Fara í efni

ÓSJÁLFSTÆÐIR ALÞINGISMENN

“Our society is run by insane people for insane objectives. I think we’re being run by maniacs for maniacal ends and I think I’m liable to be put away as insane for expressing that. That’s what’s insane about it.”

- John Lennon -

            Eftir atkvæðagreiðslu á Alþingi, 2. september, er staðfest að þingmenn ganga ekki erinda umbjóðenda sinna, kjósenda, heldur stunda þrönga sérhagsmunagæslu. En það ber að þakka þeim sem sýndu kjark og greiddu atkvæði gegn þriðja orkupakkanum. Það er ætíð fyrirhafnarmeira að setja sig inn í mál, og beita eigin dómgreind, en að falla í gryfju meðvirkninnar með valdinu og hjarðmennskunni.

            Tvíhyggja er hugtak sem fyrst kemur í hugann þegar rýnt er í „rök“ stuðningsmanna orkupakkans. Sama fólk telur að það sé hægt að innleiða reglugerðir og tilskipanir evrópsks réttar, sem hafa fullt lagagildi á Íslandi, en jafnframt hafa áfram fullt vald á sama sviði samkvæmt íslenskum lögum. Þetta er óleysanleg mótsögn. Það er raunar algerlega óskiljanlegt hvernig fullorðið fólk getur boðið þjóð sinni upp á svona málflutning. Að finna skýringar á því er líklega helst á færi sálfræðinga. Þeir mættu gjarnan um leið kanna annað atriði í sömu rannsókn; nefnilega það hvernig sumir þingmenn, í Vg og öðrum flokkum, geta komist á öndverða skoðun á skammri stundu – snúast eins og vindurinn.

Mál sem bera þarf upp í ríkisráði

            Eins og fram kemur í 2. mgr. 16. gr. stjórnarskrár Íslenska lýðveldisins skal bera lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir upp fyrir forseta í ríkisráði. Í 5. gr. starfsreglna ríkisráðs [Tilskipun um starfsreglur ríkisráðs] eru talin þau atriði sem bera skal upp í ríkisráði. Upptalningin er þó ekki tæmandi. Í leiðbeiningum og skýringum forsætisráðuneytisins frá 1993 um meðferð mála í ríkisráði segir m.a.:

            „Til annarra mikilvægra stjórnarráðstafanna er eðlilegt að telja tillögur til þingsályktunar sem lagðar eru fram af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við framlagningu slíkrar þingsályktunartillögu yrði því að gæta sömu reglna og gilda um framlagningu stjórnarfrumvarpa,[i] sbr. 25. gr. stjórnarskrárinnar...“.[ii]

           Það sýnist ljóst að kjósi forseti lýðveldisins að standa með þjóðinni, gegn ofríki fámennisklíkunnar á Alþingi, þá er hann í færum til þess. Það væri best gert með því móti að synja staðfestingu á öllu sem viðkemur þriðja orkupakkanum og lagabreytingum sem honum tengjast. Fámennisklíkan á í harðsvíraðri hagsmunabaráttu, með fjárglæframönnum, gegn meirihluta kjósenda á Íslandi. Það er raunveruleg staða málsins. Meðvirkni með valdinu fær ekki breytt þeirri staðreynd.

[i]      Svartletrun mín.

[ii]    Meðferð mála í ríkisráði. Leiðbeiningar og skýringar. (1993). https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/einfaldaraisland/Medferd-mala-i-rikisradi.pdf