MEIRIHLUTI VALDAKLÍKUNNAR ER ANDSNÚINN LÝÐRÆÐI
Meðal þess sem illa hefur gengið að ná fram á Íslandi er lýðræðisumbætur. Kallað hefur verið eftir auknu lýðræði, og þá alveg sérstaklega beinu lýðræði, þannig að hægt sé að skjóta þýðingarmiklum málum beint til þjóðarinnar. Íslenska valdaklíkan er hins vegar almennt skipuð afar valdagráðugu og stjórnlyndu fólki sem lítur á þjóðina sem uppsprettu atkvæða en ekki hóp fólks með sjálfstæðan vilja.
Almennt kæra þessir stjórnmálamenn (klíkubræður og systur) sig lítt um lýðræði, enda sjá þeir slíkt fyrirkomulag sem þröskuld í vegi eigin valda og „frama“. Afstaðan til þjóðarinnar hefur birst í mörgum myndum. Þar má nefna kvótamálin, allt frá því að eigum þjóðarinnar var bókstaflega rænt og þær afhentar vinum valdaklíkunnar. Ekki þótti nein ástæða til þess að spyrja þjóðina álits enda hvaða vit hefur hún á stjórn fiskveiða?
Sumir þessara manna sem fengu aflaheimildir án endurgjalds gerðust umsvifamiklir fjárglæframenn og það eru einmitt mennirnir sem meirihluti valdaklíkunnar vill að blómstri. „Athafnamenn“ sem láta fé af hendi rakna til stjórnmálaflokka og eru boðnir og búnir fyrir valdaklíkuna (stjórnmálastéttina) hvenær sem á þarf að halda. Það ríkir því gagnkvæmt traust á milli flestra íslenskra stjórnmálamanna og íslenskra fjárglæframanna. En traustið á milli valdaklíkunnar og þjóðarinnar er hins vegar alveg í lágmarki.
Valdaklíkan gerir ekkert sem gæti komið fjárglæframönnum illa. Þjóðin skiptir engu máli, hún er bara „atkvæðauppspretta“ sem á að tryggja að valdaklíkan haldi völdum, geti ferðast á SagaClass á kostnað kjósenda, skammtað sér laun að vild (sjálftaka), oft með „skálkaskjóli“ eins og „kjaradómi“ eða „kjararáði“. Það þykja hentug „millistykki“ til þess að gefa sjálftökunni „áferðarfallegri“ blæ. Valdaklíkan vinnur einnig af ákafa að því að koma framleiðslu og dreifingu á rafmagni í hendur fjárglæframanna. Enda miðar allt evrópska regluverkið og orkupakkar ESB að markaðs- og einkavæðingu. Því takmarki verður ekki náð með stórt ríkisfyrirtæki á markaði (Landsvirkjun) og því algerlega borðleggjandi að þess verði krafist að Landsvirkjun verði einkavædd (ránsvædd) til þess að „greiða fyrir samkeppni á markaði“. Þetta sér allt skynsamt fólk. Um þetta segir í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar:
„Langtímaorkustefna verður sett á kjörtímabilinu í samráði við alla þingflokka. Í orkustefnu verði byggt á áætlaðri orkuþörf til langs tíma miðað við stefnu stjórnvalda, til að mynda um orkuskipti, og hvernig megi tryggja raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf. Eigendastefna Landsvirkjunar mun taka mið af orkustefnunni.“[i] Þarna er rætt um að langtíma orkustefna „verði sett“. Það er ekki rétt. Það er unnið að því að TAKA UPP orkustefnu ESB, í gegnum orkupakkana sem taka til æ fleiri þátta, eftir því sem þeim fjölgar. Eigendastefna Landsvirkjunar mun því taka mið af orkustefnu ESB!
Megin atriðið er þetta: orkupakkar ESB og öllu sú vegferð miðast við markaðsvæðingu og einkavæðingu. Í því ljósi er mjög holur hljómur í máli þeirra sem segja að það „felist engin skylda til einkavæðingar“ í orkupökkum ESB. Bókstaflega rangt! Lesið betur og setjið hlutina í samhengi gott fólk. Þessi vegferð gengur einmitt öll út á markaðs- og einkavæðingu. Er það slæmt? Spurningunni er auðvelt að svara ef menn skoða reynslu undanfarinna áratuga, í mörgum ríkjum. Hver er reynslan á Íslandi af markaðs- og einkavæðingu auðlinda sjávar (kvótans) þar sem fáeinir menn hafa rakað saman þýfi sem þeir fengu frá valdaklíkunni? Hver er reynslan af einkavæðingu bankanna? Man einhver lengur eftir hruninu, haustið 2008? Hver er reynslan í sumum fylkjum Bandaríkjanna af einkavæðingu á framleiðslu raforku? [Skammhlaup og rafmagnsleysi].
Stjórnmálastéttin hefur ýmsa illa áttaða „smalahunda“ í fjölmiðlum. Þar stjórna þeir valdhlýðnum umræðuþáttum, spyrja valdaklíkuna yfirleitt þægilegra spurninga en beita dónaskap og yfirgangi við ýmsa aðra. Sumir þeirra ganga jafnvel svo langt að segja viðmælendur sína „ruglaða“? Valdaklíkan fær aldrei slíkar aðdróttanir eða ófyrirleitnar spurningar.
Þessi misserin vinnur valdaklíkan í „reykfylltum bakherbergjum“ að því að breyta stjórnarskránni. Til að sýnast hefur málið verið sett í svokallaða „samráðsgátt“. Allt er það hin mesta sýndarmennska enda verður ekkert mark tekið á athugasemdum frekar en öðru sem frá þjóðinni kemur. Það sem valdaklíkan vill helst af öllu er að afnema málsskotsrétt forseta Íslands í gegnum 26. gr. stjórnarskrárinnar. En samkvæmt henni ræðst frambúðargildi laga af synjun eða staðfestingu þjóðarinnar, í þjóðaratkvæðagreiðslu, eftir að að forseti Íslands hefur synjað um staðfestingu á lögunum.
Því miður er núverandi forseti mjög líklegur til þess að taka þátt í afnámi umræddrar 26. gr. enda hefur hann afar takmarkaðan áhuga á beinu lýðræði eða málskoti til þjóðarinnar. Meirihluti þjóðarinnar hefur hins vegar mikinn áhuga á því að hafa virkan málskotsrétt, með „lágum þröskuldi“. Má í því samhengi minna á að valdaklíkan (Alþingi) starfar í UMBOÐI ÞJÓÐARINNAR. Þessi klíka lýgur einu til og öðru frá fyrir kosningar og stendur síðan ekki við eitt né neitt eftir kosningar. Það er í hnotskurn vandinn sem kjósendur standa frammi fyrir í þingkosningum (og til sveitastjórna).
Valdaklíkan vinnur nú að því að leggja landið undir vindmyllugarða sem svo eru kallaðir. Sumir stjórnmálamenn eru flæktir í það gróðabrall. Enda lengi verið ljóst að orkupakki 3, vindmyllugarðar og sæstrengur eru fyrirbæri sem hanga náið saman. Það er líka augljóst, sérstaklega þegar og ef stóriðjan dregst saman, að raforka sem nemur mörg hundruð megavöttum verður ekki nýtt nema að litlu leyti innanlands.
Villtustu draumar þessa fólks eru auðvitað þeir að reisa vindmyllugarða hvar sem því verður mögulega við komið, hringinn í kringum landið. Þar er að mjög mörgu að hyggja. Byrjunin er ævinlega lagaramminn. Lágmarkskrafan er að Alþingi byrji á byrjuninni og setji sérstök lög um þessa starfsemi en taki ekki eingöngu við reglugerðum og tilskipunum frá ESB. Náttúruvernd, ekki síst fuglalíf, er í verulegri hættu þar sem vindmyllugarðar rísa (valdaklíkunni er sama um slíka „smámuni“) auk þess sem endingartími vindrafstöðva er frekar skammur, eða að meðaltali 20-25 ár.[ii]
[i] Stjórnarráð Íslands. https://www.stjornarradid.is/rikisstjorn/stefnuyfirlysing/
[ii] Sjá t.d.: http://www.renewableenergyfocus.com/view/43817/the-end-of-the-line-for-today-s-wind-turbines/