FÁEIN ORÐ UM FYRIRVARA
Eins og mörgum er kunnugt, hafa þeir sem hyggjast nú styðja „þriðja orkupakkann“ látið sannfærast af þeim rökum að íslenskir lagalegir fyrirvarar við innleiðinguna muni halda vel. Ég tel vera um misskilning að ræða, tel þvert á móti að þeir komi til með að verða algerlega haldlausir – þegar á reynir.
Í Evrópurétti er vel þekkt regla sem kallast á frönsku „Le principe de primauté du droit de l'Union européenne“ eða „reglan um forgang Evrópuréttar“. Hún merkir að komi til árekstra á milli réttar (laga) aðildarríkja (ESB) og Evrópuréttar er hafið yfir vafa að Evrópurétturinn er ævinlega ríkjandi. Réttur einstakra aðildarríkja víkur fyrir Evrópurétti. Reglan er rakin til máls Evrópudómstólsins, nr. 6/64 Flaminio Costa v E.N.E.L. Hún er vandlega staðfest í síðari dómum.
Í þessu felst að séríslenskir fyrirvarar, hversu vandaðir sem þeir kunna að þykja, halda mjög sennilega ekki, verði þeir taldir brjóta gegn Evrópurétti. Loforð um hið gagnstæða munu því líklega reynast innihaldslaus. Hér dugar ekki að segja: „sérfræðingar telja þá halda“, „sérfræðingar segja“, reglan um forgang Evrópuréttar er algerlega skýr. Því má bæta við að dómsmál hafa risið vegna innleiðinga tilskipana [ekki „rétt innleitt“, of seint]. Það verður ekki séð að nefndir fyrirvarar breyti neinu um réttaráhrif „þriðja orkupakkans“ í tilviki Íslands.
Sjá einnig:
https://ec.europa.eu/info/law/law-making-process/applying-eu-law_en
https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/ALL/?uri=LEGISSUM%3Al14527