Fara í efni

EVRÓPUSAMBANDIÐ OG ÞRIÐJA RÍKIÐ - RITSKOÐUN -

            Eitt er að hafa skoðun annað að hafa ritskoðun. Þótt ást og hatur virðist við fyrstu sýn vera andstæðar tilfinningar hafa vísindamenn á sviði taugalíffræði komist að þeirri niðurstöðu að sömu rásir í heilanum tengist bæði ást og hatri.[i] Þá benda rannsóknir í sálfræði til þess að því dýpri sem „ástin“ er þeim mun meira sé „hatrið“.[ii] Þetta tvennt virðist því fara saman.

            Nútildags eru tjáðar skoðanir sem ekki fylgja valdinu í blindni flokkaðar sem „hatursorðræða“, ef ekki eitthvað enn verra. Það skyldi þó aldrei vera að það sem Evrópusambandið og einstakir stjórnmálamenn flokka sem „hatur“ sé einmitt „öfugsnúin ást“. Hvaða „hugsanalögregla“ getur metið það? Geta dómstólar greint á milli „ástar“ og „haturs“? Í Hávamálum (95) segir: „Hugur einn það veit er býr hjarta nær, einn er hann sér um sefa.“

Hatursorðræða?

            Engin haldbær skilgreining liggur fyrir á „hatursorðræðu“ eða hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að skoðanaskipti falli í þann flokk. Skilgreiningin er í besta falli huglæg, ef hún er yfirleitt til. Ýmsar tilraunir eru þó gerðar til þess að skilgreina fyrirbærið, jafnt í ræðu sem riti. Hitt er ljóst að frjáls skoðanaskipti eru frumforsenda „lýðræðis“ og þess að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir.

[„Hatursorðræða“]

Því ég vísu þannig kvað,

þessi nú er boðun.

Hatursorðræða heitir það,

hafirðu aðra skoðun.

            Undanfarin ár hefur komið æ betur í ljós að tjáningarfrelsi er þverrandi auðlind. Innan Evrópusambandsins eru að vísu ákvæði um slíkt frelsi í mannréttindasáttmála sambandsins [Charter of Fundamental Rights of the European Union 2012/C 326/02] en þar segir í 1. mgr. 11. gr.: „Allir hafa rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur felur í sér frelsi til að hafa skoðanir og til að taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum án afskipta opinbers valds og án tillits til landamæra.“ Sambærileg ákvæði er að finna í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mjög ákveðnir tilburðir til ritskoðunar eru samt sem áður eitthvað sem fólk ætti virkilega að velta fyrir sér.

            Undanfarið hafa sumir stjórnmálamenn talið meinta „hatursorðræðu“ vera vaxandi vandamál enda er gagnrýni á þeirra eigin störf illa séð og þá er gripið til stimplunar; að stimpla gagnrýni sem „hatur“ og „upplýsingaóreiðu“. Hvoru tveggja ber að vísa til föðurhúsanna. Mest er þetta áberandi hjá fólki sem er sjálft svo vel af Guði gert að það á tæpast nokkra samleið með breysku og jarðnesku fólki. Ríkisvald og „réttlæti“ „fullkomna fólksins“ er ekki af þessum heimi. Þar gæti einmitt legið skýring þess hve langt frá raunveruleika almennings stjórnmálin eru oft og tíðum. Eftir stendur spurningin: hver er hinn endanlegi mælikvarði á „réttar“ og „rangar“ skoðanir?

„Ritstjóralögin“

            Þann 4. október árið 1933 undirrituðu Adolf Hitler, þáverandi kanslari Þýskalands, og kunningi hans Dr. Paul Joseph Goebbels, umdeild lög sem kallast „Ritstjóralögin“ [Schriftleitergesetz[iii]]. Þau innihalda alls 47 lagagreinar. Í 1. gr. kemur m.a. fram að enginn megi kalla sig ritstjóra sem ekki hefur til þess heimild samkvæmt lögunum. Það má kalla „lögverndun starfsheitis“.

            Í 1. mgr. 3. gr. er tekið fram að lögin nái einnig til stjórnmálatímarita, en samkvæmt 3. mgr. 3. gr. ákveður áróðursmálaráðherra (Goebbels) hvaða tímarit teljast pólitísk í skilningi laganna. Vert er að skoða vel það sem segir í 14. gr. Ritstjórum ber samkvæmt henni að halda frá blöðum: öllu þar sem blandað er saman eigin hagsmunum og samfélagslegum markmiðum, þannig að „villt sé um“ fyrir almenningi.

            Einnig skal halda úti öllu sem ætlað er að veikja þýska ríkið, útávið eða innávið, veikja samfélagsanda þýsku þjóðarinnar, draga úr þýskum hernaðarmætti eða veikja menningu eða hagkerfi (2. tölul.). Enn fremur skal halda frá öllu sem brýtur í bága við heiður og reisn Þjóðverja (3. tölul.). Þá segir í 5. gr. laganna, 3. tölul. að þeir einir geti verið ritstjórar sem eru af arískum kynstofni og ekki kvæntir aðila sem ekki er af arískum uppruna.

            Undir 1. mgr. 27. gr. laganna er mælt fyrir um stofnun sérstaks dómstóls [Berufsgerichte] til „verndar“ starfsgreininni (ritstjóra). Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. eru fagdómstólar á fyrsta stigi héraðsdómstólar fjölmiðla [Bezirksgerichte der Presse] en því næst æðri dómstóll í Berlín [Pressegerichtshof]. Í 28. gr. eru síðan tilgreind atriði sem falla undir lögsögu dómstólanna.

            Viðurlög eru skilgreind í 31. gr. [tölul. 1-3]. Þau felast m.a. í því að aðvara ritstjóra, í fjársektum sem geta numið allt að einum mánðarlaunum, og að nafni hans verði eytt af faglista [þar með fellur úr gildi heimild til þess að kalla sig ritstjóra].

Lög um stafræna þjónustu

            Framkvæmdastjórn ESB lagði fram tillögu (frumvarp) að reglugerð um stafræna þjónustu [Digital Service Act[iv]] þann 15. desember 2020.[v] Röksemdir fyrir nauðsyn reglugerðar þessarar eru reifaðar í inngangskafla frumvarpsins [Explanatory Memorandum]. M.a. er vísað til mikilvægis „neytendaverndar“ og aukinnar „samkeppnishæfni“ á netinu. Þá eru tínd til rök eins og „meiri sanngirni“, „gagnsæi“ og „ábyrgð“ og barátta gegn ólöglegu efni á netinu. Lögunum er ætlað að verða fyrirmynd á heimsvísu.

            Í inngangskafla frumvarpsins er rætt um efni og gildissvið. Vísað er í tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins (ESB) 2015/1535,[vi] þar sem mælt er fyrir um málsmeðferð við upplýsingagjöf á sviði tæknilegra reglna og reglna um þjónustu upplýsingasamfélagsins. Reglugerðinni er ætlað að ná yfir sérhverja þjónustu sem venjulega er veitt gegn endurgjaldi, í fjarskiptum á rafrænu formi.

            Í 1. gr. frumvarpsins er efni og gildissviðið skilgreint. Þar segir í b-lið 2. mgr. 1. gr. að með reglugerðinni séu samræmdar reglur um öruggt, fyrirsjáanlegt og áreiðanlegt netumhverfi, þar sem grundvallarréttindi sem felast í sáttmálanum [mannréttindasáttmála ESB] séu varin.

            Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar skal hún ná til „milligönguþjónustu“ sem veitt er viðtakendum þjónustunnar og staðfestu hafa eða búsetu innan ESB, óháð staðsetningu þeirra sem veita þjónustuna. „Milligönguþjónusta“ er skilgreind í f-lið 2. gr. hennar. Þar er átt við tilvik þegar efni er miðlað áfram [mere conduit] sem felst annars vegar í flutningi upplýsinga innan samskiptanets sem veitt er af viðtakanda þjónustunnar, þ.e.a.s. þegar sá sem þiggur þjónustuna miðlar henni áfram til annara; og hins vegar í því þegar aðilar „skammtímavista“[vii] efni á netþjónum [caching service] og gera öðrum efnið aðgengilegt.

            Rísi ágreiningur um miðlun [mere conduit, 3. gr.], „skammtímavistun“ [caching service, 4. gr.] eða hýsingu [hosting, 5. gr.], eða önnur atriði nefndrar reglugerðar, gildir túlkun Evrópudómstólsins, eins og almennt á við um Evrópurétt. Dómstóllinn hefur í þessu sambandi áþekkt hlutverk og dómstólar þriðja ríkisins og vísað er til hér að framan. Með öðrum orðum, komist Evrópudómstólinn að þeirri niðurstöðu að ákveðin ritskoðun samkvæmt reglugerðinni (og Evrópurétti almennt) sé lögmæt eru engin úrræði eftir. Evrópudómstóllinn er í þessum skilningi „ritskoðunardómstóll“ [sbr. Pressegerichtshof] og dómum hans verður ekki áfrýjað til æðra dómstigs.

            Lög sem þessi bjóða heim þeirri hættu að stjórnvöld geri fyrirtækjum að fjarlægja efni sem eftir „skilgreiningu valdsins“ fellur undir „hatursorðræðu“ eða hvað annað. Hefting tjáningarfrelsis er mikil afturför í ríkjum sem enn reyna að kenna sig við „lýðræði“. En sumum finnst allt gott sem kemur frá Evrópusambandinu, eru þá gersamlega dómgreindar- og gagnrýnislausir. Rökræðan víkur fyrir ritskoðun.

            Í fyrra sagði forsætisráðherranefnan efnislega á þá leið að tjáningarfrelsi skapaði vandræði [í tengslum við samfélagsmiðla]. Það væri t.d. mun erfiðara að mynda ríkisstjórnir! Þetta lýsir viðhorfi sumra íslenskra stjórnmálamanna til tjáningarfrelsisins. Leyndin og pukrið eru bestu vinir þeirra. Þeim er mörgum meinilla við opna og frjálsa umræðu.

            Skilgreiningarvandinn er hins vegar augljós. Hvað er „rétt“ og „röng“ skoðun, hver ætlar að skilgreina það, og hver á að skera úr um það? Enda þótt dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að skoðun sé „röng“ og feli jafnvel í sér „hatursorðræðu“ þá er ekki þar með sagt að niðurstaða dómstólsins sé sú „rétta“. Það er einvörðungu skoðun viðkomandi dómara að skoðanir annara séu „rangar“.

            Bandaríski dómarinn Oliver Wendell Holmes Jr. vísaði til hugtaksins markaðstorg hugmynda, í málinu Abrams v. United States árið 1919.[viii] Í bók sinni Frelsið, leggur John Stuart Mill áherslu á frjálsa umræðu og andstöðu við ritskoðun. Markaðstorg hugmynda felur í stuttu máli í sér að sannleiksprófun eða viðurkenning hugmynda byggist á samkeppni þeirra innbyrðis en ekki áliti þeirra sem ritskoða, hvort heldur er stjórnvalda eða annara yfirvalda.[ix]

            Ef gengið er út frá jafnstöðu þeirra sem tjá sig á „markaðstorginu“ má draga þá hóflegu ályktun að „réttustu skoðanirnar“ og hugmyndirnar verði að lokum ofan á. Það er engu að síður háð ýmsum skilyrðum. Ritskoðun, og tilburðir til ritskoðunar, hindra að „markaðstorg hugmyndanna“ geti valið og hafnað ákveðnum skoðunum og hugmyndum, á jafnréttisgrundvelli. Samkeppni á ekki alltaf við en hún á sannarlega við í þjóðfélagsumræðu – á öllum tímum.

            Vandamálið er hins vegar það að ákveðnir stjórnmálaflokkar, „fullkomna fólkið“, sem aðhyllist tiltekna „hugmyndafræði“, og valdastofnanir vilja einoka umræðuna og stýra því með valdi hvaða skoðanir fá að heyrast, sjást á prenti og á netmiðlum.

Orkumálin og óttastjórnmálin

            Þegar orkupakki þrjú var til umræðu á Alþingi vakti það athygli margra hversu lítið Ríkisútvarpið lagði af mörkum til upplýstrar og gagnrýnnar umræðu um málið. Það eina sem heyrðist var bergmál af málflutningi stjórnvalda og stuðningsmanna þess að flytja yfirstjórn orkumálanna undir Evrópusambandið. Öll gagnrýni á innleiðingu þessa flókna regluverks var stimpluð sem „málþóf“ ef ekki „hatursorðræða“ gegn Evrópusambandinu.

            Fjölmiðlar sem „fjórða valdið“ eiga vitaskuld að halda uppi mjög gagnrýnni umræðu en ekki fylgja valdinu í einu og öllu. Stjórnandi Kastljóss sýndi nýlega, í viðtali við forsætisráðherranefnuna, að vel er hægt að spyrja gagnrýnna spurninga og halda stjórnmálamönnum á jörðinni. Þetta var í raun og veru lofsverð frammistaða fréttamanns og mætti sjást oftar. Of lengi hefur viðgengist að þingmenn og ráðherrar, sérstaklega meirihluta, komist upp með moðreyk og geti „blaðrað sig“ frá kjarna mála. Það tókst þó ekki í nefndu Kastljósviðtali.

            Það að ákveðinn meirihluti sé einhverrar skoðunar eða sannfæringar er engin trygging fyrir því að viðkomandi skoðun eða sannfæring sé „rétt“. Meirihlutaskoðun getur auðveldlega borist á milli manna líkt og „veira“ án þess að nein raunverulega athugun á innihaldi hafi farið fram. Einhver gæti spurt: en á þá ekki hið sama við um skoðanir minnihluta? Svar: það er ekki veruleg hætta á því. Skoðanir minnihluta koma yfirleitt fram sem andsvar eða viðbrögð við skoðunum sem oft eru lítið eða illa rökstuddar en þó útbreiddar. Skoðun sem kemur fram sem andsvar eða viðbragð felur oftast í sér sérstaka athugun á því máli sem um ræðir. Það er þannig meiri fyrirhöfn, með nánari athugun, að gagnrýna mál en fylgja straumnum blindandi og án gagnrýni. Hugsun er almennt meiri fyrirhöfn en hugsunarleysi. Alveg sérstaklega er það hættuleg þróun þegar stjórnvöld taka gagnrýnislaust upp tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins með þeim „rökum“ einum að taka verði þátt í „alþjóðasamstarfi“ og hætta á „brottrekstri“ úr EES blasi við ef menn láta reyna á rétt þjóðarinnar samkvæmt EES-samningnum. Fólk sem þannig talar er á valdi óttans.

Hið altæka eftirlit

            Margir þekkja hugtakið „eftirlitsþjóðfélag“ [Überwachungsgesellschaft[x]] sem svo er nefnt og hafa kynnt sér hvað í því felst. Í stuttu máli má segja að persónufrelsi (persónuvernd) og eftirlitsþjóðfélag stangist á; séu andstæður. Ritskoðun og eftirlit eru hins vegar angar af sama meiði. Engin leið er að segja til um hvert upplýsingar rata sem safnað er um fólk í gegnum margskonar búnað.

            Þægindi og tímasparnaður fylgja oft hátækni en líka hættur sem mörgum eru ekki ljósar. Dæmi um það eru t.d. örgjörvar frá Intel (AMD og fleirum). Frá árinu 2007 (og jafnvel fyrr) byrjaði Intel að nota ákveðna tækni sem kallast „Intel Management Engine“ [IME]. Þessi búnaður „keyrir“ samhliða örgjörva tölvu (coprocessor). Búnaðinum hefur verið lýst sem „svartholi“ sem eigandi og notandi tölvunnar hefur enga stjórn á en gerir öðrum fært að fylgjast með öllu sem notandinn gerir á tölvunni.

            Ýmsir öryggisgallar hafa komið fram á IME og suma má „lagfæra“ með uppfærslu hugbúnaðar [IME firmware]. Það breytir þó engu um hitt að tæknin er áfram „svarthol“ þar sem allt gagnsæi skortir, s.s. um raunverulegan tilgang þessa búnaðar sem virkar óháð stýrikerfi tölvunnar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að hann virðist lítil sem engin áhrif hafa á virkni tölvu sem slíkrar, hefur aðgang að öllum vélbúnaði og hefur sitt eigið smástýrikerfi [MINIX].[xi]

            Hægt er að gera hluta búnaðarins óvirkan í UEFI en það dugar þó skammt. Hlutar hans virka áfram. Sumir fartölvuframleiðendur selja tölvur sínar með sérstökum hugbúnaði sem aftur gerir IME-búnaðinn óvirkan. Það er að mörgu leyti álitlegur valkostur. Að því má leiða líkur að búnaðurinn [IME] sé tilkominn að kröfu þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna [NSA].[xii]

Að lokum

            Sagan endurtekur sig - hratt. Ritskoðun þykir ekki tiltökumál innan Evrópusambandsins, enda séu mikilvægir hagsmunir í húfi. Lagasmiðir þriðja ríkisins og Dr. Joseph Goebbels virðast loksins hafa fengið uppreist æru og eru nú fyrirmyndir í lagasetningu. Gagnrýni og skoðanir eru flokkaðar sem „hatursorðræða“ ef þær samrímast ekki skoðunum „fullkomna fólksins“, hvort heldur er innan ESB eða meðal íslenskra stjórnmálamanna [sem verða að vera „eins og hinir“].

            Ritskoðun er kölluð nöfnum eins og „vernd“, „vernd minnihlutahópa“, „vernd barna“ ef ekki „vernd lýðræðisins“. Í 2. mgr. 73. gr. íslensku stjórnarskrárinnar segir: „Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.“ Svo mörg voru þau orð. Nú er það svo að Evrópuréttur stendur ofar rétti einstakra ríkja ESB/EES þegar skerst í odda. Ritskoðunarfrumvarp ESB [Digital Service Act] kemur til með að ná til Íslands [Text with EEA relevance]. Þá vaknar spurning; hvernig ætla íslenskir stjórnmálamenn að tala sig framhjá því lagalega vandamáli að mögulega verði að brjóta stjórnarskrána til þess að innleiða umræddan Evrópurétt?

            Líklegast er að sú leið verði farin að fá keypt álit frá t.d. „lagadeildardósentum“ við Háskólann í Reykjavík sem auðvitað hafa komist að þeirri „fræðilegu niðurstöðu“ að engin ritskoðun felist í reglugerð ESB, enda þótt flestum öðrum sé það mjög vel ljóst. Það er fyrirséð hvernig reynt verður að „kjafta sig“ frá þessu. En að stýra eða reyna að stýra umræðu, og skoðunum sem aðrir tjá, felur alltaf í sér ritskoðun. Keypt álit breyta engu um það. Hin leiðin væri sú að segja „um óverulega ritskoðun“ að ræða sem samræmist stjórnarskránni. Svona tilfæringar, og „lagalegir loftfimleikar“, eru aðferðir sem brúkaðar eru í bananalýðveldum. Tökum heldur til fyrirmyndar gamlan og góðan málshátt: Sannleikurinn er sagna bestur. Góðar stundir!

[i]      Connor, S. Scientists prove it really is a thin line between love and hate. Independent, Wednesday 29 October 2008. https://www.independent.co.uk/news/science/scientists-prove-it-really-is-a-thin-line-between-love-and-hate-976901.html

[ii]    Jin, W., Xiang, Y., & Lei, M. (1AD, January 1). The deeper the love, the deeper the hate. Frontiers. Retrieved April 28, 2022, from https://www.frontiersin.org/articles/10.3389/fpsyg.2017.01940/full

[iii]   Sjá: Schriftleitergesetz (4.10.1933). http://pressechronik1933.dpmu.de/schriftleitergesetz-4-10-1933/

[iv]    Proposal for a REGULATION OF THE EUROPEAN PARLIAMENT AND OF THE COUNCIL on a Single Market For Digital Services (Digital Services Act) and amending Directive 2000/31/EC. https://ec.europa.eu/info/sites/default/files/proposal_for_a_regulation_on_a_single_market_for_digital_services.pdf

[v]     Sjá einnig: Hiscock, R. (2022, April 25). Council of the European Union and European Parliament Reach Agreement on Digital Services Act. OneTrust. Retrieved May 2, 2022, from https://www.onetrust.com/blog/council-of-the-european-union-and-european-parliament-reach-agreement-on-digital-services-act/

[vi]    DIRECTIVE (EU) 2015/1535 OF THE EUROPEAN PARLIAMENT AND OF THE COUNCIL of 9 September 2015 laying down a procedure for the provision of information in the field of technical regulations and of rules on Information Society services (codification). https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX:32015L1535

[vii]  Sjá einnig: What Is Caching Data? Fortinet, Inc. https://www.fortinet.com/resources/cyberglossary/what-is-caching

[viii] Schultz, D. Marketplace of Ideas. The First Amendment Encyclopedia. https://www.mtsu.edu/first-amendment/article/999/marketplace-of-ideas

[ix]    Ibid.

[x]     Sjá t.d.: Jahberg, H. (2019, January 12). "Deutschland wird eine überwachungsgesellschaft". Der Tagesspiegel. Retrieved April 30, 2022, from https://www.tagesspiegel.de/wirtschaft/bildungsforscher-gerd-gigerenzer-deutschland-wird-eine-ueberwachungsgesellschaft/23855396.html

[xi]    Sjá t.d.: Carikli, D., & de Blanc, M. (2018, January 10). The Intel Management Engine: An attack on computer users' freedom. The Intel Management Engine: an attack on computer users' freedom - Free Software Foundation - Working together for free software. Retrieved April 30, 2022, from https://www.fsf.org/blogs/sysadmin/the-management-engine-an-attack-on-computer-users-freedom

[xii]  Sjá einnig: Wallen, J. (2016). Is the Intel Management Engine a backdoor? Techrepublic. https://www.techrepublic.com/article/is-the-intel-management-engine-a-backdoor/