KLÍNIKIN ehf. SEGIST VILJA MEIRA AF SKATTFÉ OKKAR - ANDSTAÐA GEGN ÞVÍ HLJÓTI AÐ VERA ÓMÁLEFNALEG!
Í Morgunblaðinu á föstudag birtist frétt vikunnar.
Í þessari frétt segir framkvæmdastjóri í nýju ( óðum þó að festa sig í sessi) einkareknu sjúkrahúsi í Reykjavík, sem ber heitið Klíníkin Ármúla ehf., að Landspítalinn sé aðþrengdur fjárhagslega og ekki meira á hann leggjandi. Nú þurfi að nýta aðra krafta og önnur rekstrarform þar á meðal umrædda Klínik ehf.
Þessi frétt vikunnar er í sjálfu sér engin frétt fyrir þá sem fylgst hafa með kröfusögu þessa fyrirtækis. Veruleikinn er sá að fréttin hefur marg oft verið frétt vikunnar eða alltaf þegar bisnisslæknarnir vilja seilast ofan skatthirslurnar. Og nú á að fara að ganga frá fjárlögum.
Það er rétt að Landspítalinn hefur verið fjársveltur og það á einnig við um aðrar opinberar heilbrigðisstofnanir. Er hið rökrétta svar við vandanum þá ekki að laga fjárhag þessara stofnana? Ég hefði haldið það.
En hér skilja leiðir. Allir gera sér grein fyrir þörfinni á auknu fjármagni til heilbrigðiskerfisins. En þegar spurt er um hvernig þessu aukna framlagi skattgreiðenda skuli varið, byrjar pólitíkin. Hún fjallar um farvegi fjármagnisins. Og þá skulum við ekki gleyma að einkavæddu heilbrigðiskerfin eru miklu dýrari en hin opinberu. Það segir sig nánast sjálft að reksturinn verður dýrari þegar sjálftakan kemur ofan á rekstrarkostnaðinn!
Forsvarsmenn Heilsugæslunnar komu einnig fram í fjölmiðlum í vikunni til að tala máli Friedman-frjálshyggjunnar um að fjármagn skuli fylgja sjúklingi. Kváðu þeir gríðarlega framför fólgna í því að fólk geti ráfað á milli heilsugæslustöðva með vasa fulla skattfjár.
Þetta kemur ekki á óvart í ljósi forsögunnar. Einn þriggja höfunda greinar í Fréttablaðinu þessu til lofs og dýrðar er innfluttur bisnisslæknir með reynslu úr einkageiranum í Svíþjóð, líkt og kolleginn í Klínikinni ehf. Ekki alls fyrir löngu var hann ráðinn sem „ framkvæmdastjóri lækninga" hjá Heilsugæslu höfðuborgarsvæðisins en er nú titlaður „sérfræðingur" í Velferðarráðuneytinu, væntanlega til að vinna að markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn lætur ekki að sér hæða!
Framkvæmdastjórinn í Klíníkinni í Ármúlanum segir að við sem andæfum því að hann fái meira af skattfé okkar til sín, gerum það nánast af trúarlegum ástæðum, andstaðan sé „kennisetning". Þannig er það orðað.
Ef þetta væri rétt, þá þætti mér það skárra en að reka baráttu fyrir eiginhagsmunum á kostnað ríkissjóðs. Hins vegar mótmæli ég því að andstaðan við markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins sé málefnasnauð kennisetning.
Ég hef árum og áratugum saman hvatt til málefnalegrar umræðu um heilbrigðiskerfið og reynt að efna til hennar sjálfur. Vísa ég í því sambandi nú síðast til greinaskrifa í Morgunblaðinu þar sem ég skiptist á skoðunum við Sigríði Andresen, alþingismann og Óla Björn Kárason, sem um skeið starfaði sem ráðgjafi fyrir heilbrigðisráðherra í Velferðarráðuneytinu:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/sjalfstaedisflokkurinn-tali-skyrar-um-einkavaedingaraform-sin
https://www.ogmundur.is/is/greinar/ola-birni-svarad
https://www.ogmundur.is/is/greinar/gefid-fyrir-markid