Fara í efni

AÐ FARA BAKDYRAMEGIN INN Í EVRÓPUSAMBANDIÐ

            Þegar valdaklíkan á Alþingi verður búin að ljúga Ísland inn í Evrópusambandið, ekki síst með þeim „rökum“ að þjóðin sé ekkert á leiðinni þangað, er ljóst að mörg sund munu lokast. Þjóðin mun missa þann rétt að gera alþjóðlega samninga við þriðju ríki [ríki utan ESB] enda fellur sá réttur undir „exclusive competence“ hjá ESB. Sú niðurstaða fæst með því að lesa í samhengi 2. mgr. 3. gr. TFEU (Lissabon-sáttmálinn) og 216. gr. TFEU.

            Í 3. gr. kemur fram á hvaða sviðum ESB hefur óskiptar valdheimildir (exclusive competence). Með því er átt við valdheimildir sem bandalagið deilir EKKI með aðildarríkjum heldur hefur „einkarétt“ á. Í 2. mgr. 216. gr. TFEU kemur hins vegar fram að samningar sem ESB gerir við þriðju ríki eru bindandi fyrir stofnanir ESB og aðildarríki bandalagsins.

            Íslendingum verður, í þessu lygaferli öllu saman, einnig gert skylt að undirgangast hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB og skilgreind er undir 38. gr. TFEU, ásamt með landbúnaði. Það felur m.a. í sér að skipum frá öðrum bandalagsþjóðum (s.s. Spáni) verður heimilað að fiska í „íslenskri“ lögsögu (efnahagslögsögu). Brask með þjóðareign, kvótann, mun ná nýjum hæðum og færast um alla Evrópu. Þá verður sú staða uppi, að ekki einungis hefur íslenska valdaklíkan stolið af þjóðinni öllum hennar aflaheimildum, og fært vinum sínum, heldur geta ýmsir þjófsnautar nú leigt og selt þýfið eins og þá lystir, til annara ríkja.

            Hvenær sem framsali er komið á, án leyfis eigenda (þjóða), er um lögleysu að ræða. Innan ESB[i] er þó frekar hægt að halda því fram að „samþykki þjóða“ liggi fyrir, enda er sameiginleg fiskveiðistefna[ii] ESB kjósendum ríkja kunn áður en ríkin ganga í bandalagið. Kjósendur ríkjanna vita því (og mega vita) að sameiginlega sjávarútvegs- og landbúnaðarstefna ESB muni gilda eftir inngöngu. En sameiginlega sjávarútvegsstefna ESB var fyrst sett fram í Rómarsáttmálanum.[iii] Íslendingar hafa hins vegar aldrei fengið tækifæri til þess, í þjóðaratkvæðagreiðslu, að segja álit sitt á lögum um stjórn fiskveiða eða „framsali“. Á meðan það gerist ekki heldur lögleysan áfram og aldalangur hefðarréttur þjóðarinnar er hafður að engu.

            Það er kunnara en frá þurfi að segja, að valdaklíkan vinnur að því hörðum höndum að koma Íslandi inn á innri orkumarkað Evrópu, með innleiðingu svokallaðra orkupakka. Valdaklíkan leynir þjóðina raunverulegum tilgangi innleiðingarinnar [sem er að greiða leið fjárglæframanna] en ber við „aukinni neytendavernd“! Þar er þó mikil þversögn innifalin, enda ljóst að þá fyrst hafa raforkukaupendur þörf fyrir vernd þegar fjárglæframenn hafa lagt undir sig markað raforkuframleiðslu. Upphaf orkupakkanna verður rakið til áranna upp úr síðustu aldamótum og raforkulaganna, nr. 65/2003.[iv]

            Á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB [orkumálin heyra undir framkvæmdastjórnina] segir svo, í íslenskri þýðingu: „Samþættur orkumarkaður ESB er hagkvæmasta leiðin til að tryggja borgurum ESB[v] öruggt og hagkvæmt orkuframboð. Með sameiginlegum reglum um orkumarkað, og innviði, yfir landamæri er hægt að framleiða orku í einu ESB ríki og veita neytendum í öðru. Þetta heldur verðlagi niðri með því að skapa samkeppni og leyfa neytendum að velja sér veitur.“[vi]

            Sá sem les þessa ívitnun áttar sig strax á því að þessi atriði eiga ekki við í tilviki Íslands, jafnvel ekki þótt Ísland ætti þegar aðild að ESB. Raforkuverð á Íslandi hefur lengi verið með því hagstæðasta sem þekkist, borið saman við önnur Evrópuríki. Það er ein helsta undantekningin á annars háu verðlagi innanlands á ýmsum sviðum. Hagkvæmara verður framboð því tæplega á Íslandi. Að öryggi muni aukast við það að hleypa fjárglæframönnum inn á markaðinn – það er bókstaflega galin ályktun. Það mun að sjálfsögðu EKKI gerast, þvert á móti mun verðið hækka (stórhækka) og framboðsöryggi minnka. Það sýnir reynslan í öðrum ríkjum.[vii]

            Enda algerlega augljóst að það er ekki markmiðið með markaðs- og einkavæðingu að lækka verð til neytenda, heldur hitt að veita fjárglæframönnum svigrúm til þess að okra og græða á neytendum, hindrunarlaust. Það er fyrst og fremst markmiðið. Best þykir af hægt er að gera það í krafti einokunaraðstöðu. Hins vegar er veifað þeirri „gulrót“ framan í neytendur að braskið og fjárglæframennskan mun gagnast almenningi alveg sérstaklega vel.

            En þegar neytendur átta sig á því að að þeim var logið, að valdaklíkan laug eins og henni er tamast að gera, þá er í mörgum tilvikum orðið heldur seint að mótmæla [þótt betra sé seint ein aldrei]. Valdaklíkan er því beinlínis hættuleg almenningi og hagsmunum þjóðarinnar. En því getur fólk breytt í kosningum og haft áhrif á ýmsum öðrum vettvangi.

            Sú „hefð“ sem skapast hefur, að aflétta stjórnskipulegum fyrirvörum, til innleiðingar á orkupökkum ESB, með þingsályktunartillögum, er enn fremur vafasöm aðferð og styrkir hreint ekki lagalegan grundvöll innleiðinganna. Aðferðin kann hins vegar að vera „þægilegri“ fyrir valdaklíkuna.

            Um þetta segir á heimasíðu Alþingis: „Samþykki Alþingis þarf til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við og gildir um þá meðferð eftirfarandi:

  1. Stjórnskipulegum fyrirvara við ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar skal að jafnaði aflétt með þingsályktun.[viii] Telji utanríkisráðherra eða aðrir ráðherrar tilefni til að víkja frá því og afla heimildar til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara með því lagafrumvarpi[ix] sem fjallar um innleiðingu hlutaðeigandi ESB-gerðar skal ráðherrann hafa um slíkt samráð við utanríkismálanefnd sem getur heimilað slíka málsmeðferð.“[x]

            Raunar er það svo að allt sem við kemur EES-samningnum er á mjög „gráu svæði“, lagalega, enda engin stoð í núverandi stjórnarskrá fyrir framsali ríkisvalds til erlendra stofnana.

            Allt tal um „takmarkað framsal“ ríkisvalds er bara orðaleikur og reyndar hreinn útúrsnúningur. Það eru engin ákvæði í stjórnarskránni sem heimila „takmarkað afsal ríkisvalds“. Svo ræðir valdaklíkan, og fulltrúar hennar, um „hefð“ í túlkun stjórnarskrárinnar.[xi] En það virðist gleymast að sú meinta „túlkun“ KOM TIL SÍÐAR – orðalag stjórnarskrárinnar er þannig upphaflegra en orðhengilshátturinn um orðalagið.

           

[i]      Sjá einnig: „A wide range of instruments exist, of which the most frequently mentioned is the system of individual transferable quotas (ITQs). Each of these instruments involves a precise definition of the fishing rights allocated either to individuals or to limited groups.“ https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=celex%3A52007SC0247

[ii]    Sjá einnig: Commission staff working document - Accompanying the Communication from the Commission to the Council and the European Parliament on Rights-based management tools in fisheries {COM(2007) 73 final} /* SEC/2007/0247 final */ https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=celex%3A52007SC0247

[iii]   The Common Fisheries Policy: origins and development. https://www.europarl.europa.eu/factsheets/en/sheet/114/the-common-fisheries-policy-origins-and-development

[iv]    Raforkulög. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2003065.html

[v]     Svartletrun mín.

[vi]    Electricity market design. https://ec.europa.eu/energy/topics/markets-and-consumers/market-legislation/electricity-market-design_en

[vii]  Sjá t.d.: Streimikiene, D., Bruneckiene, J., Cibinskiene, A. (2013), „The Review of Electricity Market Liberalization Impacts on Electricity Prices“, Transformations in Business & Economics, Vol. 12, No 3(30), pp.40-60. http://www.transformations.knf.vu.lt/30/se30.pdf

[viii] Svartletrun mín.

[ix]    Svartletrun mín.

[x]     Reglur um þinglega meðferð EES-mála. https://www.althingi.is/um-althingi/upplysingar-um-althingi/reglur-settar-af-forsaetisnefnd-/thingleg-medferd-mala/medferd-ees-mala/

[xi]    Sjá enn fremur: Report of Mr. Justice John L. Murray, President of the Supreme Court and Chief Justice of Ireland. Methods of Interpretation – Comparative Law Method. https://curia.europa.eu/common/dpi/col_murray.pdf