Fara í efni

KEMST VILBJÖRN TIL VALDA Í REYKJAVÍK?

Fyrir tæpum tveimur mánuðum mældist Framsóknarflokkurinn í Reykjavík með 3% fylgi. Þrátt fyrir það var forsvarsmaður listans, Björn Ingi Hrafnsson, bjartsýnn enda framboð hans dyggilega stutt af sterkefnuðum einstaklingum og stórfyrirtækjum sem voru einmitt um þær mundir að hrinda af stað mikilli auglýsingaherferð til að koma sínum athafnamanni og sérstaka sendiherra inn í Ráðhúsið og að kjötkötlunum þar. Um þetta leyti skrifaði ég á þessum vettvangi og sagði þá m.a., að gefnu tilefni:

“Óskandi er ... fyrir alla þá sem lýðræðinu unna að peningaöflum Framsóknarflokksins takist ekki það ætlunarverk sitt að selja Reykvíkingum þennan mjaltadreng sinn [Björn Inga Hrafnsson] og koma honum fyrir í stjórnkerfi borgarinnar. Svo mikil er spillingin á landsvísu að það væri að bera í bakkafullan lækinn að stofnfesta hana einnig í Ráðhúsi Reykjavíkur.”

Síðan þetta var skrifað hefur mikið vatn runnið til sjávar og peningamaskínur Framsóknarflokksins hafa ausið tugum milljóna króna í markaðs- og kynningarstarf á sínum kostagrip. Afurðir auglýsingageirans hafa birst okkur ein af öðrum. Eitt allra skrýtnasta stefnuplagg í gjörvallri stjórnmálasögu landsins leit dagsins ljós, “Ertu með?” plaggið fræga, þar sem ekki stendur steinn yfir steini. Í takt við það óku svo frambjóðendur EXBÉ um borgina á sérmerktum Hummer-trukki, tákngervingi hins forheimskaða valds, og sem reyndist svo rassbreiður að undir hann dugði ekki einu sinni eitt bílastæði merkt fötluðum, eins og frægt er orðið. Ofan á allt hafa svo fylgt látlausar auglýsingar með loforðaflaumi úr munni forystumannsins, Björns Inga, en sem aðstandendum framboðsins mun naumast detta í hug að reyna að hrinda í framkvæmd, fái þeir til þess umboð.

Lengi vel bar herferð framsóknarauðvaldsins engan árangur, fylgið bifaðist ekki. Síðustu daga hefur hins vegar sigið á ógæfuhliðina og á sjálfan uppstigningardag gerast þau ótíðindi að fulltrúi EXBÉ tekst skyndilega á loft, kemst í 6% fylgi í skoðanakönnun, og mun samkvæmt því brjóta sér leið inn í Ráðhúsið. Eins og útlitið er í dag eru því talsverðar líkur á því að peningamafíu Framsóknarflokksins muni takast að selja borgarbúum auglýsingahannaðan loforðapakka sinn. Og þeim mun verra er að nú virðist sú óskastaða upp komin í kortum milljarðamæringanna að þeir geti látið fulltrúa sinn ná nytinni úr borgarkúnum í notalegri og góðri samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Víst er að spjallið í því fjósinu mun ekki snúast um nein velferðarmál, það verður ekki einu sinni raupað eða hlegið á laugardagskvöldum að geggjuðum hugdettum eins og til að mynda flugvelli á Lönguskerjum. Nei, í því fjósi verður fyrst og fremst rætt um hörðu pakkana, Orkuveitu Reykjavíkur og annað bitastætt sem skella má upp á veisluborð einkavinanna og kostunaraðilanna - því æ sér jú gjöf til gjalda verður kjörorð Vilbjörns, komist hann í borgarstjórastólinn.

Og ef fram fer sem horfir verður alger óþarfi að spyrja Vilbjörn eftirfarandi spurningar að ári liðnu: Ertu með (? XB) allt á hælunum, Vilbjörn? Ljóslifandi dæmi og reynslan tala nefnilega sínu máli þar um. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er til að mynda afbragðsdæmi sem allir þekkja. Það er ekki lengra síðan en á miðvikudag næstliðinn að hann hélt t.d. bæði athyglisverða og táknræna ölmusuhátíð í Ráðherrabústaðnum. Þar afhenti hann sérstakt þakkarbréf þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem styrkt hafa það fólk sem ríkisstjórnir þessara tveggja flokka hafa grafið undan með markaðsdýrkun sinni og tilheyrandi upplausn í samfélagi okkar - þjóðfélagi sem hefur til skamms tíma borið svipmót félagshyggju og, að minnsta kosti ekki algerlega ósæmandi ójöfnuðar eins og nú blasir við. Er hægt að skoða þessa sérkennilegu hátíð forsætisráðherra Íslands í Ráðherrabústaðnum í öðru ljósi en því að hann sé í það minnsta með buxurnar á hælunum? Naumast, en hvað um það. Sýnu verra er, að takist Vilbirni að ná undir sig borgarstjórastólnum mun hann þróa þessa hátíð forsætisráðherrans enn frekar og gera hana margfalt umfangsmeiri enda er jú hátíð Halldórs líka hin fyrsta sinnar tegundar hér á landi, hún er bara byrjunin á miklu meira ævintýri þar sem tækifærin blasa hvarvetna við og bíða vinnufúsra handa. Þetta mun Vilbjörn vafalaust ráðast í af dugnaði og í því skyni auðvitað að gera borgarbraginn “fjölbreyttari” og “skemmtilegri”.

Um svona “skemmtilegheit” og önnur álíka stendur m.a. val borgarbúa á laugardaginn. Meginverkefni vinstrimanna er ekki einungis að koma í veg fyrir hreinan meirihluta Sjálfstæðisflokksins heldur einnig - og ekki síður - að peningavaldið í Framsókn eignist sinn fulltrúa í borgarstjórn og geti með fulltingi hans, og í skjóli sjálfstæðismanna, farið ránshendi um sameiginlegar eignir borgarbúa. Er þetta mikið sagt? Já, vissulega tek ég djúpt í árinni en til þess er líka ærið tilefni. Á undanförnum árum höfum við horft upp á hroðalega hluti í samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í landsstjórninni hvað varðar einkavinavæðinguna og þar hefur Framsókn gengið harðar fram en sjálft íhaldið, alla vega að því er varðar sjálfan vinavæðingarþáttinn. Ég hugsa með hryllingi til þess að sama pólitík kunni nú að halda innreið sína í Ráðhús Reykjavíkur. Það yrðu ill tíðindi fyrir borgarbúa.
Þjóðólfur