KERFI FYRIR KJARKMENN
Svæðisfélag VG á Vestfjörðum vill nú að Ásmundur Einar segi af sér vegna þess að hann gat ekki lýst yfir stuðningi við ríkisstjórnina. Ég heyrði í fréttum að talsmaður félagsins lýsti því að úr því að þingmaðurinn gæti ekki stutt það sem flokkurinn teldi rétt ætti hann að segja af sér þingmennsku og hleypa öðrum að sem treysti sér til þess fylgja flokknum í einu og öllu. Ég vil fá að segja tvennt við þessu.
Í fyrsta lagi ætti þetta fólk að lesa 48. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem segir að "Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum." Þingmenn eru því hvorki eign flokksins né kjósendanna eftir að þeir eru kosnir. Þeir eiga hinsvegar að þjóna samvisku sinni og ég held að enginn geti sakað Ásmund Einar um annað.
Hitt málið sem ég vildi nefna er nátengt því fyrra. Ef alþingismenn hefðu þá einu skyldu að hlýta vilja meirihluta flokksins - og gefum okkur nú að flokksformaður endurspegli þann vilja - þá þarf í raun ekki að hafa neina á þingi nema flokksformennina. Flokksformenn fara þá í raun með ákvarðanavaldið og myndu hafa atkvæðavægi til samræmis við það sem kom upp úr kjörkössum. Kerfið sem við búum við í dag er kannski ekki svo fjarri þessu nema fyrir kjarkmenn eins og Ásmund Einar.
Árni V.