Fara í efni

UM HVAÐ SNÝST ÞRIÐJI ORKUPAKKINN?

              Nokkuð hefur undanfarið verið rætt um svokallaðan þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Almennt hafa fjölmiðlar ekki staðið sig sérstaklega vel í því að upplýsa fólk um þýðingu og inntak þessa pakka sem um ræðir. Eins og margir vita, er markaðsvæðing einn af lykilþáttum evrópska efnahagssvæðisins. Það merkir í stuttu máli samkeppnismarkað á fjölmörgum sviðum, þar með töldu rafmagni.

            Innri orkumarkaður ESB byggist á verslun með gas og rafmagn. Þau viðskipti eru háð ýmsum tilskipunum og reglugerðum sem saman mynda „pakka“ sem aðildarríkjum á evrópska efnahagssvæðinu er síðan ætlað að taka upp í landsrétt. Þrír slíkir pakkar hafa nú þegar verið settir saman, af Evrópuþinginu og Ráðinu (the Council).[i] Eins og áður hefur komið fram, er sá munur á tilskipunum og reglugerðum að tilskipanir þarf að innleiða sérstaklega í landsrétt aðildarríkja ESB en reglugerðir taka sjálfkrafa gildi í öllum ESB-ríkjum samtímis.

            Ísland hefur þá augljósu sérstöðu í þessu sambandi að það tengist ekki raforkukerfi á meginlandi Evrópu. Hugmyndir hafa hins vegar verið uppi um lagningu sæstrengs frá Íslandi. Það er þó mál sem þarfnast gríðarlegs undirbúnings tæknilega. Auk þess er margt á huldu um áhrif slíkrar framkvæmdar á raforkuverð á Íslandi að ekki sé talað um mikinn þrýsting sem lagning sæstrengs mun skapa á að virkja allt sem mögulega er hægt að virkja.

            En það mun augljóslega hafa óbætanlegan skaða í för með sér fyrir íslenska náttúru og þykir þó mörgum þegar nóg um! Orkuskipti innanlands og sæstrengur fara mjög illa saman, enda um takmarkaða orku að ræða. Ekki síst þegar horft er til þess að gufuafl, sem takmörkuð auðlind, hefur ríka tilhneigingu til þess að minnka eftir því sem frá líður, eins og Dr. Stefán Arnórsson prófessor hefur gert góða grein fyrir.[ii] Með breyttu veðurfari [bráðnun og úrkoma] er heldur ekki sjálfgefið að vatnsaflsvirkjanir verði sú stoð sem margir telja. Vatnsskortur í miðlunarlónum hefði einhvern tíma þótt fjarstæða á Íslandi en svo er ekki lengur.

            Það hefur eðlilega gætt talsverðrar tortryggni í garð stjórnmálamanna og þriðja orkupakkans enda skortir mikið á að það traust sem tapaðist í hruninu hafi endurheimst. Fjölgun aðstoðarmanna í þinginu, og varðstaða um hækkanir kjararáðs, virðist vega þyngra á metunum í huga sumra þingmanna og ráðamanna en traust almennings. Ættu sem flestir að kynna sér það sem Styrmir Gunnarsson hefur sagt og skrifað um þau mál. Hann mælir þar af langri reynslu í þjóðfélagsgreiningu og blaðamennsku. Það er mikil vinna að viðhalda trausti en þó enn meiri vinna að endurheimta glatað traust. En traust má kalla „límið“ í samfélaginu.

Framleiðsla og dreifing á rafmagni

            Áður en lengra er haldið er rétt að gera í stuttu máli grein fyrir því hvernig rafmagn er framleitt og því dreift.[iii] Rafall (generator) er grunnforsenda þess að hægt sé að framleiða rafmagn, hvort heldur riðstraum eða jafnstraum (jafnstraum má einnig framleiða t.d. með sólarsellum).

            Lengi hefur rafmagni verið skipt í jafnstraum (Direct current, DC) og riðstraum (Alternating current, AC).[iv] Hið síðar nefnda snertir beint þessa grein enda byggja raforkukerfi og neyslukerfi á framleiðslu og dreifingu riðstraums. Ýmislegt greinir þessi tvö fyrirbæri í sundur. Nærtækt dæmi er „geymsla“ rafmagns. Rafhlaða verður ekki hlaðin með riðstraumi sem skýrir t.d. hvers vegna afriðlar eru í hleðslutækjum og margir þekkja. En afriðill breytir riðstraumi í jafnstraum. Þá má einnig nota „inverter“ til þess að breyta jafnstraumi í riðstraum. Þá verður spennubreytir ekki notaður ef ætlunin er að breyta jafnstraumi. Spennubreytar byggja á lögmáli Faradays[v] um span og þar með riðstraumi.

            Um jafnstraum gildir Ohms-lögmálið (U=IxR). Samkvæmt því er spenna (U) margfeldi af straumstyrk og viðnámi. Rafeindir jafnstraums renna í sömu átt, þ.e. frá mínusskauti að plússkauti (rafall/rafhlaða). Viðnám leiðara (kopar, ál) (þar sem hluti raforku breytist í hita) eykst með lengd leiðarans. Málin flækjast talsvert þar sem riðstraumur (riðspenna) á í hlut. Til viðbótar viðnámi í leiðara riðstraums kemur til hið svokallaða spanviðnám.[vi]

            Formúlan fyrir því er eftirfarandi: XL=2p*f*L, þar sem XL er spanviðnám í Ohmum, 2*pí er fasti (2x3.1416=6.28), f er tíðnin í kerfinu (Hz) og L er spangildi spólu, mælt í einingunni Henry.

            Heildarviðnám í riðstraumsrás er þannig viðnám í leiðara að viðbættu spanviðnámi. Með vektorareikningi má finna heildarviðnámið og þannig reikna hversu mikið tapast yfir ákveðna vegalengd. Stefna rafeinda riðstraums er plús þegar hún er ofan við núll-ásinn á sínusbylgjunni en í mínus neðan við núll-ásinn, þar sem um ræðir snúning frá 0-360° (heill hringur). Þegar riðstraumur skiptir 50 sinnum um stefnu (plús/mínus) á sekúndu er talað um 50 rið, eða 50 Hz en á því byggja t.d. evrópsk raforkukerfi.

            Rafallinn hefur norður og suður skaut (sjá mynd) þar sem snúningur „ankers“ (armature) myndar span (kemur rafeindum á hreyfingu) í leiðurum spólu (sáturs).[vii] Raforkuframleiðslu þarf að stýra í samræmi við álag í kerfinu. Það er gert með sérstökum álagsstýringum sem ekki verða ræddar hér.

 
Mynd 1 sýnir einfaldan riðstraumsrafal

Heimild:

https://www.electronics-tutorials.ws/accircuits/sinusoidal-waveform.html

            Út frá því sem þegar er komið fram má ljóst vera að flutningur raforku um sæstreng til Evrópu meiriháttar tæknilegt viðfangsefni. Ekki einungis hvað snertir orkutap á langri leið, heldur og jarðfræði hafsbotnsins, hafstrauma, mögulegar viðgerðir á sæstreng og fjöldamargt annað.

            Í þessu sambandi má t.d. nefna jarðskjálfta árið 2006 í Tævan, sem mældist 7 [7.1] stig á Richter-kvarða, og olli verulegum skemmdum á 8 sæstrengjum (fjarskiptastrengjum). Það hafði í för með sér rof á sambandi við Hong Kong, Suð-Austur Asíu og Kína.[viii]  

Mynd 2 - uppbygging raforkukerfis

raforkukerfi.jpg
 Heimild: JRC Technical Reports          

Mynd 2 sýnir fjögur þrep raforkuframleiðslu, þ.e. framleiðslu, flutning, dreifingu og „neyslu“.


1) Spenna frá rafal/rafölum raforkuvers er oft á bilinu 11-33kV. Spenna rafals ræðst af tæknilegum og efnahagslegum þáttum. Hærri spenna útheimtir t.a.m. öflugri einangrun.

2) Flutningslínur (66-765kV – flutningsspenna).[ix]

3) Spennistöðvar, þar sem spennt er niður (step-down) í t.d. 50kV/150kV, 10kV/35kV.

4) að lokum er spennt niður í 220/380 volt sem er hið dæmigerða „smásölurafmagn“ í Evrópu[x] [einfasa og þriggja fasa eftir atvikum].

            Í þessu sambandi má nefna að í matskýrslu Skipulagsstofnunar um Kröflulínu 3, frá 2013, er rætt um 220kV flutningslínu.[xi] En flutningskerfið á Íslandi er byggt á spennu allt að 400kV.[xii]

Lagaumhverfi raforku og gass á innri markaði ESB

            Tvær tilskipanir mynda það sem kalla má „fyrsta orkupakkann“. Opnun („frjálshyggjuvæðing“) orkumarkaðar Evrópu, á rafmagni, hefur oft verið rakinn til ársins 1997, með tilskipun 96/92EC,[xiii] og til ársins 2000 með tilskipun 98/30/EC,[xiv] um jarðgas. En einokun og fákeppni á þessum markaði voru taldar skaða hagkerfi aðildarríkja ESB sem og hagsmuni neytenda. Með nefndum tilskipunum var lagður grunnur að að frjálsum orkumarkaði sem hafði þrjú yfirlýst markmið:

  • að leysa mögulega hagsmunaárekstra milli framleiðenda, dreifingaraðila og smásala og viðhalda framboðsöryggi;
  • að tryggja aðgang að dreifikerfi fyrir nýja orkuframleiðendur og val neytenda á smásala;
  • að ná fram „gegnsæi“ á markaði.

Megin atriði vegna fyrsta orkupakkans:

  • Einkaréttur afnuminn á innflutningi og útflutningi á gasi/rafmagni og til þess að byggja og reka gas- og raforkustöðvar.
  • Aðskilnaður (unbundling) framleiðslu og dreifingar á rafmagni.
  • Aðildarríkjum gert skylt að opna raforkumarkaði sína (1. mgr. 19. gr. í tilskipun 96/92EC).
  • Raforkuframleiðsla að fullu sett undir samkeppni á markaði.
  • Í tilskipun 96/92EC er gert ráð fyrir opnun markaða í áföngum, 30% af innanlandsmarkaði árið 2000 og 35% árið 2003 vegna raforku.
  • Val um þrjár leiðir fyrir aðildarríkin vegna aðgangs þriðja aðila að flutningskerfum, þ.e.a.s. samningaleið (negotiated third party access), skilyrtan aðgang (regulated third party access) og aðgang eins kaupanda (single buyer[xv]).
  • Aðildarríkjum gert skylt að tilnefna og stofnsetja yfirvald sem skeri úr ágreiningi (dispute settlement).
  • Undanþáguákvæði frá tilskipuninni er að finna í; í mgr. 3. gr.; og í greinum 23 og 24.

            Á fundi forystumanna ESB árið 2000 í Lissabon [European Summit] voru framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, og aðildarríki þess, hvött til þess að flýta opnun innri orkumarkaðar. Í framhaldi af því náði Ráðið (the Council) samkomulagi árið 2002 um að markaður með jarðgas og rafmagn skyldi að fullu opnaður fyrir samkeppni. Samkomulagið markaði mjög framhaldið.

            Tilskipanir „annars orkupakkans“ voru teknar upp árið 2003 og skyldu innleiðast í landsrétt aðildarríkjanna fyrir 2004. Sumum ákvæðum tilskipananna var þó ætlað að taka gildi síðar, árið 2007. Þar er um að ræða tilskipun 2003/54/EC[xvi] um raforku og tilskipun 2003/55/EC[xvii] um jarðgas.

            „Annar orkupakkinn“ var hugsaður sem endurbót á hinum fyrsta, vegna atriða sem enn þótti skorta á að náðst hefðu fram. Þar má helst telja:

  • einokun og fákeppni;
  • „vandamál“ vegna „lóðréttra tengsla“ fyrirtækja;[xviii]
  • of litlir og einangraðir markaðir;
  • hægfara viðskipti í sumum aðildarríkjum;
  • jafnvægi markaða ekki að fullu náð;
  • tæknilegar aðgangshindranir að dreifikerfum;
  • áframhaldandi skortur á „gegnsæi“.[xix]

            Þeir sem aðhyllast aukið frjálsræði (auðhringa?) á orkumarkaði hafa helst gagnrýnt að ekki sé gengið nógu langt, telja „opnun markaða“ ekki nægjanlega hraða og fleira í þeim dúr. „Annar orkupakkinn“ þótti ekki ganga nógu langt í þá veru. Það skýrir tilkomu „þriðja orkupakkans“.

            Innihald hans má draga saman í fimm megin atriði:

  • áhersla á aðgreiningu orkuframleiðslu og dreifingar;
  • eftirlitsaðilar styrkir;
  • eftirlitsstofnun sett á laggirnar (Agency for the Cooperation of Energy Regulators – ACER);
  • samvinna og samstarf milli stjórnenda flutningskerfa, milli Evrópuríkja;
  • aukið „gegnsæi“ á smásölumörkuðum, til „hagsbóta“ fyrir neytendur.[xx]

            Upphaf þessa pakka má rekja til ársins 2009 (sjá mynd 3). Þessi „pakki“ samanstendur af tveimur tilskipunum, um gas og rafmagn, og þremur reglugerðum, um aðgang að dreifikerfum, og stofnun embættis sem skal sjá um yfirstjórn. Þetta eru tilskipun 2009/72/EC,[xxi] um raforku, og tilskipun 2009/73EC,[xxii] um gas. Enn fremur reglugerð EC nr. 714/2009,[xxiii] Evrópuþingsins og Ráðsins, um skilyrði fyrir aðgangi að dreifikerfi fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri; reglugerð EC nr. 715/2009,[xxiv] um aðgang að dreifikerfum gass; og reglugerð EC nr. 713/2009,[xxv] um sérstaka eftirlitsstofnun (the Agency) sem annist eftirlit með orkufyrirtækjum og starfsemi þeirra á markaði. Kveðið er á um slíka stofnun (the Agency) í 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar [This Regulation establishes an Agency for the Cooperation of Energy Regulators]. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar 713/2009 segir m.a. að stofnunin skuli, í nánu samstarfi við Framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkin, og viðkomandi yfirvöld þeirra, hafa eftirlit með innri markaði með rafmagn og gas, sérstaklega smásöluverði.

          19 gr. sömu reglugerðar mælir fyrir um mögulega áfrýjun, telji hlutaðeigandi aðilar á sér brotið með ákvörðunum sem snerta 7, 8, og 9 gr. tilskipunarinnar. Slík mál geta síðan ratað áfram til dómstóla Evrópusambandsins í Lúxemborg (Court of First Instance og Court of Justice), í samræmi við 4 mgr. 263 gr. Lissabonsáttmálans (TFEU), áður 230. gr. í Treaty Establishing the European Community (TEC).

            Þessu til viðbótar verður að nefna reglugerð nr. 347/2013[xxvi] frá Evrópuþinginu og Ráðinu (The Council) um leiðbeinandi reglur fyrir evrópska orkukerfið og breyta reglugerð 713/2009 og 714/2009.

            Allir sem láta sig þessi mál varða eru hvattir til þess að lesa vandlega tilskipanir og reglugerðir sem hér hafa verið nefndar og mynda umgjörð orkumarkaðar á evrópska efnahagssvæðinu. En of langt mál væri að rekja hér öll þau mörgu álitamál sem þar er um að ræða. En áður en að vikið verður að mögulegri lagningu sæstengs er vert að nefna stuttlega viðauka II við reglugerð nr. 347/2013.

            Í 1. gr. bókstafsliðum a-e, eru skilgreiningar á orkukerfum (energy infrastructure). Þar segir í a-lið.:“Háspennulínur, ef þær hafa verið hannaðar fyrir 220kV spennu eða meira, og jarð- og sæstrengir, hannaðir fyrir 150kV eða meira.“ Öllum má vera ljóst að þessi tvö atriði, orkupakkar og lagning sæstrengs, eru nánast óaðskiljanleg fyrirbæri. Þetta tvennt tengist mjög saman, enda sæstrengur eina mögulega tenging Íslands við innri orkumarkað Evrópu [og gasleiðsla varla í augnsýn!].

            Raforkulögin, nr. 65/2003,[xxvii] byggjast á lagaverki Evrópusambandsins. Í 1. mgr. 1. gr. þeirra segir svo (markmiðsgreinin):

  • „Markmið laga þessara er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í því skyni skal:
  1. Skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku,[xxviii] með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna.
  2. Stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku.
  3. Tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda.
  4. [Stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.
  5. Taka tillit til umhverfissjónarmiða.]

 Mynd 3 - Orkupakkar ESB í tímaröð

orkupakki.jpg

Lagning sæstrengs og tæknileg atriði

            Eins og komið er fram skiptist rafmagn í jafnstraum og riðstraum. Í tengslum við mögulega lagningu sæstrengs skiptir grundvallarþekking á rafmagnsfræði miklu máli til aukins skilnings á viðfangsefninu. Þetta er atriði sem varðar þjóðarhagsmuni og ættu sem flestir að setja sig inn í þessi mál (eins og margt annað), ekki síst fjölmiðlafólk og fái aðstoð tæknimenntaðs fólks eftir þörfum. Tvær aðferðir eru notaðar til þess að flytja raforku um langan veg, þ.e. háspennu-riðstraumur (HVAC) og háspennu-jafnstraumur (HVDC). Enn fremur „sérstök háspenna“ (Extra High Voltage – EHV) og „ofur-háspenna“ (Ultra High Voltage – UHV). Eins og fólk veit jafngildir eitt kílóvolt 1000 voltum. Eftirfarandi tafla sýnir við hvaða spennu (Volt) er miðað eftir vegalengdum.

Tafla 1[xxix]

tafla 1.PNG
   
    Fram kemur á heimasíðu Landsvirkjunar, um sæstreng, að gert er ráð fyrir meira en 1000 km löngum jafnstraumsstreng (minna orkutap) til Skotlands, með 800-1200 MW (megavött) flutningsgetu.[xxx] Ef það er síðan sett í samhengi við töflu 1 hér að ofan má ætla að slíkur jafnstraumsstrengur þyrfti allt að 800kV spennu. Þá er og ljóst að strengurinn útheimtir afriðlunarbúnað (AC > DC) og síðan „inverter“ (DC>AC) á endanum Skotlandsmegin. Tafla 2 sýnir hversu mikil orka tapast á leiðinni, eftir því hvort rafmagn er flutt sem jafnstraumur eða riðstraumur.

Tafla 2[xxxi]     

tafla 2.PNG

           Eins og þarna sést, tapast, samkvæmt íslenskri málvenju [um muninn á „helmingi meira“ og „tvöfalt meira“], um helmingi meira þegar rafmagn er á formi riðstraums. Þetta er veigamikil ástæða þess að víða er rætt um jafnstraumsstrengi í þessu sambandi.
            Árið 2015 voru í notkun um 8000 km af jafnstraumssæstrengjum (HVDC) í heiminum. Alls munu um 1.000.000 km (106km) af sæstrengjun vera í notkun (aðallega fjarskiptastrengir).[xxxii] Meirihluti raforkusæstrengja er styttri en 300 km.       


Mynd 4 – Landfræðileg staðsetning sæstrengja

landfræðileg.PNG

Heimild: JRC Technical Reports

            Gera þarf margvíslegar rannsóknir á aðstæðum áður en hægt er að ráðast í lagningu sæstrengs sem hér er rætt um. Þar má nefna myndatöku af hafsbotni, rannsaka þarf sjávardýpi, halla hafsbotns, seltu, sýrustig, jarðskjálfta, eldvirkni og fleira. Hvað dýpt snertir liggja flestir strengir á minna en 500 metra dýpi en hámarksdýpið er 1650 metrar, samkvæmt þeim upplýsingum[xxxiii] sem hér er stuðst við og mælst til þess að fólk kynni sér vel.

            Sumir hafa réttilega bent á það að verði þriðji orkupakkinn samþykktur, muni það mögulega opna á „einkavæðingu“ (einkaránsvæðingu) Landsvirkjunar, þar sem ekki verði heimilt að reka svo stórt opinbert orkufyrirtæki í samkeppni við aðra á markaði. Þessi sjónarmið eru fullgild. Það er rík ástæða til þess einmitt að hafa af því verulegar áhyggjur að Landsvirkjun endi í höndum fjárglæframanna, innlendra jafnt sem erlendra. Sporin hræða vissulega. Einkaránsvæðing bankanna ætti að hvetja til árvekni. „Einkavæðing“ orkufyrirtækja hefur víða verið reynd og er almennt ekki til hagsbóta fyrir almenning og neytendur – öðru nær. Hættan er ekki síst sú, að stjórnmálamenn láti nota sig og beiti löggjöf sem felst í þriðja orkupakkanum til þess að einkavæða Landsvirkjun og koma í hendur fjárglæframanna. Sú hætta er raunveruleg, og ekki byggð á getsökum, heldur bláköld alvara. Þjóðin þarf að vera vel á verði og safna undirskriftum, þar sem skorað verður á forseta Íslands að vísa lögum um slíkt til þjóðarinnar. Þjóðin sjálf á að ákveða þetta – það eru hennar auðlindir og hennar framtíð sem málið snýst um. Ekki framtíð stjórnmálamanna og „búrókrata“.

         Sérhagsmunagæsla fyrir útgerðarmenn og fleiri, sýnir vel að Alþingi stendur ekki vörð um hagsmuni þjóðarinnar heldur peningavaldsins (auðvaldsins). Reynsla margra áratuga sannar það. Það er einmitt ein meginástæða þess að þjóðin sjálf þarf að fá tækifæri til þess að greiða atkvæði um „þriðja orkupakkann“ (verði hann samþykktur í þinginu) og fleiri mál sem mikla þýðingu hafa.

            Það er nóg komið af glæfravæðingu fjármálakerfisins (bankakerfisins), og auðlinda hafsins, þó það verði ekki það næsta, að þjóðin verði líka rænd orkuauðlindum sínum og öllu sem þeim fylgir. Þar með væri komið á „bananalýðveldi í suður-amerískum stíl“ eins og Jón Baldvin Hannibalsson orðar það.[xxxiv] Að því er auðvitað stefnt og öllum má vera ljóst.

Nokkur orð að lokum

            Eitt er „göfug markmið“ annað hvernig hlutir þróast í reynd. Margt þarf til að koma svo „samkeppni“ á raforkumarkaði verði eitthvað annað en orðin tóm, ekki síst ákveðin stærð markaða. Á litlum mörkuðum er sú hætta fyrir hendi að nánast allt framboð á tilteknu sviði endi í höndum örfárra manna og jafnvel fjárglæframanna. Í Bandaríkjunum er markaðurinn stór en þar var t.a.m. ráðist í „endurskipulagningu“ raforkumarkaðar, snemma á tíunda áratug síðustu aldar, með það að markmiði að auka samkeppni.

            Þar má nefna ríkin, New Hampshire, Arizona, Kaliforníu, Massachusetts, Pennsylvaníu og Rhode Island.[xxxv] Í stuttu máli má segja að árangurinn sé afar misjafn og oft langt frá því sem fólki var upphaflega talin trú um og margir væntu. Ýmsir höfðu kenningar Milton Friedmans um afskiptaleysi (laissez-faire) að leiðarljósi sem ekki kunni góðri lukku að stýra. Má þar nefna stjórnendur orkufyrirtækisins Enron[xxxvi] sem frægt varð að endemum. En það fyrirtæki barðist hart fyrir afreglun orkumarkaðarins og keypti stjórnmálin til liðs við sig í baráttunni.

            Um árangur „endurskipulagningarinnar“ fjallar m.a. Richard Hirsh, prófessor í vísindum og tækninámi, við Virginia Tech háskólann. Hann bendir á að í stað „lokaðra markaða“ hafi komið illa hannaðir markaðir í Kaliforníu og víðar. Hneyksli, tengd sjálfstæðum orku- og markaðsfyrirtækjum, gjaldþrot stórra orkufyrirtækja – en ekki síst það versta í hugum margra – hærra rafmagnsverð![xxxvii]

            Rætt hefur verið um „fullveldisafsal“ í tengslum við „þriðja orkupakkann“. Það er raunar svolítið ónákvæm framsetning. Hitt er rétt, að mörgum yfirþjóðlegum (supranational) sáttmálum og samningum fylgir „fullveldisafsal“, meira eða minna. EES-samningurinn[xxxviii] er dæmi um það. Þegar hann var tekinn upp í íslenskt réttarkerfi var um leið afsalað ákveðnu valdi, á ýmsum sviðum. Í samningnum sjálfum er á tveimur stöðum vísað í „orku“ (energy). Það er í f-lið 2. gr. þar sem vísað er í kjarnorkusamstarf (European Atomic Energy Community) og í 24. gr. þar sem vísað er til IV. viðauka samningsins[xxxix] og snertir orku.

            Í a-lið 7. gr. EES-samningsins er að finna ákvæði um reglugerðir. Þar segir að þær skuli vera hluti af lagakerfi aðildarríkis (samningsríkis). Í b-lið segir hins vegar, um tilskipanir, að aðildarríkin skuli hafa svigrúm til innleiðingar tilskipana, hvað snertir form og aðferð. Í 288. gr. Lissabon-sáttmálans (TFEU) er að finna hliðstæð ákvæði en þó ýtarlegri.

            Innihald og afleiðingar „þriðja orkupakkans“ þarf að skoða rækilega, fyrir opnum tjöldum, áður en nokkrar ákvarðanir verða teknar um samþykki hans á Alþingi. Það er engan veginn sjálfsögð eða sjálfgefin niðurstaða að hann beri að samþykkja. Hvort eftirlitsstofnun EFTA, ESA, kýs að höfða samningsbrotamál, verði pakkinn ekki samþykktur, mun koma í ljós en þá þarf að sjálfsögðu að halda fram og sýna fram á íslenska þjóðarhagsmuni, fari svo að málið endi fyrir EFTA-dómstólnum. Að samþykkja pakann sem sjálfsagðan hlut, baráttulaust, er mjög sennilega versta mögulega niðurstaðan. Þá myndu fjárglæframenn gleðjast mjög og sjá sér leik á borði að ná til sín orkulindum Íslands fyrir lítið.

[Atkvæðagreiðsla]

Ýtt á takka, aðrir þakka,

eygja lendur góðar.

Ölið smakka, opna pakka,

eigum ræna þjóðar.

           

           

 

Nokkrar slóðir fyrir áhugasama

https://www.veitur.is/frett/landsnet-haekkar-flutningsgjald-rafmagns

https://www.waikato.ac.nz/__data/assets/pdf_file/0018/410229/EEELR-27-2_Maciej-M.-Sokolowski_Offprint.pdf

https://www.emissions-euets.com/third-energy-package

https://www.tscnet.eu/germany-hungary-court-third-energy-package/

https://www.gasinfocus.com/en/focus/the-3rd-energy-package/

http://www.rokas.com/en/press-articles-a-publications/energy-and-environment/item/65-towards-a-truly-open-european-energy-market-the-benefits-for-serbia

https://subtelforum.com/category/cable-faults-maintenance/

https://www.explainthatstuff.com/powerplants.html

http://www.dem.si/en-gb/Power-plants-and-generation/How-is-electric-power-generated/How-is-electric-power-generated-at-DEM

http://www.nucleartourist.com/systems/gr.htm

https://www.submarinenetworks.com/news/cables-cut-after-taiwan-earthquake-2006

http://cimsec.org/undersea-cables-challenges-protecting-seabed-lines-communication/35889

http://ec.europa.eu/competition/sectors/energy/overview_en.html

https://www.technologystories.org/fifteen-years-later-whither-restructuring-in-the-american-electric-utility-system/

https://www.e-education.psu.edu/ebf483/node/641

https://ei.haas.berkeley.edu/research/papers/WP252.pdf

https://sites.hks.harvard.edu/fs/whogan/transvis.pdf

http://blog.iese.edu/xvives/files/2011/09/The-challenge-of-competition-in-the-electricity-sector.pdf

https://sites.ualberta.ca/~xuejuan1/docs/retail_competition.pdf

https://www.eia.gov/electricity/

 [i]      Gas in Focus. https://www.gasinfocus.com/en/focus/the-3rd-energy-package/

[ii]      Sjá t.d. viðtal Egils Helgasonar í Silfri Egils frá 6. febrúar 2011 við Dr. Stefán Arnórsson prófessor. https://www.youtube.com/watch?v=kd03xDtXPVw

[iii]     Á heimasíðu RARIK er að finna gagnlegt orðasafn. https://www.rarik.is/ordasafn/ordasafn/ordasafn

[iv]     Sjá: t.d.: Finkel, A.2017). Tesla vs Edison: the AC/DC current wars make a comeback. Cosmos magazine.

       https://cosmosmagazine.com/technology/tesla-vs-edison-the-ac-dc-current-wars-make-a-comeback

[v]     Sjá t.d.: http://www.maxwells-equations.com/faraday/faradays-law.php

[vi]     Sjá: https://www.electronics-tutorials.ws/accircuits/ac-inductance.html

[vii]    Sjá t.d.: https://energyeducation.ca/encyclopedia/AC_generation

[viii]    Coffey, V.C. (2014) Sea Change. The Challenges Facing Submarine Optical Communications.

[ix]     Sjá t.d.: https://www.indiamart.com/proddetail/transmission-line-tower-fabrication-galvanizing-structures-up-to-66-kv-to-765-kv-20188473197.html

[x]     Sjá einnig: http://www.minnelectrans.com/transmission-system.html

[xi]     Skipulagsstofnun. Kröflulína 3, 220 kV. http://www.skipulag.is/umhverfismat-framkvaemda/gagnagrunnur-umhverfismats/nr/744#tmat

[xii]    Landsnet. Háspennulínur - aðgát skal höfð. https://www.landsnet.is/library/Skjol/FramkvAemdir/H%C3%A1spennul%C3%ADnur-A%C3%B0g%C3%A1t-skal-h%C3%B6f%C3%B0.pdf

[xiii]    https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/PDF/?uri=CELEX:31996L0092&from=EN

[xiv]   https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/PDF/?uri=CELEX:32003L0055&from=EN

[xv]    Sbr. 18.gr. tilskipunar 96/92EC

[xvi]   https://eur-lex.europa.eu/resource.html?uri=cellar:caeb5f68-61fd-4ea8-b3b5-00e692b1013c.0004.02/DOC_1&format=PDF

[xvii]   https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/PDF/?uri=CELEX:32003L0055&from=EN

[xviii]  Í rekstrarhagfræði eru lóðrétt tengsl fyrirtækja skilgreind út frá því að framboðskeðja (supply chain) fyrirtækis sé í eigu þess sama fyrirtækis. Viðskiptin eru þá í raun á sömu höndum (fyrirtæki skiptir við „sjálft sig“).

[xix]   Sjá: Kovác, K. (2011). The EU internal energy market: past, present and future. European Commission. https://www.sprk.gov.lv/uploads/doc/04KristofsKovacs.pdf

[xx]    Market legislation. European Commission. https://ec.europa.eu/energy/en/topics/markets-and-consumers/market-legislation

[xxi]   https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/ALL/?uri=celex%3A32009L0072

[xxii]   https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/ALL/?uri=CELEX%3A32009L0073

[xxiii]  https://publications.europa.eu/en/publication-detail/-/publication/924a1d7c-1961-4421-be9e-3c740524436e/language-en

[xxiv]  https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/ALL/?uri=celex%3A32009R0715

[xxv]   https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/ALL/?uri=celex%3A32009R0713

[xxvi]  https://eur-lex.europa.eu/legal-content/en/TXT/?uri=celex%3A32013R0347

[xxvii] Raforkulög nr. 65/2003. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2003065.html

[xxviii] Undirstrikun/svartletrun mín.

[xxix]  Emerson Automation Experts. Ultra-High Voltage Transmission (UHV) – A New Way to Move Power. https://www.emersonautomationexperts.com/2015/industry/power/ultra-high-voltage-transmission-uhv-a-new-way-to-move-power/

[xxx]   Heimasíða Landsvirkjunar. https://www.landsvirkjun.is/rannsoknirogthroun/throunarverkefni/saestrengur

[xxxi]  Ardelean, M. og Minnebo, P. (2015). HVDC Submarine Power Cables in the World. European Commission, JRC Technical Reports. http://publications.jrc.ec.europa.eu/repository/bitstream/JRC97720/ld-na-27527-en-n.pdf

[xxxii] Sama heimild.

[xxxiii] Sama heimild.

[xxxiv] http://eyjan.dv.is/eyjan/2018/11/21/jon-baldvin-takist-theim-thetta-verdur-island-endanlega-ordid-ad-bananalydveldi-sudur-ameriskum-stil/

[xxxv] Electricity. OpenSecrets.org. https://www.opensecrets.org/news/issues/electricity/

[xxxvi] Fox, L. (2003). Enron – The Rise and Fall. John Wiley & Sons, INC, bls. 110.

[xxxvii] Hirsh, R. (2013). Fifteen Years Later: Whither Restructuring in the American Electric Utility System? A postscript to Power Loss: The Origins of Deregulation and Restructuring in the American Electric Utility System. https://www.technologystories.org/fifteen-years-later-whither-restructuring-in-the-american-electric-utility-system/

[xxxviii]       http://www.efta.int/media/documents/legal-texts/eea/the-eea-agreement/Main%20Text%20of%20the%20Agreement/EEAagreement.pdf

[xxxix] http://www.efta.int/media/documents/legal-texts/eea/the-eea-agreement/Annexes%20to%20the%20Agreement/annex4.pdf