfugum formerkjum þess sem skynsemin býður. Á meðan velferðarþjónustan hefur verið veikt og undan henni grafið hefur ríkisstjórnin tekið beinan þátt í uppbyggingu stóriðju á forsendum sem ekkert markaðsfyrirtæki hefði látið bjóða sér. Og meirihlutinn á Alþingi hefur látið beygja sig undir allar þær dellur sem forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann, oddvitar stjórnarflokkanna, hafa látið sér detta í hug á valdatíma sínum og gildir þá einu hvort það hefur heitið samningur við Alcoa um vildarkjör á íslenskri orku eða tuttugu milljaðra ríkisábyrgð til Kára Stefánssonar.