Fara í efni

ÞJÓFRÆÐI OG LÝÐRÆÐI

Skammt er nú til kosninga. Eins og oft áður munu næstu kosningar ráða miklu um umfang þjófræðis á næstu árum. Þjófræðisöflin róa öllum árum að áframhaldandi eignatilfærslum frá þjóðinni og til ákveðinna flokksgæðinga. Um er að ræða orkufyrirtæki (Landsvirkjun), fjármálafyrirtæki (banka) auðlindir hafsins og fleira. Einkavæðingaróperan verður flutt sem aldrei fyrr, nái núverandi stjórnarflokkar markmiðum sínum. Alltaf er nóg af kjósendum sem langar til að vera í "vinningsliðinu" og jafnvel njóta góðs af þýfinu sem deilt er til fáeinna útvalinna og hrýtur af borðum braskaranna.

Öðruvísi verður varla skýrt, með skynsamlegu móti, hvers vegna græðgisöflin koma jafn vel út úr kosningum og dæmin sanna. Það gefur auga leið að þeir flokkar sem lengst hafa setið að völdum hafa einnig verið í bestri aðstöðu til þess að búa í haginn fyrir þjófræðið. Það er með öðrum orðum nauðsynlegt skilyrði þjófræðisins að vera í aðstöðu til að stunda það. Alveg eins og þjófur þarf að komast í tæri við þýfið þarf stjórnmálaflokkur að komast til áhrifa og valda svo þjófræði stjórnmálanna geti þrifist.

Fríríki frjálshyggjunnar

[Frjálshyggjufríríki]

 

Frjáls er hyggja í fríríki,

 

frelsið boðar sanna.

 

Ganga framar guðsríki,

 

gæði markaðanna.

 

 

 

Frjáls er hyggja fríríkis,

 

frelsi boðar manna.

 

Óstjórnlegt er andríkið,

 

eins og dæmin sanna.

 

Það má velta upp þeirri spurningu hvort ekki sé of mikill meiningarmunur á milli annars vega meirihluta þjóðarinnar og hins vegar frjálsyggjuaflanna (og styðja þjófræðið) svo hægt sé að kalla eina þjóð. Sá stóri hluti þjóðarinnar sem ekki vill láta stela frá sér, og arðræna sig, hlýtur að eiga heimtingu á að vera í friði með eignir sínar, enda eignarrétturinn varinn af 72. gr. stjórnarskrár Íslands sem og af 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Segja má að þjófræðisöflin á Íslandi ásælist sífellt eignir þjóðarinnar. Einkaránsvæðing bankanna er eftirminnilegt dæmi um það. En allur orkugeirinn er þar undir líka, að sjálfsögðu, sem og náttúruauðlindir almennt.

Mjög góð lausn á þessu vandmáli, fyrir alla aðila, gæti verið sú að stofna fríríki frálshyggjunnar á Íslandi. Varnarsvæðið á Miðnesheiði hefði verið heppilegt í þessu tilliti en þar sem annarskonar uppbygging er þar í gangi nú væri betra að fórna landstórri jörð fyrir þetta verkefni. Grímsstaðir á Fjöllum gætu t.d. komið til greina og þá með ströngum skilyrðum hvað snertir vatnsréttindi og önnur réttindi sem þar kom til álita.

Þjóðaratkvæðagreiðsla yrði síðan haldin um það hverjir kjósa að tilheyra hinu nýja, guðdómlega ríki frjálshyggjunnar. Ríkisborgarar frjálshyggjuríkisins myndu þá fá sérstök vegabréf sem staðfesta, sýna og sanna, hollustu þeirra við frjálshyggjuna. Gera verður sérstaka samninga við íslenska ríkið um aðgang að vegakerfi og innheimtu veggjalda vegna þess. Enda mun frjálshyggjufólk hins nýja ríkis ekki taka annað í mál en "borga fyrir sig". Sama gildir um heilbrigðiskerfið. Þar verður þegnum nýja frjálshyggjuríkisins heimilt að sækja sér þjónustu utan landamæranna gegn allháu gjaldi. Hins vegar liggur beinast við að nýja fríríkið byggi sjálft upp heilbrigðiskerfi, innan sinna landamæra sem þegnar þess ríkis kosti sjálfir. Það á og alveg sérstaklega við um menntakerfi. Enda þarf að innprenta þegnum fríríkisins ómenguð fræði frjálshyggjunnar og eðlilegast að sú kennsla fari fram innan landamæra fríríkisins, hvort sem er á framhalds- eða háskólastigi. Þá standi sömu þegnum einnig til boða nám erlendis sem þeir greiða að sjálfsögðu sjálfir, úr eigin vasa. Íbúum fríríkisins verður einnig heimilt að byggja upp eigin flugsamgöngur, með flugvelli (millilandaflugvelli) og öllu sem til þarf. Allur kostnaður við uppbyggingu og rekstur greiðist af nýja fríríkinu.

Þótt kostnaður við uppbyggingu innviða verði umtalsverður munu harðsoðnir talsmenn frjálshyggjunnar (og sótsvartir hægri menn) telja það létt á metum, í samanburði við allt það FRELSI sem þeir njóta í fríríkinu. Þar munu gilda fáar og einfaldar reglur (enda talið mikilvægt að "einfalda regluverkið") byggðar á Lögbók fríríkis frjálshyggjunnar.

Innan fríríkisins verður auðvitað heimilt að reka vændishús, spilavíti, glæpabankastarfsemi, stunda eiturlyfjasölu, og yfirleitt alla þá glæpastarfsemi sem hægt er að óska sér. En ströng landamæragæsla mun tryggja að íslenska þjóðin beri engan skaða af þeirri starfsemi, enda fríkríkið vandlega varið með þrefaldri rafmagnsgyrðingu og landamæraeftirliti (sem kostað verður af fríríkinu).

Þegnum fríkríksins verður heimilt að stunda fiskveiðar í íslenski lögsögu, gegn háu gjaldi og semja þarf um sérstaklega við íslensku þjóðina sem eiganda miða og aflaheimilda. Um aðgang að höfnum og hafnargjöld þarf og að semja sérstaklega.

Ávinningur íslensku þjóðarinnar af nýja fyrirkomulaginu verður gríðarlegur og í raun ómetanlegur. Hægt verður að byggja upp miklu sterkara heilbrigðiskerfi (þar með talinn nýjan Landspítala), stórbæta menntakerfið, vegakerfið og alla aðra innviði, enda engin niðurrifsöfl lengur til staðar sem arðræna þjóðina og standa gegn framförum. Sú starfsemi hefur öll færst yfir í fríríki frjálshyggjunnar og öðrum kemur ekkert við hvað gerist þar, eða hvernig íbúar ríkisins kjósa að haga sínum innanríksimálum.