ÞRENNS KONAR BANKARÁN
Miklar breytingar hafa orðið hérlendis á bankaránum. Margir minnast þess þegar Búnaðarbankinn þáverandi við Vesturgötu var rændur, í desember árið 1995. Þar voru á ferð þrír menn vopnaðir haglabyssu. Atburðurinn vakti að vonum óhug flestra enda vopnuð rán sem betur fer ekki daglegt brauð á Íslandi. Þar sem ránið var vel skipulagt og undirbúið skilaði rannsókn lögreglu litlum sem engum árangri og reyndist því erfitt að tengja ákveðna aðila við verknaðinn [enda þótt málið hafi verið talið upplýst löngu síðar].
Þarna var sem sagt framinn glæpur þar sem ekki tókst að tengja ákveðna gerendur við verknaðinn. Þessi sami banki, Búnaðarbankinn, var síðan einkavæddur árið 2002. Sú "einkavæðing" sýndi vel þá þróun sem orðið hafði á íslenskum bankaránum. Nú var ekki lengur beitt haglabyssu eða hótunum um líkamlegt ofbeldi, heldur var beitt pólitískum samböndum og "ránið" kallað "einkavæðing". Niðurstaðan varð hins vegar sú í báðum tilvikum að bankinn tapaði fé. "Kaupendur" Búnaðarbankans höfðu traust pólitísk sambönd og komu þau að mestu leyti í stað haglabyssunnar áður. "Ránið" heppnaðist fullkomlega, bankinn var "einkavæddur", og gerningnum veitt lögmæti af hálfu Alþingis. Engin sérstök ástæða þótti til að rannsaka það mál frekar, eða eyða tíma lögreglu í það, enda þótt öllum mætti vera ljóst að full þörf væri á því.
En hinir nýju skráðu "eigendur" og "stjórnendur" tóku hins vegar fljótlega til óspilltra málanna, þöndu starfsemina út og stækkuðu efnahagsreikninginn svo um munaði. Voru færðar af því fréttir að stjórnendur bankans [sem fékk annað nafn] hefðu greitt sjálfum sér háa kaupauka enda bankinn rekinn eftir þekkri forskrift, sem Dr. William K Black hefur gert ýtarlega grein fyrir, og byggir m.a. á gríðarlegri útþenslu [vexti], háu hlutfalli útlána miðað við eigið fé (leverage), og því að sýna aldrei annað en ofsagróða í bókhaldinu [og þar koma endurskoðendur til sögunnar] sem aftur gerir mögulegt að greiða efstu stjórnendum háa kaupauka (bónusa). Þarna er í stuttu máli komin þriðja aðferðin við bankaránin. Eftir að bankanum sjálfum hafði verið "rænt" í heilu lagi, eftir löglegum leiðum Alþingis, var því næst tekið til við að ná innan úr honum öllu fémætu. Það skilað svo góðum árangri að umræddur banki fór á hliðina (eins og allt íslenska bankakerfið) og olli verulegum "landskjálfta" á Íslandi og víðar við fallið, eins og kunnugt er. Þau mál eru nú enn til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara.
Það á síðan eftir að koma í ljós hvort viðbrögð "kerfisins" við þessum nýju tegundum af bankaránum verða jafn einbeitt og við hinu fyrsta, þ.e. með haglabyssunni. Margt bendir til þess að það sé ekki tap viðkomandi banka sem slíkt sem skiptir máli [bankinn tapar hvernig sem tapið er til komið] heldur hitt hver veldur tapinu og fremur afbrotið og í hvaða þjóðfélagsstöðu viðkomandi brotamaður er [samkvæmt skilgreiningum í markaðsþjóðfélagi]. Í þessu kristallast einmitt munurinn á afbrotum sem kalla má "hefðbundin" og framin eru "utan frá" og hinum sem framin eru "innan frá", sem oft eru kölluð "hvítflibbaafbrot" (white-collar crime), og kennd eru við bandaríska afbrotafræðinginn Edvin H Sutherland.
Munurinn liggur þar af leiðandi ekki í brotunum sjálfum eða afleiðingum þeirra, eins og ýmsir kynnu að halda, heldur í því hvaða afstöðu "kerfið" hefur til brotanna. Það er að sjálfsögðu sami fjárhagslegi skaðinn fyrir banka hvort hann er rændur "innan frá" eða "utan frá" ef um álíka upphæð er að ræða. Bankarán sem framin eru "innan frá" eru oftast mun umfangsmeiri og stórtækari. Hins vegar er næsta öruggt að viðbrögð "kerfisins" verða gerólík, bæði hvað varðar rannsókn og ekki síður dóma sem kunna að falla hjá dómstólum. Margar rannsóknir staðfesta það. Þetta skýrist af valdauppbyggingu samfélagsins (power structure). Afbrotatölfræði sýnir vel hvernig þessum málum er háttað í mörgum löndum. Það hefur þess vegna aldrei átt við að "allir séu jafnir fyrir lögum", er í raun mesti misskilningur. Þar að auki er vel þekkt í klassískum kenningum félagsvísinda að lögin á hverjum tíma endurspegla fyrst og fremst ríkjandi hugmyndafræði, valdauppbyggingu og styðja við hana.
Viðbrögð víða að úr "kerfinu" við síðustu tegund bankarána valda vissum áhyggjum. Lítið fer fyrir ákærum á hendur helstu stjórnendum og ábyrgðaraðilum bankanna enda þótt flestir hinna meintu afbrotamanna séu þekktir og enginn þeirra hafi verið með lambhúshettu þegar þeir frömdu brot sín. Enginn vafi er á því að hefðu þeir sem frömdu bankarán af "fyrstu gerð" ["utan frá" og með haglabyssu] fundist hefði þess ekki verið langt að bíða að dómar féllu í málum þeirra. En þegar banki er rændur samkvæmt "þriðju gerð bankarána" [sem er auðvitað mun þróaðri aðferð] þar sem velflestir gerendur eru þekktir, þá standa málin mjög í "kerfinu" sem gjarnan ber við háu flækjustigi málanna.
Flækjustigið er vissulega hátt en skýrir þó ekki mismuninn sem er á lokaútkomunni; tegund refsinga og lengd dóma eftir því hver á í hlut (sbr. afbrotatölfræðina sem áður var minnst á).
Mælikvarðinn á endurreisn (fjárhagslega og andlega) íslensks þjóðfélags mun ekki hvað síst verða sá hvort "kerfið" hefur burði til þess að draga þekkta "þriðju gerðar bankaræningja" til ábyrgðar að lögum. "Annarar gerðar bankaránin" [einkavæðing bankanna] hefði og átt að sæta ýtarlegri og hlutlausri rannsókn. Það hefur þó mætt mikilli andspyrnu. Hætt er við að þeir stjórnmálamenn sem flæktust í vef bankanna með fyrirgreiðslu (eftir að sumir sjórnmálamenn höfðu mjög stutt einkavæðingu þeirra) muni ekki taka sérstakt frumkvæði eða hvetja til rannsóknar á einkavæðingu bankanna - þeim er einfaldlega málið of skylt til þess að svo megi verða. Aðrir hafa horfið til annara starfa eftir "vel heppnaða" einkavæðingu.