Kenningar, raunveruleiki og opinber rekstur.
Sæll Ögmundur,
Ég las grein þína í Morgunblaðinu um daginn, þar sem þú gagnrýndir Verslunarráð og hægrimenn fyrir mótsagnakenndan málflutning varðandi einkavæðingu og einkaframkvæmd. Uppistaðan í gagnrýninni virðist mér annars vegar sú, að hæpið sé að benda á stærðarhagkvæmni, en leggja um leið til að verkefni verði færð frá stórum ríkisstofnunum til smárra fyrirtækja. Hins vegar gagnrýnir þú talsmenn einkavæðingar og einkaframkvæmdar fyrir að einblína á kenningar, en líta ekki til reynslunnar (sem þá væntanlega sýnir galla einkavæðingarinnar).
Hvað fyrra atriðið ræðir get ég, sem frjálshyggjumaður, að mörgu leyti verið sammála þér um verkefnaútboð og einkaframkvæmd. Að mínu viti er meginmarkmið frjálshyggjunnar að tryggja einstaklingunum rétt til lífs, frelsis og eigna. Þessi forsenda er siðferðileg – hún snýst um rétt einstaklingsins til að ráðstafa sér og sínu. Því viljum við draga úr skattheimtu eins og kostur er og fækka verkefnum ríkisvaldsins. Útboð verkefna sem greidd eru af ríkinu er hins vegar ekki nauðsynlega leið til þess. Þótt einkaaðilar séu fengnir til verksins er ákvörðunarvaldið og meðferð fjárins enn í höndum stjórnmálamanna. Einkaframkvæmd (og hér þarf að skilja skýrt á milli einkaframkvæmdar og einkavæðingar) leiðir því alls ekki af frumforsendum frjálshyggjunnar. Fremur má segja, að forsenda einkaframkvæmdar sé sú að rekstur sé almennt betur kominn í höndum þeirra sem eiga fjármunina sem þeir höndla með, en þeirra sem eiga þá ekki. Þá er byggt á nytjarökum sem margir hægrimenn beita (sem gerir þá ekki endilega að frjálshyggjumönnum). Ég held að nytjarökin séu sterk þegar kemur að einkavæðingu. En hvað um útboð og einkaframkvæmd? Eigendur einkavædds fyrirtækis bera ábyrgð á bæði tekjum þess og kostnaði. Þeir keppa á markaði um tekjurnar og þurfa að tryggja hagkvæman rekstur til að hámarka hag hluthafa. En þegar fyrirtæki tekur að sér verkefni fyrir ríkið, þar sem engin samkeppni ríkir, hvað þá? Tekjurnar ráðast ekki af samkeppni á markaði heldur af pólitískri getu og þori eigendanna og samskiptum þeirra við fjárveitingavaldið. Slök afkoma leiðir ekki sjálfkrafa til hagræðingar, hún getur allt eins hvatt eigendur til að beita pólitískum sjarma sínum með öflugri hætti en áður fremur en að skera niður kostnað. Á þessum forsendum get ég verið sammála þér um það, að einkaframkvæmd sé ekki endilega heppilegri lausn en ríkisrekstur. En þar með er ekki sagt að hún sé verri.
Varðandi síðara gagnrýnisatriðið held ég að mótsögnin milli kenninga og reynslu sé hugsanlega á misskilningi byggð. Vissulega er ekki skynsamlegt að ríghalda í kenningar sem veruleikinn vill ekki þýðast. En það er munur á góðum og vondum kenningum. Horfum á einkaframkvæmdina í þessu ljósi: Hvernig lítur rökfærslan út? Einhvern veginn svona: “Menn fara betur með eigið fé en annarra. Fyrirtæki í einkaeigu eru því betur rekin en ríkisfyrirtæki. Því á að bjóða út rekstur sem flestra þátta opinberrar þjónustu.” Er rökfærslan gild? Er einkaaðili sem tekur að sér framkvæmd fyrir ríkið að höndla með eigið fé? Nei, hann er að höndla með skattfé. Hann hefur ekki aflað teknanna í frjálsri samkeppni á markaði heldur eru honum færðar þær af stjórnmálamönnum sem afla þeirra með skattheimtu. Athugasemd mín við mótsögnina milli kenninga og reynslu er því þessi: Skoðum fyrst kenninguna. Gerum okkur grein fyrir því hvort röksemdafærslan að baki henni heldur. Ef hún heldur er hægt að bera hana saman við veruleikann og ég held að við getum almennt gefið okkur að góðar kenningar komi heim við veruleikann. En ef rökfærslan heldur ekki, ef hún byggir á hugsunarvillu þegar nánar er að gáð, þá er kenningin vond. Líklega á það við um kenninguna um einkaframkvæmd. Það er hins vegar enginn áfellisdómur yfir grundvallarkennisetningum frjálshyggjunnar. Þær halda!Með kveðju,
Þorsteinn Siglaugsson, hagfræðingur