Fara í efni

LEIÐA ORKUPAKKAR ESB TIL HÆRRA RAFORKUVERÐS?

- Snjallmælar -

„...það er öllu stolið í landinu. Og bráðum verður landinu sjálfu stolið.“

(Halldór Laxness - Atómstöðin)

            Miklar hækkanir á rafmagnsverði í Evrópu hafa varla farið fram hjá fólki sem á annað borð fylgist með fréttum fjölmiðla. Þá vaknar spurning; hvað skýrir þessar hækkanir? Á ekki „samkeppnin“ að tryggja lægra verð en ella væri? Leysir ekki „markaðurinn“ sjálfkrafa vandamál framboðs og eftirspurnar?

            Á Íslandi fyrirfinnast þeir menn sem eru svo gersamlega skyni skroppnir að þeir eiga í mestu vandræðum með að átta sig á einföldu orsakasambandi – skilja hreinlega ekki hugtökin orsök og afleiðing – hvað þá að þeir hafi minnsta skilning á því hvernig þessi hugtök tengjast fyrirbærum í raunveruleikanum. Þetta á t.d. við um „gervikennimenn“ við Háskólann í Reykjavík, og allmarga þingmenn, bæði fyrrverandi og núverandi, en einnig sumt fjölmiðlafólk. Alveg sérstaklega á þetta við um marga þá sem studdu og töluðu fyrir innleiðingu orkupakka þrjú.

[„Lagadeildardósentinn“]

Í lögfræði virðist hún lítilla sanda,

líkist mjög dapri fyndni.

Dósentinn átti í vitrænum vanda,

valdinu fylgdi í blindni.

            En hér má líka spyrja: hvers vegna ættu þingmenn, sem að miklu leyti eru í stöðu „stimpilpúða ESB“, að hafa sjálfstæða dómgreind eða bera eitthvert skyn á orsök og afleiðingu? Hver er svo óforskammaður að ætlast til þess?

[Hinir dómgreindarlausu - Píratar]

Á orsökum hafa ekkert grip,

afleiðingum skitið.

Spóka sig með spekingssvip,

en spara litla vitið.

[Stimpilpúðar ESB]

Ákvarðanir áfram knúðar,

ofbeldið með ljáinn.

Standa eins og stimpilpúðar,

stara mest á skjáinn.

            Forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, segir orkuskort á næsta leiti verði ekkert að gert.[i] En það hefur og lengi ríkt skynsemisskortur á Alþingi. Sá skortur er til lengri tíma litið jafnvel enn alvarlegri. Hvað segir nýi Landsreglari ESB [Halla Hrund Logadóttir] um þetta? Margir íslenskir fréttamenn virðast enn lifa í „gamla tímanum“ og kalla „Orkustofnun“ áfram „Orkustofnun“, eins og ekkert hafi breyst með innleiðingu orkupakka þrjú. Þar er hins vegar orðin sú grundvallarbreyting að „Orkustofnun“ er nú embætti Landsreglara ESB og heyrir beint undir evrópuvaldið.

            Það telst meiriháttar breyting. Tvær ástæður kunna að skýra hvers vegna fjölmiðlafólkið lifir enn í „gamla tímanum“: í fyrsta lagi, það óttast að verða sagt upp starfi segi það satt. Í öðru lagi, það veit ekki betur, hefur ekkert kynnt sér málið, ekki frekar en sumir Píratar sem mynduðu sér fyrirframskoðun á málinu og héldu sig síðan við hana.

Snjallmælar

            Um þessar mundir dynur á landsmönnum áróður fjölmiðla um að „þetta sé alveg að verða búið“. Þar er vísað í milljarða bruðl vegna uppsetningar snjallmæla sem svo eru nefndir. Slíkir mælar mæla rafmagnsnotkun í rauntíma. Framsetningin er þannig að landsmenn séu alveg að sligast undan álestri af rafmagnsmælum og jafnvel látið að því liggja að lesturinn sé í beinni samkeppni við lestur fagurbókmennta og taki mikinn tíma frá honum.

            Spuna-og blekkingameistarar orkupakkanna [t.d. „almannatenglar“] eru fengnir til þess að rugla notendur í ríminu með lygi og hálfsannleika. Því miður er alltaf talsverður hluti fólks sem lætur blekkjast og treystir „sérfræðingunum“ betur en eigin þekkingu og dómgreind. Fyrsta spurning er þessi: hvað veldur skyndilegri „umhyggju“ fyrir notendum? Önnur spurning: er það mögulegt að tímasetning skipti máli hér? Þriðja spurning: hvað stendur í gerðum orkupakkanna um snjallmæla?

            „Aðildarríkin skulu tryggja innleiðingu snjallmælinga samkvæmt orkumarkaðslöggjöf ESB í þriðja orkupakkanum.[ii] Útfærslan getur ráðist af langtíma kostnaðar- og ábatagreiningu (CBA[iii]). Í þeim tilvikum þar sem „CBA“ er jákvæð er markmið um 80% útbreiðslu [mælanna] vegna raforku fyrir árið 2020.“[iv] Lesendur geta svo hugleitt möguleg svör við fyrstu og annari spurningu hér að framan.

            Það gefur auga leið að enginn ávinningur er að því [nema síður sé] fyrir notendur að hrært sé í verðinu fram og til baka, þannig að fólk þurfi að vakna um miðjar nætur til þess að elda og þvo.[v] Eins og áður hefur komið fram, sýna rannsóknir í Bretlandi að rafmagnsverðið fer fljótt upp en oft hægt niður. Ekki er það í þágu notenda. Íslensk veitufyrirtæki sendu inn umsagnir í aðdraganda innleiðingar orkupakka þrjú. Þar fór ekki mikið fyrir varnaðarorðum.

            Á því leikur varla vafi að margir sáu sér leik á borði að troða „snjallmælum“ upp á almenning í kjölfarið og fá þannig tæki til þess að blekkja og féfletta. Eða halda menn að eitthvert „gagnsæi“ ríki um þetta eða muni ríkja? Enn fremur, hvernig er „smjörþefurinn“ af N-einum?[vi] Eru samkeppnisyfirvöld tilbúin með mannskap til þess að rannsaka sýndarsamkeppni á raforkumarkaði?

            Eðlilegt væri að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort uppsetning snjallmæla, í andstöðu við notendur, stenst lög, enda jafngildir kostir þegar í boði hvað snertir mælingar sem slíkar. Margir hafa nú þegar stafræna mæla þótt ekki séu það „snjallmælar“. Það má þó næstum bóka að meðvirkir íslenskir dómarar myndu fylgja ESB-valdinu í slíku dómsmáli. Afstaða ESB er ljós, þannig að ekki er við miklu að búast úr þeirri átt [í gegnum EFTA].

            Íslenskir dómarar beita nefnilega oft sömu aðferðafræði og margir íslenskir þingmenn; gera ESB-línuna að sinni eigin, dómgreindarlaust. Niðurstaðan er fengin fyrirfram og hún síðan „rökstudd“ með orðskrúði og öfugmælum [sbr. „neytendaverndina“ sem notuð var til þess að fífla notendur]. Raunar má segja að „snjallmælar“ séu einskonar „öfugmælar“, í þeim skilningi að vera „öfugir“ við hagsmuni notenda, enda hlekkir í keðju brask- og markaðsvæðingar raforkunnar.

            Margir þekkja álagstoppa [peak times] sem myndast í raforkukerfum. Dæmi um það er t.d. þegar fólk eldar kvöldmatinn eða jafnvel jólamatinn. Samkvæmt „hugmyndafræði smartmælanna“ [sbr. time of day pricing] væri rétt að bíða með eldamennskuna fram yfir miðnætti, dreifa álaginu t.a.m. á alla nóttina! En myndast þá ekki nýir álagstoppar? Hefur eitthvað breyst annað en það að álagstopparnir hafa færst til í tíma? Ef það kæmist í „tísku“ að elda kvöldmatinn að nóttu til, t.d. kl. 03:00, myndi það ekki óhjákvæmilega leiða til álagstoppa á þeim sama tíma? Eða er ætlunin sú að fólk hætti alveg að elda kvöldmat og spari með því rafmagn? Hvað má þá segja um hitara (element) í þvottavélum? Þeir taka oft um 3 kílóvött. Með því að þvo um miðjar nætur, eða jafnvel hætta öllum þvottum, má líka með sömu „hugmyndafræði“ spara mikið rafmagn.[vii]

            Áströlsk rannsókn frá árinu 2019 sýnir að „verðlagning á notkunartíma“ [time of use pricing] sem auðvelduð er með snjallmælum er líkleg til að auka orkukostnað heimilanna. Raforkufyrirtæki og eftirlitsstofnanir hafa þrýst á hærra raforkuverð á álagstímum. Fræðilega séð hvetur þetta heimilin til að færa orkunotkun sína á þá tíma sólarhringsins sem ódýrara er fyrir fyrirtæki að útvega hana.

            Helstu niðurstöður[viii] rannsóknarinnar eru eftirfarandi: Meðal heimili fjögurra manna, sem ekki getur aðlagað rafmagnsnotkun sína, stendur frammi fyrir hækkun upp á 429 dollara [ástralskur dollar] á ári vegna rafmagnsnotkunar. Jafnvel þó að heimili geti fært 30% af hámarks raforkunotkun sinni yfir á tíma þar sem verð eru lægri [sbr. „shoulder usage“] nemur hækkun samt sem áður 231 dollar, eða 10,2% verðhækkun miðað við fasta gjaldskrá [flat rate].

            Eftir að hafa vanist háu raforkuverði, í áratug eða meira, hafa mörg heimili enga getu lengur til þess að draga úr rafmagnsnotkun sinni eða breyta tíma rafmagnsnotkunar.

            Það er ljóst hvað er að gerast – raforkufyrirtæki nota hið raunverulega vandamál sem felst í hámarks raforkueftirspurn til þess að þrýsta á hærra verð til notenda, til að auka hagnað sinn.

            Raforkufyrirtæki sem þrýsta á um „verðlagningu á notkunartíma“ halda því fram að það muni hjálpa til við að draga úr raforkunotkun á tímabilum með mikilli eftirspurn, en greining á gögnum um raforkumarkaðinn [NEM] sýnir að eftirspurn eftir rafmagni í Ástralíu er óteygin[ix] og jafnvel með mikilli verðhækkun mun notkunin (eftirspurnin) ekki minnka verulega.

            Í stað þess að þvinga heimili, sem hafa litla getu, til að breyta notkun ættu eftirlitsaðilar [„reglarar“] og orkufyrirtæki að hvetja þá sem hafa getu til að breyta raforkunotkun sinni með eftirspurnarstýringu [sbr. „demand response“].

            Eftirspurnarstýring greiðir notendum í raun fyrir að breyta notkun sinni og er mikið notuð í Queensland og erlendis. Að sögn David Richardson (Senior Research Fellow at The Australia Institute) gætu fyrirtæki einnig niðurgreitt sólarrafhlöður til heimila og „rafgeyma“ [battery storage] til að minnka hámarkseftirspurn.[x]

            Svo aftur sé vikið að Evrópu er ljóst að snjallamælavæðing er hluti af orkupökkum ESB. Hún leiðir, eins og komið er fram, til verðhækkana. Sama gera milliliðir á milli framleiðenda og notenda (orkufyrirtæki sem spretta upp) enda þurfa þeir sitt og stunda ekki sinn rekstur sem góðgerðastarfsemi heldur til þess að græða vel á notendum.

            Það er hins vegar fásinna ef einhver heldur að snjallmælar gagnist notendum almennt.[xi] Það gera þeir einmitt ekki. Enda er ávinningurinn hverfandi lítill þótt fólk eyddi miklum tíma [sem það hefur ekki] til þess að leita og skipta, eins og komið hefur fram í fyrri skrifum.

            Snjallmælarnir geta einungis (mögulega) leitt til „sparnaðar“ ef stór hluti notenda (neytenda) breytir raforkunotkun sinni í takti við þær upplýsingar sem mælarnir gefa. Rannsóknir[xii] sýna hins vegar að meirihluti notenda ver ekki tíma sínum í leit og skipti að ódýrari rafveitum. Forsenda þess að stýring með snjallmælum geti virkað er þátttaka notenda. Fátt bendir til þess að hún mun aukast að ráði. Rannsóknir t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum benda ekki til þess. Einnig hefur komið fram að kostnaður við kaup og uppsetningu snjallmælanna hleypur á milljörðum íslenskra króna.[xiii] Notendur verða látnir greiða þann kostnað. „Snjallmælir“ ætti auðvitað að leita að lægsta verði og skipta sjálfvirkt um rafveitu. Þ.e.a.s. tengja notenda ætíð við þá veitu sem býður lægsta verðið á hverjum tíma. Notendur eiga ekki sjálfir að þurfa að standa í eltingaleik við síbreytileg verð.

            Snjallmælavæðing er heldur ekki vegna sérstakra óska íslenskra raforkunotenda þar um. Þá vaknar spurning; hvaðan kemur frumkvæðið? Spurningunni hefur oft verið svarað: frumkvæðið kemur frá ESB, bröskurum og fjárglæframönnum sem beita fyrir sig „borðtuskum“ á Alþingi sem næstum ævinlega bregðast þjóðinni.

            Einhver kann að malda í móinn og spyrja: halda menn þá að snjallmælar séu þróaðir vegna óska braskara og fjárglæframanna? Svar: þessir mælar eru að sjálfsögðu nauðsynlegur hlekkur í stærri áformum. Fyrst er ákveðið að markaðsvæða [sleppa „hýenunum“ lausum] og samhliða því eru auðvitað útfærðar leiðir að takmarkinu. Þeir sem eru fyrirferðarmestir á sama markaði eru einmitt braskarar og fjárglæframenn, knúðir áfram af gróðahvötinni [og ófyrirleitninni].

Orkupakkar og hækkun raforkuverðs

            Það er háttur smásála og undirlægja að draga úr alvarleika og afleiðingum mikilvægra ákvarðana. Fyrrum ráðherra Samfylkingarinnar talaði t.a.m. um „orkupakkaræfilinn“ og reyndi þannig að gera lítið úr málinu. Eftir stendur að orkumálastjóri, sem einu sinni var, er nú orðinn að evrópskum landsreglara sem starfar í umboði ACER, orkustofnunar Evrópu. Margir íslenskt fjölmiðlafólk lætur þó eins og það viti þetta ekki og heldur áfram að tala um „orkumálastjóra“ eins og ekkert hafi í skorist.

            Það er og vel þekkt að veirur þurfa að komast í hýsil til þess að geta fjölgað sér. Nú stefnir í „veirufarald“ á íslenskum raforkumarkaði. „Hýslarnir“ eru vasar almennings. Braskarar og fjárglæframenn (stundum nefndir afætur) keppast við að að fá „skotleyfi“ á notendur. Fjölgi þessum afætum mikið, eins og allt stefnir í, mun það hækka kostnað verulega. Síðan er þess að vænta að við bætist ofurskuldsetning og gjaldþrot einhverra orkufyrirtækja sem almenningur verður látinn bera líka. Fyrst er „markaðnum“ sleppt lausum á almenning og síðan gripið til ráðstafana sem eiga að vernda þann sama almenning fyrir „markaðnum“.[xiv]

[Munið að gefa bröskurunum - Gervisamkeppni]

Af veitum drýpur víða smér,

villta banka munum.

Gervisamkeppni gagnast þér,

gefðu bröskurunum.

            Það er ekkert sem bendir til þess að íslenskur almenningur hafi skrifað undir „bænaskrár“ til Alþingis, þess efnis að markaðsvæða raforkuframleiðslu og dreifingu rafmagns.

            Samband starfsfólks í almannaþjónustu í Evrópu (EPSU) birti fréttatilkynningu þann 10. janúar 2007. Þar er fjallað um orkupakka ESB [orkupakki 3 var lagður fram af framkvæmdastjórn ESB árið 2007 og varð að lögum tveimur árum síðar]. Í fréttatilkynningunni kemur fram að orkupakkinn sé almannatengslaæfing [PR exercise] til að réttlæta hærri orkureikninga og dylja mislukkað frjálsræði [á raforkumarkaði].

            Þar segir: „Þessi pakki er almannatengslaæfing til að undirbúa borgara Evrópu fyrir hækkanir á rafmagns- og gasreikningum. Þótt verð hækki er engin trygging fyrir því að fyrirtækin fjárfesti í raforkunetum, í orkuverum og í starfsfólki. Minnkandi fjárfestingar munu leiða til rýrnandi gæða og öryggis og á endanum til aukins rafmagnsleysis[xv] og verða alvarleg afturför fyrir samkeppnishæfni Evrópu. Samvinnu er þörf, ekki eflingar framkvæmdastjórnarinnar á sóunarsamkeppni[xvi] á raforku og gasi. Kostnaðurinn við að koma á samkeppni er meiri en ávinningurinn. Iðnaði og almenningi er ætlað að standa straum af kostnaðnum...“[xvii]

Fjárglæframennskan og Landsvirkjun

            Eins og margir gera sér ljóst felst alger opnun í evrópska regluverkinu sem myndað er með orkupökkum ESB. „Hinir dómgreindarlausu“ sjá hins vegar ekki samhengi hlutanna og eru í mikilli afneitun. Þvæla um að hlutir geti gerst alveg óháð orkupökkum ESB! Það vill þannig til að orkupakkar ESB mynda ákveðið lagaumhverfi sem aðildarríkin eru bundin af. Stjórnvöld hafa illu heilli troðið Íslandi með í það samstarf. Afleiðingarnar komu fyrst fram m.a. í uppskiptingu framleiðslu og dreifingar á raforku. En þessi óheillaþróun gengur miklu lengra.

            Eins og komið er fram er „Orkustofnun“ nú orðin að evrópskum „landsreglara“. Það gerðist samhliða innleiðingu á orkupakka þrjú og breytingu á lögum um „Orkustofnun“. Þá hefur það lengi verið yfirvofandi að braskarar og fjárglæframenn [fjölmiðlar gefa þeim falleg heiti og kalla stundum „fjárfesta“] næðu undir sig Landsvirkjun, með dyggri aðstoð spilltra íslenskra stjórnmálamanna. Alþingi hefur alltaf á að skipa bæði dómgreindarlausu fólki en líka gerspilltu. Þessu fólki þykir sjálfsagt að þjóðin sé rænd og þvælir einhverja vitleysu og segir það ekkert koma orkupökkum ESB við. Pakkarnir vísa hins vegar veginn, opna „borgarhliðin“ upp á gátt og hleypa „hýenunum“ lausum á almenning (notendur/neytendur). Þannig gerist þetta.

            Það verður aldrei of oft áréttað að með samkeppnismarkaði er fyrst og fremst vísað til einkaaðila/einkafyrirtækja sem keppi sín á milli. Orkupakkar ESB ganga út á slíkt fyrirkomulag og fela í sér ítarleg ákvæði þess efnis. Þar með er strax kominn þrýstingur á almannafyrirtæki/ríkisfyrirtæki um að „þvælast ekki fyrir“ í samkeppninni við einkafyrirtækin [sem í tilviki raforkuframleiðslu er auðvitað mest gervisamkeppni]. Þegar allt kemur til alls snýst spurningin því öðru fremur um það hvort einokunarstarfsemi skuli vera í eigu almennings (ríkis) eða í höndum braskara og fjárglæframanna [og jafnvel mafíósa] sem aftur okra á notendum í krafti stöðu sinnar. Þar skiptir stærð markaða miklu máli, teygni markaðanna, eðli þess sem keypt er og selt o.s.frv.

            Nýjasta útspilið kemur frá þingmanni Suðurkjördæmis, Guðrúnu Hafsteinsdóttur. Hún leggur til að stórum hluta í Landsvirkjun verði komið, með viðkomu í lífeyrissjóðum, til braskaranna.[xviii] Hefur þjóðin verið spurð? Er þetta það sem meirihluti kjósenda vill helst af öllu? Rán á Landsvirkjun, í boði orkupakka ESB, þarf að hindra með öllum ráðum.

Að lokum

            Miklar verðhækkanir[xix] á rafmagni í Noregi, í kjölfar útflutnings um sæstrengi, í boði orkupakka ESB, ættu að vera Íslendingum víti til varnaðar. Ekki duga rök í þá veru að hægt sé að leggja strengi óháð orkupökkunum [dæmigerð „röksemdafærsla“ í anda hinna dómgreindarlausu]. Það er nefnilega ekki þannig í þessu tilviki. Þegar ríki hafa innleitt lagaverk orkupakkanna gildir það og stendur þar að auki ofar landsrétti ríkjanna, komi til árekstra. Sæstrengslagnir verða því á forsendum orkupakkanna.

            Þegar íslenskir ráðamenn ræða um aðför að fullveldi annara ríkja ættu þeir að líta sér nær! Innleiðing orkupakka þrjú var gróf aðför að íslensku fullveldi. Þar var ekki um beina utanaðkomandi „áraś“ að ræða heldur grófu þingmenn og ráðamenn undan fullveldi eigin þjóðar. Embætti landsreglarans er skýr birtingarmynd þess. „Samstaðan“, sem stundum er nefnd í þessu sambandi, er með erlendu valdi og gegn þjóðinni. [Og þegar íslenskir stjórnmálamenn ræða um gróf brot gagnvart fullveldi ríkja ættu þeir að hafa í huga líka Lýbíu, Írak og Afghanistan].

            Það er mikil einföldun þegar því er haldið fram að stórhækkað raforkuverð í Evrópu stafi einungis af minna framboði en eftirspurn. Vandinn liggur að stórum hluta í því að „markaðsöflunum“ [„hýenunum“] hefur verið sleppt lausum á fyrirtæki og almenning. Eyðilegging og niðurbrot innviðanna í framleiðslu og dreifingu rafmagns leiðir til „sóunarsamkeppni“ (og sýndarsamkeppni) flóknara regluverks og fleiri milliliða [afæta] sem engu bæta við framleiðslu og dreifingu, heldur þvert á móti soga til sín fé og eignir almennings.

            Komið hafa fram hugmyndir á Íslandi, þess efnis að undanskilja ákveðinn hluta raforkuframleiðslu og koma í félög í eigu almennings, áður en ráðist verður í frekari „markaðsvæðingu“ á Íslandi. Þessar hugmyndir eru settar fram af góðum huga og eru allrar athygli verðar. Þær má að nokkru leyti skoða sem tillögur til skaðaminnkunar (vegna orkupakkanna). Þannig má segja að í þeim felist sú hugsun að betri sé hálfur skaði en allur. Helsti gallinn við slíkar hugmyndir er hins vegar sá, almennt talað, að þær kunna að fela í sér vissa „viðurkenningu“ [sumir myndu kalla raunsætt mat] á ákveðnu ástandi. En það getur aldrei verið ásættanlegt, undir nokkrum kringumstæðum, að þjófar og „hýenur“ fái svo mikið sem einn bita af sameiginlegum eigum sem þjóðin hefur sjálf byggt upp í marga áratugi.

            Eða er það ásættanlegt að segja við þjóf: þú mátt halda 50% [eða hvaða hlutfalli sem er] þess sem þú stalst frá mér en ég áskil mér rétt til þess að halda hinum helmingnum. Flestir sjá að þetta er ekki nógu góð niðurstaða. Þjófurinn á að sjálfsögðu aldrei að komast í þá aðstöðu að geta stolið en lágmarkið ef hann stelur að öllu sé skilað, 100% þýfisins, helst með álagi að auki [hversu hátt hlutfall endurheimtist af því sem stolið var í bankahruninu?].

            Þetta er þó alls ekki sagt til þess að gera lítið úr nefndum tillögum sem vissulega verðskulda opna og málefnalega umræðu. En þjóðfélag þar sem þjófar njóta velvildar stjórnmálamanna, og „hýenur“ ganga lausar, á í miklum vanda. Það er fyrst og fremst siðferðilegur vandi sem síðan leiðir oft til efnahagslegs vanda og kemur þá beint við vasa almennings. Áður en íslenskir stjórnmálamenn ganga lengra í fordæmingu sinni á Rússum ættu þeir að horfa inn á við og setja íslenskum „ólígörkum“ öflugar skorður. Þeim má ekki takast að ræna Landsvirkjun, virkjunum og dreifikerfi sem nú er eigu þjóðarinnar. Góðar stundir.

[i]      „Orkuskortur ef ekkert verður að gert“. Morgunblaðið 21. desember 2021. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/12/21/orkuskortur_ef_ekkert_verdur_ad_gert/

[ii]    Svartletrun og undirstrikun höfundar

[iii]   Cost-benefit analysis.

[iv]    European Commission. (20 December 2021). Smart Metering deployment in the European Union. https://ses.jrc.ec.europa.eu/smart-metering-deployment-european-union

[v]     Sjá einnig: Wald, M. L. „Power Savings of Smart Meters Prove Slow to Materialize“. New York Times, Dec. 5, 2014. https://www.nytimes.com/2014/12/06/business/energy-environment/power-savings-of-smart-meters-prove-slow-to-materialize.html

[vi]    „N1 biðst velvirðingar og endurgreiðir mismun“. Morgunblaðið 20. janúar 2022. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/01/20/n1_bidst_velvirdingar_og_endurgreidir_mismun/

[vii]  Sjá einnig; Getting a smart meter installed. (2022). Citizens Advice. https://www.citizensadvice.org.uk/consumer/energy/energy-supply/your-energy-meter/getting-a-smart-meter-installed/

[viii] Toner, P. (March 2019). Residential Time of Use Electricity Pricing in NSW. The Australia Institute. https://australiainstitute.org.au/wp-content/uploads/2020/12/P705-Residential-Time-of-Use-Electrcity-Pricing-in-NSW-web_0.pdf

[ix]    Teygni segir til um eiginleika vöru og markaða. Þ.e.a.s. hversu mikið verð getur hækkað þangað til dregur úr eftirspurn.

[x]     Smart meters not so smart for electricity bills. (July 8 2019). The Australia Institute. https://australiainstitute.org.au/post/smart-meters-not-so-smart-for-electricity-bills/

[xi]    Sjá enn fremur: Cornish, D. (21.12 2012). The case against smart meters. Wired. https://www.wired.co.uk/article/smart-meters

[xii]  Um þetta var fjallað m.a. í grein höfundar frá 2. janúar síðastliðnum. https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/kari-skrifar-hvad-raedur-mestu-um-hegdun-notenda-a-raforkumarkadi

[xiii] Sjá t.d.: Stór hluti þjóðarinnar fær snjallmæla. (4. febrúar 2022). Veitur. https://www.veitur.is/frett/stor-hluti-thjodarinnar-faer-snjallmaela

[xiv]  Sjá t.d.: Sgaravatti, G. et al. (2022)."National policies to shield consumers from rising energy prices | Bruegel."bruegel.org. https://www.bruegel.org/publications/datasets/national-policies-to-shield-consumers-from-rising-energy-prices/

[xv]   Svartletrun mín.

[xvi]  Svartletrun mín.

[xvii] EPSU. 2022. Energy Package is PR exercise to justify higher energy bills and disguise failure of liberalization. [online] Available at: <https://www.epsu.org/article/energy-package-pr-exercise-justify-higher-energy-bills-and-disguise-failure-liberalization> [Accessed 25 February 2022].

[xviii]       Sjá t.d.: Atli Ísleifson. „Vill að ríkið selji 30 til 40 prósenta hlut í Landsvirkjun“. Fréttablaðið, 24. febrúar 2022. https://www.visir.is/g/20222227033d

[xix]  Sjá einnig: Gumbau, A., 2022. Spain’s rising energy poverty: A cautionary tale for Europe. [online] Energy Monitor. Available at: <https://www.energymonitor.ai/policy/just-transition/spains-rising-energy-poverty-a-cautionary-tale-for-europe> [Accessed 25 February 2022].