Fara í efni

KIRKJUÞING 2011


12.11.11
Ávarp í upphafi Kirkjuþings

Það er ánægjulegt að vera hér á hátíðlegri stundu í upphafi kirkjuþings. Hér mun fara fram mikilvæg umræða og vil ég nota þetta tækifæri til að óska kirkjuþingi alls góðs í störfum sínum, svo og íslensku þjóðkirkjunni.
Í upphafi máls míns langar mig til að víkja nokkrum orðum að okkar fyrri samskiptum.

Á prestastefnu sem haldin var í Háskóla Íslands 3. maí síðstliðinn sagði ég eftirfarandi: Sem stofnun hefur kirkjan þurft að sæta miklum niðurskurði eins og aðrar stofnanir í samfélagi okkar. Því miður sér enn ekki fram úr þeim þrengingum sem við er að stríða. Án þess að ég vilji gefa nokkur fyrirheit um framhaldið - reyndar er boðaður niðurskurður á komandi ári - þá vil ég engu að síður bjóða kirkjunni að tilnefna tvo fulltrúa í starfshóp með fulltrúum innanríkisráðuneytisins sem meti hvaða áhrif niðurskurðurinn hefur haft á starfsemi kirkjunnar og hverjar yrðu afleiðingarnar ef haldið yrði áfram á þessari braut. Þar með er ég að bregðast við ákalli biskups sem lýst hefur þungum áhyggjum yfir stöðu mála í formlegu erindi til mín sem ráðherra kirkjumála.
Ég er meðvitaður um ábyrgð mína sem aðili að framkvæmda- og fjárveitingarvaldi. Mitt hlutverk er meðal annars að halda til haga hagsmunum skattgreiðenda og ríkissjóðs en við sem höfum þetta verkefni með höndum þurfum jafnframt að vera meðvituð um afleiðingar gerða okkar."

Þetta gekk eftir og hóf starfshópurinn vinnu í ágústbyrjun. Til að honum yrði unnt að meta áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi kirkjunnar fól hann starfsmanni sínum að reikna út hver þessi niðurskurður hefði verið allt frá því hann hófst eftir bankahrunið og að bera hann saman við þann niðurskurð sem almennt hefði verið hjá ríkisaðilum. Þá var jafnframt ákveðið að leita eftir því að fá aðgang að ársreikningum sókna þjóðkirkjunnar til að leggja mat á hvernig þær hefðu brugðist við niðurskurðinum og hvaða áhrif hann hefði haft á starfsemi þeirra.

Þjóðkirkjan fær fjárveitingar á nokkrum fjárlagaliðum. Tveir þeirra eru langstærstir, þ.e. til biskupsstofu til greiðslu launa presta, prófasta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar og vegna annars rekstrarkostnaðar en sá liður byggist á samkomulagi milli ríkis og kirkju frá árinu 1997. Hinn liðurinn er til reksturs kirkna og starfsemi sókna landsins en um hann giltu lög frá 1987 um sóknargjöld o.fl. Ákvæðum þeirra laga um fjárhæð sóknargjalda hefur verið breytt árlega frá árinu 2008 með lögum um ráðstafanir í ríkifjármálum. Aðrir fjárlagaliðir eru kirkjumálasjóður, kristnisjóður og jöfnunarsjóður sókna. Eftir hrun tók kirkjan á sig skerðingu á fjárveitingum til biskupsstofu og hefur verið um það gerður árlegur viðaukasamningur við fyrrnefndan samning frá 1997 þar sem framlögin eru lækkuð til samræmis við almennan niðurskurð á flestum sviðum ríkisins eins og segir í honum. Enginn slíkur samningur var gerður um skerðingu sóknargjaldanna. Sú skerðing hefur verið ákveðin af fjárveitingavaldinu við undirbúning fjárlaga ár hvert.

Við upptöku staðgreiðsluskatts árið 1988 urðu sóknargjöld hluti af skattinum en höfðu áður verið innheimt sérstaklega og skilað til kirkjunnar. Við undirbúning lagabreytingarinnar var þessi leið valin þar eð hún þótti einföld í framkvæmd og talin myndu tryggja til frambúðar stöðugleika á umræddum tekjustofnum kirkjunnar eins og sagði í athugasemdum með lagafrumvarpinu.

Frá því er skemmst að segja að við samanburð á skerðingu sóknargjaldanna og skerðingu á fjárveitingum til annarra ríkisaðila kom í ljós verulegur munur. Sóknargjöldin höfðu lækkað að raungildi, miklu meira en nam almennri skerðingu og samdrætti, nokkuð sem hafði meiri áhrif en ella vegna fækkunar sóknarbarna á sama tíma.

Tölurnar tíunda ég ekki hér en ég mun fljótlega gera grein fyrir þessum niðurstöðum í ríkisstjórn.Til þess var til starfshópsins stofnað að við hefðum á okkar vinnsluborði sem bestar upplýsingar um stöðu mála. Ég vil að það komi fram að sjálfum kom mér á óvart hve mikilli skerðingu sóknargjöldin hafa sætt umfram almennan niðurskurð og hlýtur það að krefjast sérstakrar skoðunar af hálfu okkar sem förum með fjárveitingarvaldið.

Staða kirkjunnar sem stofnunar er nú mjög til umræðu í þjóðfélaginu og hefur verið um nokkurt skeið. Spurt er hvort viðhalda eigi kirkjunni sem þjóðkirkju, hvort hún hafi hlutverki að gegna sem stofnun? Er hún rétt staðsett í lagaramma og regluverki samfélagsins?

Spurninga sem þessara á að spyrja gagnvart öllum stofnunum öllum stundum. Og ráðherra trúmála þarf einnig að spyrja um hlutverk - réttindi og skyldur - annarra safnaða og einnig lífsskoðunarfélaga. Á að veita lífskoðunarfélögum á borð við Siðmennt sömu réttindi og trúfélögum?

Ég er á því máli og er sammála Hjalta Hugasyni, prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, þegar hann færir rök fyrir því að útfærð trúfrelsisákvæði séu nauðsynleg til að verja mannréttindi fólks sem hefur flust hingað búferlum og myndar trúarlega minnihlutahópa. Eins þurfi trúfrelsi að tryggja stöðu þeirra sem standa vilja utan allra trúfélaga og/eða hafna trú.

Í samræmi við þetta talar prófessorinn fyrir því að hlutur þeirra sem standa utan þjóðkirkjunnar og þeirra sem standa utan trúfélaga skuli jafnframt vera bættur með því að leggja trúfélög og lífsskoðunarfélög að jöfnu. Áður hef ég fjallað á þessum vettvangi um viðhorf mín til þessara mála og hef ég grun um að um sumt sé ég varfærnari en margur maðurinn, því ég horfi til Þjóðkirkjunnar sem hluta af íslenskum menningararfi sem vafasamt sé að leggja að jöfnu við önnur trúfélög og hreyfingar, einfaldlega vegna hinnar sögulegu og menningarlegu víddar, sem þjóðkirkjunni tengist.

En mannréttindakjarnanum í máli Hjalta Hugasonar er ég sammála og í þeim anda ákvað ég að verða við óskum Siðmenntar um að tryggja því félagi ígildi sóknargjalda og réttindi  á borð við trúfélög. Þannig skuli Siðmennt veitt heimild til embættisverka, sem trúfélög og hið opinbera hafa annars með höndum. Með þessu er ekki gengið á rétt nokkurs manns né nokkurs trúarhóps. Því allir njóta trúarsöfnuðir þegar þessara sömu réttinda, að sjálfsögðu þar með talin Þjóðkirkjan.

Í mínum huga er það grundvallaratriði að allir hafi rétt  til þess að velja sér trú, trúarbrögð eða trúleysi. Það er einfaldlega í samræmi við kall tímans - og auðvitað hefði það átt að vera kall allra tíma - að einstaklingar geti valið sér vettvang fyrir trú, mannrækt, tilvistarspurningar og andlega þekkingarleit.

Það er staðreynd sem við þekkjum öll, hve gott og sameinandi það er að koma saman og láta minna okkur á hina andlegu vídd lífsins. En sú vídd verður þó aldrei með öllu slitin úr tengslum við hið veraldlega vafstur. Þess skulum við minnast þegar við sameinumst undir sameignlegu þaki. Þakið þarf að vera til, í eiginlegri merkingu og í kirkjunni starfa einstaklingar - og það á við um allar sambærilegar stofnanir - að þar  starfar fólk sem lifir sinni veraldlegu tilveru og þarf að hafa sitt lífsviðurværi.

En hvað Þjóðkirkjuna áhrærir hljótum við að spyrja hvort okkur finnist einhvers virði að safnast saman undir hennar þaki á gleði- og sorgarstundum.

En hver er Þjóðkirkjan? Er hún stofnun, hreyfing eða samfélag? Eða er þetta allt eitt og hið sama? Ég kann ekki svarið. Hef lengi leitað þess. Sennilega duga hér engar alhæfingar en sérhver maður hefur sína sýn, sína nálgun.

Mig langar til að segja ykkur hvað ungur frændi minn sagði í minningargrein  um móður mína í upphafi þessa árs. „...Amma var trúuð," sagði hann , „trúði á það góða í heiminum. Hún trúði á kærleikann og sýndi í verki hvað er að vera góður við náungann. Ég minnist þess ekki að hafa rætt trúarbrögð við ömmu, en frá blautu barnsbeini minnist ég ömmu ræða um mikilvægi kærleikans og gildi þess að trúa á það góða. Líklega hef ég ekki skilið þetta í fyrstu, en nú síðustu ár hef ég lært að meta sannleikann í þessum orðum." Þetta skrifaði systursonur minn í minningargrein um ömmu sína en hún lést í janúar á þessu ári, á 97. aldursári.

Já,  trúuð, en aldrei heyrði ég hana tala um trúarbögð. Reyndar held ég að hann frændi minn hafi horft framhjá því - eða kannski ekki tekið eftir því - að amma hans kenndi honum bænir því ofar öllu trúði hún á mátt bænarinnar. En í þessu birtist hennar - og kannski minn líka - skilningur á kristinni trú og boðanda hennar þegar best lætur; Þjóðkirkju eins og ég vil sjá hana, talandi til hjartans, nánast án þess að eftir því sé tekið, óáreitin en þó afgerandi.

Vinsælasta tilvitnunin í Biblíuna mun vera orð Páls postula úr fyrra Krinutbréfi, þrettánda kafla, sem byrjar einsog allir hér inni vita: „Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika..." og endar einsog menn muna ,,..en nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur."

Út af þessum orðum hefur verið lagt oftar en nokkur maður veit og það eru alltaf þessi þrjú orð: trú, von, og kærleikur; Það er einsog þau fari aldrei almennilega úr tísku. Það er eiginlega ómögulegt að fá af þeim nóg.

En hvernig getur stofnun boðað trú, von og kærleika? Getur einhver stofnun borið ábyrgð á trú, von og kærleika? Er það ríkisstofnun? Undir eftirliti Ríkisendurskoðunar?

Eins er hægt að spyrja: Er hægt að segja sig frá trú, von og kærleika?

Hvar stendur Þjóðkirkjan, með sína þúsund ára sögu? Þjóðkirkjan sem stundum boðaði trúna, vonina og kærleikann með hörku, nísk á fyrirgefningu, íhaldsöm til vansa og skilningslaus á tísku og tíðaranda. Í því „skilningsleysi" hefur þó legið hennar styrkur í gegnum aldirnar. Hún hefur verið kjölfesta í lífsins ólgusjó.

Og einsog allt sem máli skiptir, hjá okkur, þessari litlu og fámennu þjóð, þá varð kirkjan virk og mótandi menningarstofnun. Kirkjan stóð og stendur vörð um tunguna, siðræn gildi og hefðir. Er hægt að segja sig úr menningunni? Getur einhver sagt mér það?

Kristin kirkja hefur staðist sem stofnun lengur en nokkur önnur í mannkynssögunni. Þess vegna sætir engri furðu að hún hafi staðið af sér ýmsar bylgjur undanfarinna ára, ágengra hugmyndastrauma, stjórnmálabreytingar og trúarbrögð annars staðar frá komin.

Kannnski vildi kirkjan helst af öllu sleppa við að vera þjóðkirkja eða öllu heldur ríkiskirkja, sem þarf að sinna skrifstofustörfum fyrir samfélagið, kannski vill hún fá að vera sjálfstæð óháð kristin kirkja. Kirkja án eyðublaða og án veraldlegra yfirboðara. Kirkja fagnaðarerindis. Kirkja móður minnar, kirkja trúar, vonar og kærleika. Og þegar allt kemur til alls þá var það samfélagið sjálft sem taldi það vera hagsmuni heildarinnar að hafa Þjóðkirkju.

Í mínum huga hefur aðskilnaður ríkis og kirkju þegar farið fram og ég segi: Í stað þess að hrapa að ákvörðunum um grundvallarbreytingar skulum við taka rækilega umræðu um heildarhagsmuni. Þrátt fyrir allt þá er kirkjan - bæði bundin en einnig óháð trúarboðskap sínum - hornsteinn í okkar samfélagi; hún er menningsarstofnun sem geymir mikilvæga arfleifð úr sögu og lífi íslenskrar þjóðar. Og enn er það svo að stærsta þakið sem við sameinumst undir á örlagastundum er þak Þjóðkirkjunnar. 

Kirkjuþing mun nú ræða veraldarvafstrið, hvernig kirkjan bregst við í þeim þrengingum sem íslenskt samfélag þarf nú að takast á við með þverrandi tekjum. Þarna liggja saman leiðir kirkjunnar og ráðuneytis kirkjumála. En ekki síður horfum við öll til þess þegar kirkjan tekur nú umræðu um sitt raunverulega ætlunarverk; hvernig hún best rækir skyldur sínar við trúna, vonina og kærleikann.