KLÓNAR
Sæll Ögmundur.
Þakka þér fyrir að taka áfengisauglýsingar til umræðu á Alþingi. Einhverjum kann að finnast þú skjóta föstum skotum að Ríkisútvarpinu, mér finnst eins og þú gefir á þá lausan bolta, en af hverju segi ég það? Ég segi það vegna þess að að vinsælir þættir; dæmi - danski þátturinn Klovn - er kostaður af Tuborg fyrirtækinu, eða af þeim sem selja Tuborginn hér á landi. Það er umdeilanlegt að public-service fyrirtæki eins og Ríkisútvarpið skuli láta kostunarmöguleika (vilja fyrirtækja til að borga dagsskrárliði) ráða útsendingu sinni og það er óþolandi að svona fyrirtæki skuli gera út á áfengisdrykkju, ungra sem aldinna. En þetta er ekki það eina. Allur íþróttaheimurinn leggur sig fram um að draga skýr mörk á milli áfengis og íþrótta, enda heilbrigð sál í hraustum líkama. Menn reyna að koma í veg fyrir drykkju á íþróttaleikvangi og hörð gagnrýni hefur komið fram á íþróttalið sem auglýsa áfengi eins og Lifrarpollsliðið svo dæmi sé tekið. Hvernig stendur almannaútvarpið, Ríkisútvarpið, sig á þessu tiltekna sviði, þ.e. Íþróttir og áfengi? Hvar settu menn niður hluta af umfjöllun um leikina á Evrópumeistaramótinu í handknattleik? Á pöbb þar sem gat að líta íþróttafréttamenn og viðmælendur þeirra með góðglaðann landann í baksýn. Skilaboðin til æsku landsins: Áfengis skal njóta með íþróttum í boði Ríkisútvarpsins. Flottir á því í Efstaleitinu, hálfgerð grey, eða tossar, sem eiga erfitt með siðfræðina - klónar. Íþróttamálaráðherra ætti að hafa áhyggjur af áfengisauglýsingum.
Kveðjur,
Hafsteinn