Fara í efni

ORKUSTEFNA EVRÓPUSAMBANDSINS

I'm sick and tired of hearing things

From uptight, short-sighted, narrow-minded hypocritics

All I want is the truth

Just give me some truth

- John Lennon -

            Maður er nefndur Øystein Noreng. Hann er prófessor Emeritus í olíuhagfræði og stjórnun við BI Norwegian Business School í Osló. Noreng lauk BA-prófi í sögu og hagfræði, að viðbættri MA-gráðu, frá Háskólanum í Osló [University of Oslo] og síðar doktorsgráðu í stjórnmálafræðum frá háskólanum í París [Sorbonne].

            Í þekktu tímariti um orkumál [Journal of Energy and Development] birtist grein árið 2019 eftir Noreng sem nefnist; EU Energy Union: A Critical View. Þar er velt upp mörgum afar áhugaverðum hliðum á orkustefnu Evrópusambandsins. Verður stuttlega rýnt í skrifin á eftir. Hlutlausa greiningarvinnu hefur sárlega skort af hálfu ráðuneyta um áhrif orkupakka Evrópusambandsins. Einkaframtakið hefur þó bætt úr því s.s. skýrsla Orkunnar okkar og Facebook-síða sem samtökin halda úti.

            Útvarp Saga er nánast eina útvarpsstöðin sem gefið hefur málinu það rými sem það útheimtir, auk þess sem ýmsar greinar hafa birst í Morgunblaðinu um efnið. Þá hefur fyrrverandi ráðherra, Ögmundur Jónasson, verið manna duglegastur að halda uppi vörnum þjóðarinnar og skrifað um það margar greinar, auk fleiri ágætra manna. Þar fyrir utan virðist umfjöllun (fjölmiðla) vera „tómamengi“. Þetta „samsæri“ þagnarinnar var mjög sláandi í aðdraganda innleiðingar orkupakka þrjú. Þá sýndu flestir þingmenn glögglega að þeir verðskulda ekki endurkjör. Slík var meðvirknin og vanhæfnin sem þeir urðu berir að í þingstörfunum.

            Það var helst að skilja á fulltrúum Viðreisnar og Vg að þingmenn Miðflokksins ræddu málið of lengi! Ekki gerðu þó hinir fyrrnefndu neina minnstu tilraun til þess að ræða málið sjálfir af einhverju skynsamlegu viti. Enda kom snemna í ljós að þeir höfðu nákvæmlega ekkert til málanna að leggja. Það má í því ljósi e.t.v. þakka sama fólki fyrir að hafa rænu á að þegja. En þetta fólk hefði þá átt að sleppa líka gagnrýni á hina sem héldu uppi vörnum í málinu. Vitið í þingflokki Viðreisnar og Vg dugði þó ekki til þess, enda takmörkuð auðlind í báðum þingflokkum.

            Það sem komið hefur frá ráðuneytunum um orkupakkana er langmest í formi áróðurs og annað er beinlínis vitleysa. Þar má t.d. nefna þá fráleitu staðhæfingu að fyrirvari við innleiðingu orkupakka þrjú hafi einhver lagaleg áhrif með tilliti til Evrópuréttar. Þessi fyrirvari er til heimabrúks og skiptir engu máli enda er Evrópuréttur ofar rétti einstakra aðildarríkja ESB/EES þegar í odda skerst. Færi slíkt mál fyrir Evrópudómstólinn þarf vart að spyrja að því hver niðurstaðan yrði. Sá dómstóll hefur oft svarað spurningunni með dómum sínum, eða allt frá árinu 1964 í málinu Costa v ENEL.

Markmið og mótsagnir

                  Í upphafsorðum sínum fjallar Noreng um orkumál ESB eins og þau birtast í „hreinleikastefnu“ bandalagsins fyrir alla árið 2018 [Our Vision for a Clean Planet for All]. Áherslan er á orkustefnu og markmið sem tengjast víðtækari pólitískum metnaði, þar sem orkustefnan er notuð til þess að efla samleitni og samþættingu aðildarríkjanna, miðstýrt yfirvald [var það ekki Ari Trausti sem sagðist ekki sjá nein merki um miðstýrt orkubandalag þarna?] og til þess að styrkja Brussel-valdið. Áherslan er á samspil Frakklands og Þýskalands sem sögulega drifkrafta [fólk þekkir sögu kola- og stálbandalagsins].

            Noreng ræðir síðan stefnumótun og afkomu frá fjármálakreppunni [hruninu] 2008-2009 og þau markmið að losun gróðurhúsalofttegunda hafi dregist saman um 85-90% frá árinu 1990 til 2050. Í því ljósi megi segja að orkustefna ESB fjalli að verulegu leyti um loftslag. Metnaðurinn til þess að vera í fararbroddi í hnattrænum orkuskiptum – frá jarðefnaeldsneyti til endurnýjanlegra orkugjafa – byggist á tveimur staðhæfingum:

  1. að loftslagsbreytingar takmarki notkun jarðefnaeldsneytis, þar með talinni olíu og jarðgasi;
  2. að framboð jarðefnaeldsneytis sé takmarkað sem valdi verðhækkun á olíu og jarðgasi.

            Noreng bendir á að þetta tvennt feli í sér mótsögn. Að svo virðist sem stefna ESB gerir ráð fyrir bæði of litlu og of miklu af olíu og jarðgasi. En kenningin um manngerða hlýnun miðast við of mikið framboð jarðefnaeldsneytis, sérstaklega olíu og gass. Takmarkanir eru hins vegar á notkun og eftirspurn, ekki framboði. Ályktað er sem svo að mikil og tímanleg minnkun kolefnis í andrúmslofti muni efla samkeppnishæfni iðnaðar í ESB-ríkjum. Önnur svæði komi síðan í kjölfarið þar sem stefna ESB verði tekin upp. Hugmyndin er sú að með því að hafa forystu fyrir heimsbyggðinni, í vali á endurnýjanlegum orkugjöfum, muni langtímaávinningur yfirvinna skammtímasamdrátt vegna breytinganna og þannig skapa ESB-ríkjum samkeppnisforskot í framtíðinni.[i] Þetta er með öðrum orðum byggt á ákveðnu líkani.

            Kenningin um hámarksolíuframleiðsluna (the peak-oil theory) gerir ráð fyrir því að of lítið sé til af olíu og jarðgasi í heiminum og að hámarksframleiðslu verði náð á ákveðnum tímapunkti. Takmarkanirnar eru á framboði, ekki eftirspurn. Gert er ráð fyrir því að yfirvofandi skortur á olíu og jarðgasi muni gera minnkun kolefnis efnahagslega hagkvæma og fjárfesting í endurnýjanlegum orkugjöfum verði ábatasöm. Verð á olíu og jarðgasi muni hækka að því marki að orka án kolefnis verði samkeppnishæf. Þetta virðist mótsagnakennt. Stefnumótendur ESB veðja óbeint á tvennt: að notkun olíu og gass muni smám saman verða skaðlegri, sökum þess að takmarkað framboð hafi í för með sér verðhækkanir og að áhrifin verði sífellt verri fyrir loftslagið. Noreng bendir á að hvorug þessara fullyrðinga hafi verið sönnuð né afsönnuð og báðar séu vísindalega umdeildar. [Almennt gildir þó að minna framboð leiðir til hærra verðs. Spurningin hlýtur því að snúast um það hvenær kemur að þeim tímapunkti að dregur úr framboði].

            Framtíðarsýnin að baki orku- og loftslagsstefnu ESB hvíli þar af leiðandi á talsverðri óvissu hvað snertir hagkerfið. Í stuttu máli megi segja að magn koldíoxíðs (CO2) sé talið fylgja atvinnustarfsemi, margfölduðu með kolefnisstyrk, samkvæmt formúlu sem á ensku nefnist „Kaya Identity“ [sbr. kolefnisspor] en formúlan er eftirfarandi: F=P*(G/P)*(E/G)*(F/E).[ii]

F = Hnattræn losun kolefnis af mannavöldum

P = Heildarfjöldi jarðarbúa

G = Verg landsframleiðsla heimsins (GDP)

E = Orkunotkun

Þróun raforkuverðs

                  Noreng rekur í grein sinni þróun raforkuverðs í tengslum við orkustefnu Evrópusambandsins. Hann bendir réttilega á það að markmiðin um aukna afhendingu orku og samkeppnishæfni stangast á við raunveruleikann. Það sýnir Noreng m.a. í eftirfarandi töflu þar sem borið er saman verð á rafmagni annars vegar  til iðnaðar og hins vegar til heimila í nokkrum ríkjum innan og utan ESB.

Tafla 1

Verð á rafmagni til iðnaðar og heimila árin 2009 og 2017. Verð í bandaríkjadölum á megavattstund

 

Til iðnaðar

Til heimila

 

2009

2017

2009

2017

Frakkland

107

109

160

187

Þýskaland

140

143

318

344

Ítalía

203

177

291

263

Bretland

134

128

191

206

Japan

158

150

239

227

Bandaríkin

68

69

115

129

            Lesendur sjá fljótlega ákveðið mynstur í þessum tölum. Í fyrst lagi, eins og Noreng tekur fram, er verðið innan ESB ríkjanna um tvöfalt til þrefalt hærra á megavattstund sé miðað við Bandaríkin, hvort heldur er til iðnaðar eða heimila. Þá er ljóst af tölunum að verð á rafmagni til iðnaðar hefur einungis hækkað lítillega þegar þessi tvö ár eru borin saman (2009 og 2017) og litið til Frakklands og Þýskalands sérstaklega.

            Í þessu sambandi vísar Noreng einnig til rannsóknar[iii] sem  framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lét gera um þróun orkuverðs þar sem kemur m.a. fram að byrðarnar við orkustefnu sambandsins falla að stórum hluta á herðar heimila (almennings). Hækkun til heimila í Frakklandi nemur 16.88 %, séu þessi tvö ár borin saman. Í Þýskalandi er hækkunin 8.18 %. Á sama tíma stendur rafmagnsverð til iðnaðar nánast í stað (sjá töflu 1) og lækkar raunar um 12.81 % á Ítalíu. Á sama tíma lækkar þó einnig verið til heimila á Ítalíu um 9.62 %. Sömu ár hefur verð til heimila hins vegar lækkað í Japan um 5 % en hækkað um 12.17 % í Bandaríkjunum.

            Síðar í grein sinni segir Noreng: „Raunar er reynslan ekki aðlaðandi. Sem hluta af orkuskiptum hefur Evrópa viljandi búið sér hæsta raforkuverð í heiminum. Frá fjármálakreppunni 2008–2009 hefur Evrópa búið við minni hagvöxt en nokkur önnur heimsálfa, nema Suðurskautslandið. Evrópa jaðarsetur sjálfa sig, með minnkandi áhrifum efnahagslega, pólitískt og í loftslagsmálum. Gagnrýnendur benda á að franska orkuskiptaverkefnið sé ónýtt, kostnaðarsamt og ósanngjarnt. Það er ástæða þess að stjórnmálamenn ESB reka harða orkustefnu sem er gagnrýnd fyrir að vera hvorki árangursrík né réttlát.“[iv] En þrátt fyrir þetta eru margir íslenskir stjórnmálamenn þeirrar skoðunar að Ísland eigi alveg sérstaklega mikla samleið með Evrópuríkjum í orkumálum! Þó hefur raforkuverð á Íslandi lengi verði með því hagstæðasta sem völ er á. Nú skal því breytt, svo um munar, og almenningur gera svo vel og taka upp budduna og greiða það verð sem greitt er á meginlandi Evrópu. Skoðum því næst mynd af raforkuverði til heimila í Evrópu, frá fyrri helmingi ársins 2020. Gögnin eru frá Eurostat.

Mynd 1

ORKUSTEFNA EVRÓPUSAMBANDSINS

Myndin sýnir raforkuverð (með sköttum) til heimila á fyrri árshelmingi 2020


            Eins og sést á mynd 1 er verðið hæst í Þýskalandi, eða 0.3043 evrur á kílóvattstund. Næst hæst er verðið í Danmörku, 0.2833 evrur á kílóvattstund. Belgía er með þriðja hæsta verðið, 0.2792 evrur, Írland með fjórða hæsta verðið, 0.2413 evrur, Spánn í fimmta sæti með 0.2239 evrur, í sjötta sæti Ítalía, er á líku reki og Spánn með 0.2226 evrur, Bretland í sjöunda sæti með 0.2203 evrur á kílóvattstund. Ísland er þarna í þrítugasta og fyrsta sæti (26. sæti miðað við verð á kílóvattstund) með 0.1341 evru á kílóvattstund.

Með lægra raforkuverð en Ísland eru ríki á Balkanskaga auk Tyrklands, Moldóvu, Georgíu og Úkraínu. Meðalraforkuverð 27 Evrópusambandsríkja er 0.2126 evra á kílóvattstund. Með einföldum prósentureikningi má sjá hversu miklu hærra meðalverð Evrópusambandsríkjanna er miðað við Ísland.

            Þetta verður: 0.2126-0.1341 = 0.0785 > 0.0785/0.1341 = 0.58538 > 100x(0.58538) = 58.538 eða ≈ 58.54 % sé miðað við tölur frá fyrri árshelmingi 2020.

            Meðalraforkuverð í 27 Evrópusambandsríkjum er sem sagt 58.54 % hærra en kílóvattstundin á Íslandi. Hvers vegna telja íslenskir stjórnmálamenn það vera eitt helsta baráttumál sitt að minnka þennan mun á kostnað íslenskra neytenda? Það er dagljóst að stjórnmálamenn ganga auðvitað erinda fjárglæframanna sem ætla sjálfir að nýta sér þennan mismun og stinga í eigin vasa. Þeim er nákvæmlega sama þótt íslenskir neytendur verði að greiða hærra verð – þeim finnst það alveg sjálfsagt og eðlilegt – enda sé málstaðurinn gríðarlega góður og allir verði jú að leggja sitt af mörkum!

            Draumur þessa fólks er að tengjast endanlega innri orkumarkaði Evrópu með sæstreng. En ætla má að óvænt andstaða almennings á Íslandi (og Noregi) gegn þriðja orkupakkanum auk Covid-19 hafi sett strik í reikninginn um lagningu sæstrengs. Það merkir þó alls ekki að þau áform hafi verið lögð á hilluna – öðru nær. Tækninni fleygir fram sem gerir verkefnið æ fýsilegra fyrir ýmsa fjárglæframenn. Hvað finnst þjóðinni sjálfri um þetta? Hvaða stefnu vill hún reka?

Orkupakkar ESB byggja á markaðskerfi, þar sem verði á rafmagni er ætlað að lúta framboði og eftirspurn og fylgja verðsveiflum í kauphöll.[v] Að baki þessu liggur sú trú að ósýnileg samkeppnishönd Adam Smith muni duga betur en aðrar leiðir til þess að halda aga á raforkuverði.[vi] En útkoman er háð mörgum breytum, s.s. stærð markaða, eðli þess sem keypt er og selt, teygni markaða (hversu mikið verð getur hækkað án þess að dragi úr eftirspurn) og fleiri þátta. Eftirspurn er sögð ótegin ef verðhækkun leiðir til óverulega minni eftirspurnar.

.. Þetta merkir að enginn einn seljandi hefur úrslitaáhrif á verðmyndun á viðkomandi markaði. Verð á „fullkomnum samkeppnismarkaði“ fer aldrei yfir jaðarkostnað [marginal cost]. En hugtakið jaðarkostnaður merkir hvað kostar að framleiða hverja „umfram einingu“ af ákveðinni vöru. Ef 10 vínarbrauð kosta 1.500 kr. en 11 vínarbrauð kosta 1.600 kr. þá er jaðarkostnaðurinn 100 kr.[vii] Almennt má segja að „lögmál markaðarins“ eigi ákaflega illa við á Íslandi enda fákeppni og einokun helstu einkenni íslensks markaðar almennt. Það þykir eftirsóknarvert að komast í einokunaraðstöðu í gegnum stjórnmál. Kvótakerfið er gott dæmi um það og nú bætist við orkan og ferðamennskan.

Rafmagn er ekki vara

            Enda þótt rafmagn sé skilgreint sem „vara“ innan Evrópusambandsins þá er engan veginn sjálfgefið að svo sé í raun. Hins vegar er það liður í braskvæðingu rafmagnsins að skilgreina það sem „vöru“ þannig að hægt sé að fella það undir reglugerðir og tilskipanir sem gilda um vöruviðskipti (sbr. free movement of goods). En hvað er rafmagn? Því má á einfaldan hátt svara þannig að það sé flutningur rafeinda (um leiðara, „vír“).

                  Upphafið er atómið. Eins og margir vita eru atóm litlar „agnir“ og grunnbyggingarefni alls staðar í kringum okkur. Atóm[viii] byggjast upp af enn smærri eindum sem kallast róteindir, nifteindir og rafeindir. Þegar raf- og segulkraftar færa rafeindir frá einu atómi í annað verður til rafstraumur. Þetta er ósýnilegt ferli en auðvitað mælanlegt.

Mynd2.JPG

            Mynd 2 sýnir uppbyggingu atóms. Kjarninn er plús-hlaðinn og samanstendur af róteindum (plús-hlaðnar) og nifteindum (án rafhleðslu). Rafeindirnar eru mínus-hlaðnar. Hvaða hugrenningatengsl vekur þetta? Hugtakið „vara“ er örugglega ekki það fyrsta sem fólki kemur til hugar þegar horft er á þessa mynd.

            Sýnileiki er enda ákveðin forsenda þess að hægt sé að kalla fyrirbæri „vöru“ og stunda viðskipti með „vörur“. Eða hvað myndi sá maður eða sú kona segja sem ætlaði að kaupa kaffi í búð en sæi einungis tóma hillu? Fengi síðan það svar í búðinni að kaffið væri samt þarna, það sæist bara ekki! Myndi það ekki skapa ákveðinn vanda? Einhver kynni að spyrja: en hvað þá með lofttegund eins og t.d. bútangas? Ekki er það sýnilegt? Nei, en það hefur eðlisþyngd[ix] og það hefur rúmmál. Ýmsir eiginleikar rafeinda hafa lengi verið þekktir, s.s. massi rafeindar og hleðsla.[x]

            Tæknilega má segja að rafmagn hafi „massa“, þar sem leiðari bætir við sig örlitlum massa við það að rafmagn fer eftir leiðaranum. Á það hefur þó verið bent, að rafmagn hefur massa einungis að sama marki og maður hefur meiri massa gangandi en kyrrstæður.

            Á síðunni StackExchange[xi] má finna afar áhugaverðar umræður um þessi efni. Þar kemur m.a. fram hjá einum þátttakanda að í tilviki lögfræðinnar [sem hann kveðst hafa skoðað sérstaklega] þá skipti eðlisfræðilegir eiginleikar rafmagnsins ekki máli. Þar tiltekur hann t.d. blaðagrein og segir ekki skipta máli út frá lögfræði á hvaða formi greinin sé, hvort hún sé skrifuð á pappír eða á rafrænan máta skipti ekki máli með tilliti til greinarinnar sem slíkrar.

            Þessu verður að mótmæla. Þetta er ekki sambærilegt. Rafmagn sem „vara“ breytir um eiginleika eftir t.d. gerð leiðara, eftir því hvort um er að ræða jafnstraum (DC) eða riðstraum (AC). Það skiptir máli hvort leiðarinn er úr áli, kopar, silfri eða jafnvel gulli (sbr. tölvurásir). Hitastig skiptir og máli. Það er því ljóst að „varan“ rafmagn breytist og lýtur öðrum lögmálum en vörur almennt.

            Eftir stendur að það skiptir víst máli að þekkja til eðlisfræðilegra eiginleika rafmagns þegar kemur að því að skilgreina það (sem „vöru“ fremur en þjónustu). En ágreiningurinn víða hefur helst verið sá hvort flokka beri rafmagn sem „vöru“ eða þjónustu. Síðari skilgreiningin er miklum mun nær lagi. Afar fátt mælir með því að flokka rafmagn sem „vöru“. Að mati greinarhöfundar ætti að skilgreina rafmagn sem hluta innviða.

Skipta þarf um Alþingi

            Íslendingar sem þjóð verða virkilega að opna augun fyrir því hvað orkupakkar ESB fela raunverulega í sér. Þeir færa almenningi stórfellda hækkun raforkuverðs, afsal yfirráða auðlindanna [sbr. fullveldisafsal] og rán fjárglæframanna [„fjárfesta“] á sameiginlegum auðlindum. Ætlar þjóðin virkilega að samþykkja það og veita þeim aftur umboð sitt sem þannig hafa farið með vald sem þeim var trúað fyrir? Þarna gildir að kjósa með „neikvæðum formerkjum“ ef svo má segja. Þ.e.a.s. kjósa ekki þá sem hafa brugðist þjóðinni svo illilega. Hvað á síðan að krossa við munu kjósendur finna út sjálfir. En það einfaldar mjög valið að vita hverja má alls ekki kjósa.

Mynd 3

Mynd3.JPG
                  Mynd 3 sýnir „framtíðar bókarkápu“ og stefnu sem fylgt er þótt ekki sé það sagt beinum orðum. Sú athöfn að styðja gagnrýnislaust upptöku gerða [sbr. Orkupakka þrjú] frá ESB felur auðvitað í sér að Ísland færist nær inngöngu í sambandið. En hráskinnaleikur sömu stjórnmálamanna gengur allur út á það að gera hlutina með annari hendi en neita og banda frá sér með hinni. Hlutirnir eru gerðir (verkin sýna merkin) en því jafnframt neitað að þeir séu gerðir (römm tvíhyggja).

Mynd 4

Mynd4.JPG (1)
            Í stuttu máli, það má alls ekki kjósa neinn núverandi stjórnarflokka, heldur ekki Viðreisn, ekki Pírata og ekki Samfylkingu. Fólk þessara flokka hefur allt brugðist og mun bregðast. Vonandi koma svo fram ný framboð með fólki sem ekki á sér áralanga sögu um svik og vanefndir. Sá sem mögulega kemur inn nýr, í nýju framboði, hefur tækifæri þess að breyta rétt, með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. En þingmaður sem á sér jafnvel áralanga svikasögu mun ekki taka það upp hjá sjálfum sér að breyta rétt. Tækifærið er gengið honum úr greipum og sá þingmaður á að hætta [og helst flokkur hans líka].
                  Mynd 4 sýnir það sem alltaf er yfirvofandi, hvort sem um er að ræða banka í eigu ríkisins, orkufyrirtæki (Landsvirkjun), fasteignir, land eða hvað annað. Tilfærslan er frá almenningi og til þeirra sem vilja njóta gæðanna og mylja undir sínar ættir, á kostnað almennings auðvitað. Þingmenn ákveðinna flokka eru beinlínis á Alþingi til þess að tryggja svona „tilfærslur“, það er þeirra eini raunverulegi tilgangur þar.

            Hér má vitna í orð Dr. William K Black, í viðtali við Bill Moyers þann 3. apríl 2009, þegar hann ræddi einu sinni sem oftar um glæpabanka, kreppur og bandaríska stjórnmálamenn: „These are all people who have failed. Paulson failed, Geithner failed. They were all promoted because they failed,...“.[xii] Í íslenskri þýðingu: „Þessum mönnum hefur öllum mistekist. Paulson mistókst, Geihner mistókst. Þeir fengu stöðuhækkun vegna þess að þeim mistókst,...“. Um þetta má og finna mörg dæmi á Íslandi. Þar hafa þekktir raftar hrunsins verið dregnir á land í fjármálastofnunum og jafnvel gerðir að yfirmönnum þeirra. Það er auðvitað hneykslanlegt og í raun eins og köld vatnsgusa framan í almenning.

            Það ætti að vera orðið löngu fullreynt að flest það fólk sem nú situr á Alþingi, fyrir nefnda flokka sem alls ekki má kjósa, mun áfram hjakka í sama farinu fái það umboð kjósenda til þess. Þá mun þjóðin vakna upp við vondan draum (verri en hina fyrri) þegar öllum hennar auðlindum hefur verið rænt, þær kvótasettar fyrir útvalda sem síðan braska með þær eins og væru einkaeignir.

                  Þá liggur fyrir að það er ekki skilyrði fyrir inngöngu í ESB að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um inngönguna. Þingið getur með öðrum orðum „troðið inngöngu ofan í kokið á þjóðinni“ [eins og orkupakka þrjú] og meðhöndlað sem sitt einkamál. Fyrr má nú vera „umburðarlyndið“ ef þjóðin ætlar að líða þetta lengur! Er ekki rétt að gefa þessu fólki sem mestu hefur ráðið mjög langt frí?

[i]          Noreng, Ø. (2019). EU Energy Union: A Critical View. Journal of Energy and Development, 44(2), 197-235.

[ii]         Sjá einnig: https://www.actuaries.org.uk/system/files/field/document/Kaya%20identity_JC%20Final%20050219.pdf

[iii]        K. Rademaekers, M. Smith, J. Yearwood, Y. Saheb, J. Moerenhout, K. Pollier, N. Debrosses, T. Badouard, A. Peffen, H. Pollitt, S. Heald, and M. Altman, Study on Energy Prices, Costs and Subsidies and Their Impact on Industry and Households (Rotterdam: Trinomics, 2018).

           https://ec.europa.eu/energy/sites/ener/files/documents/energy_prices_and_costs_-_final_report_-_annexes_v12.3.pdf

[iv]        Noreng, Op. cit.

[v]         Sjá einnig: IRENA (2019) Renewable energy auctions: Status and trends beyond price, International Renewable Energy Agency, Abu Dhabi. https://www.irena.org/-/media/Files/IRENA/Agency/Publication/2019/Dec/IRENA_RE-Auctions_Status-and-trends_2019.pdf

[vi]        Sjá enn fremur: Market Power Barriers to Competition. (2008). FindLaw. https://corporate.findlaw.com/litigation-disputes/market-power-barriers-to-competition.html

[vii]       Jones, A. and Sufrin, B. (2000). EC Competition Law - Text, Cases, and Materials. OUP, p. 6.

[viii]      Sjá einnig: Yirka, B. (2019). A new way to measure gravity: Using floating atoms. Phys.org. https://phys.org/news/2019-11-gravity-atoms.html

[ix]        Sjá t.d.: Engineering ToolBox, (2003). Gases - Specific Gravities. [online] Available at: https://www.engineeringtoolbox.com/specific-gravities-gases-d_334.html [Accessed 31 January. 2021].

[x]         Sjá t.d.: Discovery of the Parts of the Atom: Electrons and Nuclei. Lumen. https://courses.lumenlearning.com/physics/chapter/30-2-discovery-of-the-parts-of-the-atom-electrons-and-nuclei/

[xi]        Does 'electricity' have mass? Is 'electricity' tangible? StackExchange. https://physics.stackexchange.com/questions/2188/does-electricity-have-mass-is-electricity-tangible

[xii]       Sjá: https://www.pbs.org/moyers/journal/04032009/transcript1.html