Kaliforníumenn gegn misnotkun lífeyrissjóða í þágu einkavæðingar
Lífeyrissjóðir fara nú ört vaxandi víða um heim og eru orðnir mjög fyrirferðarmiklir í fjármálalífinu. Hér á landi eru eignir lífeyrissjóðanna komnar yfir 700 milljarða og ef fram heldur sem horfir eru líkur á að eignir þeirra verði yfir 1000 milljörðum fyrir lok árs 2007. Lífeyrisjóðirnir þurfa að finna öllu þessu fjármagni farveg og hef ég oft haldið því sjónarmiði fram að það sé siðferðileg skylda sjóðanna að nýta þessa peninga, sem byggja á lögbundnum og samningsbundnum sparnaði launafólks, til samfélagslega uppbyggilegra verkefna, svo sem til eflingar húsnæðiskerfinu.
Vilja hagnast á einkavæðingu
Í leit að fjárfestingarkostum hefur það gerst erlendis, einkum vestan hafs, að því er mér er kunnugt, að lífeyrissjóðir þrýsti á um einkavæðingu almannaþjónustunnar til þess síðan að geta gleypt hana sjálfir og malað á henni gull. Þetta hefur vakið viðbrögð af hálfu þeirra sem greiða í sjóðina og segja að almannaþjónustunni veiti ekki af hverri krónu til eigin uppbyggingar og ein meginástæðan fyrir andstöðu við einakvæðingu sé einmitt sú, að með því móti sé fjármagn tekið út úr þessari þjónustu í formi arðgreiðslna.
Lífeyrissjóðir gegn einkavæðingu
Nú hafa þær fréttir borist að CalPERES, geysilega öflugur sjóður í almannaeign, hafi ákveðið að fjárfesta ekki í fyrirtækjum sem eru notuð til að einkavæða almannaþjónustuna. Fram kemuir í tímaritinu Focus, málgagni PSI (Public Service International: Alþjóðasamtök starfsfólks í almanannaþjónustu) ) að ákvörðun hafi verið tekin um þetta í desember sl. og sé nú verið að ganga frá þessu sem almennri fjárfestingarstefnu sjóðsins.
Rætt um siðferðilegar fjárfestingar á Íslandi
Iðulega hefur verið rætt um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna í siðferðilegu samhengi og kom Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða m.a. inn á þetta efni í erindi sem hann flutti á þingi BSRB í október sl.
Þar sagði hann í þessu sambandi: “Landssamtök lífeyrissjóða hafa nýlega efnt til umræðufundar um svokallaðar siðferðislegar fjárfestingar, sem taka tillit til þess, hvort og þá hvernig lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar eigi að setja sér siðferðisleg viðmið varðandi fjárfestingar, en þau viðmið geta snúið að ýmsum þáttum samfélagsins. Siðferðislegar fjárfestingar geta t.d. miðast við það að fjárfestar sniðgangi fyrirtæki sem byggja á vopnaframleiðslu, stuðla að umhverfismengun, byggja starfsemi sína á barnaþrælkun, klámi og framleiðslu ávanabindandi og heilsuspillandi efna. Þá geta fjárfestar sett sér viðmið að kaupa ekki hlutabréf í fyrirtækjum sem brjóta gróflega kjarasamninga, reka forystumenn verkalýðsfélaga úr starfi, styðja einræðisstjórnir sem brjóta mannréttindi o.s.frv.
Umræða um siðferðislegar fjárfestingar eru töluverðar í nágrannalöndum okkar. Í þessu sambandi skiptir máli að fjárfestar setji sér trúverðug siðferðisleg viðmið, en í þeim efnum hafa t.d. stórir lífeyrissjóðir í Svíþjóð miðað við það að þeir fjárfesti ekki í fyrirtækjum sem eru vís að því að brjóta Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hvort íslenskir lífeyrissjóðir feti svipaða braut skal ósagt látið, en ljóst er að umræðan um þessi mál mun fara fram í stjórnum sjóðanna.”
Horft til lífeyrissjóðanna í orkugeiranum
Hér á landi hefur að undanförnu nokkuð borið á því að menn horfi til lífeyrissjóðanna sem framtíðareigenda orkugeirans. Við fyrstu sýn virðist þetta góðra gjalda vert. En þegar betur er að gáð fylgja slíku eignarhaldi ýmsir ókostir. Lífeyrissjóðunum er gert lögum samkvæmt að fjárfesta jafnan þar sem arður er mestur. Þetta þýðir það að lífeyrissjóðirnir eru engu traustari eigendur en aðrir fjárfestar. Ef á móti blæs í fyrirtæki er eigandinn horfinn á braut inn á gjöfulli mið. Þetta er ástæðan fyrir því að hlutafélagaformið er mjög óheppilegt eignarform í almannaþjónustu. Menn eiga að geta reitt sig á slíka þjónustu bæði þegar aðstæður eru hagstæðar en einnig þegar á móti blæs. Eini bakhjarlinn sem á er treystandi er samfélagið sjálft. Ríki og sveitarfélög eru ekkert annað en tæki sem við höfum komið okkur upp til að sinna sameiginlegum verkefnum samfélagsins.
Hér er vefslóð á erindi Hrafns Magnússonar, sem vísað var til hér að framan.