Fara í efni

PÓLITÍSKAR ÁKVARÐANIR Í HEILBRIGÐISKERFINU

Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, var í viðtali á Morgunvakt Ríkisútvarpsins í vikunni að ræða um ný heilbrigðislög en í þeim hefur verið boðað að ekki verði lengur krafist heimildar heilbrigðisráðuneytisins til að reka ákveðna heilbrigðisstarfsemi. Formaðurinn sagði að það væri ekki pólitísk ákvörðun að leyfa læknum að veita þá þjónustu sem þeir eru menntaðir til að veita, pólitíkin væri að ákveða hvað opinberar sjúkratryggingar ættu að greiða.

Að sjálfsögðu má skilja pólitík á margan hátt – og reyndar er það oft eðli hægripólitíkur að láta sem pólitík sé ekki pólitík. Orð á borð við „þetta er ekki pólitískt ferli heldur eðlileg framþróun“ hringja oft viðvörunarbjöllum enda er tal um að ákvarðanir séu ekki pólitískar oft tilraun til að fela pólitík í dulargervi óhjákvæmilegrar þróunar. Því tel ég rétt að rýna aðeins í þá „þróun“ sem formaður Læknafélagsins segir að snúist ekki um pólitík. Hér er t.d. um að ræða þá staðreynd að hingað til hefur hið opinbera ekki veitt einkaaðilum heimild til að reka sjúkrahús enda sjúkrahús talin hluti af almannaþjónustu samfélagsins og hlutverk hins opinbera að reka þau sómasamlega. Formaður Læknafélagsins mundi kannski kalla það náttúrulögmál að  einkaaðilar fengju heimild til að reka slík sjúkrahús en „pólitík“ hvort hið opinbera greiddi fyrir þjónustuna þar, sem að sjálfsögðu yrði kallað eftir.

Það vekur athygli að í sömu andrá vísaði læknirinn í Jónínunefndina alræmdu en eins og kunnugt er lagði sú nefnd til að fólk ætti að fá að geta greitt fyrir að fá þjónustu fyrr í heilbrigðiskerfinu eða ýmsa viðbótarþjónustu — eða með öðrum orðum: Að fólk ætti að „fá“ að borga fyrir að fara fram fyrir í röðinni eða að fá betri heilbrigðisþjónustu en aðrir. Augljóslega yrði það ekki fátækt fólk sem „fengi“ að borga heldur þeir sem eru vel efnum búnir og hafa efni á að „fá“ að borga fyrir slíka viðbótarþjónustu.

Auðvitað er alltaf tekið fram að slíkt eigi ekki að koma niður á þeim sem ekki geta borgað. En ef einhverjir eiga að geta borgað fyrir betri þjónustu er hættan sú að bilið aukist, einkarekna kerfið sogi til sín alla fjármuni ríkisins undir því yfirskini að þar sé verið að jafna „samkeppnisaðstöðu“, við bætist notendagjöld sem sjúklingar greiða, þar verði gerðar meiri og meiri kröfur og það batni en opinbera kerfið sitji eftir, verði undir í samkeppni um gott starfsfólk og aðbúnaður versni.

Þannig sköpum við tvöfalt kerfi þar sem hinir ríku geta keypt sér betri þjónustu; en meðaltekjufólk og fátækir sitja eftir. Skattgreiðendur borga samt sem áður megnið af brúsanum.

Dæmið sem Sigurbjörn nefndi um hugsanlegt hlutverk einkasjúkrahúss var t.d. það að nú eru sjúklingar iðulega sendir heim beint eftir aðgerðir þar sem þeir þurfa ákveðna hjúkrun og vöktun og fannst greinilega sjálfsagt að einkasjúkrahúsið myndi sinna því. Ef hið opinbera tæki svo þá pólitísku ákvörðun að greiða ekki fyrir þessa aukaþjónustu úr opinberum tryggingasjóðum væri ljóst að sumir myndu ekki geta nýtt sér þessa þjónustu. Sumir yrðu sendir beint heim, jafnvel upp á náð og miskunn ættmenna sinna, aðrir, sem hefðu efni á að borga, fengju eftirfylgni og vöktun eftir erfiðar aðgerðir. Langlíklegast er hins vegar að hið opinbera taki þá pólitísku ákvörðun að greiða fyrir þjónustuna með einum og öðrum hætti og þá má spyrja hvort ekki sé betra að velja þriðja kostinn og taka þá pólitísku ákvörðun að hið opinbera sjái um að veita hana sjálft.

Tvöfalt kerfi hefur ekki reynst skattgreiðendum ódýrara þar sem reynt hefur verið að koma slíku á. Alræmdasta dæmið er auðvitað dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi, bandaríska heilbrigðiskerfið, þar sem stórir hópar fá litla og lélega þjónustu meðan aðrir greiða sig fram fyrir og ofan á. Bandaríska heilbrigðiskerfið er auðvitað ekkert annað en afurð tiltekinnar pólitískrar stefnu; hægristefnunnar þar sem ofuráhersla hefur verið lögð á einkarekstur og notendagjöld, gerólíkt því norræna velferðarkerfi sem Íslendingar hafa hingað til þekkt.

Það er ljóst að heilbrigðismál verða í brennidepli í umræðum á Alþingi í vetur og á þessu kjörtímabili. Þar verður tekist á um hápólitísk mál – hvernig við hugsum samfélag okkar og hvort við leggjum áherslu á almannaþjónustu eða alræði auðhyggjunnar.

Katrín Jakobsdóttir