Fara í efni

KASTLJÓS Á FAGLEGUM FORSENDUM

Sæll Ögmundur,
Mig langar að gera athugasemd við gagnrýni sem þú setur fram í pistli á heimsíðu þinni varðandi Kastljósið í gærkvöld. Þar segir þú að spunameistarar Halldórs Ásgrímssonar hafi unnið fyrir kaupinu sínu með því að að tala sjónvarpið inn á að fylgjast með fundinum í Stapanum í beinni útsendingu á þeirri forsendu að þaðan væri að vænta stórkostlegra tíðinda. Þessi fullyrðing þín er alröng og ósmekkleg. Þú gerir ráð fyrir því að ég sem ritstjóri þáttarins leggi ekki sjálfstætt mat á efni þáttarins heldur þurfi að láta aðstoðarmenn ráðherra plata mig út í slíka útsendingu. Ég veit ekki hvernig þetta var þegar þú starfaðir sem fréttamaður en svona gerast hlutirnir ekki í Kastljósi. Ég tók þá ákvörðun á hádegi að senda beint, hluta af ræðu Halldórs þar sem ég taldi að tíðinda væri að vænta af þessum fundi enda var hann að hitta heimamenn í fyrsta skipti eftir ákvörðun Bandaríkjamanna. Einnig gerði ég ráð fyrir að hann segði frá fundi framkvæmdastjóra NATÓ og George Bush sem hann og gerði. Það má deila um hversu tíðindamikill þessi fundur var en mér fannst full ástæða til þess að sýna frá honum. Ég frábið mér hins vegar ósmekklegar aðdróttanir þínar um að aðstoðarmenn Halldórs hafi reynt að beita áhrifum sínum sem leiddu til þessarar útsendingar því það er rangt. En svona er kannski pólitíkin sem þú vilt stunda, að gefa í skyn án þess að hafa nokkuð fyrir þér að fólk starfi af óheilindum og draga þar með úr trúverðugleika þess. Með von um þú haldir þig við sannleikann og sanngirni í skrifum þínum,
Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss.

Heill og sæll og þakka þér bréfið Þórhallur.
Auðvitað vil ég hafa það sem sannara reynist og bið þig afsökunar hafi ég haft ykkur fyrir rangri sök sem ég efast ekki um eftir bréf þitt. Maður er einfaldlega orðinn ýmsu vanur úr Stjórnarráði um nokkurt skeið. En það er rétt hjá þér, að rangt er að gefa sér eitthvað í þessum efnum fyrirfram.  
Kveðja,
Ögmundur