KEMST ÞÓTT HÆGT FARI Í TANNVERNDINNI
Grímur nokkur skrifaði hér á síðuna á dögunum og býsnaðist mikið yfir kynningu á kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins. Jón Sigurðsson formaður flokksins hefði komist svo að orði að þetta “væru ekki loforð heldur stefna”. Ekki er ég alveg sáttur við skrif Gríms sem segir að það sé "svosum ágætt að Framsókn hætti að lofa því allt svíkur hún." Þarna finnst mér hann vega ómaklega að Framsóknarflokknum því ekki verður það af flokknum skafið að hann hefur sýnt einmuna stefnufestu í kosningastefnuskrám sínum allt frá fæðingu, árið 1916.
Þessu til sönnunar vil ég bara benda á eitt dæmi hér um en það varðar tannheilsu og tannvernd æskunnar. Nú boðar Framsóknarflokkurinn stefnu sína um “ókeypis tannvernd til 18 ára aldurs og auknar niðurgreiðslur á tannviðgerðum.” Og hvað skyldi ég ekki reka augun í þegar ég glugga í stefnuskrá flokksins fyrir alþingiskosningarnar á því herrans ári 1919. Jú, þar segir orðrétt um sama málefni: “Tönnur barna og unglínga verði sápaðar og hreinsaðar hátt og lágt vor og haust á kostnað landsjóðs. Þá skulu stjórnarvöldin hefjast handa um að greiða nokkurn part af þeim kostnaði sem hlýst af holufyllingum, ogso fjarlægingu stórskemmdra tanna, fyrst um sinn úr neðri góm einvörðungu en þegar fram líða stundir úr báðum.”
Enn er Framsóknarflokkurinn sem sagt að vinna markvisst og ötullega í þessum mikilvæga málaflokki en um hann, eins og flest önnur stefnumál Framsóknar, gildir auðvitað hið fornkveðna að kemst þótt hægt fari. Og að lokum vil ég bara taka hressilega undir slagorð framsóknmanna í tannverndarmálum: “Áfram árangur – ekkert stopp.”
Þjóðólfur