Fara í efni

STÓRA RÁNIÐ UNDIRBÚIÐ - FRAMHALDSUMRÆÐA FIMM - RAFORKUTILSKIPUN 2019/944 ESB - ORKUPAKKI 4

            Í síðustu grein var endað á 40. gr. raforkutilskipunar 2019/944 ESB, sem er hluti fjórða orkupakkans, en tilskipun þessi er alls 74 lagagreinar. Verður nú þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið. Í 41. gr. tilskipunarinnar er fjallað um trúnaðar- og gagnsæiskröfur gagnvart flutningskerfisstjórum og eigendum flutningskerfa.

            Þar segir í 1. mgr. 40. gr. að með fyrirvara um 55. gr. eða aðra lagaskyldu til upplýsingagjafar skuli sérhver flutningskerfisstjóri, og hver eigandi flutningskerfis, gæta trúnaðar um viðkvæmar viðskiptalegar upplýsingar sem fást við rekstur starfseminnar og koma í veg fyrir að upplýsingar um eigin starfsemi, sem haft geta þýðingu í atvinnuskyni, séu gerðar opinberar þannig að feli í sér mismunun.

            Sérstaklega skal ekki láta öðru hlutum fyrirtækja í té neinar viðskiptalegar upplýsingar, nema slík upplýsingagjöf sé nauðsynleg til þess að eiga viðskipti. Til að tryggja að fullu reglur um sundurliðun upplýsinga, skulu aðildarríkin sjá til þess að eigandi flutningskerfis og aðrir hlutar fyrirtækisins noti ekki sameiginlega þjónustu, svo sem sameiginlega lögfræðiþjónustu, ef frá er talin stjórnsýslu- eða upplýsingatækni.

            Samkvæmt 2. mgr. mega flutningskerfisstjórar ekki misnota viðskiptalegar upplýsingar, í tengslum við sölu eða kaup á raforku af tengdum fyrirtækjum, sem fengnar eru frá þriðja aðila, þegar samið er um aðgang að kerfi.

            Upplýsingar, sem nauðsynlegar eru fyrir skilvirka samkeppni og skilvirkan markað, skulu gerðar opinberar. Ekki skal sú skylda hafa áhrif á varðveislu trúnaðar um viðkvæmar viðskiptalegar upplýsingar. (3. mgr.).

            Í 42. gr. er fjallað um ákvörðunarvald um tengingar nýrra rafstöðva og orkugeymslna við flutningskerfi. Þar segir í 1. mgr. að flutningskerfisstjóri skuli koma á og birta gagnsætt og skilvirkt verklag vegna tenginga nýrra rafstöðva og orkugeymslna, án mismununar, við flutningskerfið. Málsmeðferðin skal háð samþykki eftirlitsyfirvalda.

             Ekki skal flutningskerfisstjóri hafa rétt til þess að synja um tengingar rafstöðva eða orkugeymslna á grundvelli mögulegra framtíðar takmarkana á raforkuneti, svo sem minnkaðri burðargetu (congestion) í fjarlægum hlutum flutningskerfisins. Flutningskerfisstjóri skal leggja fram nauðsynlegar upplýsingar um þetta.

            Eftirlitsyfirvöld skulu sjá til þess að allar takmarkanir á tryggri tengigetu, eða rekstrartakmarkanir, séu settar á grundvelli gagnsærra aðferða og jafnræðis og skapi ekki óeðlilegar hindranir á markaðsaðgangi. Þegar rafstöð eða orkugeymsla bera kostnað við ótakmarkaða tengingu skal engin takmörkun eiga við. (2. mgr. 42. gr.).

            Ekki skal flutningskerfisstjóra heimilt að hafna nýjum tengingum á þeim forsendum að þær myndu leiða til viðbótarkostnaðar, sem stafar af nauðsynlegri afkastaaukningu raforkukerfis vegna tengingarinnar.

  • Aðgreining flutningskerfa og flutningskerfisstjóra

            Er þá komið að kafla VI, bálki 1, í tilskipuninni en þar er fjallað um aðgreiningu flutningskerfa og flutningskerfisstjóra (unbundling of transmission systems and transmission system operators). Í 1. mgr. 43. gr. segir að:

(a) sérhvert fyrirtæki sem á flutningskerfi starfar sem flutningskerfisstjóri [á Íslandi Landsnet];

(b) sami aðili eða aðilar hafa ekki:

(i) yfirráð, bein eða óbein, yfir fyrirtæki sem sinnir því hlutverki að framleiða eða veita, eða fara með stjórn, beint eða óbeint, eða hafa rétt yfir flutningskerfisstjóra eða yfir flutningskerfi; eða

(ii) með beinum eða óbeinum hætti yfirráð yfir flutningskerfisstjóra eða yfir flutningskerfi, og beint eða óbeint yfirráð til að fara með stjórn eða beita rétti yfir fyrirtæki sem sinnir hlutverki framleiðslu eða veitustarfsemi;

(c) rétt til að skipa stjórnarmenn í yfirstjórn, stjórn eða stofnanir sem eru lögmætir fulltrúar flutningskerfisstjóra eða flutningskerfis, og beint eða óbeint til að fara með stjórn eða nýta einhvern rétt yfir fyrirtæki sem fer með hlutverk framleiðslu eða veitustarfsemi; og

(d) rétt til að eiga sæti í yfirstjórn, stjórn eða stofnunum sem eru lögmætir fulltrúar fyrirtækisins, bæði fyrirtækis sem sinnir einhverjum hluta framleiðslu eða veitum og flutningskerfisstjóra eða flutningskerfi.

            Í 2. mgr. 43. gr. segir síðan að réttindin, sem um getur í b- og c-lið 1. mgr., skuli einkum innihalda:

(a) vald til þess að nýta atkvæðisrétt;

(b) vald til að skipa stjórnarmenn í yfirstjórn, stjórn eða þá aðila sem eru lögmætir fulltrúar fyrirtækis; eða

(c) meirihluta eignarhlut.

            Í 3. mgr. segir að hvað snertir b-lið 1. mgr. skuli hugtakið „fyrirtæki sem sinnir einhverju hlutverki í framleiðslu eða veitustarfsemi“ fela í sér „fyrirtæki sem sinnir einhverju hlutverki í framleiðslu og veitustarfsemi“ í skilningi tilskipunar 2009/73/ESB og hugtökin „flutningskerfisstjóri“ og „flutningskerfi“ skuli fela í sér „flutningskerfisstjóra“ og „flutningskerfi“ í skilningi þeirrar tilskipunar.

            Í 4. mgr. kemur fram að skyldunni, sem sett er fram í a-lið 1. mgr., telst fullnægt þegar tvö eða fleiri fyrirtæki, sem eiga flutningskerfi, hafa stofnað til sameiginlegs rekstrar [joint venture] sem þjónar sem flutningskerfisstjóri í tveimur eða fleiri aðildarríkjum, fyrir flutningskerfin sem um ræðir. Ekkert annað fyrirtæki má vera hluti af hinum sameiginlega rekstri nema að það hafi verið samþykkt samkvæmt 44. gr. sem sjálfstæður kerfisstjóri eða sem sjálfstæður flutningskerfisstjóri í skilningi 3. bálks tilskipunarinnar [Independent transmission operators].

            Í 5. mgr. 43. gr. segir að við innleiðingu (implementation) þessarar greinar, þar sem sá sem um getur í b-, c- og d-lið 1. mgr. er aðildarríki eða annar opinber aðili, þegar tveir aðskildir opinberir aðilar sem fara með yfirráð yfir flutningskerfisstjóra eða flutningskerfi annars vegar, og yfir fyrirtæki sem sinnir einhverjum hluta framleiðslu eða veitustarfsemi hins vegar, þá skal það ekki teljast sami einstaklingurinn eða einstaklingarnir.

            Samkvæmt 6. mgr. skulu aðildarríkin sjá til þess að hvorki viðskiptalega viðkvæmar upplýsingar, og vísað er til undir 41. gr., í vörslu flutningskerfisstjóra sem var hluti af lóðrétt-samþættu fyrirtæki, starfsfólk slíkra flutningskerfisstjóra, séu fluttar til fyrirtækja sem gegna einhverju hlutverki í framleiðslu og veitu rafmagns.

            Í 7. mgr. segir að ef flutningskerfið tilheyrir lóðrétt-samþættu fyrirtæki, þann 3. september 2009, geti aðildarríki ákveðið að beita ekki 1. mgr. Í þeim tilvikum skal hlutaðeigandi aðildarríki annað hvort:

(a) tilnefna sjálfstæða kerfisstjóra í samræmi við 44. gr.; eða

(b) uppfylla ákvæði bálks 3.

            Ef flutningskerfið tilheyrir lóðrétt-samþættu fyrirtæki, þann 3. september 2009, og fyrirkomulag til staðar sem tryggir meira sjálfstæði flutningskerfisstjóra en bálkur 3 gerir ráð fyrir, getur aðildarríki ákveðið að beita ekki 1. mgr. (8. mgr. 43. gr.).

            Í 9. mgr. segir að áður en fyrirtæki er samþykkt og útnefnt sem flutningsfyrirtæki (flutningskerfisstjóri) skv. 8. mgr. þessarar greinar skuli það vottað í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 4., 5., og 6. mgr. 52. gr. tilskipunar þessarar og 51. gr. reglugerðar 2019/943 ESB, en samkvæmt henni skal framkvæmdastjórn ESB sannreyna að fyrirkomulagið sem er til staðar tryggi greinilega virkara sjálfstæði flutningskerfisstjóra en bálkur 3 í þessum kafla.

            Samkvæmt 10. mgr. 43. gr. skulu lóðrétt-samþætt fyrirtæki sem eiga flutningskerfi ekki hindruð í því gera ráðstafanir í samræmi við 1. mgr.

            Fyrirtæki sem sinna að einhverju marki hlutverki rafmagnsframleiðslu og veitustarfsemi skulu aldrei geta, beint eða óbeint, tekið stjórn yfir eða nýtt einhvern rétt yfir aðgreindum [unbundled] flutningskerfisstjórum í aðildarríkjunum sem beita 1. mgr.

  • Sjálfstæðir kerfisstjórar

            Í bálki 2, 44. gr. er rætt um sjálfstæða kerfisstjóra. Í 1. mgr. 44. gr. kemur fram að ef flutningskerfið tilheyrir lóðrétt-samþættu fyrirtæki, þann 3. september 2009, geta aðildarríkin ákveðið að beita ekki 1. mgr. 43. gr. og tilnefna sjálfstæða kerfisstjóra að tillögu eiganda flutningskerfisins. Slík tilnefning skal háð samþykki framkvæmdastjórnarinnar.

            Í 2. mgr. segir að aðildarríki geti samþykkt og tilnefnt sjálfstæða kerfisstjóra, að því tilskildu að:

(a) hann hafi sýnt fram á að kröfurnar sem mælt er fyrir um í b-, c- og d-lið 1. mgr. 43. gr. hafi verið uppfylltar;

(b) hann hafi sýnt fram á nauðsynlegar fjárhagslegar, tæknilegar og efnislegar forsendur, ásamt mannauð til þess að sinna verkefnum sínum skv. 40. gr.

(c) hann hefur tekið að sér að fylgja tíu ára áætlun um netuppbyggingu sem eftirlitsstofnun hefur eftirlit með;

(d) eigandi flutningskerfisins hefur sýnt fram á burði sína til að standa við skuldbindingar sínar skv. 5. mgr. Í því skyni skal hann afhenda nýjum rekstraraðila (candidate operator) og öðrum viðeigandi aðilum öll drög að samningum; og

(e) hinn nýi rekstraraðili hefur sýnt fram á burði sína til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/943, þar með talið samstarf flutningskerfisstjóra á evrópskum og svæðisbundnum vettvangi.

            Í 3. mgr. 43. gr. segir að fyrirtæki sem uppfylla kröfur samkvæmt 53. gr. og  2. mgr. 43. gr., og hafa hlotið vottun eftirlitsyfirvalda vegna þess, skulu samþykkt og tilnefnd sem sjálfstæðir kerfisstjórar aðildarríkja. Þar gildir vottunaraðferð annað hvort samkvæmt 52. gr. þessarar tilskipunar [2019/944] og samkvæmt 51. gr. reglugerðar ESB 2019/943 EÐA samkvæmt 53. gr. þessarar tilskipunar.

            Samkvæmt 4. mgr. 43. gr. skal sérhver óháður kerfisstjóri vera ábyrgur fyrir veitingu og stjórnun aðgangs þriðja aðila, þ.m.t innheimtu aðgangsgjalda, gjalda vegna minnkaðrar burðargetu[i] (congestion) og greiðslum samkvæmt jöfnunarkerfi[ii] kerfisstjóra (inter-transmission system operator compensation mechanism) í samræmi við 49. gr. reglugerðar ESB 2019/943, svo og til reksturs, viðhalds og þróunar flutningskerfis og til að tryggja langtíma getu kerfisins til að mæta sanngjarnri eftirspurn með fjárfestingarskipulagi.

            Við þróun flutningskerfisins skal óháður kerfisstjóri bera ábyrgð á skipulagningu (þ.m.t. vegna leyfa), smíði og því að taka í gagnið nýja innviði. Í þessu skyni skal óháður kerfisstjóri starfa sem flutningskerfisstjóri í samræmi við þennan bálk. Ekki skal eigandi flutningskerfisins bera ábyrgð á veitingu og stjórnun aðgangs þriðja aðila né fjárfestingaráætlun.

            Þegar óháður kerfisstjóri, samkvæmt 5. mgr., hefur verið tilnefndur skal eigandi flutningskerfis:

(a) hafa nauðsynlega samvinnu og veita óháðum kerfisstjóra stuðning við framkvæmd verkefna sinna, þar með einkum taldar allar viðeigandi upplýsingar;

(b) fjármagna fjárfestingar, sem óháður kerfisstjóri ákveður og samþykktar eru af eftirlitsyfirvöldum, eða veita samþykki sitt til fjármögnunar af hálfu annara hagsmunaaðila, þ.m.t. óháðum kerfisstjórum. Viðkomandi fyrirkomulag fjármögnunar skal háð samþykki eftirlitsyfirvalda. Áður en slíkt fyrirkomulag er samþykkt skulu eftirlitsyfirvöld hafa samráð við eiganda flutningskerfisins og aðra hagsmunaaðila;

(c) kveða á um ábyrgð vegna eigna netkerfis, að undanskilinni ábyrgð sem tengist verkefnum óháðs kerfisstjóra; og

(d) veita ábyrgðir til að auðvelda fjármögnun allra stækkana raforkunets, að undanskildum þeim fjárfestingum þar sem hann hefur, samkvæmt b-lið, veitt samþykki sitt fyrir fjármögnun allra hagsmunaaðila þar á meðal óháðs kerfisstjóra.

            Í 6. mgr. 44. gr. segir að samkeppnisyfirvöldum skuli, í nánu samstarfi við eftirlitsyfirvöld, veittar allar viðeigandi heimildir til þess að fylgjast með því að eigandi flutningskerfis uppfylli skyldur sínar samkvæmt 5. mgr.

  • Aðgreining eigenda flutningskerfa

            Um aðgreiningu (unbundling) eigenda flutningskerfa er rætt í 1. mgr. 45. gr. umræddrar tilskipunar. Þar segir að þegar óháður kerfisstjóri hefur verið skipaður, skuli eigandi flutningskerfis, sem er hluti af lóðrétt-samþættu fyrirtæki, vera óháður að minnsta kosti hvað varðar lögform, skipulag og ákvarðanatöku vegna annarrar starfsemi sem ekki tengist flutningi.

            Í 2. mgr. segir að til þess að tryggja sjálfstæði flutningskerfiseiganda, sem um getur í 1. mgr., gildi eftirfarandi lágmarksviðmiðanir:

(a) þeir sem bera ábyrgð á stjórnun eigenda flutningskerfis [stjórnendur Landsnets í tilviki Íslands] mega ekki taka þátt í fyrirtækjaskipan samþætts raforkufyrirtækis sem ber, beint eða óbeint, ábyrgð á daglegum rekstri framleiðslu, dreifingu og afhendingu raforku;

(b) gera skal viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að tekið sé tillit til faglegra hagsmuna þeirra sem ábyrgð bera á stjórnun eigenda flutningskerfis, á þann hátt sem tryggir að þeir séu færir um að starfa sjálfstætt; og

(c) eigandi flutningskerfisins skal koma á laggirnar áætlun, þar sem settar eru fram ráðstafanir sem hindra mismunun og tryggja að nægilegt eftirlit sé haft með því. Áætlunin skal innihalda sérstakar skyldur starfsmanna til að ná þessum markmiðum. Ársskýrsla, sem tilgreinir ráðstafanir sem gerðar hafa verið, skal lögð fram af þeim aðila eða stofnun sem ábyrgð ber á eftirfylgni með áætluninni, til eftirlitsyfirvalda og skal skýrslan birt.

            Í bálki 3, 46. gr., eru til umfjöllunar sjálfstæðir rekendur flutningskerfa. Segir í 1. mgr. að flutningskerfisstjórar skuli hafa yfir að ráða öllum mannauði, tæknilegum, líkamlegum og fjárhagslegum úrræðum sem nauðsynleg eru til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun og annast raforkuflutning, einkum:

(a) eignir sem nauðsynlegar eru vegna raforkuflutnings, þ.m.t. eignir flutningskerfisins, skulu vera í eigu flutningskerfisstjóra;

(b) starfsmenn, sem nauðsynlegir eru vegna starfsemi raforkuflutnings, þ.m.t. til að sinna öllum verkefnum fyrirtækis, skulu vera starfsmenn flutningskerfisstjóra;

(c) útleiga á starfsfólki og veiting þjónustu, til og frá öðrum hlutum lóðrétt-samþætta fyrirtækisins, er bönnuð. Flutningskerfisstjóri getur þó veitt þjónustu við lóðrétt-samþætt fyrirtæki, að því tilskildu að:

(i) með þjónustunni sé ekki mismunað á milli kerfisnotenda, hún sé öllum kerfisnotendum aðgengileg á sömu kjörum og takmarki ekki, raski eða komi í veg fyrir samkeppni í framleiðslu eða framboði; og

(ii) skilmálar og skilyrði fyrir veitingu þessara þjónustu séu samþykktir af eftirlitsyfirvöldum;

(d) viðeigandi fjármögnun til framtíðar fjárfestingarverkefna og/eða til þess að skipta út eignum, með fyrirvara um ákvarðanir eftirlitsstofnunar skv. 49. gr., skal vera tiltæk fyrir flutningskerfisstjórann á tilsettum tíma af hálfu lóðrétt-samþætts fyrirtækis, eftir viðeigandi beiðni frá flutningskerfisstjóra hefur borist.

            Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. skal starfsemi raforkuflutninga fela í sér að minnsta kosti eftirfarandi verkefni til viðbótar þeim sem talin eru upp í 40. gr.:

(a) fyrirsvar flutningskerfisstjóra og tengiliði við þriðju aðila og eftirlitsstofnanir;

(b) fyrirsvar flutningskerfisstjóra innan ENTSO[iii] fyrir rafmagn;

(c) að veita og stjórna aðgangi þriðja aðila, án mismununar, milli kerfisnotenda eða flokka kerfisnotenda;

(d) innheimtu allra gjalda vegna flutningskerfis, þ.m.t. aðgangsgjöld, orku vegna taps og viðbótarþjónustugjöld;

(e) rekstur, viðhald og þróun á öruggu, skilvirku og hagkvæmu flutningskerfi;

(f) fjárfestingaráætlun sem tryggir langtíma getu kerfis til að mæta eðlilegri eftirspurn og tryggja afhendingaröryggi;

(g) að koma á fót viðeigandi sameiginlegum verkefnum, þ.m.t. með einum eða fleiri flutningskerfisstjórum, orkumörkuðum (power exchanges[iv]) og öðrum hlutaðeigandi aðilum sem sækjast eftir því að þróa og mynda svæðisbundna markaði eða auðvelda opnun markaða [liberalisation process]; og

(h) alla fyrirtækjaþjónustu, þ.m.t. lögfræðiþjónusta, endurskoðun og upplýsingaþjónusta.

            Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. skulu flutningskerfisstjórar eiga með sér lögformlegt félag sem um getur í I. viðauka við tilskipun ESB 2017/1132 af Evrópuþinginu og ráðinu.

            Flutningskerfisstjóri skal ekki, í auðkennum fyrirtækis síns, samskiptum, vörumerkjum og á athafnasvæði, skapa rugling hvað varðar aðgreind auðkenni lóðrétt-samþætts fyrirtækis eða nokkurs hluta þess. (4. mgr. 46. gr.).

            Flutningskerfisstjóri skal heldur ekki deila upplýsingakerfi eða búnaði, hluta húsnæðis og öryggisaðgangskerfi með neinum hluta lóðrétt-samþætts fyrirtækis, né nota sömu ráðgjafa eða utanaðkomandi verktaka fyrir upplýsingakerfi eða búnað og öryggisaðgangskerfi. (5. mgr. 46. gr.).

            Samkvæmt 6. mgr. 46. gr. skulu reikningar flutningskerfisstjóra endurskoðaðir af öðrum endurskoðanda en þeim sem hefur endurskoðun lóðrétt-samþætts fyrirtækis, eða einhvers hluta þess, með höndum.

  • Sjálfstæði flutningskerfisstjóra

            Um sjálfstæði flutningskerfisstjóra er fjallað í 47. gr. tilskipunarinnar. Í 1.mgr. hennar segir að með fyrirvara um ákvarðanir eftirlitsstofnunar skv. 49. gr. skuli flutningskerfisstjóri hafa:

(a) virkan ákvörðunarrétt, óháð lóðrétt-samþættu fyrirtæki, með tilliti til eigna sem nauðsynlegar eru til reksturs, viðhalds eða þróunar flutningskerfis; og

(b) vald til að afla fjár á fjármagnsmarkaði, einkum með lántökum og fjármagnsaukningu.

            Flutningskerfisstjóri skal ávallt starfa þannig að tryggt sé að hann hafi bjargir sem þarf fyrir eðlilega og skilvirka flutningsstarfsemi og þróa og viðhalda skilvirku, öruggu og hagkvæmu flutningskerfi. (2. mgr. 47. gr.).

            Dótturfélög lóðrétt-samþætts fyrirtækis, sem annast framleiðslu eða veitustarfsemi, skulu ekki eiga neina beina eða óbeina eignarhluti í fyrirtæki flutningskerfisstjóra. Fyrirtæki flutningskerfisstjóra skal hvorki eiga beina né óbeina eignarhluti í einhverju dótturfélagi lóðrétt-samþætta fyrirtækisins sem sinnir framleiðslu eða veitustarfsemi, né fá arð eða annan fjárhagslegan ávinning af því dótturfélagi. (3. mgr. 47. gr.).

            Heildarstjórnun og samþykktir flutningskerfisstjóra skulu tryggja virkt sjálfstæði fyrirtækis hans í samræmi við þennan bálk [bálk 3]. Lóðrétt-samþætt fyrirtæki skal ekki ákvarða, beint eða óbeint, samkeppnishegðun flutningskerfisstjórans, í tengslum við daglega starfsemi hans og stjórnun raforkunets, eða í tengslum við starfsemi sem nauðsynleg er vegna undirbúnings tíu ára kerfisþróunaráætlunar skv. 51. gr. (4. mgr. 47. gr.).

            Í 5. mgr. segir að við framkvæmd verkefna sinna skv. 40. gr. og 2. mgr. 46. gr. þessarar tilskipunar og til þess að uppfylla skyldur sem settar eru fram í 16., 18., 19. og 50. gr. reglugerðar ESB 2019/943 [einnig hluti af fjórða orkupakkanum], skuli flutningskerfisstjórar ekki mismuna milli einstaklinga eða aðila og ekki takmarka, raska eða koma í veg fyrir samkeppni í framleiðslu eða veitustarfsemi.

            Samkvæmt 6. mgr. skulu öll viðskiptaleg og fjárhagsleg samskipti milli lóðrétt-samþætts fyrirtækis og flutningskerfisstjóra, þ.m.t. lán frá flutningskerfisstjóra til lóðrétt-samþætts fyrirtækis, vera í samræmi við markaðsskilyrði. Flutningskerfisstjóri skal halda ítarlegar skrár um slík viðskiptatengsl, og fjárhagsleg samskipti, og hafa skrárnar aðgengilegar fyrir eftirlitsyfirvöld, sé þess óskað.

            Flutningskerfisstjóri skal leggja fyrir eftirlitsyfirvöld til samþykkis alla viðskiptalega- og fjárhagslega samninga við lóðrétt-samþætt fyrirtæki. (7. mgr. 47. gr.).

            Flutningskerfisstjóri skal upplýsa eftirlitsstofnun um fjárhagslegar bjargir, sem um getur í d-lið 1. mgr. 46. gr., sem til ráðstöfunar eru fyrir framtíðar fjárfestingarverkefni og/eða til þess að skipta út eignum. (8. mgr. 47. gr.)

            Lóðrétt-samþætt fyrirtæki skal forðast allt sem hindrar eða kemur í veg fyrir að flutningskerfisstjóri uppfylli skyldur sínar í þessum kafla. Sú kvöð skal ekki lögð á flutningskerfisstjóra að hann óski leyfis frá lóðrétt-samþættu fyrirtæki til þess að uppfylla þessar skyldur. (9. mgr. 47. gr.).

            Samkvæmt 10. mgr. 47. gr. skal fyrirtæki sem hefur verið vottað af eftirlitsyfirvöldum, í samræmi við kröfur þessa kafla, samþykkt og tilnefnt sem flutningskerfisstjóri af hlutaðeigandi aðildarríki. Vottunaraðferðin, samkvæmt annað hvort 52. gr. þessarar tilskipunar og 51. gr. reglugerðar ESB 2019/943 eða samkvæmt 53. gr. þessarar tilskipunar gildir.

  • Sjálfstæði starfsmanna og stjórnun flutningskerfisstjóra

            Er þá komið að 48. gr. tilskipunar 2019/944 ESB. Í 1. mgr. hennar segir að ákvarðanir um skipan og endurnýjun, starfsskilyrði, þ.m.t. launagreiðslur, og starfslok þeirra sem ábyrgð bera á stjórnendum og/eða stjórnun flutningskerfisstjóra skulu teknar af stjórn flutningskerfisstjóra sem skipuð er í samræmi við 49. gr.

            Tilkynna skal eftirlitsyfirvöldum um deili á mönnum [identity] og skilyrði sem gilda um kjörtímabil, tímalengd og starfslok þeirra sem tilnefndir eru af stjórn til þess að bera ábyrgð á framkvæmdastjórn, og/eða stjórn fyrirtækis flutningskerfisstjóra, og um ástæður fyrirhugaðrar ákvörðunar um starfslok. Skilyrði og ákvarðanirnar, sem um getur í 1. mgr., verða einungis bindandi ef eftirlitsyfirvöld hafa ekki andmælt þeim innan þriggja vikna frá tilkynningu.

            Eftirlitsyfirvöld geta andmælt ákvörðunum sem um getur í 1. mgr. Þegar:

(a) efasemdir vakna um faglegt sjálfstæði tilnefnds aðila sem ábyrgð ber á stjórnun og/eða stjórnarmanni; eða

(b) ef um er að ræða ótímabæra uppsögn kjörtímabils þegar efasemdir vakna um réttlætingu slíkrar ótímabærrar uppsagnar. (2. mgr. 48. gr.).

            Engin fagleg staða eða ábyrgð, hagsmunir eða viðskiptatengsl, beint eða óbeint, við lóðrétt-samþætt fyrirtæki eða nokkurn hluta þess eða ráðandi hluthafa þess, annan en flutningskerfisstjóra, skulu hafa verið til staðar í þrjú ár fyrir skipun þeirra einstaklinga sem ábyrgð bera á stjórnun og/eða þeim sem stjórna flutningskerfisstjóra og heyra undir þessa málsgrein. (3. mgr. 48. gr.).

            Þeir aðilar sem bera ábyrgð á stjórnun og/eða þeim sem stjórna fyrirtæki flutningskerfisstjóra, og starfsmenn hans, skulu ekki hafa neina aðra faglega stöðu eða ábyrgð, hagsmuni eða viðskiptatengsl, beint eða óbeint, við annan hluta lóðrétt-samþætts fyrirtækis eða við ráðandi hluthafa þess. (4. mgr. 48. gr.).

            Þeir aðilar sem bera ábyrgð á stjórnun og/eða þeim sem stjórna fyrirtæki flutningskerfisstjóra, og starfsmenn hans, skulu ekki hafa hagsmuni á eða fá fjárhagslegan ávinning, beint eða óbeint, frá einhverjum hluta lóðrétt-samþætts fyrirtækis annars en flutningskerfisstjóra. Þóknun (laun) þeirra skal ekki háð starfsemi eða árangri lóðrétt-samþætts fyrirtækis, annars en flutningskerfisstjórans. (5. mgr. 48. gr.).

            Tryggja skal skilvirkan áfrýjunarrétt til eftirlitsyfirvalda, vegna kvartana þeirra sem ábyrgð bera á stjórnun og/eða þeim sem stjórna fyrirtæki flutningskerfisstjóra, vegna ótímabærrar uppsagnar. (6. mgr. 48. gr.).

            Að loknum starfstíma sínum hjá fyrirtæki flutningskerfisstjóra skulu þeir sem bera ábyrgð á stjórnun þess og/eða þeim sem stjórna fyrirtækinu, ekki hafa faglega stöðu eða ábyrgð, hagsmuni eða viðskiptatengsl, við nokkurn hluta lóðrétt-samþætts fyrirtækis, annað en fyrirtæki flutningskerfisstjóra, eða við ráðandi hluthafa þess í a.m.k. fjögur ár. (7. mgr. 48. gr.).

            Gildir 3. mgr. um meirihluta þeirra einstaklinga ábyrgð bera á stjórnun og/eða þá sem stjórna fyrirtæki flutningskerfisstjóra. Þeir aðilar sem ábyrgð bera á stjórnun og/eða þeim sem stjórna fyrirtæki flutningskerfisstjóra, sem ekki heyra undir 3. mgr., skulu ekki hafa stjórnað eða stundað aðra tengda starfsemi í lóðrétt-samþætta fyrirtækinu í að minnsta kosti sex mánuði fyrir skipun þeirra. Fyrsta undirgrein þessarar málsgreinar og 4. til 7. mgr. eiga við um alla einstaklinga sem tilheyra framkvæmdastjórninni og þá sem tilkynna þeim beint um mál sem tengjast rekstri, viðhaldi eða þróun raforkunetsins. (8. mgr. 48. gr.).

  • Að lokum

            Enn verður haldið áfram í næstu grein að rekja ákvæði raforkutilskipunar 2019/944 ESB. Verður þá byrjað á 49. gr. sem fjallar um stjórn flutningskerfisstjóra [fyrirtækis flutningskerfisstjóra].

            Styttist þá óðum í umfjöllun um Landsreglara, hinn nýja „Landstjóra“ ESB á Íslandi í orkumálum. En í b-lið 4. mgr. 57. gr. kemur m.a. fram að Landsreglari leitar ekki eftir, tekur við, beinum fyrirmælum frá stjórnvöldum, opinberum eða einkaaðilum, í starfi sínu. Þetta þýðir á mannamáli að Landsreglari er óháður íslenskum stjórnvöldum, leitar ekki eftir né tekur við fyrirmælum þeirra. Hann heyrir beint undir Brussel-valdið. Stjórnvöldum aðildarríkjanna ber að tryggja fullt og óskorað sjálfstæði Landsreglara. Þetta fyrirkomulag fékk íslenska þjóðin í „kaupbæti“ með þriðja orkupakka ESB. Ekki að furða að stuðningsmenn pakkans á Alþingi teldu hann engu máli skipta! [En lögðu þó ofuráherslu á að innleiða pakkann].

            Brask með svokallaðar upprunaábyrgðir[v] er eitt af því sem fylgir markaðsvæðingu raforkunnar. Þar er um að ræða þvílíkt svínarí að engu tali tekur. Minnir það mjög á sölu aflátsbréfa og margir þekkja úr mannkynssögunni. Verður betur að því vikið síðar.

[i]      Sjá einnig: What is Electricity Congestion? https://tcaptx.com/city-matters/what-is-electricity-congestion

[ii]    Sjá: Electricity in the EU — Inter-Transmission System Operator Compensation (ITC). https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/HTML/?uri=LEGISSUM:4355753&rid=1

[iii]   Sjá enn fremur: Statistical Factsheet 2018. https://eepublicdownloads.blob.core.windows.net/public-cdn-container/clean-documents/Publications/Statistics/Factsheet/entsoe_sfs2018_web.pdf

[iv]    Sjá einnig: Europex 2020 - Association of European Energy Exchanges. https://www.europex.org/

[v]     Sjá einnig: EECS https://www.aib-net.org/eecs