ÞAÐ ER MIKILL ÁBYRGÐARHLUTI AÐ SELJA SPRENGIEFNI
Leiðinlegasti dagur ársins er tvímælalaust gamlársdagur. Ekki vegna þess að hann sé í sjálfu sér verri en aðrir dagar ársins heldur vegna hins að honum er spillt með óþarfa hávaða, drykkju og látum. Það verður ekki afsakað með því að „þetta sé síðasti dagur ársins“.
Sá ósiður, má segja plagsiður, hefur mótast á Íslandi að kunna sér ekki hóf í neinu. Það sást vel árin fyrir hrunið mikla þar sem „allir ætluðu að verða ríkir“ og helst á einni nóttu. Enginn mátti vera minni maður en næsti maður, ekki skulda minna en næsti maður, ekki ferðast minna en næstir maður eða byggja minna hús en næsti maður. Metingur og samanburður er það sem knýr þessa „vél“ áfram – hún þarf ekki annað eldsneyti. Það virðist oft gleymast að spyrja sjálfan sig hreinskilinna spurninga eins og t.d. hvað menn vilja sjálfir, hvert þeir sjálfir vilja stefna.
Áfengisneysla
Margs konar neysla rennur að sama ósi. Margir drekka áfengi til þess að „falla í fjöldann“ og vera ekki „púkó“. En hversu margir hafa spurt sig hvort þá raunverulega langi í áfengi? Að ekki sé spurt um það hvort áfengi sé ómissandi eða geri fólki yfirleitt eitthvað gott. Raunar hafa læknavísindin svarað þeim spurningum neitandi. Áfengisneysla er einmitt orsakaþáttur í myndun ýmissa krabbameina og margra fleiri sjúkdóma. Þá benda rannsóknir til þess að glæpatíðni og alvarleiki glæpa aukist með vaxandi neyslu áfengis.[i] Rökrétt ályktun er því að láta það vera. Er ekki eitthvað mikið að samskiptum fólks ef þau þarf að „smyrja“ með áfengi?
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands jókst neysla áfengis á Íslandi frá 1980 til 2016 um 73%.[ii] „Dregið hefur úr áfengisneyslu í Danmörku, Færeyjum og á Grænlandi og einnig lítillega í Finnlandi frá árinu 2000 á sama tíma og hún hefur aukist á Álandseyjum, í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi...Mestur er samdrátturinn á Grænlandi en aukningin mest á Íslandi á þessu tímabili.“[iii]
Sala sprengiefnis til almennings
Það er hins vegar mun fleira en óhóf í peningamálum og áfengisneyslu sem er verulega íhugunarvert á Íslandi. Á Íslandi hefur nefnilega tíðkast áratugum saman að selja almenningi sprengiefni[iv] í stórum stíl þegar líður að áramótum. Það er vissulega þarft málefni að björgunarsveitir landsins séu sem allra best búnar og fjármagnaðar þar sem um sjálfboðastarf að ræða og ekki hægt að ætlast til þess að allt það ágæta fólk sem sinnir björgunarstörfum borgi með sér (þótt oft kunni það þó einmitt að vera raunin). Leiðin til þess að kosta starfið er hins vegar afar slæm að flestu leyti. Það má fullyrða að hún hafi miklum mun fleiri galla í för með sér en kosti. Að því verður bráðlega vikið.
Í rólegheitum við ræddum og sátum,
raun er að miklu fári.
Í hávaða, drunum og helvískum látum,
heilsuðum nýju ári.
Eins og margir Íslendingar mæla manngildi sitt í veraldlegum eignum (stundum jafnvel þýfi), lítrum áfengis og fermetrum fasteigna, þá er líka mælt í fjölda flugeldasprenginga frá áramótum og oft fram á haust! Að skjóta sem mest og lengst er talið merki um sterkt andlegt atgervi sprengjumanna, enda ekki öllum fært að þola þann hávaða, slysahættu og mengun sem sprengingunum fylgir. Afkomendur Egils Skallagrímssonar láta sig þó hafa það. Hins vegar er það varla sérstakur gleðiauki fyrir fólk sem kemur t.a.m. frá stríðshrjáðum svæðum að heyra skothvelli og sprengingar þótt slíkur hávaði kunni að höfða til afkomenda Egils - sérstaklega þegar þeir eru undir áhrifum áfengis.
Þetta kemur reyndar allt heim og saman við kenningar bandaríska fræðimannsins Thorstein Veblen. En hann taldi fólk sýna félagslega stöðu sína með neyslu.[v] Neyslan sem slík er þannig notuð sem „stöðutákn“.
Neikvæðar afleiðingar sprengiefnisins
Fjöldamörg dæmi mætti draga fram sem sýna gríðarlega neikvæðar og alvarlegar afleiðingar sprengiefnisins.[vi] Varningur sá sem seldur er og einu nafni kallaður „flugeldar“ á það sameiginlegt að hafa í sér sprengiefni, einungis í mismiklu magni og í mismunandi samsetningu. Drögum fyrst fram verstu afleiðingarnar:
- ofboðslegur hávaði, á bilinu 150-175 desibel;
- gríðarleg mengun, ryk[vii] og þungmálmar;[viii]
- veruleg slysahætta, heyrnarskaði, augnskaði,[ix] brunaslys;
- streituvaldur, eins og annar hávaði, sem aftur hækkar blóðþrýsting;
- gríðarlegt ónæði, truflun á friðhelgi heimila og einkalífs;
- neikvæð áhrif á dýra- og fuglalíf.
Þarna eru taldar verstu afleiðingarnar. En eru einhverjir kostir og þá það miklir að þeir yfirvinni neikvæðu afleiðingarnar, þannig að sprengiefnið sé með einhverju móti verjandi? Kosturinn er einungis einn: fé til handa björgunarsveitum landsins. Ef einhver vill halda því fram að það sé annar kostur við sprengiefnið, nefnilega sá að horfa á efnið valda blossum og litabreytingum þá halda þau rök ekki. Það má nefnilega framkalla það á tölvuskjá, sjónvarpsskjá, eða jafnvel bjóða upp á bíósýningar þar sem flugeldaskothríð væri eina efni myndarinnar. Með því móti má líka bjóða hávaðann í „bestu hljómgæðum“. Enn aðrir kunna að telja það kost fyrir kínverska hagkerfið að keypt sé sem mest af sprengiefni.
„Stafrænar sprengingar“ leysa vandann
Með tækni nútímans sýnst einfalt mál að leysa vandamál sprengiefnisins og að framan er lýst. Áhugaverð tilraun til þess var gerð nýafstaðin áramót.[x] Vel má hugsa sér að í stað þess að fylla lungu landsmanna af reyk, þungmálmum og öðrum óþverra, verið risaskjáir fluttir t.d. með loftbelg eða helíumkúlum hátt í loft og flugeldaskothríðin sýnd þar. [Verða að vera í bandi þannig að hægt sé að ná þeim niður aftur]. Síðan verði sérstök síða á netinu þar sem fólk getur fengið hávaðann, jafnvel með sérstöku „appi“ í farsíma.
Þetta mætti jafnvel útfæra þannig að fólk geti keypt sér sprengingu til birtingar á risaskjánum, t.a.m. svona: „Þessi flugeldasýning er í boði Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur“. Óska lesendum gleðilegs nýárs, án sprenginga og óþarfa hávaða.
[i] Sjá t.d.: 10th Special Report to Congress on Alcohol and Health (June 2000). U.S. Department of Health and Human Services. https://pubs.niaaa.nih.gov/publications/10report/chap01c.pdf
[ii] Hagstofa Íslands. (21. júní 2017). https://www.hagstofa.is/utgafur/frettasafn/heilbrigdismal/afengisneysla/
[iii] Ibid.
[iv] Sjá enn fremur: Scottish Government. (4 Oct 2019). Fireworks legislation and impacts: international evidence review. https://www.gov.scot/publications/fireworks-legislation-impacts-international-evidence-review/pages/8/
[v] The Library of Economics and Liberty. Thorstein Veblen. https://www.econlib.org/library/Enc/bios/Veblen.html
[vi] Sjá einnig: Dimitrova, A. (2020). The Netherlands puts a temporary ban on fireworks. TheMayor.EU. https://www.themayor.eu/en/the-netherlands-puts-a-temporary-ban-on-fireworks
[vii] Sjá t.d.: Gunnar Guðmundsson, Hrund Ólöf Andradóttir og Þröstur Þorsteinsson. Mengun af völdum flugelda og áhrif á lungnaheilsu Íslendinga. Læknablaðið 2018; 104: 576-577. https://www.laeknabladid.is/media/tolublod/1826/PDF/u13.pdf
[viii] Sjá t.d.: Penn Today. „The chemistry behind fireworks“. (2021). https://penntoday.upenn.edu/news/chemistry-behind-fireworks
[ix] Sjá t.d.: María Soffía Gottfreðsdóttir. (31. desember, 2014). Slys af völdum flugelda. Fréttablaðið.
[x] Sjá: Þórhildur Þorkelsdóttir (2020). „Eina flugeldasalan hjá Ísólfi verður á stafrænu formi“. RUV. https://www.ruv.is/frett/2020/12/31/eina-flugeldasalan-hja-isolfi-verdur-a-stafraenu-formi?itm_source=parsely-api