Fara í efni

KAUPHALLARRAFMAGN OG EINKAVÆÐING LANDSVIRKJUNAR

           

            Nú sem fyrr treysta íslenskir stjórnmálamenn á „minnisleysi“ kjósenda. Fjölmiðlar sem styðja stjórnmálin auðvelda það með því að fjalla ekki um mikilvæg mál og beina sjónum kjósenda í aðrar áttir. Á meðan eru margskonar „myrkraverk“ unnin af hálfu stjórnmála- og embættismanna. Það er kallað „gagnsæi“. En fyrirbærið nær ekki til kjósenda. „Gagnsæið“ merkir í raun upplýsingaskipti innan valdaklíkunnar og til vina hennar.

            Upplýsingar eru „vara“ sem bröskurum og fjárglæframönnum ráðandi stjórnmálaflokka stendur til boða, t.d. þegar ætlunin er að ræna fyrirtækjum í almannaeigu. „Gagnsæið“ snýst ekki um aðgang almennings að mikilvægum upplýsingum sem er haldið vandlega leyndum fyrir honum. Þá er „upplýsingaverndin“ allsráðandi. Gefur enda auga leið að upplýsingum fylgir oft mikið vald. Því vill valdaklíkan halda fyrir sig og sína.

            Komi hins vegar fram réttar upplýsingar, og rati í umræðuna, ljúga stjórnmálamenn og þræta eins og ekkert sé sjálfsagðara. Kjósendur eiga ekki að samsama sig við fólk sem þannig hagar sér. Maður sem kýs lygara gerir um leið lítið úr eigin dómgreind. Alveg sérstaklega á það við þegar lygin er margendurtekin, jafnvel yfir mörg kjörtímabil.

            Af framansögðu leiðir að það er ekki hægt að kjósa á grundvelli loforða um framtíðina. Ekkert er að marka slík loforð. Það er einungis hægt að kjósa í ljósi lyginnar í fortíðinni - þess sem áður var lofað og síðan svikið. Það er besti leiðarvísirinn um framtíðina. Þau sem áður hafa logið munu auðvitað gera það aftur, enda komist upp með það. En hvað þá með nýjan þingmann ákveðins flokks? Svar: hann hangir auðvitað í bandi flokksins.

            Það er því nægjanlegt að horfa til lygi samflokksmanna hans í fortíðinni og ákvarðana sama flokks. Verði þingmaður hluti af ákveðnum þingflokki [sem logið hefur og svikið í fortíðinni] þá gerist ekkert annað en það að nýi þingmaðurinn bætist í hóp þeirra lygara og blekkingarfólks sem fyrir er og verður fljótur að tileinka sér vinnubrögðin og stefnuna sem ríkir. Þetta má draga saman þannig að það er ekkert að marka loforð. Einungis gerðir [athafnir/athafnaleysi] í fortíðinni skipta máli. En ef flokkur skiptir um stefnu? Svar: hann þarf þá að gera það á borði, ekki bara í orði.

            Flokkar sem ekki eiga sér lyga- og svikasögu koma til greina. Eðli málsins samkvæmt aukast þó líkur á lygi og svikum eftir því sem sama fólk situr lengur við völd. Samt sem áður er alveg nauðsynlegt að krefja frambjóðendur svara um stefnumál sín fyrir kosningar, þótt ekki væri nema til þess að sjá þá ljúga í beinni útsendingu, bæði um fortíð og framtíð!

            Í næstu kosningum sækist valdaklíkan eftir áframhaldandi umboði til „myrkraverka“ sinna. Lögð er áhersla á andlit og „endurvinnslu“ á listum flokkanna. Svo langt er gengið að bjóða m.a. upp á fyrrum hrunþingmann og honum teflt fram í efsta sæti! Það sýnir vel firringu og ófyrirleitni margra stjórnmálamanna. Er þó kunnara en frá þurfi að segja að hrunþingmaður á ekkert erindi inn á Alþingi. Hans tíma er löngu lokið þar. Svona „endurvinnsla“ á engan rétt á sér.

            Menn verða dæmdir af verkum sínum og þurfa að búa við þann dóm. Núverandi stjórnarmeirihluta tókst með lygi og blekkingum að troða orkupakka þrjú í gegnum þingið. Það á að geyma í fersku minni um ókomna framtíð enda eru orkumálin gríðarlega mikilvæg fyrir allan almenning. Lygi og blekkingar næstu missera munu snúast m.a. um að innleiða orkupakka fjögur [„Vetrarpakkann“] og að troða Íslandi inn í Evrópusambandið.

Fullveldismálin

            Allt tal um „deilingu fullveldis“ er bara orðagjálfur. Sumir grípa í það hálmstrá að segja önnur ríki á meginlandi Evrópu vera fullvalda, þrátt fyrir veru sína í ESB. En það er mjög villandi. Þessi ríki hafa stórlega skert fullveldi, á ýmsum sviðum. Ríki sem ekki hefur lengur sjálfstæðan rétt til þess að gera t.a.m. samninga við þriðju ríki hefur að sjálfsögðu afsalað sér fullveldi á sviði milliríkjasamninga. Öðruvísi getur það ekki verið. Einstök þjóðríki innan ESB hafa ekki valdheimildir á þeim sviðum þar sem ESB hefur óskiptar valdheimildir [sbr. exclusive competence]. Það felur í sér afsal fullveldis á því sama sviði.

            Kemur þá að öðru mikilvægu atriði. Hvort skyldu einstök ríki, og borgarar þeirra, hafa sterkari fullveldisrétt með því að geta ákveðið stefnuna sjálf í veigamiklum málum eða með því að reka sín stefnumál í gegnum stofnanir Evrópusambandsins? Dæmi: það felst m.a. í óskertum fullveldisrétti ríkis að geta gert samninga við önnur ríki.

            Halda menn að það verði auðveldara með því að reka málin í gegnum stofnanir Evrópusambandsins, á sviði þar sem sambandið hefur auk þess óskiptar valdheimildir? Við inngöngu í ESB lengist víða til muna leið „lýðræðisins“. Sumt verður beinlínis óframkvæmanlegt og annað þyngist mjög í vöfum. Kalla kjósendur almennt eftir því?             Er það almennt betra t.a.m. í stjórnsýslu að leiðin frá fólki til ákvarðanatöku sé sem lengst? Æðsti dómstóll ESB, Evrópudómstóllinn, er í Lúxemborg [sem og EFTA-dómstólinn]. Skiptir fjarlægð ekki máli í þessu tilliti? Hvað ef t.d. Hæstiréttur Íslands væri í Kína? Væri aðgengilegt að sækja rétt sinn þangað? Hver var ástæða þess að Hæstiréttur Íslands var „fluttur heim“ og stofnaður með lögum frá 1919 en hóf starfsemi árið 1920? Hafði það ekki eitthvað með fullveldi að gera?

            Hvað Kardashian-fjölskyldan aðhefst skiptir nákvæmlega engu máli en sumir íslenskir fjölmiðlar virðast mjög uppteknir af af málum sem enga merkingu hafa. Það er þáttur í forheimskun þjóðarinnar. Ef hægt er að heimska kjósendur nógu mikið missa þeir pólitíska vitund sína og eru því líklegri til þess að styðja ríkjandi ástand og valdaklíkuna.

Kauphallarrafmagn og einkavæðing

            Á heimasíðu Samtaka iðnaðarins er að finna skýrslu frá árinu 2016 eftir Lars Christensen. Skýrslan nefnist: Our Engergy 2030.[i] Í skýrslunni er m.a. fjallað um kauphallarrafmagn og síðar opinskátt um einkavæðingu Landsvirkjunar, og raunar Landsnets líka. Andi frjálshyggjunnar og frjálshyggjuveitunnar OECD er alltumlykjandi í skýrslunni. Um raforkumarkaði segir þar m.a.:

            „Íslenskur raforkumarkaður einkennist af tvíhliða samningum um orkukaup eins og í Noregi fyrir nokkrum áratugum. Nú er Noregur hluti af samþættum norrænum markaði þar sem viðskipti fara fram í gegnum Nordpool[ii], sem er stærsti orkumarkaður Evrópu, mælt í umfangi viðskipta. Meira en 80% af raforkunni sem notuð er á Norðurlöndunum fer í gegnum þá kauphöll.“[iii] Í lok skýrslunnar segir svo:

            „Að brjóta upp Landsvirkjun[iv] myndi líklega auka þörf á kauphöll. Annar möguleiki gæti verið sá að skylda stóra orkuframleiðendur til þess að selja ákveðið hlutfall af framleiðslu sinni í gegnum kauphöll, fyrstu 5-10 árin. Pólska kauphöllin[v] var í meginatriðum stofnuð þannig.“

            Þá segir og: „OECD hefur áður lagt til að draga úr markaðsráðandi stöðu Landsvirkjunar með því að láta fyrirtækið selja eignir til þess að endurreisa samkeppni á orkuvettvangi. Íhuga ætti þann valkost.“[vi] Um Landsnet segir m.a. í skýrslunni:

            „Huga ætti að einkavæðingu Landsnets líka, þar sem tekjurnar rynnu í auðlindasjóðinn.[vii] Hins vegar ætti, andstætt orkuframleiðslu, að stjórna einkavæddu Landsneti áfram vel reglusettu. Það myndi tryggja að verð þess endurspegli jaðarkostnað við orkuflutning og fyrirbyggja umframgróða í krafti einokunarstöðu. Dæmi um einkavætt en reglusett orkunet er breska National Grid Plc.[viii] sem hætti sem ríkisfyrirtæki árið 1990.“[ix]

            „Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar“ er haft eftir Vésteini Vésteinssyni í Gísla sögu Súrssonar. Það er hins vegar ekki ófrávíkjanlegt lögmál að eigum þjóðarinnar sé stolið og arðurinn af þeim mjólkaður í tanka fjárglæframanna.

            Kjósendur geta haft mikil áhrif. En ef þeir velja stuðningsfólk auðlinda- og eignaráns til setu á Alþingi er einkum tvennt sem getur skýrt slíka kosningahegðun. Annars vegar ákveðið grandaleysi, að fólk trúi einfaldlega lyginni sem stjórnmálamenn bera á borð. Hins vegar að margir kjósendur séu mjög sáttir við að láta ræna sig og telji jafnvel að Alþingi ætti að gera meira af því.

            Þessu svipar til stöðu sem sumt fólk er í gagnvart óprúttnum mönnum sem fjallað var um í fréttaskýringaþættinum Kveik, í tengslum við svokallaða „Ástarglæpi“. Kjósandinn veit þá innst inni að gagnaðilinn lýgur en er fastur í tilfinningasambandi við lygarann [stjórnmálaflokk/þingmann]. Þegar svo er ástatt kemst engin rökhugsun að. Dómgreindin er víðsfjarri.

            Nú í aðdraganda kosninga þarf að ganga á frambjóðendur til Alþingis, og embættismenn, og krefjast þá svara um öll áform á bak við tjöldin um einkaránsvæðingu á eignum þjóðarinnar. „Ástarsambandið“ við ákveðna stjórnmálamenn og flokka má ekki verða svo sterkt að dómgreind kjósenda bresti.

[„Meðvirkur kjósandi“]

Alþingi hér með umboð sel,

ekkert er þó til varnar.

Kjósandi lætur sér líka vel,

lygi og blekkingarnar.

Græn skuldabréf

            Á heimasíðu WaterPower er fréttatilkynning frá 12. mars 2018. Þar er vísað til þess að Landsvirkjun[x] hafi tryggt fjármögnun með sölu grænna skuldabréfa á bandaríska markaðnum. Ætlunin sé að kosta framkvæmdir við Búrfell II og jarðvarmavirkjunina á Þeistareykjum með sölu bréfanna. Upphæðin nam 200 milljónum Bandaríkjadala.[xi]

            En hvað eru græn skuldabréf? „Grænt skuldabréf eru tegund af bréfum með fastri ávöxtun, fjármálagerningar sem sérstaklega eru ætlaðir til þess að safna fé til loftslags- og umhverfisverkefna. Þessi skuldabréf eru venjulega eignatengd og studd af efnahagsreikningi útgefanda, þannig að þau bera yfirleitt sömu lánshæfiseinkunn [credit rating] og aðrar skuldbindingar útgefenda sinna.“[xii] Í tímaritinu Economist er áhugaverð grein um græn skuldabréf þann 19. september 2020. Þar segir m.a.:

            „GRÆN skuldabréf[xiii] eru stjörnur loftslagsfjármála. Þessir fjármálagerningar, sem leiða saman fé sem safnað er í umhverfisvæn verkefni, söfnuðu 271 milljarði dollara árið 2019, samkvæmt Bloomberg NEF. Það er einungis um 4% af heildarútgáfu skuldabréfa um heim allan, en það gerir græn skuldabréf tvímælalaust vinsælasta form vistvænna skulda. Covid-19 hefur aðeins hægt á aukningunni. Annan september gaf Þýskaland út græn bréf[xiv] í fyrsta skipti. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins íhugar að nota þau til að fjármagna tæpan þriðjung af 750 milljarða evra björgunarpakka.“[xv]

            En rannsókn Bank of International Settlements [klúbbur seðlabanka] hefur vakið upp ýmsar spurningar í tengslum við útgáfu grænna skuldabréfa. Skoðuð voru 200 stór fyrirtæki sem gáfu út slík bréf á árunum 2015-2018. Í ljós kom að fyrirtæki sem mest gáfu út af bréfunum reyndust vera þau hin sömu og voru hvað umhverfisvænust áður en útgáfa bréfanna hófst [í skilningi kolefnislosunar].

            Meira en 70% fyrirtækjanna losa kolefni á við hefðbundin neysluvörufyrirtæki [consumer-staples firm] eða minna. Þeir sem menga mikið gefa sjaldan út umrædd skuldabréf af ótta við að verða sakaðir um „grænþvott“ og hættu á að skuldabréfin séu útilokuð úr „grænum sjóðum“.[xvi]

            Þá kom í ljós að útgáfa grænna skuldabréfa virtist ekki leiða til minni losunar kolefnis [sem hlýtur að vekja upp margar spurningar!]. Árin eftir útgáfuna sveiflaðist kolefnisstyrkur fyrirtækjanna mjög en breytingarnar þó ekki tölfræðilega marktækar. Bent er á að græn skuldabréf geti aukið vitund fagfjárfesta um loftslagsmál, vegna þrýstings frá viðskiptavinum. Þeir fyrr nefndu geti því frekar fjárfest beint í grænum verkefnum sem oft séu á formi innviða.

            Sá sem kaupir græn skuldabréf lágmarkar og áhættu þar sem útgefandi bréfanna verður að greiða þótt verkefni mistakist. Þá birta útgefendur venjulega upplýsingar um verkefnin, s.s. stærð þeirra og staðsetningu, sem annars er oft erfitt að fá upplýsingar um.[xvii] Nú er það auðvitað svo, í tilviki Landsvirkjunar, að það er vandfundin arðbærari fjárfesting en sú í vatnsafls- og gufuvirkjunum. Útgáfa grænna skuldabréfa samræmist augljóslega vel stefnu ESB, embættismanna og Landsvirkjunar. En hver er stefna íslenskra stjórnmálamanna, hvaða afstöðu hafa „grænkerarnir“ á Alþingi og hvernig rökstyðja þeir hana?

            Er ekki rétt að stjórnmálamennirnir útskýri vel á næstunni hvaða afstöðu þeir hafa til útgáfu „grænna skuldabréfa“, „grænna upprunaábyrgða“ og orkupakka? Enn fremur, hver er afstaða þeirra til einkavæðingar Landsvirkjunar og Landsnets? Þar duga ekki frasar og fagurmæli heldur verður raunverulegt innihald að fylgja með [mega jafnvel sleppa bæði frösunum og fagurmælunum og halda sig bara við innihaldið]. Sumir fjölmiðlar mættu taka sig á, ræða minna um sigra og sorgir Kardashian-fjölskyldunnar og einbeita sér að málum sem varða þjóðarhagsmuni. Góðar stundir.

[i]      Christensen, L. (2016). Our Energy 2030 - Efficiency, competitiveness and transparency in the Icelandic energy sector. https://www.si.is/media/orku-og-umhverfismal/Iceland-Energy-2030.pdf

[ii]    Sjá: https://www.nordpoolgroup.com/

[iii]   Ibid.

[iv]    Svartletrun höfundar.

[v]     Sjá: Europex – Association of European Energy Exchanges. https://www.europex.org/members/tge-polish-power-exchange/

[vi]    Christensen, op. cit.

[vii]  Sbr. hugmyndir um auðlindasjóð.

[viii] National Grid 2021. https://www.nationalgrid.com/

[ix]    Christensen, op. cit.

[x]     Sjá og heimasíðu Landsvirkjunar. Græn fjármögnun. (2018). https://www.landsvirkjun.is/fjarmal/graen-fjarmognun

[xi]    WaterPower. (2018). „Landsvirkjun issues green bonds to help fund hydro, geothermal development“. https://www.waterpowermagazine.com/news/newslandsvirkjun-issues-green-bonds-to-help-fund-hydro-geothermal-development-6079688

[xii]  Segal, T. (2020). Green Bond. Investopedia. https://www.investopedia.com/terms/g/green-bond.asp

[xiii] Sjá einnig: Deschryver, P. & Mariz, F. (2020). What Future for the Green Bond Market? How Can Policymakers, Companies, and Investors Unlock the Potential of the Green Bond Market? Journal of Risk and Financial Management. 13. 61. 10.3390/jrfm13030061.

[xiv]  Sjá einnig: Kraemer, M. (2020). Germany’s inaugural green bond… not so green after all. CEPS.

https://www.ceps.eu/germanys-inaugural-green-bond-not-so-green-after-all/

[xv]   What is the point of green bonds? (2021, September 19). Economist. Retrieved March 19, 2021, from https://www.economist.com/finance-and-economics/2020/09/19/what-is-the-point-of-green-bonds

[xvi]  Ibid.

[xvii] Ibid.