Fara í efni

NOKKUR ATRIÐI SEM SNERTA EVRÓPSKAN SAMKEPPNIS-RÉTT

Eins og vikið hefur verið að í fyrri skrifum skipar samkeppnisréttur mikilvægan sess á evrópska efnahagssvæðinu. En áður en lengra er haldið er rétt að kanna í stuttu máli hvað samkeppnisréttur er og hvað í honum felst. Á hinum svo kallaða frjálsa markaði er gengið út frá þeirri meginreglu að takmörkuðum gæðum skuli skipt á grundvelli framboðs og eftirspurnar, sem ráði verði, en ekki með beinni stýringu ríkisvaldsins.

Hugmyndafræðin[i] þessu til grundvallar felur í sér að markaðskerfi tryggi sem best hagkvæmasta verð til neytenda og heppilega nýtingu auðlinda. Í hagfræði er oft horft til þess hversu teginn (sbr. elasticity) viðkomandi markaður er. En eftirspurn er sögð ótegin þegar hækkun verðs leiðir til óverulegrar minnkunar eftirspurnar. Teygni á verði eftirspurnar er þannig hlutfallsleg breyting á magni framleiðsluvöru sem deilt er upp í með hlutfallslegri breytingu á verði vörunnar. Slík atriði koma gjarnan til skoðunar þegar lagt er mat á samkeppnisbrot og stöðu fyrirtækja sem eiga í samkeppni.

Samkeppnisrétturinn fjallar um lagalegar leikreglur sem gilda á samkeppnismarkaði. Ljóst má vera að náin tengsl eru á milli hagfræði og samkeppnisréttarins sem byggir um margt á reglum og kenningum hagfræðinnar. Evrópskur samkeppnisréttur (á við um samkeppnisrétt almennt) mælir fyrir um þætti sem skaðlegir eru taldir, gagnvart neytendum, í viðskiptum manna á milli (s.s. hringamyndun og verðsamráð) og til hvaða ráðstafana megi mögulega grípa sé brotið gegn lögum þar um. Evrópskur samkeppnisréttur er umfangsmikill og fjöldamargir dómar (forúrskurðir) hafa fallið hjá Evrópudómstólnum sem snerta þetta svið, enda mikilvægt að sem skýrastar reglur gildi um viðskipti á sameiginlegum markaði (EES). Bandarískur samkeppnisréttur er um margt fyrirmynd þess evrópska og má rekja upphaf hins fyrr nefnda til Sherman-laganna (Sherman-Act) svo nefndu frá 1890.

Samkeppnismál innan ESB

            Um samkeppnismál er fjallað í bálki VII, kafla eitt, fyrsta hluta, í Lissabon-sáttmálanum (Treaty on the functioning of the European Union. Eftirleiðis nefndur TFEU). Verður hér leitast við að gera stutta grein fyrir þeim lagagreinum sáttmálans sem mestu máli skipta í þessu sambandi.

Ólögmætir samkeppnishættir

Ber fyrsta að nefna 101 gr. TFEU (áður 81. gr. í Treaty of Nice) en sú grein fjallar um það hvað fyrirtækjum er óheimilt að gera á innri markaðinum. Tekur það m.a. til samninga sem fyrirtæki gera sín á milli og taldir eru geta skaðað samkeppni. Þar er einkum um að ræða (sbr. 1. mgr. 101. gr.):

a) verðsamráð, beint eða óbeint, sem snertir kaup eða sölu eða önnur viðskiptakjör

b) takmörkun eða stjórnun á framleiðslu, mörkuðum, tækniþróun eða fjárfestingu

c) skipting markaða eða framboðs á vörum (source of supply)

d) að mismuna viðskiptaaðilum og skerða þannig samkeppnishæfni þeirra

e) að skilyrða gerð samninga með samþykki gagnaðila á viðbótarskyldum sem, í eðli sínu eða samkvæmt viðskiptavenju, tengjast ekki slíkum samningum.

Allir samningar sem gerðir eru samkvæmt 1. mgr. 101. gr. skulu sjálfkrafa ógildir (void). Á því eru þó undantekningar. Skilyrði þess að þær eigi við eru þau að umrædd háttsemi hafi leitt til batnandi framleiðslu eða dreifingar á vörum eða til þess að efla tæknilegar eða efnahagslegar framfarir, þannig að neytendur njóti sanngjarnrar hlutdeildar í ágóðanum.[ii]

Þá er og sett sem skilyrði að ekki séu lagðar á hlutaðeigandi fyrirtæki takmarkanir sem óþarfar eru til að ná þessum markmiðum [s.s. að bæta framleiðslu eða efla tækniframfarir] og að fyrirtækjum sé ekki gert fært að útiloka samkeppni að því er varðar verulegan hluta viðkomandi framleiðsluvara (sbr. a og b-lið 3. mgr. 101. gr.).

Consten & Grundig

Til frekari útskýringa má nefna dóma Evrópudómstólsins frá árinu 1966. Það eru mál 56/64 og 58/64 Établissements Consten S.à.R.L. and Grundig-Verkaufs-GmbH v Commission. Forsaga málanna er sú að Grundig var leiðandi í framleiðslu á útvarpstækjum, upptökutækjum (segulböndum) og sjónvarpstækjum í Þýskalandi. Í apríl 1957 gerði fyrirtækið samning við Consten, franskt heildsölufyrirtæki. Samkvæmt samningnum skyldi Consten hafa einkaumboð á framleiðsluvörum Grundig í Frakklandi. Consten undirgekkst m.a. að panta ákveðinn lágmarksfjölda af vörum frá Grundig, og koma til dreifingaraðila í Frakklandi, ásamt því að auglýsa tækin, sjá um ábyrgðarmál og þjónustu á tækjunum fyrir viðskiptavini sína.
Þar að auki skyldi Consten undirgangast að stunda ekki verslun með sams konar vörur frá öðrum framleiðendum eða selja viðskiptavinum utan Frakklands. Á móti undirgekkst Grundig að dreifa ekki vörum sínum, beint eða óbeint, til annara heildsala eða smásala í Frakklandi. En Grundig hafði áður gert álíka samninga við einkaumboðsaðila í öðrum ríkjum. Í október 1957 skráði Consten vörumerkið "GINT" "Grundig International" í Frakklandi og hóf sölu tækja frá Grundig undir hinu nýja vörumerki. Með auglýsingaherferð markaðssetti Consten síðan vörumerkið í Frakklandi, en þar var UNEF hins vegar keppinautur Consten. Þegar tilraunir þess fyrirtækis (UNEF) mistókust til þess að fá vörur Grundig beint frá framleiðanda í Þýskalandi, var farin sú leið að kaupa þær frá þýskum aðilum sem afhentu þær þrátt fyrir útflutningsbann sem þeir höfðu undirgengist í samningum sínum við Grundig. Í framhaldi af því hóf UNEF sölu á tækjum Grundig til franskra smásala undir nafninu GINT, á lægra verði en boðið var hjá Consten.

Consten höfðaði þá mál gegn UNEF vegna óréttmætra viðskiptahátta og vegna meintra brota gegn vörumerki sínu, GINT. Viðbrögð UNEF voru þau að óska eftir yfirlýsingu frá Framkvæmdastjórn ESB [sem fer með samkeppnismál], þess efnis að samningurinn á milli Grundig og Consten bryti gegn þáverandi 85. gr. Rómarsáttmálans (81. gr. í Treaty of Nice og núverandi 101. gr. í TFEU). Grundig tilkynnti hins vegar samninga sína (sole agency contracts) til framkvæmdastjórnarinnar og sótti um undanþágu samkvæmt sömu lagagrein (3. mgr. 81. gr. í Treaty of Nice).

Með ákvörðun sinni, þann 23. september 1964, lýsti framkvæmdastjórnin því yfir að nefndur samningur (á milli Grundig og Consten), ásamt sérsamningi um GINT vörumerkið, væru brot á 85. gr. Rómarsáttmálans. Taldi framkvæmdastjórnin ekki efni til þess að fallast á undanþágubeiðnina. Að lokum var þess krafist að Grundig og Consten féllu frá öllum ráðstöfunum sem líklegar væru til þess að hindra kaup þriðja aðila, óskaði hann þess, frá heildsölum eða smásölum sem starfandi væru á evrópska efnahagssvæðinu [fékk formlega það nafn árið 1994], á vörum skilgreindum í samningnum og ætlaðar voru til endursölu. Þessum niðurstöðum framkvæmdastjórnarinnar áfrýjuðu Consten og Grundig til Evrópudómstólsins (ECJ). Í stuttu máli staðfesti dómstóllinn (1966) helstu niðurstöður framkvæmdastjórnarinnar.[iii]

Viðurlög við samkeppnisbrotum fara eftir eðli og umfangi brota en oft er beitt sektum (hlutfall af veltu). Þá getur lögbann (injunction) komið til álita ef um er að ræða brot sem talin eru varða við 102. gr. TFEU. Einnig kann að myndast grundvöllur skaðabótakröfu af hálfu þriðja aðila (eins eða fleiri).

Bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu

Í 102. gr. TFEU (áður 82. gr.) er fjallað um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu (Abuse of dominant position/Missbräuchliche Ausnutzung einer beherrschenden Stellung). Þar ber að hyggja að nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi tekur misnotkun til eins eða fleiri fyrirtækja sem hafa markaðsráðandi stöðu. Í öðru lagi er um að ræða markaðsráðandi stöðu á innri markaðinum eða verulegum hluta hans. Í þriðja lagi að misnotkun tengist viðskiptum á milli aðildarríkja. Rétt er að taka fram að markaðsráðandi staða sem slík er ekki andstæð lögum heldur misnotkun hennar.

            Misnotkun sem hér um ræðir felst einkum í eftirfarandi atriðum:

a) að beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða annara ósanngjarnra viðskiptaskilmála;

b) að framleiðsla sé takmörkuð, markaðir eða tækniþróun, til skaða fyrir neytendur;

c) að viðskiptaaðilum sé mismunað og þannig skert samkeppnishæfni þeirra;

d) að gerð samninga sé skilyrt með samþykki gagnaðila á viðbótarskyldum sem, í eðli sínu eða samkvæmt viðskiptavenju, tengjast ekki slíkum samningum.

United Brands

 Í máli nr. 27/76 United Brands Company and United Brands Continental B.V. v Commission of the European Communities (dómur frá 14. febrúar 1978) var fjallað um fjölmörg atriði sem m.a. snerta verð, skilgreiningar á mörkuðum og markaðsráðandi stöðu. Forsendur málsins voru sem hér greinir. Bananar eru sem kunnugt er ræktaðir í hitabeltinu og heittempruðu loftslagi allt árið um kring. Séu þeir tíndir á meðan þeir eru enn þá grænir, og strax settir í kæli, má geyma þá lengi og flytja um langan veg. En áður en neytandinn fær þá í hendur eru bananar meðhöndlaðir á sérstakan hátt. Að þeirri meðhöndlun lokinni verður að koma þeim strax í sölu.

United Brands var stærsti bananaframleiðandi heims á áttunda áratugnum, með um 35% markaðshlutdeild. Átti fyrirtækið um 30.000 hektara plantekrur í Kólumbíu, Kosta Ríka, Honduras og Panama. Þá keypti fyrirtækið nær alla framleiðslu Surinam, Cameroon og Guyana, ásamt stórum hluta framleiðslu frá Jamaica, Guadeloupe, Filippseyja, Ekvador og Dóminíkanska lýðveldisins. United Brands átti meira en 40 frystiskip, margs konar flutninga- og geymslutæki, ásamt því að hafa háþróað dreifingarkerfi í Evrópu og Bandaríkjunum. Á sjöunda áratugnum þróaði fyrirtækið sérstakt afbrigði banana sem síðan voru seldir undir vörumerki "Chiquita". Strangt gæðakerfi og öflugt kynningarstarf gerði mögulegt að selja Chiquita á 30-40% hærra verði en banana sem ekki voru seldir undir sérstöku vörumerki.

Eftir að kvartanir höfðu borist frá mörgum viðskiptavinum United Brands hóf Framkvæmdastjórn ESB málaferli gegn fyrirtækinu, samkvæmt þáverandi 86. gr. Rómarsáttmálans, í mars árið 1975. Var fyrirtækið sakað um misnotkun á markaðsráðandi stöðu [og hindra með því samkeppni] á þeim grundvelli að fyrirtækið krefðist þess af dreifingaraðilum sínum að þeir seldu ekki banana á meðan þeir væru enn grænir. Að fyrirtækið (UB) hefði neitað að selja (refusal to supply) danska fyrirtækinu Olesen eftir að það fyrirtæki tók þátt í markaðsherferð fyrir Dole, samkeppnisaðila United Brands. Að fyrirtækið seldi banana mismunandi dreifingaraðilum, í mismunandi aðildarríkjum (ESB), á mjög mismunandi verði, án gildrar réttlætingar. Enn fremur að fyrirtækið seldi banana til mismunandi viðskiptavina, í mismunandi aðildarríkjum (ESB), á mjög mismunandi verði, án haldbærrar ástæðu.

Í dómi Evrópudómstólsins kemur m.a. fram að svo hægt sé að ákvarða hvort fyrirtækið hafi markaðsráðandi stöðu á bananamarkaðinum sé nauðsynlegt að skilgreina markaðinn bæði út frá sjónarhorni framleiðslu og landfræðilegu sjónarhorni. Þ.e.a.s. horft er til markaðshlutdeildar í framleiðslu viðkomandi vöru en einnig til þess hver staða og markaðshlutdeild er á ákveðnu landsvæði. Fimm þeirra níu ríkja sem þá voru í Evrópusambandinu voru talin mynda "viðkomandi markað" (sbr. relevant market) fyrir banana í málinu.

Markaðsráðandi staða er skilgreind í dóminum (para 65) út frá efnahagslegum styrkleika fyrirtækis sem geri því kleift að hindra virka samkeppni á tilteknum markaði og hegða sér að verulegu leyti óháð samkeppnisaðilum sínum, viðskiptavinum og að lokum óháð neytendum.

Á umræddum framleiðslumarkaði var kannað hvort bananar væru óaðskiljanlegur hluti markaðar með ferska ávexti, vegna þess að neytendur keyptu þá jöfnum höndum á við aðra ávexti svo sem epli, appelsínur, vínber, ferskjur og jarðarber, eða hvort bananar væru ráðandi á viðkomandi markaði (með og án vörumerkja). En við könnun á landfræðilegum markaði var horft til þess hvernig markaðshlutdeild væri í einstökum aðildarríkjum ESB.

Eftir að Evrópudómstóllinn hafði lagt mat á áðurnefnd umkvörtunarefni urðu helstu niðurstöður hans eftirfarandi.

Dómstóllinn úrskurðaði að bann við sölu á grænum banönum væri misnotkun á markaðsráðandi stöðu, þar sem slíkt virkaði í raun sem útflutningsbann (export ban) og hindraði dreifingaraðila í því að selja banana á sínum heimamörkuðum. Að neita að selja (Olesen) var og talið brot á samkeppnislögum. Taldi dómstóllinn að ráðandi framleiðandi gæti ekki löglega skorið þannig á tengsl sín við langtíma viðskiptavin (þótt hann hefði tekið þátt í auglýsingaherferð samkeppnisaðila). Enn fremur varð niðurstaðan sú að sala á mismunandi verði til dreifingaraðila, í mismunandi aðildarríkjum, væri brot á þáverandi c-lið 86. gr. Rómarsáttmálans (sbr. c-lið 102. gr. TFEU). Dómstóllinn taldi gilda réttlætingu skorta fyrir þessari mismunun við verðlagningu sem fæli í sér hindrun á frjálsum vöruviðskiptum (sbr. free movement of goods).

Opinber fyrirtæki

106. gr. TFEU snýr að opinberum fyrirtækjum (public undertakings) og fyrirtækjum sem aðildarríki veita sérstakan rétt eða einkarétt. Sérstaklega skulu aðildarríki forðast ráðstafanir sem stríða gegn 18. gr. sáttmálans (bann við mismunun) sem og greinum 101-109 (sbr. 1. mgr. 106. gr.).

Fyrirtæki sem veita þjónustu sem snertir almenna efnahagslega hagsmuni, eða fá tekjur sínar í skjóli einokunaraðstöðu, falla einnig undir ákvæði Evrópusáttmálanna og evrópskra samkeppnislaga. Ekki má þó beiting reglnanna hindra fyrirtækin í að sinna skyldum sínum og verkefnum.

Reglur um ríkisaðstoð

Um ríkisaðstoð er fjallað í 107. gr. TFEU. Almennt gildir um hana að hvers konar aðstoð sem veitt er af hálfu aðildarríkis eða með ríkisfjármunum á hvaða formi sem er og raskar samkeppni, eða er til þess fallin að raska samkeppni, með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum, eða framleiðslu ákveðinna vara, að því marki sem hún snertir viðskipti milli aðildarríkja, telst ósamrýmanleg innri markaðinum (sbr. 1. mgr. 107. gr.).

Ýmsar undantekningar eru á meginreglunni um bann við ríkisaðstoð. Þar má nefna aðstoð af félagslegum toga sem veitt er einstökum neytendum, að því gefnu að fólki sé ekki mismunað í tengslum við uppruna varanna sem um ræðir. Einnig aðstoð sem veitt er til þess að bæta tjón af völdum náttúruhamfara (sbr. 2. mgr. 107. gr.).

Þá kann ákveðin aðstoð að vera samrýmanleg innri markaðinum. Um er að ræða aðstoð sem veitt er á svæðum þar sem lífskjör eru óeðlilega slök, eða mikið atvinnuleysi er vandamál, til þess að efla efnahagsþróun og lífskjör. Aðstoð sem stuðlar að framkvæmd mikilvægra verkefna, sem snerta samevrópska hagsmuni, eða er til þess fallin að draga úr alvarlegri röskun á hagkerfum aðildarríkja.

Sömuleiðis aðstoð til að greiða fyrir þróun ákveðinnar atvinnustarfsemi, eða tiltekins efnahagssvæðis, þar sem slík aðstoð hefur ekki neikvæð áhrif á viðskiptakjör í þeim mæli að það stríði gegn sameiginlegum hagsmunum. Annars konar aðstoð kann og að vera samrýmanleg innri markaðinum og er þá tilgreind með ákvörðun ráðherraráðsins að tillögu framkvæmdastjórnarinnar (sbr. a-e-lið 3. mgr. 107. gr. TFEU).

Nokkrar slóðir fyrir áhugasama lesendur

http://ec.europa.eu/competition/antitrust/legislation/regulations.html

http://www.reckon.co.uk/open/United_Brands

http://www.efinancialnews.com/story/2012-03-23/deutsche-borse-sues-ec

http://www.germanlawjournal.com/index.php?pageID=11&artID=447

http://europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=MEMO/08/458

http://www.europedia.moussis.eu/books/Book_2/5/15/02/02/?all=1

http://ec.europa.eu/competition/mergers/legislation/merger_compilation.pdf

http://www.out-law.com/page-5811

 

 

 



[i]
 

                Tengist mjög Chicago-skólanum svonefnda.

[ii]      Í tilviki verðsamráðs (svo dæmi sé tekið) er þó vandséð hvernig þetta fær staðist. Verðsamráð er þess eðlis að það beinist gegn neytendum sem þá greiða hærra verð en ella væri.

[iii]     Mál af þessu tagi snerta gjarnan tæknileg atriði sem snúa að "lóðréttum" og "láréttum" samningum, "samhliða innflutningi" (parallel import), hugverkarétti og fleiru.