STÓRA RÁNIÐ UNDIRBÚIÐ - FRAMHALDSUMRÆÐA ÞRJÚ - RAFORKUTILSKIPUN 2019/944 ORKUPAKKI 4
Nú verður enn haldið áfram að rekja innihald tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins 2019/944 um raforku. Eins og áður er komið fram er hún hluti af orkupakka 4 („Vetrarpakkanum“). Þessi vegferð skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íslenska þjóð enda margt sem þarna hangir á spýtunni. Það er hvorki meira né minna en öll raforkuframleiðsla, dreifing og sala hennar. Það er í fullu samræmi við orkupakkana sjálfa að „skera pylsuna“ í þunnar sneiðar og útheimtir umrædd tilskipun því endurtekin greinaskrif.
Með hverjum pakka sem innleiddur verður færist þjóðin nær stóra ráninu – Ráninu á Landsvirkjun og öllum stærstu virkjunum og veitum þjóðarinnar. Enda þarf ekki að lesa lengi umrædda orkupakka ESB til þess að átta sig á því út á hvað stefnan gengur – markaðs- og einkavæðingu þessara mikilvægu innviða. Alþingi og ríkisstjórn brugðust illilega þegar orkupakki 3 var innleiddur sem og „öryggisventill“ þjóðarinnar – forsetinn. Þá var fokið í flest skjól. Það er mikilvægt að kjósendur láti ekki blekkjast af aðgerðum undanfarið og tengjast skæðum veirufaraldri.
Enda er það vel þekkt að stjórnvöld ríkja grípa margskonar hálmstrá þegar líða tekur að kosningum. Þá er mikilvægt að hafa í huga gömlu svikin, allt sem áður var lofað og aldrei stóð til að standa við.
„Langræknin“ er þannig einhver mikilvægasti eiginleiki hvers kjósanda. „Fyrirgefning“ á hins vegar ekki heima í þessu sambandi, þar sem um er að ræða forherta stjórnmálastétt sem játar yfirleitt aldrei nein mistök og svífst einskis. Það hefur t.d. sést vel í kvótamálum og orkupakkamálum svo dæmi séu tekin. Setningin „Þið eruð ekki þjóðin“ lýsir vel hugarfari margra íslenskra stjórnmálamanna. Þeir telja sig þess umkomna að skilgreina hverjir tilheyri þjóðinni og hverjir ekki.
[„Þið eruð ekki þjóðin“]
Til auðvalds kveða ástarljóð,
aðra telja peð.
Almenningur er undirþjóð,
ekki talinn með.
Í 26. gr. tilskipunarinnar er fjallað um rétt til úrlausna í deilumálum utan dómstóla (Right to out-of-court dispute settlement). Þar segir í 1. mgr. að aðildarríki skuli tryggja að lokakaupendur hafi aðgang að einföldu, réttlátu, gegnsæju, sjálfstæðu, skilvirku og áhrifaríku fyrirkomulagi, til úrlausna utan dómstóla, til þess að setja niður deilur, um réttindi og skyldur sem stofnast undir þessari tilskipun (2019/944). Það má gera t.d. með sérstökum umboðsmanni orkumála, neytendastofu eða eftirlitsaðila (stjórnvaldi).
Þegar lokakaupandi er neytandi í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins 2013/11, skal fyrirkomulagið samrímast gæðakröfum tilskipunarinnar, og skal innihalda, þegar tilefni er til, kerfi vegna endurgreiðslna og fjárbóta.
Ef nauðsyn krefur, skulu aðildarríkin, samkvæmt 2 mgr., sjá til þess að stofnanir vegna ágreiningsmála, utan dómstóla, hafi með sér samstarf um sanngjarnt, sjálfstætt, skilvirkt og áhrifaríkt kerfi, vegna deilna sem spretta af vöru eða þjónustu sem er bundin við, eða samsett af, hvaða vöru eða þjónustu sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar (2019/944).
Í 3. mgr. segir síðan að þátttaka raforkufyrirtækja í fyrirkomulagi utan dómstóla, við lausn deilna, vegna neytenda á heimilum, skuli skyldubundin, nema aðildarríki sýni framkvæmdastjórn ESB fram á að annað fyrirkomulag sé jafn áhrifaríkt.
- Altæk þjónusta
Í 27. gr. tilskipunarinnar er fjallað um altæka þjónustu (universal service[i]). Þar segir í 1. mgr. að aðildarríki skuli tryggja að heimili, og þegar aðildarríki telja viðeigandi, lítil fyrirtæki, njóti altækrar þjónustu. Þar er átt við rétt til þess að fá rafmagn af tilteknum „gæðum“ á sínu svæði, á samkeppnishæfu, „gegnsæju“ og samanburðarhæfu verði, án mismununar. Til að ná því fram er aðildarríkjum heimilt að tilnefna veitu (supplier) til þrautavara.
Aðildarríkin skulu leggja þá skyldu á kerfisstjórn dreifiveitna að tengja viðskiptavini við net (raforkunet) samkvæmt skilmálum, skilyrðum og gjaldskrám sem settar eru í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 7. mgr. 59. gr. Tilskipunin hindrar ekki aðildarríki í því að að styrkja markaðsstöðu heimila, lítilla og meðalstórra fyrirtækja,[ii] með því að stuðla að frjálsri samsöfnun (voluntary aggregation) fyrir þennan hóp viðskiptavina. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. skal innleiða ákvæði 1. mgr. á gegnsæjan máta, án mismununar, og skal ákvæðið ekki hindra frjálst val á veitu og kveðið er á um í 4. gr. tilskipunarinnar.
- Viðskiptavinir í viðkvæmri stöðu
- gr. tilskipunarinnar fjallar um viðskiptavini í viðkvæmri stöðu. Í 1. mgr. hennar segir að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til þess að verja viðskiptavini og skuli sérstaklega tryggja fullnægjandi ráðstafanir til þess að verja viðskiptavini í viðkvæmri stöðu. Í því sambandi skal hvert aðildarríki skilgreina hugtakið „viðskiptavinir í viðkvæmri stöðu“. Það getur m.a. átt við um heftan aðgang að raforku (energy poverty) og bann við aftengingu rafmagns til slíkra viðskiptavina á erfiðum tímum. Hugtakið „viðskiptavinir í viðkvæmri stöðu“ getur tekið til tekna, hlutfalls orkukostnaðar samanborið við tekjur, orkunýtni á heimilum, raftækja sem nauðsynleg eru af heilsufarsástæðum, aldurs og annara atriða.
Aðildarríkin skulu sjá til þess að réttindum og skyldum sem snerta viðskiptavini í viðkvæmri stöðu sé beitt. Sérstaklega skulu þau gera ráðstafanir til þess að verja viðskiptavini á afskekktum svæðum. Þau skulu tryggja „mikla neytendavernd“ [sem er auðvitað blekking, enda mun „markaðurinn“ ráða för] sérstaklega með tilliti til gegnsæis samningsskilmála og skilyrða, almennra upplýsinga og fyrirkomulags til þess að setja niður deilur (dispute settlement).
Í 2. mgr. 28. gr. segir að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir, t.d. í gegnum almannatryggingakerfi, til þess að tryggja viðskiptavinum í viðkvæmri stöðu nægt rafmagn. Ráðstafanir geta einnig falist í stuðningi við bætta orkunýtni, til þess að takast á við heftan aðgang að raforku, skv. d-lið 3. mgr. 3. gr. reglugerðar ESB 2018/1999,[iii] þar með talið víðara samhengi fátæktar.
Slíkar ráðstafanir skulu ekki hindra virka opnun markaðarins sbr. 4. gr., eða virkni markaða, og skulu tilkynntar framkvæmdastjórn ESB, þegar það á við, í samræmi við 4. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar. Slíkar tilkynningar geta einnig innihaldið ráðstafanir sem gripið er til innan almannatryggingakerfisins.
- „Orkufátækt“
Með hugtakinu „orkufátækt“ er vísað til þess að fólk fái ekki næga raforku. Framkvæmdastjórn ESB skilgreinir „orkufátækt“ sem „vanhæfni til þess að halda heimilum nægilega heitum“.[iv] Þess má geta, að næstum 50 milljónir manna glíma við „orkufátækt“ innan ESB.[v] [Hefur þetta verið sérstakt vandamál á Íslandi? Er ekki líklegra að vandamálið verði til þegar búið er að sprengja taxtana, á hinum „frjálsa markaði“ upp úr öllu valdi? Hver verður staða neytenda gagnvart hitaveitum?].
Við mat á fjölda heimila sem glíma við orkufátækt samkvæmt d-lið 3. mgr. 3. gr. reglugerðar ESB 2018/1999, ber aðildarríkjum að koma á laggirnar og birta ákveðin viðmið. Þar má nefna lágar tekjur, hversu stór hluti tekna fer í kaup á orku og hvort orkunýtni er léleg. Framkvæmdastjórnin skal veita leiðbeiningar um skilgreininguna á „umtalsverðum fjölda heimila í orkufátækt“ í þessu samhengi og í tengslum við 5. mgr. 5. gr. Gefin forsenda er þá sú að allt hlutfall heimila í orkufátækt sé verulegt (hversu lágt sem það er). Í IV. kafla tilskipunarinnar, gr. 30-39, er fjallað um stjórn á dreifiveitum.
- Tilnefning dreifiveitustjóra
Rætt er um tilnefningu dreifiveitustjóra í 30. gr. tilskipunarinnar. Þar segir að aðildarríki skuli tilnefna, eða krefja fyrirtækin sem eiga eða eru ábyrg fyrir dreifikerfinu, einn eða fleiri dreifikerfisstjóra, í ákveðinn tíma sem ákveðinn er af aðildarríkjum, með hliðsjón af hagkvæmni og efnahagslegu jafnvægi.
- Hlutverk dreifikerfisstjóra
Í 31. gr. tilskipunarinnar er skilgreint hlutverk dreifikerfisstjóra. Þar segir í 1. mgr. að dreifikerfisstjóri skuli bera ábyrgð á langtímagetu dreifikerfisins, til þess að mæta sanngjörnum kröfum um dreifingu á raforku. Hann ber ábyrgð á rekstri kerfis, sem sé viðhaldi og þróun kerfisins, miðað við efnahagslegar aðstæður, öryggi, áreiðanleika og skilvirkni, að teknu tilliti til umhverfis og orkunýtingar.
Í 2. mgr. segir að dreifiveitustjóri skuli í engum tilvikum mismuna kerfisnotendum og sérstaklega ekki í þágu tengdra fyrirtækja. Í 3. mgr. kemur fram að dreifiveita skal veita kerfisnotendum þær upplýsingar sem þeir þurfa vegna aðgengis að kerfinu, þ.m.t. notkun kerfisins.
Í 4. mgr. 31. gr. segir að aðildarríki geti krafist þess að dreifikerfisstjóri, þegar kemur að gerðum rafstöðva, veiti forgang[vi] þeim stöðvum sem nota endurnýjanlega orkugjafa eða nota „samframleiðslu“ með góðri orkunýtni (high-efficiency cogeneration) í samræmi við 12. gr. reglugerðar ESB 2019/943.
Samkvæmt 5. mgr. skal sérhver dreifikerfisstjóri starfa sem hlutlaus „leiðbeinandi“ á markaði, vegna orkuöflunar til þess að bæta upp orkutap í kerfinu, í samræmi við gegnsæjar markaðsbundnar verklagsreglur, án mismununar.
Í 6. mgr. 31. gr. segir að þegar dreifikerfisstjóri er ábyrgur fyrir innkaupum, á vörum og þjónustu, sem nauðsynleg eru vegna skilvirkni, áreiðanleika og öryggis rekstur dreifikerfisins, skulu reglur sem dreifikerfisstjórinn tekur upp í þeim tilgangi vera hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar. Reglurnar skulu mótaðar í samstarfi við flutningskerfisstjóra og aðra aðila á markaðnum. Skilmálar og skilyrði, þar með taldar reglur og gjaldskrár, þegar það á við, skulu sett í samræmi við 7. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar, án mismununar, þannig að endurspegli kostnað og skulu birtar.
Þegar dreifikerfisstjóri sinnir verkefnum samkvæmt 6. mgr. skal hann afla sér „tíðniþjónustu“ (non-frequency ancillary services[vii]) og þörf er á vegna reksturs kerfisins, í samræmi við gegnsæjar verklagsreglur á markaði, án mismununar, nema því aðeins að eftirlitsyfirvald hafi metið það svo að markaðstengd tíðniþjónusta sé ekki áhrifarík efnahagslega og yfirvaldið hafi veitt undanþágu. Kvöðin um að afla „tíðniþjónustu“ á ekki við um fullkomlega samþætta nethluta.[viii] (7. mgr.).
Þegar um ræðir innkaup á vörum og þjónustu og um getur í 6. mgr. skal tryggja virka þátttöku allra hæfra aðila á markaði, þ.m.t. þeir aðilar sem bjóða orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, aðilar sem taka þátt í „eftirspurnarstýringu“ (demand response), rekstraraðilar orkugeymslna og aðilar sem þátt taka í samsöfnun (aggregation), einkum með því að krefja eftirlitsyfirvöld og dreifikerfisstjóra, í nánu samstarfi við alla markaðsaðila, svo og flutningskerfisstjóra, um að setja fram tæknikröfur til þátttöku á þessum mörkuðum, á grundvelli tæknilegra eiginleika markaðanna og getu allra markaðsaðila. (8. mgr.).
Samkvæmt 9. mgr. skal dreifikerfisstjóri eiga samstarf með flutningskerfisstjóra um skilvirka þátttöku aðila á markaði og tengjast raforkuneti á smásölu-, heildsölu- eða „jafnvægismörkuðum“.[ix] Samkomulag skal gera við viðkomandi flutningskerfisstjóra um jöfnunarþjónustu (balancing service) vegna auðlinda sem staðsettar eru innan dreifikerfis, í samræmi við ákvæði 57. gr. reglugerðar ESB 2019/943 og 182. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnar ESB 2017/1485.
Í 10. mgr. 31. gr. segir síðan að aðildarríki, eða tilnefnd lögbær yfirvöld þeirra, geta heimilað dreifiveitum að sinna annarri starfsemi en þeirri sem kveðið er á um í umræddri tilskipun [2019/944] og í reglugerð (ESB) 2019/943, þar sem slík starfsemi er nauðsynleg fyrir dreifikerfisstjóra svo hann fái uppfyllt skyldur sínar samkvæmt sömu tilskipun eða reglugerð (ESB) 2019/943, að því tilskildu að eftirlitsyfirvaldið hafi metið nauðsyn undanþágunnar. Þessi málsgrein er með fyrirvara um rétt dreifiveitustjóra til að eiga, þróa, stjórna eða reka önnur net en raforkunet, þar sem aðildarríki eða tilnefnd lögbær yfirvöld hafa veitt rétt til þess.
- Hvatar til sveigjanleika í dreifikerfum
Í 32. gr. er fjallað um hvata til sveigjanleika í dreifikerfum. Í 1. mgr. er sú kvöð lögð á aðildarríkin að hafa tiltækt nauðsynlegt regluverk sem leyfir og skapar hvata fyrir dreifikerfisstjóra til þess að afla „sveigjanleikaþjónustu“[x] (flexibility services[xi]), þ.m.t. „burðarstjórnun“[xii] (congestion management[xiii]), í því skyni að bæta skilvirkni í rekstri og þróun dreifikerfisins.
Regluverkið skal einkum tryggja að dreifikerfisstjórar geti aflað sér slíkrar þjónustu frá smávirkjunum[xiv] (distributed generation), „eftirspurnarstýringu“ eða orkugeymslum og skal stuðla að ráðstöfunum til orkunýtingar, þar sem slík þjónusta dregur á hagkvæman máta úr nauðsyn þess að uppfæra eða auka afköst raforkukerfa og styður skilvirka og örugga notkun dreifikerfanna. Dreifikerfisstjórar skulu sækja þjónustuna í samræmi við gagnsæjar, markaðstengdar verklagsreglur, án mismununar, nema eftirlitsyfirvöld telji að kaupin á þjónustunni séu ekki efnahagslega hagkvæm eða að slík kaup leiði til alvarlegrar röskunar á markaði eða frekari takmarkana (congestion).
Í 2. mgr. 32. gr. segir að dreifikerfisstjórar, með fyrirvara um samþykki eftirlitsyfirvalda, eða eftirlitsyfirvöld sjálf, skuli útlista ítarlega „sveigjanleikaþjónustuna“ og, þegar það á við, staðlaðar markaðsafurðir[xv] fyrir þess konar þjónustu, að minnsta kosti á landsvísu. Útlistingarnar skulu tryggja skilvirka þátttöku allra aðila á markaði, án mismununar, þar með taldir aðilar sem bjóða orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, aðilar sem taka þátt í „eftirspurnarstýringu“ (demand response), stjórnendur orkugeymslna og aðilar sem taka þátt í samsöfnun (aggregation).
Dreifikerfisstjórar skulu skiptast á öllum nauðsynlegum upplýsingum og samræma við flutningskerfisstjóra, til þess að tryggja sem besta nýtingu auðlinda og til þess að tryggja öruggan og skilvirkan rekstur raforkukerfisins og auðvelda markaðsþróun. Dreifikerfisstjórar skulu nægjanlega vel launaðir vegna öflunar á umræddri þjónustu sem geri þeim fært að endurheimta að minnsta kosti sanngjarnan, samsvarandi kostnað, þ.m.t. nauðsynlegur kostnaður vegna upplýsinga- og samskiptatækni ásamt kostnaði vegna innviða.[xvi]
Í 3. mgr. 32. gr. segir að uppbygging dreifikerfis skuli byggjast á gegnsærri netþróunaráætlun (network development plan) sem dreifikerfisstjóri skal birta að minnsta kosti á tveggja ára fresti og leggja fyrir eftirlitsyfirvöld. Netþróunaráætlunin skal sýna á gegnsæjan máta „sveigjanleikaþjónustu“[xvii][xviii] sem þörf er á, til meðallangs og langs tíma, og kunngera fyrirhugaðar fjárfestingar næstu fimm til tíu ár, með sérstakri áherslu á aðal innviði dreifikerfis og þörf er á til þess að tengjast nýjum orkugjöfum (new generation capacity) og vegna nýs álags m.a. frá hleðslustöðvum fyrir rafdrifin ökutæki. Netþróunaráætlunin skal einnig taka til „eftirspurnarstýringar“, orkunýtni, búnaðar sem geymir raforku eða annara úrræða sem dreifikerfisstjóra er ætlað að nota sem valkost við stækkun kerfis.
Samkvæmt 4. mgr. 32. gr. skal dreifikerfisstjóri hafa samráð við alla viðeigandi notendur raforkukerfis, og hlutaðeigandi flutningskerfisstjóra, um netþróunaráætlun. Dreifikerfisstjóri skal birta niðurstöður samráðsferlisins, ásamt netþróunaráætluninni, og leggja niðurstöður samráðsins og netþróunaráætlunina fyrir eftirlitsyfirvöld [Landsreglara]. Eftirlitsyfirvöld geta óskað eftir breytingum á áætluninni.
Samkvæmt 5. mgr. 32. gr. geta aðildarríki ákveðið að fylgja ekki þeim skyldum sem skilgreindar eru undir 3. mgr. þegar um samþætt[xix] orkufyrirtæki er að ræða og þjóna minna en 100.000 tengdum viðskiptavinum eða þegar um ræðir lítil einangruð kerfi.
- Að lokum
Í næstu grein verður haldið áfram að rekja einstakar lagagreinar tilskipunar ESB 2019/944. Það dylst engum sem fylgst hefur með þjóðfélagsumræðu síðustu ár og áratugi að stórfelld rán á þjóðareign eru alltaf yfirvofandi. Ekkert er að marka hástemmdar yfirlýsingar stjórnmálamanna um að ekki standi til að selja (ræna) Landsvirkjun eða önnur fyrirtæki. Það er að sjálfsögðu róið að því öllum árum. Almenningur á Íslandi er búinn að átta sig á þessu öllu. Það er verulega ánægjulegt.
Það sem vantar helst er farvegur, til þess að koma hugsunum og vilja þjóðarinnar í athafnir. Beint lýðræði væri góð leið til þess. En sú forherta stjórnmálastétt (valdaklíka) sem böðlast áfram, og þjóðin situr uppi með, hefur engan áhuga á beinu lýðræði eða aðkomu þjóðarinnar að ákvörðunum yfirleitt. Eina undantekningin er kjördagur, þegar kosið er til Alþingis.
Það er sem sagt ljóst að það skortir ekki (lengur) hugarfarsbreytingu hjá þjóðinni. Sú breyting hefur þegar orðið. Það sem vantar er að koma vilja í athafnir og þar strandar á pólitíkinni. Að óbreyttu kerfi er stærsta vonin sú, nú um stundir, að helst verði bæði skipt um forseta, nú í endaðan júní, og Alþingi (að fram komi nýtt alvöru stjórnmálaafl sem fyrst). Núverandi forseti gerir ekkert sem „ruggað gæti bátnum“ og hefur þegar brugðist sem „öryggisventill“ [málskotsréttur] á Bessastöðum. Sú staðreynd liggur fyrir, um hana verður varla deilt.
Þegar menn, eða kerfi, bregðast er eðlilegt að þeim sé skipt út: að ekki sé beðið þar til sama fólk eða sömu kerfi bregðast aftur. Það er fullkomlega rökrétt niðurstaða. Það eru falsrök að fjöldi áskorenda hafi ekki verið nægur til þess að forseta bæri að virkja málskotsréttinn. Það sem skiptir máli er hitt, að orkumálin eru eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Það má öllum vera ljóst. Önnur stór mál eru t.d. kvótamálin (fiskveiðistjórnun) og möguleg aðild að ESB. Í þessum málum, í ljósi mikilvægis þeirra, skiptir fjöldi áskorenda engu máli. Það hljóta forsetar að vita eins og annað fólk.
Í 2. mgr. 16. gr. íslensku stjórnarskrárinnar segir svo: Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir[xx] skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði. „Í 5. gr. starfsreglna ríkisráðs kemur fram að í ríkisráði skuli bera upp fyrir forseta öll lög, þar á meðal bráðabirgðalög, og mikilvægar stjórnarráðstafanir.“[xxi] „Til [annarra] mikilvægra stjórnarráðstafanna er eðlilegt að telja tillögur til þingsályktunar[xxii] sem lagðar eru fram af hálfu ríkisstjórnarinnar.“[xxiii] Þetta sýnir að forseta Íslands var í lófa lagið að standa með þjóðinni í orkupakkamálinu en valdi að gera það ekki. Það má telja „brottrekstrarsök“. Fyrsta skrefið til að auka vald þjóðarinnar er að kjósa rétt, kjósa í ljósi fortíðar með sýn til framtíðar!
[i] https://eur-lex.europa.eu/summary/glossary/universal_service.html
[ii] Er eitthvað í Íslandssögunni sem bendir til þess að gripið yrði til slíkra ráðstafana á Íslandi? Eru það ekki neytendur, almenningur, sem yfirleitt borgar brúsann? Eru ekki fjárglæframenn í fyrsta sæti á Íslandi? Ríkin mega samkvæmt lagaákvæðinu stuðla að samsöfnun og þannig „styrkja“ ákveðinn hóp viðskiptavina (heimili og smáfyrirtæki). En það felur ekki í sér neina skyldu til þess að verja þessa hópa sérstaklega. Þetta atriði sýnist því komið undir gerræði stjórnvalda á hverjum tíma.
[iii] REGULATION (EU) 2018/1999 OF THE EUROPEAN PARLIAMENT AND OF THE COUNCIL. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=uriserv:OJ.L_.2018.328.01.0001.01.ENG&toc=OJ:L:2018:328:FULL
[iv] Thomson, H. and Bouzarovski, S. (2018). Addressing Energy Poverty in the European Union: State of Play and Action. EU Energy Poverty Observatory. European Commission. https://www.energypoverty.eu/sites/default/files/downloads/publications/18-08/paneureport2018_final_v3.pdf
[v] Ibid.
[vi] Sjá einnig: https://www.emissions-euets.com/internal-electricity-market-glossary/1818-priority-dispatching-of-electricity-from-renewable-energy-sources
[vii] Með „tíðniþjónustu“ er átt við þjónustu sem notuð er af flutningskerfisstjóra eða dreifikerfisstjóra fyrir stöðuga spennustýringu, hraða spennujöfnun, tregðu [sjá t.d.: https://www.renewableenergyworld.com/2019/10/25/grid-inertia-why-it-matters-in-a-renewable-world/] fyrir stöðugleika raforkunets (grid), skammhlaupsstraum, endurræsingu kerfis (black start capability) og einangrun rekstrareininga, ef vandamál koma upp í kerfinu (island operation capability). Sjá skilgreiningu 49. mgr. 2. gr. tilskipunar ESB 2019/944.
[viii] Sjá skilgreiningu undir 51. mgr. 2. gr. tilskipunar ESB 2019/944.
[ix] Sjá einnig: http://www.incite-itn.eu/blog/introduction-to-electricity-markets-its-balancing-mechanism-and-the-role-of-renewable-sources/
[x] Í raforkukerfum þarf jafnvægi að ríkja í framleiðslu og „neyslu“ rafmagns í rauntíma. „Sveigjanleikaþjónusta“ felur í sér að viðhalda því jafnvægi. Tæknilega er hægt að skilgreina „sveigjanleikaþjónustu“ sem aflstillingu sem viðvarandi er á tiltekinni stundu, í tiltekinn tíma frá tilteknum stað, innan raforkunetsins.
[xi] Sjá t.d.: European Smart Grids Task Force - Expert Group 3. (2019). Final Report: Demand Side Flexibility - Perceived barriers and proposed recommendations. https://ec.europa.eu/energy/sites/ener/files/documents/eg3_final_report_demand_side_flexiblity_2019.04.15.pdf
[xii] Raforkukerfi hafa ákveðna burðargetu. Með „burðarstjórnun“ er átt við stjórnun burðargetu raforkukerfa, þannig að afl nýtist sem best, án þess að brjóta gegn takmörkunum kerfanna.
[xiii] Sjá enn fremur: Neuhoff, K., Hobbs, B.F. and Newbery, D. (2011). Congestion Management in European Power Networks: Criteria to Assess the Available Options. Climate Policy Initiative, Berlin. https://climatepolicyinitiative.org/wp-content/uploads/2011/12/Congestion-Management-Paper.pdf
[xiv] Sjá t.d.: Enhancement of sustainable electricity supply through improvements of the regulatory framework of the distribution network for distributed generation (DG-GRID).
https://ec.europa.eu/energy/intelligent/projects/en/projects/dg-grid
[xv] Sjá einnig: Internal Market, Industry, Entrepreneurship and SMEs. https://ec.europa.eu/growth/single-market/european-standards/policy/benefits_en
[xvi] Sjá t.d.: Definition of Infrastructure Costs. https://www.lawinsider.com/dictionary/infrastructure-costs
[xvii] Sjá einnig: https://www.tdworld.com/utility-business/article/20972829/flexibility-services-how-utilities-can-capture-the-market
[xviii] Sjá einnig: https://ec.europa.eu/energy/sites/ener/files/documents/EG3%20Final%20-%20January%202015.pdf
[xix] Sjá einnig: Vertically integrated undertaking. https://www.emissions-euets.com/internal-electricity-market-glossary/1621-vertically-integrated-undertaking
[xx] Svartletrun mín.
[xxi] MEÐFERÐ MÁLA Í RÍKISRÁÐI - Leiðbeiningar og skýringar. https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/einfaldaraisland/Medferd-mala-i-rikisradi.pdf
[xxii] Svartletrun mín.
[xxiii] MEÐFERÐ MÁLA Í RÍKISRÁÐI op.cit.