Fara í efni

STÓRA RÁNIÐ UNDIRBÚIÐ - FRAMHALDSUMRÆÐA NÍU - RAFORKUTILSKIPUN 2019/944 ESB - ORKUPAKKI 4

            Um gagnageymd er fjallað í 64. gr. raforkutilskipunar 2019/944 ESB. Í 1. mgr. hennar segir að aðildarríkin skuli krefjast þess að rafveitur haldi gögnum vegna verkefna sinna, til ráðstöfunar fyrir innlend yfirvöld, þar með talinn Landsreglara, innlend samkeppnisyfirvöld og framkvæmdastjórn ESB, í að minnsta kosti fimm ár, varðandi öll viðskipti í rafveitusamningum og rafmagnsafleiður (electricity derivatives) við heildsöluviðskiptamenn og flutningskerfisstjóra.

            Gögnin skulu innihalda upplýsingar um einkenni viðkomandi viðskipta svo sem tímalengd, afhendingar- og uppgjörsreglur, magn, dagsetningar og tímasetningar viðskiptanna, viðskiptaverð, og leiðir til þess að greina hlutaðeigandi heildsöluviðskiptavini, svo og tilgreindar upplýsingar af öllum óuppgerðum raforkusamningum og rafmagnsafleiðum. (2. mgr. 64. gr.).

            Landsreglari getur ákveðið að láta markaðsaðilum í té hluta þessara upplýsinga, að því tilskildu að viðskiptalega viðkvæmar upplýsingar um einstaka markaðsaðila eða einstök viðskipti séu ekki gefnar. Þessi málsgrein tekur ekki til upplýsinga um fjármálagerninga sem falla undir gildissvið tilskipunar 2014/65/ESB. (3. mgr. 64. gr.).

            Þessi lagagrein skapar ekki viðbótar skyldur gagnvart yfirvöldum sem um getur í 1. mgr. fyrir aðila sem falla undir gildissvið tilskipunar 2014/65/ESB. (4. mgr. 64. gr.).

            Þegar yfirvöld sem um getur í 1. mgr. þurfa aðgang að gögnum sem geymd eru af aðilum sem falla undir gildissvið tilskipunar 2014/65/ESB, skulu yfirvöld sem bera ábyrgð samkvæmt þeirri tilskipun afhenda yfirvöldum umbeðin gögn. (5. mgr. 64. gr.).

            Þessu næst er komið að kafla VIII í tilskipuninni, lokaákvæði. Í 65. gr. er rætt um jafnvægi á markaði (level playing field). Í 1. mgr. segir að ráðstafanir sem aðildarríkin grípa til samkvæmt þessari tilskipun til þess að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði skuli vera í samræmi við Lissabonsáttmálann (TFEU), einkum 36. gr.[i] hans, og Evrópurétt. (1. mgr. 65. gr.).

            Ráðstafanirnar, sem um getur í 1. mgr., skulu vera hóflegar (sbr. meðalhófsregluna), án mismununar og gagnsæjar. Ráðstafanirnar mega aðeins koma til framkvæmda eftir tilkynningu til framkvæmdastjórnar ESB og með samþykki hennar. (2. mgr. 65. gr.).

            Framkvæmdastjórnin skal bregðast við tilkynningunni sem um getur í 2. mgr. innan tveggja mánaða frá móttöku tilkynningarinnar. Það tímabil skal hefjast daginn eftir að upplýsingar hafa borist. Grípi framkvæmdastjórnin ekki til aðgerða innan tveggja mánaða telst hún ekki hafa mótmælt tilkynntum ráðstöfunum. (3. mgr. 65. gr.).

            Um undanþágur er fjallað í 66. gr. Í 1. mgr. segir að aðildarríki sem sýnt geta fram á að veruleg vandamál séu í rekstri lítilla, tengdra kerfa og lítilla afskekktra kerfa geti óskað eftir undanþágum frá viðeigandi ákvæðum 7. og 8. gr. og IV., V. og VI. kafla, til framkvæmdastjórnar ESB. Lítil einangruð kerfi og Frakkland, vegna Korsíku, geta einnig sótt um undanþágu frá 4., 5. og 6. gr. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna aðildarríkjunum um slíkar umsóknir áður en ákvörðun er tekin og gæta að trúnaði. (1. mgr. 66. gr.).

            Undanþágur sem framkvæmdastjórnin veitir eins og um getur í 1. mgr. skulu takmarkaðar í tíma og háðar skilyrðum sem miða að því að auka samkeppni og samþættingu innri markaðarins og til að tryggja að undanþágurnar hindri ekki umskipti í átt að endurnýjanlegri orku, auknum sveigjanleika, orkugeymslum, rafsamgöngum (electromobility) og eftirspurnarstýringu (demand response).

            Fyrir ystu svæði í skilningi 349. gr. TEUF, sem ekki er hægt að tengja saman við raforkumarkað ESB, skulu undanþágur ekki takmarkaðar í tíma og vera háðar skilyrðum sem miða að því að hindra ekki umskipti í átt að endurnýjanlegri orku. Ákvarðanir um að veita undanþágur skulu birtar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. (2. mgr. 66. gr.).

  1. gr. gildir ekki um Kýpur, Lúxemborg og Möltu. Að auki gilda 6. og 35. gr. ekki um Möltu og 44., 45., 46., 47., 48., 49., 50. og 52. gr. eiga ekki við um Kýpur.

            Að því er snertir b-lið 1. mgr. 43. gr. skal hugtakið „fyrirtæki sem annast framleiðslu eða veitustarfsemi“ ekki taka til lokakaupenda sem annast framleiðslu og/eða afhendingu raforku, annað hvort beint eða í gegnum fyrirtæki sem þeir hafa yfirráð yfir, einir eða í sameiningu, að því tilskildu að lokakaupendur (final customers) kaupi, að ársmeðaltali meiri raforku en þeir selja (sbr. net consumers), að meðtöldum þeim hluta raforku sem framleiddur er í fyrirtækjum sem eru undir þeirra stjórn [lokakaupenda]. Enda sé fjárhagslegt gildi raforkunnar, sem þeir selja til þriðja aðila, óverulegt í hlutfalli við annan rekstur þeirra. (3. mgr. 66. gr.).

            Fram til 1. janúar 2025, eða síðar, samkvæmt ákvörðun samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar [66. gr.], gildir 5. grein ekki um Kýpur og Korsíku. (4. mgr. 66. gr.). 4. mgr. gildir ekki um Möltu fyrr en 5. júlí 2027. Heimilt er að framlengja þann tíma, þó ekki umfram átta ár. Framlengingin skal gerð með ákvörðun samkvæmt 1. mgr. (5. mgr. 66. gr.).

Beiting framsals

            Með beitingu framsals er átt við „framseldar gerðir“ (delegated acts) eins og áður er komið fram. Framkvæmdastjórn ESB er falið vald til að samþykkja framseldar gerðir með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í þessari grein. (1. mgr. 67. gr.). Heimild til þess að samþykkja framseldar gerðir, sem um getur í 5. mgr. 61. gr. og 9. mgr. 63. gr., skal veitt framkvæmdastjórninni í óákveðinn tíma frá 4. júlí 2019. (2. mgr. 67. gr.).

            Evrópuþingið eða Ráðið getur hvenær sem er afturkallað framsal valds sem um getur í 5. mgr. 61. gr. og 9. mgr. 63. gr. Ákvörðun um afturköllun bindur enda á framsal valds sem tilgreint er í þeirri ákvörðun. Hún öðlast gildi daginn eftir að ákvörðunin er birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins eða síðar á tilgreindum degi. Það hefur ekki áhrif á lagagildi framseldra gerða sem þegar eru í gildi. (3. mgr. 67. gr.).

            Áður en framkvæmdastjórn ESB samþykkir framselda gerð skal hún leita til sérfræðinga sem tilnefndir eru af hverju aðildarríki, í samræmi við meginreglurnar sem mælt er fyrir um í samstarfssamningi á milli stofnana [Interinstitutional Agreement] frá 13. apríl 2016 um betri lagasetningu. (4. mgr. 67. gr.). Um leið og hún samþykkir framselda gerð skal framkvæmdastjórnin tilkynna það samtímis til Evrópuþingsins og Ráðsins. (5. mgr. 67. gr.).

            Framseldur gerð, sem samþykkt er samkvæmt 5. mgr. 61. gr. og 9. mgr. 63. gr., öðlast aðeins gildi ef hvorki Evrópuþingið né Ráðið hefur andmælt innan tveggja mánaða frá tilkynningu þess efnis til Evrópuþingsins og Ráðsins, eða ef Evrópuþingið og Ráðið, áður en tímabilið rennur út, hafa tilkynnt framkvæmdastjórn ESB að þau muni ekki andmæla. Því tímabili skal framlengja um tvo mánuði að frumkvæði Evrópuþingsins eða Ráðsins. (6. mgr. 67. gr.).

Málsmeðferð nefndarinnar

            Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar. Sú nefnd skal vera nefnd í skilningi reglugerðar ESB nr. 182/2011. (1. mgr. 68. gr.). Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gildir 4. grein reglugerðar ESB nr. 182/2011. (2. mgr. 68. gr.).

Eftirlit framkvæmdastjórnarinnar, endurskoðun og skýrslugerð

            Framkvæmdastjórnin skal hafa eftirlit með og endurskoða framkvæmd þessarar tilskipunar og skal leggja fram skýrslu um framvindu fyrir Evrópuþingið og Ráðið, sem viðauka við skýrslu orkusambandsins [State of the Energy Union] sem um getur í 35. grein reglugerðar ESB 2018/1999. (1. mgr. 69. gr.).

            Fyrir 31. desember 2025 skal framkvæmdastjórnin endurskoða framkvæmd þessarar tilskipunar og leggja fram skýrslu fyrir Evrópuþingið og Ráðið. Ef við á, skal framkvæmdastjórnin leggja fram tillögu að nýrri löggjöf ásamt með skýrslu eða að skýrslugjöf lokinni.

            Endurskoðun framkvæmdastjórnarinnar skal einkum felast í því hvort viðskiptavinir, sérstaklega þeir sem eru í viðkvæmri stöðu eða í orkufátækt, njóti nægilegrar verndar samkvæmt þessari tilskipun. (2. mgr. 69. gr.).

Breytingar á tilskipun 2012/27/ESB

            Tilskipun 2012/27/ESB er breytt sem hér segir:

(1) 9. gr. er breytt sem hér segir:

(a) í stað titilsins kemur eftirfarandi:

„Mæling á jarðgasi“;

(b) í stað fyrstu undirgreinar í 1. mgr. kemur eftirfarandi:

„1. Aðildarríkin skulu sjá til þess, að svo miklu leyti sem það er tæknilega mögulegt, fjárhagslega eðlilegt og í réttu hlutfalli við hugsanlegan orkusparnað, að lokakaupendur á jarðgasi fái sérstaka mæla á samkeppnishæfu verði sem endurspegli nákvæmlega raunverulega orkunotkun lokakaupanda og veiti upplýsingar um raunverulegan notkunartíma.“;

(c) 2. mgr. er breytt sem hér segir:

(i) Í stað inngangshlutans kemur eftirfarandi:

„2. Þar sem og að því marki sem aðildarríkin innleiða snjallmælakerfi og koma upp snjallmælum fyrir jarðgas í samræmi við tilskipun 2009/73/ESB:“;

(ii) c- og d-liðum er eytt;

(2) 10. grein er breytt sem hér segir:

(a) Í stað titilsins kemur eftirfarandi:

„Upplýsingar um gjaldtöku fyrir jarðgas“;

(b) í stað fyrstu undirgreinar í 1. mgr. kemur eftirfarandi:

„1. Ef lokakaupendur hafa ekki snjallmæla eins og vísað er til í tilskipun 2009/73/ESB, skulu aðildarríkin tryggja, fyrir 31. desember 2014, að innheimtuupplýsingar fyrir jarðgas séu áreiðanlegar, nákvæmar og byggðar á raunnotkun, í samræmi við lið 1.1 viðauka VII, þar sem það er tæknilega mögulegt og fjárhagslega réttlætanlegt.“;

(c) í stað fyrstu undirgreinar í 2. mgr. kemur eftirfarandi:

„2. Mælar sem eru settir upp í samræmi við tilskipun 2009/73/ESB skulu veita nákvæmar innheimtuupplýsingar byggðar á raunnotkun. Aðildarríkin skulu tryggja að lokakaupendur hafi greiðan aðgang að viðbótarupplýsingum um sögulega notkun sem geri kaupanda kleift að skoða ítarlega eigin orkunotkun.“

(3) í 11. gr. komi eftirfarandi í stað fyrirsagnarinnar:

„Kostnaður vegna aðgangs að mælingum og innheimtuupplýsingum fyrir jarðgas“;

(4) í 13. gr. komi orðin „11. til 11a. gr.“ í stað orðanna „7. til 11. gr.“;

(5) 15. gr. er breytt sem hér segir:

(a) 5. mgr. er breytt sem hér segir:

(i) fyrsta og önnur undirgrein falli brott;

(ii) í stað þriðju undirgreinar kemur eftirfarandi:

„Flutningskerfisstjórar og dreifikerfisstjórar skulu uppfylla kröfurnar sem settar eru fram í XII. viðauka.“

(b) 8. mgr. fellur brott;

(6) í VII. viðauka kemur eftirfarandi í stað fyrirsagnarinnar:

„Lágmarkskröfur varðandi innheimtu og innheimtuupplýsingar byggðar á raunnotun jarðgass“. (1-6. mgr. 70. gr.).

Innleiðing

            Aðildarríkin skulu setja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til þess að uppfylla 2. til 5. gr., 2. og 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 7. gr., j- og l-lið 2. mgr. 8. gr., 2. mgr. 9. gr., 2. – 12. mgr. 10. gr., 11. til 24. gr., 26., 28. og 29. gr., 31. til 34. og 36. gr., 2. mgr. 38. gr., 40. og 42. gr., d-lið 2. mgr. 46. gr., 51. og 54. gr., 57. til 59. gr., 61. til 63. gr., tölul. 1 til 3, tölul. 5(b) og 6. tölul. 70. gr., og viðauka I og II, fyrir 31. desember 2020. Þau skulu strax senda texta þessara ákvæða til framkvæmdastjórnarinnar.

            Aðildarríkin skulu þó samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til þess að uppfylla:

(a) a-lið 5. tölul. 70. gr. fyrir 31. desember 2019;

(b) 4. tölulið 70. gr. fyrir 25. október 2020.

            Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða fylgja þeim slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Þau skulu einnig fela í sér yfirlýsingu um að tilvísanir í gildandi lögum og stjórnsýslufyrirmælum tilskipunarinnar, sem felldar eru úr gildi með þessari tilskipun, skuli túlka sem tilvísanir í þessa tilskipun. Aðildarríkin skulu ákvarða hvernig slík tilvísun er gerð og hvernig hún skuli mótuð. (1. mgr. 70. gr.). Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja vegna atriða sem tilskipun þessi nær til. (2. mgr. 71. gr.).

Niðurfelling

            Tilskipun 2009/72/EB er felld úr gildi frá og með 1. janúar 2021, með fyrirvara um skyldur aðildarríkjanna varðandi frest til innleiðingar í landslög og gildistökudag tilskipunarinnar sem settur er fram í III. viðauka. Tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina skal túlka sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar í samræmi við samanburðartöflu sem sett er fram í IV. Viðauka. (72. gr.).

Gildistaka

            Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

  1. mgr. 6. gr., 2. til 5. mgr. 7. gr., 1. mgr. 8. gr., a- til i-liður og k-liður 2. mgr. 8. gr. og 3. og 4. mgr. 8. gr. , 1., 3., 4., og 5. mgr. 9. gr., 2. til 10. mgr. 10. gr., 25., 27., 30., 35. og 37. gr., 1., 3. og 4. mgr. 38. gr., 39., 41., 43., 44. og 45. gr., 1. mgr. 46. gr., a-, b-, c- og e- til h-liður 2. mgr. 46. gr., 3. til 6. mgr. 46. gr., 47. til 50. gr., 52., 53., 55., 56., 60., 64. og 65. gr. gilda frá 1. janúar 2021.

Tölul. 1 til 3, b-liður 5. tölul. og 6. tölul. 70. gr. gilda frá 1. janúar 2021.

A-liður 5. tölul. 70. gr. gildir frá 1. janúar 2020.

  1. tölul. 70. gr. gildir frá 26. október 2020. (73. gr.).

Viðtakendur

            Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 5. júní 2019.

Fyrir Evrópuþingið

Forsetinn

  1. TAJANI

 Fyrir Ráðið

 Forsetinn

  1. CIAMBA

(74. gr.).

Lokaorð

            Þar með lýkur þessari yfirferð um raforkutilskipun 2019/944 ESB og „stóra ránið“ og hófst með grein þann 27. nóvember 2019. Það er von þess sem þetta ritar að skrifin hafi opnað augu margra fyrir því hvað þarna er raunverulega um að ræða. Það má leiða að því sterkar líkur að kjósendur þessa lands séu nú betur í stakk búnir en áður til þess að mæta allri þeirri lygi sem stjórnmálamenn og embættismenn munu reyna að bera á borð á næstu árum.

            Þar gildir oft að gefin er út ákveðin „lína“ sem þeir hinir sömu endurtaka síðan í sífellu, án nokkurra raka, eða minnstu tilraunar til þess að segja satt. Þessi aðferðafræði er vafalaust studd ráðum frá almannatenglum. Litið er svo á að „hóplygi“ hljóti að slá nægu ryki í augu almennings, þannig að hægt sé að troða upp á þjóðina margskonar gerningum, henni til stórtjóns. Á meðan bíða braskarar og fjárglæframenn á „hliðarlínunni“ og láta lítið fyrir sér fara.

            Efist einhver um að þetta sé raunverulega svona í pottinn búið, þá ætti sá hinn sami/sú hin sama að spyrja sig: hefur einhvern tíma verið kosið um þetta fyrirkomulag [að Ísland yrði hluti að innri orkumarkaði Evrópu]? Hefur verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um fyrirkomulagið? Kallar þjóðin sjálf eftir þessu fyrirkomulagi? Er hugtakið „lýðræði“ það fyrsta sem fólki kemur til hugar í þessu ferli öllu saman, eða frá því að fyrsti orkupakkinn var innleiddur? Eru stjórnmálamenn tilbúnir að leggja spilin á borðið í þessu máli fyrir næstu kosningar? [Þvert á flokka].

            Í dag er staðan sú að það sýnist einungis spurning um tíma hvenær áform um sæstreng verða aftur rædd í fullri alvöru. Það er nefnilega ekki þannig, þótt af því hafi ekki orðið enn, síðan orkupakki þrjú var samþykktur, að þau áform séu gleymd og grafin. Öðru nær. Enda hefur Landsvirkjun haft áformin til skoðunar í áratugi [lesi menn ársskýrslur Landsvirkjunar undanfarin 20 ár eða svo!].

            Með sæstreng verður aðildin að innri orkumarkaði Evrópu endanlega innsigluð. Það er „endastöðin“ í þessu máli, eins og það hefur verið rekið undanfarin ár og raunar áratugi. Enn fremur, hversu margir þingmenn vilja enn halda því fram að innri orkumarkaður Evrópu snúist alls ekki um miðstýrt orkubandalag [sbr. t.d. fávisku Ara Trausta Guðmundssonar í þinginu í fyrra, að maður tali ekki um aðra stjórnarþingmenn]? Þeim hlýtur að fara fækkandi eða hvað?

            Það er þó enginn skortur á lýðskrumi þessa fólks eða óhollustu við sannleikann sem er lagaður að vild og eftir eigin þörfum. Sannleikur margra þingmanna er „afstætt hugtak“. Snýst ekkert um það hvað er rétt eða rangt, heldur hitt hvernig hægt er að afbaka staðreyndir þannig að þjóni íslensku valdaklíkunni og þeim bröskurum og fjárglæframönnum sem hún þjónar fyrst og fremst. Þetta sást berlega í umræðum stuðningsmanna þriðja orkupakkans á Alþingi. Fyrir þá sem eru þokkalega læsir á (laga)texta hlýtur margt að hafa vakið mikla furðu í ræðum sama fólks. Slíkar voru þversagnirnar í málflutningnum. En nú er þjóðin reynslunni ríkari og verður vonandi vel á verði næst.

            Beðist er velvirðingar á mögulegum innsláttarvillum sem kunna að hafa slæðst með á stöku stað þótt úr því hafi oftast verið bætt jafnóðum. Lesendum er sérstaklega þökkuð þolinmæðin. Góðar stundir.

 

[i]      36. gr. TFEU snertir heimild til þess að banna og takmarka innflutning og útflutning, enda séu slíkar ráðstafanir réttlætanlegar á grundvelli; almenns siðgæðis, opinberrar stefnu eða almannavarna; verndunar heilsu og lífs manna, dýra eða plantna; verndunar þjóðargersema sem hafa listrænt, sögulegt eða fornleifalegt gildi; eða verndunar réttinda sem snerta iðnað og viðskipti.