“KALDHÆÐNI ÖRLAGANNA” Í ÞJÓÐARBÓKHLÖÐUNNI
Ekki vísast hér til titils hinnar frábæru bókar eftir verðlaunahöfundinn Cassie Miles, sem út kom árið 1994, tilheyrandi þeirri ágætu rauðu seríu; Ástir og afbrot, og má sem flestar aðrar perlur bókmenntanna nálgast á þjóðbókasafni Íslendinga. Nei, hér vísast til ummæla Sigrúnar Klöru Hannesdóttur landsbókavarðar í DV í gær þar sem hún “harmar” nýskeðar “uppsagnirnar” á gamalgrónu starfsfólki Þjóðarbókhlöðunnar og segir það “kaldhæðni örlaganna að nýtt starfsmat sem færi starfsmönnum hærri laun þurfi að kosta nokkra þeirra vinnuna”. Með öðrum orðum kennir Sigrún þeim sem eftir sitja um atvinnumissi hinna.
Þetta verður að teljast afar óvenjulegur málflutningur hjá yfirmanni stofnunar og að mínum dómi ósmekklegur, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Eða er það kannski reglan þegar ríkisstofnanir eiga í hlut að daginn eftir hverja nýja kjarasamninga hefjist uppsagnir á starfsfólki til að fjármagna aukinn launakostnað? Ekki man ég eftir slíkum vinnubrögðum meðan Finnbogi Guðmundsson var landsbókavörður enda væru þá fáir starfsmenn eftir vestur á Melum. Ef til vill er þetta háttalag Sigrúnar einungis einn óbragðsbitinn úr einhverjum kúrsinum sem hún hefur setið í svokallaðri nútímastjórnun. Hver veit, en eftir að hafa lesið viðtalið við núverandi landsbókavörð er ég a.m.k. feginn að hafa komist á eftirlaun í tíð Finnboga Guðmundssonar þótt vissulega geti ellin stundum verið erfitt hlutskipti.
Fyrrverandi starfsmaður Landsbókasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu.