Fara í efni

FJÖLBREYTT FLÓRA GLÆPA-MENNSKU

Hin síðari ár hafa nýjar "jurtir" bæst við flóru glæpamennsku á Íslandi. Nýtísku bankaræningjar hafa mjög látið til sín taka, sópað til sín sparifé almennings innan lands og utan, stolið öllu sem mögulega er hægt að stela. Íslenskir stjórnmálamenn, sem reisa áttu skorður við athæfinu með lögum og eftirliti, létu flækja sig í vef þjófanna og þegja því þunnu hljóði um glæpina. Nokkrir þessara sjórnmálamanna höfðu bein tengsl inn í föllnu bankana og fengu afskrifaðar háar upphæðir sem aldrei stóð til að endurgreiða. Stjórnmálamennirnir lifa í voninni að almenningur verði fljótur að fyrna og fyrirgefa, eygja endurkjör í næstu kosningum. Sumar skoðanakannanir benda líka til þess að væntingarnar kunni að vera raunhæfar, enda dreymir ótrúlega marga um að tilheyra einhverjum hópi glæpamanna. Lífssýn margra kjósenda, bankaræningja og stjórnmálamanna fellur því oft í sama farveg að þessu leyti.

Uppgangur vélhjólasamtaka

En það eru ekki bara umsvifamiklir hópar bankaræningja sem bæst hafa í íslensku glæpaflóruna, þar má líka finna annars konar glæpamenn. Undanfarin ár hafa umdeild vélhjólasamtök skotið rótum í landinu. Þar er um annars konar hópamyndun að ræða. Hins vegar hafa þeir sem stunda "gamaldags" glæpi líka tekið tæknina í sína þjónustu, sérstaklega tölvutæknina, og mætt þannig kröfum nútímans. Helsti munurinn á nefndum bankaræningjunum og þeim sem tilheyra ákveðnum vélhjólasamtökum felst í sýnileikanum, því hvort glæpir eru framdir "innan frá" eða "utan frá", og birtingarmynd ofbeldisins sem beitt er. "Nýtísku" glæpir eru framdir "innan frá" með mikilli skipulagningu, beitingu tölvutækninnar og minni sýnileika [og annars konar ofbeldi]. Fjárhæðir sem skipta um hendur eru oft verulegar í báðum tilvikum. Þá er einnig um ákveðna skörun að ræða á milli þessara glæpa, s.s. þegar fíkniefnagróði er "þveginn" í fjármálastofnunum. Það ber því alls ekki að líta á fjármálaglæpi og "hefðbundna glæpi" sem aðskilin fyrirbæri. Þvert á móti eru ýmsir snertifletir þar á milli. Þjóðfélaginu ber hins vegar engin skylda til þess að umbera tilvist glæpasamtaka. Gildir einu hvers eðlis þau eru.

Lagalegar skorður við starfsemi félaga

Í 74. gr. íslensku stjórnarskrárinnar segir m.a.: "Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, [leturbreyting] en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi."

Þá kveður 2. mgr., 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu á um það að reisa megi skorður við félagafrelsi á grundvelli þess sem "....lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndunar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi."

Það er því ljóst að stjórnvöldum er fullkomlega heimilt að reisa skorður við umsvifum samtaka sem ætla má að ógni öryggi borgaranna eða allsherjarreglu. Sum ríki hafa farið þá leið að skilgreina ákveðna starfsemi sem ólöglega. Sem dæmi má nefna að þýska innanríkisráðuneytið hefur lýst því yfir að það hafi vald til þess að banna samtök (klúbba) ef starfsemi þeirra brýtur gegn lögum. Í samræmi við það hefur þýska ríkið lagt bann við starfsemi vélhjólasamtakanna Hells Angels í Frankfurt.

(http://in.reuters.com/article/2011/09/30/idINIndia-59643220110930).

Þá verður að ætla að samtök sem þekkt eru fyrir ofbeldisfulla og ólögmæta starfsemi, víða um heim, taki ekki upp nýja starfshætti einvörðungu vegna þess að þau hafa skotið rótum á Íslandi. Reynsla annara þjóða ætti því að vera mönnum "englar vítis" til varnaðar. Hér á eftir verður fjallað stuttlega um þrenn þessara vélhjólasamtaka.

Outlaws

Outlaws vélhjólasamtökin eru talin stofnuð í McCook, Illinois, árið 1935. Á heimasíðu bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, er frétt frá 15. júní 2010. Í íslenskri þýðingu er fyrirsögn hennar eftirfarandi:

"Tuttugu og sjö meðlimir í bandarísku Outlaw vélhjólasamtökunum ákærðir." Ákærurnar fjalla um fjárglæfra, morðtilraun og aðra ofbeldisglæpi í Bandaríkjunum.

(http://www.fbi.gov/washingtondc/press-releases/2010/wfo061510.htm).

Fram kemur í ákærunum að nefnd vélhjólasamtök séu mjög skipulögð, þar sem skipanir fara frá æðstu stjórnendum eftir ákveðnum brautum á mismunandi stigum. En slíkt fyrirkomulag einkennir oft skipulagða glæpastarfsemi. Vélhjólasamtökin neita því hins vegar á vefsíðum sínum að þau stundi ólögmæta starfsemi.

En FBI birti aðra frétt á heimasíðu sinni, frá 21. desember 2010. Þar kemur m.a. fram að æðsti leiðtogi samtakanna (national president) hafi ásamt þremur öðrum verið fundinn sekur. En fram að þeim tíma höfðu 17 aðrir af þeim 27 sem ákærðir voru játað sekt sína. Saksóknari sagði af þessu tilefni: "Að aka Harley gerir menn ekki að glæpamönnum - en menn fara yfir mörkin þegar vélhjólaklíkur þeirra taka þátt í ofbeldisfullu glæpsamlegu athæfi sem aðferð til að stunda viðskipti."

(http://www.fbi.gov/washingtondc/press-releases/2010/wfo122110.htm) .

Mörg önnur álíka dæmi má finna, í ýmsum löndum, þar sem vélhjólasamtökin Outlaws hafa komist í kast við lög. Nýlega var haft eftir Snorra Magnússyni, formanni Landssambands lögreglumanna "...að ekki eigi eftir að líða margir dagar þar til glæpagengið Outlaws nær fótfestu á Íslandi. Black Pistons sem er stuðningsklúbbur Outlaws sé þegar kominn hingað. Hann segir að ofbeldisglæpir þessara gengja séu skelfilegir og frændur okkar á hinum Norðurlöndunum hafa fengið að finna fyrir þeim. Staðfest sé að þessi gengi hafi myrt 11 manns og séu sek um 75 morðtilraunir sem og sprengjuárásir í Kaupmannahöfn, Helsinki, Stokkhólmi og Osló."

(http://www.ruv.is/frett/morgunutvarpid/glaepaklikan-outlaws-kemur-hingad). Talið er að Outlaws hafi innan sinna vébanda um 2.800 félagsmenn, í 200 deildum um heim allan (M. Newton 2008. Gangs and Gang Crime. Infobase Publishing, bls. 49).

Hells Angels

Upphaf Hells Angels [Vítisengla] er rakið til ársins 1948, Fontana, Kaliforníu. Samtökin hafa náð útbreiðslu í ýmsum löndum, m.a. í Noregi þar sem vitað er að starfa þrenn vélhjólasamtök: Outlaws, Hells Angels og Bandidos. Starfsemi Hells Angels þar virðist skiptast kerfisbundið í löglega vélhjólaklúbba og glæpastarfsemi. Einstakir félagar eiga oft frumkvæði að glæpsamlegu athæfi í samstarfi við aðra félaga. En talið er að samtökin sem slík standi ekki beinlínis að baki skipulagningar glæpa. Oft er um að ræða fíkniefnamál, skotárásir og fl. Náist brotamaður og sæti saksókn má vísa honum úr samtökunum.

Svo virðist sem Hells Angels laði fremur til sín áhugamenn um vélhjól en Outlaws, þar sem glæpamenn fylla fremur stóra hópa félagsmanna (Gottschalk, P. 2009. Knowledge Management in Policing: Enforcing Law on Criminal Business Enterprises. Hindawi Publishing Corporation, bls. 166). Aðrar heimildir sýna að Hells Angels hafa nægum fjölda glæpamanna á að skipa þar sem þau starfa á annað borð. Í byrjun mars á þessu ári bárust af því fréttir að íslensk vélhjólasamtök hefðu fengið inngöngu í Hells Angels (Hells Angels MC Iceland). Samtökin telja samtals um 2000 félaga, hafa deildir í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu, Nýja Sjálandi, Ástralíu, Afríku og Suður-Ameríku.

(http://www.canada.com/vancouver/vancouversun/news/observer/story.html?id=f525bc8a-d80a-4ece-9ffc-f5a2a55a43b0).

Bandidos

Bandidos eru yngst þeirra þriggja vélhjólasamtaka sem hér er fjallað um, rakin til Houston í Texas árið 1966. Þessi samtök eru þekkt fyrir sterk tengsl við skipulagða glæpastarfsemi og eiga sér sögu um lífshættulegt ofbeldi. Félagar samtakanna særðu bandaríska saksóknarann Jim Kerr, í Texax árið 1978, í vélbyssufyrirsát. Þá voru félagar í samtökunum sakaðir um að hafa myrt alríkisdómarann John Wood, í maí árið 1979. [Þess má geta að faðir bandaríska leikarans Woody Harrelson, Charles Harrelson, hlaut lífstíðardóm fyrir aðild að skotárásinni]. (M. Newton 2008. Gangs and Gang Crime. Infobase Publishing, bls. 52).

Á áttunda áratug síðustu aldar voru Bandidos þriðju stærstu véljólasamtökin, á eftir Hells Angels og Outlaws. Um miðjan níunda áratuginn lögðu bandarísk lögregluyfirvöld hins vegar mikla áherslu á aðgerðir til að uppræta samtökin. Þær aðgerðir virðast hafa haft í för með sér uppgang Bandidos annars staðar, s.s. í Ástralíu, Evrópu og Skandinavíu.

(Schneider, S. 2009. Iced: The Story of Organized Crime in Canada, John Wiley & Sons Canada, Ltd., bls. 421).

Hvert stefnir?

Ekki verður annað séð en að slóð Outlaws, Hells Angels og Bandidos sé blóði drifin. Georg Kr Lárusson, lét hafa eftir sér meðan hann gegndi starfi forstjóra Útlendingastofnunar, að félagar áðurnefndra vélhjólasamtaka væru mannskapur sem yfirvöld á Íslandi hefðu engan áhuga á að fá inn í landið og vísaði þar til útlendra félaga í vélhjólasamtökum [Hells Angels] sem vísað var frá landinu í Leifsstöð. Reynsla annara þjóða sýnir vel að þar sem slík samtök ná að festa rætur hafa þau síður en svo mannbætandi áhrif á umhverfi sitt og samfélög. Þvert á móti, enda er aukið ofbeldi og vaxandi glæpatíðni síst það sem þjóðir skortir.

Hins vegar verður ekki framhjá því litið, að margs konar glæpastarfsemi er oft birtingarmynd á þjóðfélagsmeinum sem eiga sér mun dýpri rætur (ójöfnuður, firring og fl.). Reynsla undanfarinna áratuga sýnir að menn dragast að slíkri starfsemi óháð ríkjum og þjóðerni. Sé umfang vafasamra vélhjólasamtaka skoðað í alþjóðlegu samhengi er fjöldi félagsmanna í hverjum þessara samtaka ekki mikill, enn sem komið er að minsta kosti. En hafa ber í huga að jafnvel fáeinir menn geta valdið miklum skaða, hafi þeir ásetning til slíks. Jaðarmenning, utan við lög og rétt, er því alls ekki æskileg þróun hver sem ástæða hennar kann að vera.

Sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem rannsakar skipulagða glæpastarfsemi (United Nations Office on Drugs and Crime) skilaði skýrslu í janúar 2008.

Meginefni skýrslunnar fjallar um vitnavernd í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi. Í skýrslunni segir m.a.: Áætlanir um vitnavernd hafa verið við lýði í Þýskalandi frá miðjum níunda áratugnum. Þeim var fyrst beitt í Hamborg í tengslum við glæpi vélhjólasamtaka. Síðan voru þær innleiddar á kerfisbundinn hátt í öðrum fylkjum Þýskalands og hjá þýsku alríkislögreglunni [Bundeskriminalamt. http://www.bka.de/].

(UNITED NATIONS Office on Drugs and Crime [UNODC], 2008).

Það er þess vegna alveg ljóst að vélhjólasamtök sem um ræðir eru talin ógn í ríkjum á borð við Þýskaland. Hugsanlega þarf að taka miklu fastar á þessum málum á Íslandi. Til greina gæti komið að banna slík samtök [og fara þar að fordæmi Þjóðverja] áður en vopnuð átök þeirra verða verulegt vandamál í íslensku þjóðfélagi.