Fara í efni

KHALED KHALIFA MÁLAR MYND

Ég var að ljúka lestri bókar sýrlenska rithöfundarins Kahled Khalifa, Engir hnífar í eldhúsum þessarar borgar en áður hafði ég lesið bók hans Dauðinn er barningur. Báðar bækurnar gaf bókaútgáfan Angústúra út og báðar eru þýddar af Elísu Björgu Þorsteinsdóttur.

Síðarnefndu bókina hef ég ekki við höndina og man ekki hvort Elísa Björg skrifaði eftirmála eins og hún gerir við þessa bók. Hvort tveggja er gott, þýðing hennar er afbragðsgóð og eftirmálinn mjög upplýsandi. Það liggur við að hann hefði átt að vera fremst til skýringar á allri óreiðunni sem beið lesandans við lestur bókarinnar með endalausu tímaflakki, menn að koma og fara, hinir dánu að birtast sprelllifandi á ný og stundum vissi lesandinn ekki sitt rjúkandi ráð í framandi nafnaþulunni.

En viti menn smám saman dróst upp mynd, sterk og áhrifamikil, af þjóð í þrengingum, háð valdstjórn og undirseld ofbeldi. Svo voru trúarbrögðin þarna, trúin og trúleysið, örvæntingin, vonin og vonleysið.

Í fyrri bókinni fylgjum við systkinum að flytja lík föður síns á milli byggða í stríðshrjáðu Sýrlandi og með þeirra augum og í ljósi reynslu þeirra af þessum líkflutningi sjáum við manneskjuna bregðast við með því valdi sem stríðið færir sumum og fullkomnu valdaleysi sem er hlutskipti annarra. Síðari bókin fylgir fjölskyldu í áratugi, allt aftur á sjötta áratuginn en þó einkum síðar á öldinni sem leið og nokkur ár inn í þessa öld.

Á ýmsu gengur í fjölskyldunni sem og í landinu en við fylgjumst með hvernig fátækt og ofbeldisstjórnun fær fólk til að aðhafast ýmislegt sem það síst vildi, það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann ... eins og Hallgrímur kvað forðum. 

Margt í þessum bókum þykir mér vera lærdómsríkt og til umhugsunar; hvernig sá eitraði kokteill, fátækt, valdstjórn og vonleysi getur gert fólk að illvirkjum sem segja til nágranna, skólasystkina og samstarfsfólks, bæði satt og ekki síður logið. Úr verður heilt víti ásakana og síðar sjálfsásakana, stöðug barátta við að verða ekki „eitt dýr í hjörðinni.“

„„Þeir klóku framleiða fávisku og sannfæra hina fávísu um hana til að hafa þá góða,“ sagði hann. Hann átti við hjörðina sem eyðilagði allt: skrúðgöngur, hátíðahöld, brúðkaup. Meira að segja hljómfallið í tónlist hennar var í hans huga óþolandi heimska. Hann sagði mér að þessi hjörð væri árangursríkasta uppfinningin til að tryggja að allar hugmyndir, heimspeki, trúarbrögð og heiðarleg list versluðust upp og hyrfu.“ 

Í bókum Khaleds er hjörðin alltaf sýnileg og til sýnis af hans hálfu. Ungu hugsjónamennirnir sem vildu stöðva krossfarana að norðan og vestan, létu sér vaxa skegg, fögnuðu árásinni á Tvíburaturnana í New York og héldu svo til Bagdad að berjast við Kanann þegar hann hafði gert innrás í Írak. Þeir fundu sig í sinni hjörð eins og aðrir í sínum hjörðum. En svo brast eitthvað og þeir urðu vegalausir, villtir milli „efasemda og fullvissu.“

Khaled Khalifa varar við hóphyggjunni og þeim aðstæðum sem afskræma manneskjuna. Mér þótti þau hjálpast ágætlega að Khaled og Elísa Björg að draga upp myndina. Það er nefnilega það sem mér finnst þessar bækur vera, eins konar málverk; myndbirtingar á tilfinningum, stundum mildum en oftar stríðum. Og þegar ég virti þessar myndir fyrir mér þótti mér tímaflakkið í góðu lagi, dauðir og lifandi á víxl en alltaf þessi sterku skilaboð um valdið sem spillir bæði lífi handhafa þess og rústar lífi þeirra sem fyrir valdbeitingunni verða.