NÝGENGI FJÁRGLÆFRA-MENNSKU Á ÍSLANDI
Frá aldamótunum 2000 og fram að hruni íslenska efnahagsundursins, árið 2008, mátti greina stóraukið nýgengi fjárglæframennsku á Íslandi. Nýgengið[1] minnkaði nokkuð fyrstu árin eftir hrun en fjárglæframönnum[2] hefur fjölgað mjög á nýjan leik. Er þess að vænta að Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins láti sig málið varða.
Margt bendir til þess að sumt fólk þrói með sér ákveðna „fjárglæframenningu" enda virðast fjárglæfrar ganga meira í sumum fjölskyldum og sumum ættum en öðrum. Það er svo einnig umhugsunarefni hvort fjárglæframennska er líka genatengd að einhverju leyti. En vísindamenn telja sumir að umhverfisþættir í æsku hafi áhrif á gen og þroskun mannsheilans.[3] Það gæti skýrt hvers vegna fjárglæframennska gengur oft mann fram af manni, innan sömu fjölskyldna.
[Maður féll í fjárglæfragildru]
Fjárglæfranna féll í pytt,
ferleg sú er gildra.
Kemur þá í huga hitt,
hegðun meðal skyldra.
Margir eru fjárglæframenn þótt þeir hafi ekki sætt ákæru og vandinn nýgengisins því talsvert falinn. Tölfræðin sýnir hins vegar kærð brot. Vandinn er því í raun meiri en tölfræðin gefur til kynna. Á það við almennt að brot eru oft mun fleiri en fjöldi kæra segir til um. Auk þess sem kæra leiðir ekki ævinlega til ákæru og ákæra ekki ævinlega til sakfellingar fyrir dómstólum.[4]
Árið 2010 er haft eftir Helga Magnúsi Gunnarssyni, hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra, að kærurmálum til embættisins hafi fjölgað frá 2007 til 2009, úr 58 málum í 133.[5]
Stofnun |
Ný mál árið 2011 |
Embætti sérstaks saksóknara[6] |
140 |
Fjármálaeftirlitið |
31 |
Samkeppniseftirlitið |
1 |
Skattrannsóknarstjóri |
165 |
Tollstjóri |
250 |
Samtals |
623 |
Taflan sýnir fjölda skattalaga- og efnahagsbrota sem komu til rannsóknar árið 2011.[7]
Eins og gefur að skilja, er fjárhagslegt tjón þjóðarbúsins verulegt af þessum sökum og byrðar almennings að sama skapi miklar. Því til sönnunar má benda á allmarga dóma íslenskra dómstóla eftir hrun þar sem nýgengi fjárglæfranna er staðfest. Í skýrslu nefndar um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum, og lögð var fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013-2014, segir m.a. svo: „Ljóst er að efnahagsbrot snúast að jafnaði um mun meiri fjárhaglega hagsmuni en aðrar tegundir brota[8] og af því leiðir að þau eru til þess fallin að valda meira tjóni en önnur brot."[9]
Er nú svo komið að þrátt fyrir verulegar gjaldeyristekjur þjóðarbúsins, vegna ferðamanna, eru innviðir samfélagsins allir meira og minna í niðurníðslu. Mikill fjárhagsvandi er í opinbera heilbrigðiskerfinu, á sama tíma og einkaránsfólk sækir í sig veðrið og hyggst stunda „einkarekinn sjúkrahúsrekstur" en láta þó almenning niðurgreiða starfsemina. Almenningi er ætlað að halda uppi „pilsfaldakapítalisma". Enda vilja „pilsfaldakapítalistar" „fyrirsjáanleika" í sínum rekstri, á sama hátt og útgerðarmenn sem hafa rænt kvóta þjóðarinnar og neita að skila honum. Því miður verða stjórnvöld að teljast afar ólíkleg til þess að gæta almannahagsmuna, hvað snertir heilbrigðiskerfi og aðra innviði, enda er ríkisstjórnin skipuð fólki sem einmitt styður einkaránsvæðingu og „pilsfaldakapítalisma" kröftuglega. En fólk skyldi gera sér ljóst að öll slík starfsemi er aldrei almenningi til heilla, heldur þvert á móti til þess hönnuð að færa fé frá almenningi og til einkaránsfólksins. Því fólki má líkja við gráðuga máva á Reykjavíkurtjörn sem allt ætla að gleypa. Það er bókstaflega ekki hægt að sjá það með öðrum augum (nema tala gegn betri vitund).
Þegar raunveruleg samkeppni er til staðar, eins og í millilandaflugi, leggur græðgisfólkið jafnvel til takmarkanir á flugi flugfélaga! Það vekur hins vegar upp áleitnar spurningar um evrópskan samkeppnisrétt. Samkeppni á vel við í flugi, þar sem mörg flugfélög tryggja hagstætt verð fyrir neytendur, en á hins vegar ekkert erindi inn í heilbrigðiskerfið þar sem fer fram gerólík starfsemi og ætti aldrei að vera á forsendum markaðslögmála (og alls ekki pilsfaldakapítalista). Einkaránsfólkið er beinlínis forritað (mætti kalla „gervigreind") með fræðum frjálshyggjunnar sem kennir að „einkarekstur" sé ávalt góður og ríkisrekstur orsök alls hins vonda í heiminum. Stagast síðan á því síendurtekið eins og vélmenni. En í huga einkaránsfólksins skiptir eðli starfseminnar engu máli svo lengi sem hægt er að græða á henni.
Vegakerfið er í svo slæmu ástandi að ráðherra vegamála þarf nýjan Toyota-jeppa til þess að komast leiðar sinnar. Versni ástandið enn verður jeppanum vafalaust breytt hjá Arctic Trucks,[10] frekar en laga vegina. En komist ráðherrann leiðar sinnar eru „allir" ánægðir. „Lausnina" sér hann helst í vegatollum.
Skólar eru fjársveltir og svo mætti áfram telja. Þetta er meðvituð stefna, rekin til þess greiða fyrir einkaránsvæðingu og opna leið fjárglæframanna, á kostnað almennings. Á meðan stefnan er rekin mun nýgengi fjárglæframennskunnar áfram aukast.
Frá aldamótunum 2000, og næstu átta árin, þótti enginn maður raunverulegur þátttakandi í samfélaginu nema hann stundaði fjárglæfra af kappi og skuldaði svo háar upphæðir að aldrei næðist að endurgreiða nema lítið brot. Þekktir frjálshyggjumenn ræddu fjálglega um einkavæðingu [einkaránsvæðingu] og gáfu frat í allt sem kalla mátti menningu. Sumir kváðust jafnvel ekki skilja hugtakið menning og spurðu hvort þar væri átt við „einhverjar sinfóníur og svoleiðis". Á þessum árum náði nýgengi fjárglæframennskunnar nýjum hæðum og jókst í réttu hlutfalli við aukin tækifæri til að stunda hana. Auk þess sem afreglun (deregulation) og eftirlitsleysi jók á vandann.
Nýlega bárust fréttir af afnámi gjaldeyrishafta. Aðgerðin hefur á sér skuggahliðar þótt vissulega gagnist hún lífeyrissjóðum til fjárfestinga erlendis. En afnámið gerir og fjárglæframönnum, innlendum og erlendum, kleift að koma fé úr landi.
[Afnám gjaldeyrishafta]
Saman héldu frændur fund,
fórna bíður dauðinn.
Kvótagreifa kætir stund,
kraka til sín auðinn.
Þá er það tímanna tákn að vogunarsjóðir, og banki með vafasamt orðspor,[11] hafi nú eignast 30% hlut[12] í banka á Íslandi en slíkir sjóðir veðjuðu á hrunið og eignuðust í raun allt íslenska bankakerfið í kjölfarið.[13]
Megin ástæða þess hversu innviðir allir eru fjársveltir á Íslandi er sú að einkaránsfólkið tekur til sín óeðlilega stóran hluta af þjóðarkökunni. Útgerðarmenn fá einokaðan nýtingarrétt á auðlind í þjóðareign gegn algeru málamyndagjaldi, rafmagn til stórnotenda (stóriðju) er selt á undirverði, bankamenn ræna bankana innan frá, á formi bónusa og svo kallaðra „arðgreiðslna", og annað er eftir því. Með öðrum orðum, fjárglæframennskan er svo umfangsmikil að mjög lítið verður eftir til skiptanna handa almenningi á Íslandi. Auður, sem sannarlega tilheyrir íslensku þjóðinni, endar sem þýfi í vösum braskara og fjárglæframanna. Þetta eru vandamálin í hnotskurn og við þau verður vart búið mikið lengur.
Síðan er yfirleitt ekkert að marka loforð stjórnmálamanna fyrir kosningar. Þeir grípa margir fyrsta tækifæri til þess að ganga á bak orða sinna. Gott dæmi er vegaáætlunin sem samþykkt var síðastliðið haust á Alþingi. Lausnin gæti falist í „lögbindingu loforða", þannig að refsivert verði fyrir stjórnmálamenn að svíkja kjósendur. Þeir stjórnmálamenn sem ekki treysta sér til þess að gefa ábyrg loforð og standa við þau (almenningi til heilla en ekki fjárglæframönnum) verða þá væntanlega ekki kosnir.
Hins vegar er mjög líklegt að stjórnmálamenn myndu standa saman í andstöðu við slíka lagabreytingu, með öllum ráðum. En með þessu móti mætti skapa aðhald fyrir ábyrgðarlausa og ófyrirleitna lýðskrumara sem stundum rata inn á hið pólitíska svið, oft í umboði fjárglæframanna, eða tilheyra jafnvel sjálfir þeim hópi.
Nauðsynlegt er að efla forvarnir (efla siðfræðikennslu) og reyna eins og hægt er að draga úr líkum þess að fólk falli í gildru fjárglæfranna með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. Staðan nú bendir því miður til þess að nýgengi fjárglæfranna muni aukast á næstu árum.
[1] Sjá t.d.: Samstarfssamningur FME og saksóknara efnahagsbrota. (13. apríl 2007). FME.
https://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/239
[2] Fjárglæframaður er sá sem á einhvern hátt tengist fjárglæframennsku, hvort sem hann hefur hlotið dóm eða ekki fyrir athæfi sitt.
[3] Sjá t.d. Lenroot RK, Giedd JN. The changing impact of genes and environment on brain development during childhood and adolescence: initial findings from a neuroimaging study of pediatric twins. Development and Psychopathology. 20: 1161-75. PMID 18838036 DOI: 10.1017/S0954579408000552
[4] Sjá einnig 108 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
[5] Fjöldi kærumála tvöfaldaðist á tveimur árum. (15. mars 2010). Visir.is. http://www.visir.is/fjoldi-kaerumala-tvofaldadist-a-tveimur-arum/article/2010699484021
[6] „Embætti sérstaks saksóknara hætti starfsemi í árslok 2015 en það starfaði á árunum 2009-2015 á grundvelli laga um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008." http://www.hersak.is/embaetti-serstaks-saksoknara/
[7] Heimild: Skýrsla nefndar um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum. (Lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013-2014.). https://www.althingi.is/altext/143/s/pdf/0549.pdf
[8] Svartletrun.
[9] Skýrsla nefndar um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum. (Lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013-2014.). https://www.althingi.is/altext/143/s/pdf/0549.pdf
[10] http://www.artictruks.com/
[11] Sjá t.d. http://www.corp-research.org/goldman-sachs
https://hendersonlefthook.wordpress.com/2014/07/04/goldman-sachs-a-criminal-enterprise/
[12] http://www.ruv.is/frett/vidskipti-med-taeplega-30-hlut-i-arion-banka
[13] Sjá t.d. http://www.worldfinance.com/infrastructure-investment/government-policy/failing-banks-winning-economy-the-truth-about-icelands-recovery