Fara í efni

STÓRA RÁNIÐ UNDIRBÚIÐ - RAFORKUTILSKIPUN 2019/944 - ORKUPAKKI 4

            Í þessari grein verður rýnt í raforkutilskipun ESB nr. 2019/944[i] og er hluti af fjórða orkupakka Evrópusambandsins. Tilskipun þessi inniheldur alls 74 lagagreinar, auk fjögurra viðauka. Það afhjúpaðist í aðdraganda innleiðingar þriðja orkupakkans á Íslandi að samsæri þagnarinnar ríkti á milli flestra fjölmiðla og Alþingis í málinu. Það er með öðrum orðum unnið skipulega að því að halda frá almenningi (kjósendum) upplýsingum og fyrirætlunum sem miklu varða m.a. um orkumál Íslendinga. Síðan er því borið við að málin séu hvort sem er svo flókin að ekkert þýði að ræða þau, kjósendur muni ekki skilja þau. Þetta er aðferð sem fámennisklíkan á Alþingi hefur lengi beitt til þess að viðhalda margskonar valdníðslu og blekkingum.

Stóra ránið

Á þingi ljúga þar um bil,

þjóðin heldur reytum.

Stóra ránið stendur til,

stela orkuveitum.

            Sumir fyrrum ráðherrar hafa sagt að það sé kjósendum sjálfum að kenna hvernig komið er fram við þá, að þeir ráði því með atkvæðum sínum hvernig málum er skipað. Við þetta verður að gera athugasemd. Í einföldustu mynd er málum reyndar þannig háttað. Raunin er hins vegar sú að fámennisklíkan „lætur kjósa sig“,[ii] lofar öllu fögru fyrir kosningar, en ætlar sér auðvitað aldrei að standa við neitt. Kjósendur hafa því raun ekki hugmynd um hvað kemur að lokum upp úr „hattinum“.

            Að kjósa fólk til Alþingis er ákveðið veðmál. Þar hafa kjósendur ekki á öðru að byggja en kosningaloforðum [sem oftast eru markleysa] stefnu ákveðinna flokka og landsfundarsamþykktum. Allt er þetta svikið þegar á hólminn er komið. Kosningaloforðin víkja strax eftir kosningar, fyrir hagsmunum braskara og fjárglæframanna. Hið sama gildir um „stefnu“ og landsfundarsamþykktir. Ekkert af þessu hefur reynst vera pappírsins virði. Það er því of mikil einföldun að skella allri skuld á kjósendur þótt vissulega skipti kosningahegðun máli. Kosningar eru á vissan hátt blekkingarleikur og það þarf að hafa í huga í þessu sambandi. Oft er meira að segja beitt stórfelldum blekkingum. Þá vaknar strax spurning: hvernig eiga kjósendur að verja sig gegn því? Í þessari grein, eins og öðrum fyrri, verður gengið út frá því að sannleikurinn sé besta vörnin gegn lyginni.

Innihald raforkutilskipunar ESB nr. 2019/944

            Hér á eftir, og í næstu grein, verður rennt yfir þau atriði sem einna mestu máli skipta í nefndri tilskipun. Eins og kemur m.a. fram í inngangsorðum [para 8] tilskipunarinnar, er það meðal markmiða hennar að ná til hindrana á innri raforkumarkaðnum. Vísað er til þess að heimamarkaðir séu „sundurlausir“ og lúti oft miklu regluverki. Það sama regluverk hafi myndað hindranir í framboði á raforku og leitt til hærra verðs, samanborið við flutning á raforku yfir landamæri og markaðslausnir.

            Þarna birtast „staðreyndir“ markaðsaflanna. Frjálshyggjan bókstaflega skín út úr þessum texta. Fyrsta spurningin er þessi: hvers vegna skyldu þjóðþing og stjórnvöld ríkja reglusetja ýmsa atvinnustarfsemi? Er það vegna mannvonsku? Er það til þess að gera atvinnulífinu erfitt fyrir? Svar: nei, það er gert til þess að koma böndum á starfsemi braskara og fjárglæframanna og hafa tiltækan viðbúnað [lagaramma] þegar eitthvað ber út af. Afreglun [deregulation] felur hins vegar í sér hið gagnstæða, að afnema reglur og gefa bröskurum og fjárglæframönnum frjálsar hendur [sem stundum hefur endað með hruni!].

            Sú fullyrðing að heimamarkaðir séu „sundurlausir“ (og jafnvel óskilvirkir) á sér enga stoð í raunveruleikanum ef t.d. er miðað við Ísland. Núverandi fyrirkomulag í framleiðslu og dreifingu á raforku hefur virkað ágætlega á lokuðum innanlandsmarkaði. Hins vegar má færa gild rök fyrir því að það hafi verið mistök að aðskilja framleiðslu og dreifingu skömmu eftir síðustu aldamót. Þar hófst óvissuferð sem betur væri ófarin. Af vegferðinni hlaust einungis hækkun raforkuverðs og flóknari yfirbygging og að sjálfsögðu enginn ávinningur fyrir neytendur [enda er „neytendavernd“ einungis „tálbeita“ í þessu sambandi]. Reynslan af markaðslausnum í raforkuframleiðslu er víða langt undir væntingum í sumum fylkjum Bandaríkjanna. Þar hefur t.a.m. framboðsöryggi minnkað og verðið hækkað.[iii]

            Í inngangi umræddrar tilskipunar er skömmu síðar [para 11] vísað til Lissabon-sáttmálans (TFEU) sem tryggi borgurum Evrópusambandsins m.a. frjálsa vöruflutninga, „staðfesturétt“ (freedom of establishment) og þjónustufrelsi. Einungis fullopnir markaðir geti tryggt þetta sem geri neytendum fært að velja þjónustuaðila (supplier) og þjónustuaðilum að veita þjónustuna.

            Þetta kann að virka aðlaðandi í augum einhverra. Hins vegar verður að skoða svona markmið með mjög gagnrýnum huga og ævinlega gera greinarmun á sýnd og reynd. Markmið á blaði eru ekki hið sama og veruleikinn. Spurningin í þessu sambandi snýst ekki síst um það hvaða öfl róa þarna undir. Því er nokkuð fljótsvarað. Það eru að sjálfsögðu markaðsöflin – það eru braskararnir og fjárglæframennirnir sem nú þegar ráða bankakerfi heimsins og heilu atvinnugreinunum. Þessi þróun á sér ekki stað vegna þess að almenningur, hinn almenni kjósandi, sé að biða sérstaklega um þetta! Það er ekki svo. „Neytendavernd“ er síðan notuð sem „gulrót“ til þess að blekkja almenning til fylgis við áformin.

            Auðvitað vilja neytendur fá sem hagstæðast verð, hvort heldur er á rafmagni eða öðru. En halda menn að fjárglæframenn geti best tryggt það? Er það lærdómurinn af bankahruninu og öllu því braski sem því fylgdi? Það er einmitt opinbert eignarhald á virkjunum og dreifikerfi á Íslandi, ásamt með nægu vatnsafli, sem hefur tryggt neytendum mun hagstæðara verð á rafmagni en almennt þekkist í ríkjum Evrópusambandsins. Fólk þarf að safna liði og hrekja þennan áróður allan saman til baka, til föðurhúsanna. Ekki láta ómerkilega stjórnmálamenn og fjárglæframenn ljúga því að sér að neytendur muni græða á þessum tilfæringum. Neytendur munu einmitt tapa á þeim, sérstaklega þegar til lengdar lætur.

Snjallmælar

            Sérstök ástæða er til þess að benda á það sem segir í innganginum um „snjallmæla“iii [sérstaklega para 23, 24, 37, 49, 52, 53, 54, 55 og 57]. Margir minnast í því sambandi hvernig „traustur framsóknarmaður“ náði undir sig vatnsmælum, í gegnum félag sem hann var skrifaður fyrir. Það mál er eitt fjölmargra á Íslandi sem lýsir spillingu og mjög óeðlilegu „eignarhaldi“ á hlutum sem ævinlega ættu að vera í almannaeigu.

            Dæmi um „skotleyfi“ á neytendur, þar sem menn í krafti einokunaraðstöðu geta mjólkað almenning. Ætla má að nú þegar renni einhverjir „framsóknarmenn“ eða Engeyingar hýru auga til nýrra snjallmæla og hyggist mjólka neytendur með þeim. Sömu aðilar munu örugglega styðja orkupakka 4! „Hugkvæmni“ þessa fólks er öll á sama veg, að finna aðferðir til þess að koma sér upp einokun og hagnast í krafti hennar. Allt snýst um það. Drifið áfram af frumstæðri græðgi.

Mynd 1

STÓRA RÁNIÐ UNDIRBÚIÐ - RAFORKUTILSKIPUN 2019/944 - ORKUPAKKI 4

Mynd 1 sýnir einfasa snjallmæli frá danska fyrirtækinu Kamstrup.[iv]

            Þessi gerð rafmagnsmæla, og kölluð er „snjallmælar“ (smart meters) hefur rutt sér til rúms bæði vestan hafs og austan. Með þessum mælum legst af hefðbundinn álestur. Upplýsingar um rafmagnsnotkun fara þess í stað á rauntíma beint til rafmagnsveitu. Hugsunin að baki þessum mælum er ekki hvað síst sú að neytandinn geti betur stýrt sinni rafmagnsnotkun. Á því eru þó ýmsar hliðar. Það er t.a.m. býsna fjarlæg hugmynd í raforkuframleiðsluríki eins og Íslandi að fólk sé sífellt að fylgjast með því hvort það kveikir á eldavél, hvernig það notar hitara í sjálfvirkri þvottavél (séð út frá rafmagnsnotkun en ekki þvottaleiðbeiningum), hvort ljós logar lengur eða skemur o.s.frv. til að ná fram markmiðum hins sameiginlega orkumarkaðar Evrópu (og bjarga heiminum í leiðinni). Þarna bætist við enn eitt „snjalltækið“. Fólk sem kemur þreytt heim á kvöldin mun hafa nóg að gera við það að finna „sátt við snjallmælinn“:

1) elda matinn, þannig að rafmagnið verði ekki „of dýrt“;

2) þvottarnir verði ekki of dýrir;

3) lýsingin verði ekki of dýr, þannig að fólk verði að hýrast í myrkrinu;

4) ísskápurinn taki ekki of mikið rafmagn sem aftur kemur þá niður á kælingu, eða hafi jafnvel þau áhrif að fólk taki aftur upp gamla og góða siði og salti og súrsi í stað kælingar og frystingar.

            Um leið og fólk horfir t.d. á sjónvarpsfréttir getur það lesið og sent smáskilaboð í snjallsíma í vinstri hönd en skoðað rafmagnsnotkun heimilsins á öðru tæki um leið með þeirri hægri (nú eða öfugt). Hver og einn verður þannig sinn eiginn „rafveitustjóri“ ef svo má að orði komast. Enda fylgir þessu að komin er á „virk samkeppni“ og verðið á sífelldu flökti, upp og niður, eins og gengi hlutabréfa.           Einhverjir munu gefast upp á þessu, kaupa sér landskika [og eiga nú þegar], koma þar upp t.d. 10 kílóvatta vindrafstöð,iv varmadælu,v og jafnvel nokkrum sólarsellum á þakið líka. Þá er hægt að kveðja snjallmæla og þess háttar búnað. Það er í raun betri framtíð í því fólgin (komi fólk því við) og vera sjálfum sér nægur um rafmagnsframleiðslu en að gerast þræll innri orkumarkaðar Evrópu!

Mynd 2

mæli2.png

Mynd 2 - snjalltæki (in-home display - IHD)sem sýnir rafmagnsnotkun í kílóvattstundum

Tafla 1[v]

Kostir snjallmæla

Gallar snjallmæla

Rafmagnsnotkun færist beint til rafveitu, í rauntíma. Hefðbundinn álestur legst af.

Tæknileg vandkvæði. Snjalltæki virka ekki sem skyldi. Vandræði við að ná sambandi.

Auðvelt að sjá og rekja rafmagnsnotkun.

Vandamál sem geta komið upp þegar skipt er um rafveitu (þjónustuaðila) og ekki hægt að nota sama snjallmæli áfram (þurfa að vera SMETS2 mælar).

Hægt að greiða fyrirfram (Pre-payment).

Þjónustuaðilar auglýsa fría uppsetningu snjallmæla en kostnaður falinn í rafmagnsreikningum. Verð á rafmagni hækkar í kjölfarið. Sparnaður mun minni en áætlanir gerðu ráð fyrir (England).

Geta sparað rafmagn sem þó veltur á hegðun neytenda.

Atriði sem snerta persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Tölvuinnbrot?

Sumar veitur bjóða lægra verð (England) þegar snjallmælir er til staðar.

Lýðheilsa. Sömu atriði og snerta farsíma (rafsegulbylgjur). Mögulega aukin íkveikjuhætta vegna snjallmæla.

Tafla 1 sýnir samanburð nokkrum á kostum og göllum snjallmæla

            Athyglisverð er tölfræði sem tengist notkun snjallmæla. Meðal þeirra sem höfðu notað snjallmæla í Englandi, í tvö ár, dró greinilega úr áhuga fólks fyrir þessari tækni. Helmingur þeirra kvaðst upphaflega fylgjast með rafmagnsnotkun sinni daglega. Hlutfall þeirra sem skoðaði daglega fór síðan í 21% og 33% kváðust aldrei nota þessa tækni. Um 59% töldu snjallmæla og snjalltæki (IHD) hafa breytt skilningi sínum á orkunotkun og verði en 41% sögðu tækin engu breyta. Ýmsir kváðust hafa vitað notkunina áður, eða 43%, aðrir ýmist notuðu ekki snjalltæki (IHD) eða skildu ekki þýðingu þeirra, 13% aðspurðra.[vi]

Einstakar greinar tilskipunar

            Efni tilskipunarinnar kemur fram í 1. gr. hennar. Þar segir m.a. að með tilskipuninni sé komið á sameiginlegum reglum um framleiðslu, flutning, dreifingu, geymslu á orku og framboð rafmagns. Þessu til viðbótar er vísað til ákvæða sem snerta „neytendavernd“. Yfirlýst markmið er að mynda samþættan samkeppnismarkað með rafmagn innan Evrópusambandsins [innri orkumarkaður].

            „Neytendaverndin“ sem þarna er vísað til er hins vegar atriði sem enginn maður ætti að taka sem gefið. Enda ljóst að allt tal um „neytendavernd“ í þessu sambandi er einungis „gulrót“ sem ætlað er að friðþægja neytendur.

            Þá er lögð áhersla á mikið afhendingaröryggi raforku, minni kolefnislosun, uppskiptingu (unbundling) framleiðslu og dreifingar og sjálfstæði „landsreglara“ [mætti allt eins kalla landstjóra/umboðsmann ESB]. Markmiðið er opinn og samtengdur innri orkumarkaður Evrópu sem aftur byggi á „frjálsri samkeppni“ og „endurnýjanlegum orkugjöfum“.

            Við þetta er fjölmargt að athuga. Segja má að sönnunarbyrði þess að t.d. afhendingaröryggi muni aukast við markaðsvæðinguna hvíli á þeim sem þessu halda fram, þ.e.a.s. þeim frjálshyggjumönnum Evrópusambandsins sem reyna að telja fólki trú um þetta. Dæmi t.d. frá Bandaríkjunum[vii] sýna að afhendingaröryggi eykst ekki, það versnar við aukna markaðsvæðingu. Það kemur ekki síst til af gróðasjónarmiðum. Það að tryggja afhendingaröryggi kostar peninga! Allt viðhald og endurnýjun í raforkukerfum (sem annars staðar) gerir að verkum að arðurinn minnkar. Raunar er slíku strax velt út í verðlagið með hækkuðum töxtum. Ekki hagnast neytendur á því. Dæmi bæði frá Kaliforníu og New York eru sláandi í þessu sambandi. Það er dapurlegt að bæði ESB og stjórnvöld aðildarríkja læri ekkert af reynslu annara þjóða á þessu sviði. Tilraunina, með markaðsvæðingu raforkunnar, er búið að gera í Bandaríkjunum. Þau mistök þarf ekki að endurtaka í Evrópu.

            Í 2. gr. er fjallað um skilgreiningar hugtaka. Þar eru tilgreind samtals 60 atriði. 3. gr. kveður m.a. á um það að heimaríki skuli tryggja að löggjöf ríkjanna torveldi ekki viðskipti með raforku yfir landamæri. Þarna er „neikvæða skyldan“, og áður hefur verið nefnd, beinlínis færð inn í lagatextann sjálfan. Skyldan til þess að „þvælast ekki fyrir einkaframtakinu“.

            Síðan kemur furðuleg klausa um það að aðildarríkin skuli tryggja að raforkuverð endurspegli raunverulega eftirspurn og framboð. Í Reglugerð um raforku nr. 2019/943 er hins vegar lögð áhersla á það að raforkuverð ráðist af framboði og eftirspurn (a-liður 3. gr). Á „frjálsum markaði“ er vandséð hvernig einstök ríki eiga að tryggja að verð endurspegli raunverulega eftirspurn og framboð!

            Enda er þeim sama markaði ætlað að stýra verðinu. Aðildarríkin eiga hins vegar að opna allt upp á gátt. Það er raunar svo að ríkin hafa ákaflega lítið um þetta að segja, eftir að þau hafa innleitt orkupakka þrjú og fjögur. Þá gilda einfaldlega reglur Evrópuréttarins. Í 3. mgr. 3. gr. kemur fram að aðildarríkin skulu tryggja hindrunarlausan aðgang á innri raforkumarkaðnum. Hér duga heldur engin rök í þá veru að einstök ríki geti haft áhrif á lagasetninguna. Markaðsöflin hafa fyrir löngu valtað yfir allt lýðræði í þessu sem öðru og keyra sameiginlegu orkustefnuna bæði í gegnum þjóðþing og stofnanir Evrópusambandsins. Nærtækt dæmi er orkupakki þrjú í meðförum Alþingis. Þar sást greinilega, hafi menn verið í vafa, hvernig „jarðýta markaðsaflanna“ vinnur. Hún mylur undir sig þjóðþingin. Vilji kjósenda er hafður að engu. Stjórnarþingmenn voru eins og tuskubrúður í því máli öllu saman – algerlega viljalaus verkfæri. Sýndu fullkominn undirlægjuhátt. Sjaldan hefur vanhæfni Alþingis afhjúpast betur en einmitt þá.

            Það sem einkennir orkupakkana alla, er áróðurinn sem í þeim er borinn fram. Þetta er einn samfelldur lofsöngur um ágæti frjálshyggjunnar, markaðsvæðingarinnar og „einkaframtaksins“. Alls staðar skín í gegn, hversu slæmt sé að opinber þjónusta „þvælist fyrir“ „einkaframtakinu“. Sannast sagna á texti þessara tilskipana og reglugerða meira skylt við trúarrit [strangtrúaðra] en lögfræði. Svo „innblásinn“ er textinn af fræðum frjálshyggjunnar og kenningum Milton Friedman um óheft frelsi braskaranna.

            Í 5. gr. tilskipunarinnar er fjallað um markaðsverð á raforku til viðskiptavina (neytenda). Þar segir í 1. mgr. að raforkuframleiðendur skuli frjálsir að verðlagningu sinni á rafmagni. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja virka samkeppni á milli rafveitna. Í 2. mgr. er hins mælt fyrir um skyldu aðildarríkja til þess að tryggja vernd gagnvart fátækt á heimilum, s.s. með félagslegri stefnu, þó án beinnar opinberrar íhlutunar. Er þar og vísað til 28. og 29. gr. sömu tilskipunar þar sem þessi atriði eru útfærð nánar. Að þeim verður betur vikið í þessum og næstu skrifum.

            Allir sem þekkja til íslensks samfélags gera sér strax ljóst að ekkert af þessum markmiðum mun nást fram, eða er það reynslan almennt að virk samkeppni ríki á Íslandi? Ef utanlandsflugið er undanskilið, hvar á það við? Á Íslandi ríkir auðvitað bullandi fákeppni og einokun á flestum sviðum. Eftirlitsstofnanir eru almennt ákaflega afskiptalausar og vanmáttugar í því sambandi. Þá er alveg augljóst að fátækt fólk á Íslandi mun ekki njóta neinna sérkjara, svo mikið er alveg víst. Íslenska mafían kærir sig ekki um neitt slíkt enda myndi það hafa í för með sér minni gróða fyrir mafíuna og þá sem henni tilheyra. Til þess er ekki lagt upp í leiðangur „markaðsvæðingar“ að takmarka auðsköpun íslensku mafíunnar, öðru nær.

            Í 3. mgr. 5. gr. kemur hins vegar fram að víkja má frá ákvæðum 1. og 2. mgr. og beita opinberu inngripi, þegar þegar um ræðir fátækt á heimilum [kaupenda]. Slíkt inngrip er háð skilyrðum sem skilgreind eru í 4. og 5. mgr. 5. gr. Skilyrðin eru samkvæmt 4. mgr.:

(a) að íhlutun styðji við almenn efnahagsleg markmið en gangi ekki lengra en nauðsyn ber til svo þeim megi ná fram;

(b) að íhlutun sé skýrlega skilgreind, gegnsæ, án mismununar og sannreynanleg;

(c) að íhlutun tryggi jafnan aðgang raforkufyrirtækja ESB að viðskiptavinum;

(d) að íhlutun standi í takmarkaðan tíma og sé hæfileg, miðist við þá sem íhlutuninni er ætlað að ná til;

(e) að íhlutun feli ekki í sér viðbótarkostnað fyrir aðila á markaði vegna mismununar.

            Samkvæmt 5. mgr. 5. gr. skulu opinber inngrip aðildarríkja á verðlagningu, skv. 3. mgr., einnig samræmast d-lið 3. mgr. 3. gr. og 24. gr. reglugerðar[viii] ESB nr. 2018/1999, óháð fjölda heimila þar sem fátækt er til staðar.

            Um aðgang þriðja aðila (third party access) að flutnings- og dreifikerfum er fjallað í 6. gr. Í 1. mgr. 6. gr. er lögð sú skylda á aðildarríkin að tryggja aðgang þriðja (þriðju) aðila að flutnings- og dreifikerfum, án mismununar. 2. mgr. hefur að geyma undanþáguákvæði, þess efnis að þeim sem reka flutnings- og dreifikerfi er heimilt að hafna aðgangi að raforkukerfum þegar burðargetu skortir, en rökstyðja þarf vel slíka ákvörðun. Hún verður að byggjast á hlutlægum, tæknilegum og efnahagslegum forsendum.

            Í 9. gr. tilskipunarinnar eru ákvæði um skyldur á sviði opinberrar þjónustu. Samkvæmt 1. mgr. skulu aðildarríki [m.a. skv. nálægðarreglunni] tryggja að stofnanir þeirra og raforkufyrirtæki starfi samkvæmt reglum tilskipunarinnar [2019/944] með það að markmiði að koma á samkeppnishæfum, öruggum og umhverfislega sjálfbærum markaði með rafmagn. Óheimilt er að mismuna fyrirtækjum hvað snertir réttindi og skyldur.

            Í 2. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar er vísað til ákvæða Lissabon-sáttmálans, sérstaklega 106. gr. TFEU. Sú grein tilheyrir þeim hluta sáttmálans sem fjallar um samkeppnismál. Í 1. mgr. 106. gr. kemur fram að þegar um ræðir opinber fyrirtæki (public undertakings) eða fyrirtæki sem njóta sérréttinda (exclusive rights) er aðildarríkjum óheimilt að gera ráðstafanir sem ganga gegn ákvæðum sáttmálanna, sérstaklega samkeppnisákvæðunum. Að teknu tilliti til ákvæða 106. gr. TFEU er ríkjunum þó heimilt að leggja ýmsar kvaðir á raforkufyrirtæki; í krafti almennra efnahagslegra hagsmuna, skyldna um opinbera þjónustu sem kunna að tengjast öryggi, þar með talið framboðsöryggi (security of supply), reglufesta, gæði og verð á þjónustu, umhverfisvernd og loftslagsmál. Slíkar ráðstafanir skulu vera vandlega skilgreindar, gegnsæjar, án mismununar og sannreynanlegar, eins og áður er komið fram. Skyldur um opinbera þjónustu sem snerta verðlagningu á rafmagni þurfa að vera í samræmi við þau skilyrði sem skilgreind eru i 5. gr. umræddrar tilskipunar [2019/944].

            Aðildarríki skulu, við innleiðingu tilskipunarinnar, upplýsa framkvæmdastjórn ESB um þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til þess að uppfylla almennar skyldur um þjónustu og almannaþjónustu, þar með taldar „neytendavernd“ og umhverfisvernd, ásamt mögulegum áhrifum á innlenda og alþjóðlega samkeppni, hvort heldur þær ráðstafanir útheimta frávik frá tilskipuninni eða ekki. Þá skal tilkynna framkvæmdastjórninni á tveggja ára fresti um allar breytingar á þess háttar ráðstöfunum, hvort sem þær útheimta frávik frá tilskipuninni eða ekki.

            Í 5. mgr. 9. gr. kemur fram að víkja má frá 6., 7., og 8. gr. tilskipunarinnar, svo framarlega að það hindri ekki, lagalega eða í raun, efndir skyldna sem lagðar eru á raforkufyrirtæki í almennu efnahagslegu tilliti og svo lengi sem það hefur ekki áhrif á þróun alþjóðaviðskipta, í andstöðu við hagsmuni ESB.

Lokaorð

            Eins og ætti að vera orðið ljóst af yfirferð um nokkrar lagagreinar raforkutilskipunar ESB nr. 2019/944, felast í fjórða orkupakkanum gríðarlega miklar skyldur og flókið regluverk sem aðildarríkjum er ætlað að uppfylla. Um sömu tilskipun verður áfram rætt í næstu grein, enda snertir hún beint íslenska hagsmuni um langa framtíð. Undirlægjufólk á Alþingi brást þjóðinni algerlega með innleiðingu þriðja orkupakkans í haust. Alþingi er því rúið öllu trausti gagnvart því stóra og mikilvæga verkefni að tryggja framtíðarorkumál á Íslandi, þannig að þjóni íslenskum hagsmunum best. Undirlægjan felst einmitt m.a. í því að taka hagsmuni braskara og fjárglæframanna fram yfir hagsmuni þjóðarinnar (neytenda). Mál eru keyrð í gegn um þingið með ofbeldi og ráðríki, þvert á þjóðarviljann. Undirægjufólkið leyfir sér síðan að kalla það „málþóf“ að talað sé gegn ósómanum og undirlægjur á fjölmiðlum taka auðvitað undir það. 

            Verkefni næstu kosninga verður að losna við allar undirlægjur á Alþingi, en kjósa þar inn í staðinn strangheiðarlegt fólk sem stendur í báða fætur og hlustar á þjóðina en tekur ekki hagsmuni fjárglæframanna fram yfir alla aðra hagsmuni. Allir sem nú mynda meirihluta á Alþingi kolféllu á síðasta prófi. Því fólki þarf nauðsynlega að skipta út næst, öllu með tölu. Sterkustu einkenni þessa sama fólks á Alþingi eru; óheiðarleiki, undirlægjuháttur og meðvirkni. Fulltrúalýðræði getur aldrei virkað sem skyldi með þessháttar fólk við stjórnvölinn.

            Nú myndu ýmsir lýðskrumarar biðja um rökstuðning fyrir þessu. Alveg sjálfsagt að verða við því. Byrjum á óheiðarleikanum. Hvað er það annað en óheiðarleiki að segja eitt fyrir kosningar og gera síðan allt annað eftir þær? Landsfundarsamþykktir eru hafðar að engu og „stefna“ heilla flokka. Það er ekkert annað en óheiðarleiki. Það er undirlægjuháttur að ganga erinda fjárglæframanna við ákvarðanir á Alþingi og ganga að sama skapi gegn meirihlutavilja þjóðarinnar. Það er líka undirlægjuháttur að samþykkja gagnrýnislaust, sem sjálfgefinn hlut, orkustefnu ESB og láta eins og þar sé um að ræða „náttúrulögmál“ sem mannlegur máttur á Íslandi fái ekki við ráðið. Það er undirlægjuháttur og auðvitað alger skortur á pólitískum myndugleika.

            Meðvirknin bætist síðan við, gerir allar ákvarðanir ógegnsæjar og beinlínis ólýðræðislegar. Sá þingmaður sem fylgir í blindni flokksaga, oft þvert á þjóðarhagsmuni, er bullandi meðvirkur. Á Alþingi vantar fólk sem spyr um hagsmuni þjóðar sinnar, en ekki flokkshagsmuni og hagsmuni íslensku mafíunnar, og tekur ákvarðanir í samræmi við það.

            Í Afríku segja menn af sér í opinberum stöðum, eins og nýlega hefur komið fram. Á Íslandi segja menn yfirleitt aldrei af sér heldur hanga eins og hundar á roði á stólum og stöðum, á hverju sem gengur. Á Íslandi er mafíustarfsemi jafnvel skilgreind sem „greiðasemi“. Margskonar rán eru nú í farvatninu. „Bankarán“, rán á auðlindum og orkulindum þjóðarinnar, kvótinn hefur verið ránsfengur um árabil (áratugi) enda var eigandi hans (þjóðin sjálf) aldrei spurð álits. Menn ganga jafnvel svo langt að braska með þjóðareign, kaupa og selja það sem þeir eiga ekki.[ix] Þá vaknar spurning; hvernig spyrja menn þjóðir álits? Svar: í fyrsta lagi með þjóðaratkvæðagreiðslum[x] [bindandi], í öðru lagi með því að gera mál að kosningamáli þannig að hægt sé að kjósa til Alþingis eftir afstöðu til viðkomandi máls [hér þarf þó að hafa í huga það sem áður var sagt, að kosningaloforðin eru síðan höfð að engu]. Bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla er almennt lausnin á nefndum vanda (sbr. Sviss[xi]).

[i]      https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/HTML/?uri=CELEX:32019L0944&from=EN

[ii]    Sjá einnig: O´Donnel, G. (1999). Democratic Theory and Comparative Politics. Wissenschaftszentrum Berlin für Sozialforschung DGmbH (WZB). https://www.econstor.eu/obitstream/10419/50266/1/311374093.pdf

[iii]   Sjá enn fremur: Hyman, L. & Tilles, W. (2016). Why Electricity Deregulation Fell Short Of Expectations. OilPrice. https://oilprice.com/Latest-Energy-News/World-News/Why-Electricity-Deregulation-Fell-Short-Of-Expectations.html

[iv]    https://www.kamstrup.com/en-en/about-kamstrup

[v]     Pros and Cons of Smart Meters. Utility Talk. http://utilitytalk.co.uk/pros-cons-smart-meters/

[vi]    Ingrams, S. (2018). Smart meters: what owners really think. Which. https://www.which.co.uk/news/2018/03/smart-meters-what-owners-really-think/

[vii]  Mæli sérstaklega með: Lave, L.B., Apt, J. and Blumsack, S. (2004). Rethinking Electricity Deregulation. The Electricity Journal 17(8):11-26.

[viii] Regulation (EU) 2018/1999 of the European Parliament and of the Council. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/PDF/?uri=CELEX:32018R1999

[ix]    Sjá einnig regluna: nemo dat quod non habet. https://legal-dictionary.thefreedictionary.com/nemo+dat+quod+non+habet

[x]     Sjá enn fremur: https://www.carnegiecouncil.org/publications/ethics_online/community-referenda-on-mining-in-guatemala

[xi]    https://www.ch.ch/en/demokratie/political-rights/referendum/