Fara í efni

KOMA FRAM VIÐ ÞJÓÐINA EINS OG SNÆRISÞJÓFA

SMUGAN - -  LÍTIL
SMUGAN - - LÍTIL

Birtist á Smugunni 05.06.12.
Icesave málið sýndi og sannaði að Íslendingum verður ekki stjórnað með ofbeldi. Endurheimt fiskveiðiauðlindarinnar mun sýna það enn og aftur.
Íslendingar þola illa ofbeldi. Mikill meirihluti þjóðarinnar krefst þess að lögin sem kveða á um að auðlindir hafsins séu þjóðareign séu meira en  orðin tóm. Útgerðarmenn þekkja vilja þjóðarinnar. Þeir hafa vitað lengi að nær þjóðin öll vill gagngerar breytingar á eignarhaldi og úthlutun fiskveiðiheimilda. Það er skiljanlegt að þeir vilji halda í
þúsund milljarða eignir.

Aðgerðaleysi fyrri ríkisstjórna

Það er skiljanlegt að menn sem keypt hafa kvóta telji sig hafa rétt til hans. Það er hrikalegt að hugsa til þess að stjórnvöld fyrri ára skuli hafa klúðrað málum svo gersamlega að þjóðin skuli sitja uppi með kerfi sem hún vill ekki. Að stjórnvöld hafi í algeru umboðsleysi afhent helstu auðlindir þjóðarinnar einkaaðilum án endurgjalds.
Engin önnur ríkisstjórn en sú sem nú situr hefur haft vilja til að gera breytingar á kvótakerfinu. Enda kosin út á það. Engin önnur ríkisstjórn mun breyta þessu ömurlega ástandi. Það skiptir máli hverjir stjórna og meirihluti Alþingis skiptir máli. Það er hægt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að ganga of skammt varðandi breytingar á fiskveiðstjórnunarkefinu og gjaldtöku fyrir nýtingu auðlindarinnar. Ekki fyrir að ganga of langt - of langt í þágu almennings!

Hóta sjómönnum og fiskvinnslufólki

Heiftin hjá stærstu kvótahöfunum er til marks um að til einhvers er barist og hagsmunirnir ríkir. Þetta er enn ein sjálfstæðisbaráttan, nú gegn innlendu einokunarauðvaldi, sem við höfum sjálf kallað yfir okkur, undir formerkjum samkeppni og frjálshyggju.
Nú er gríman fallin og útgerðarmenn farnir að beita ofbeldi og hótunum. Þeir hóta sjómönnum því að þeir muni sviptir fjórðungi tekna sinna. Þeir hóta fiskvinnslufólki að fiskurinn verði unnin erlendis (enda sum fyrirtækjanna alþjóðlegir auðhringir). Þeir hóta þjóðinni að þeir muni binda flotann við bryggju. Íslendingum skal refsað einsog snærisþjófi á einokunartímum.

Þjóðin kallar eftir lögvernduðum eignum sínum

Almenningi skal ekki líðast að gæta hagsmuna sinna eða kalla eftir lögvernduðum eignum sínum. Það er vitnað í stjórnarskrá eftir því sem hentar hverju sinni. Einu sinni var okkur sagt að engu þyrfti að breyta, hvorki í lögum né stjórnarskrá, því lögin tryggðu þjóðareign. Þegar þjóðkjörnir fulltrúar gera síðan tillögur um það hvernig með þessa almannaeign skuli farið er hnefinn reiddur fram.
Hagsmunir hinna fáu verða að víkja fyrir hagsmunum heildarinnar. Þannig er lýðræðið og hér er um að ræða  hagsmunamál sem er svo stórt að kalla má með réttu sjálfstæðismál. Klíkugæslumenn í stjórnmálum, í fjölmiðlum, á lögfræðikontórum, berjast með stórútgerðinni enda hangir tilvera þeirra á sömu spýtu. Baráttan verður löng og ströng en á endanum mun almenningur sigra.

http://smugan.is/2012/06/klikugaeslumenn-i-stjornmalum-a-fjolmidlum-og-lograedikontorum-berjast-med-storutgerdinni/
http://eyjan.is//2012/06/06/ogmundur-hardordur-islendingum-skal-refsad-eins-og-snaeristhjofi-a-einokunartimum/