KRAFTAVERKAFÓLK Í BORGARBYGGÐ
24.10.2010
Um helgina fór ég í skemmtilega hópferð á Snæfellsnes. Staðnæmst var í Borgarnesi og farið um bæinn undir stórgóðri leiðsögn Páls S. Brynjarssonar, bæjarstjóra Borgarbyggðar. Fróðlegt var að hlýða á bæjarstjórann. Rúsínan í pylsuendanum var svo að koma í Brúðuheima, safn með leikbrúðum, sem komið hefur verið fyrir í gömlu verslunarhúsunum í Englendingavík í hjarta Borgarness.
Aðstandendur og eigendur safnisins eru hjónin Hildur Magnea Jónsdóttir og Bernd Ogrodnik. Þess er skemmst frá að segja að þau hafa unnið þarna mikið þrekvirki. Safnið er stórmerkilegt og skemmtilegt að skoða - húsin uppgerð í nánast upprunalegri mynd, útsýnið fallegt yfir víkina og veitingar góðar.
Hildur Magnea messaði yfir hópnum og leiddi okkur í allan sannleika um safnið. Gerði mikið úr afrekum allra annarra en sínum eigin þótt engum dyldist að þar var kraftaverkakona á ferðinni. Inn í tölu Hildar Magneu fléttuðust frásagnir af annarri kraftmulningsvél á svæðinu, Kjartani Ragnarssyni og Sirrý sem standa að baki Landnámssetrinu. Á meðan við stöldruðum við mátti sjá bregða fyrir Benedikt Erlingssyni, stórleikara - sem haldið hefur uppi leiksýningum sem smám saman eru að verða öllum landsmönnum kunnar af góðu. Eitt augnablik fannst mér Benedikt hljóta að vera frá Borg á Mýrum. Kannski frændi Egils? Varla bróðir. Það er svo langt um liðið. Eða hvað? Allt er þetta farið að renna saman, fortíð og samtíð í höndum þessara óborganlegu listamanna sem eru að hefja Borgarbyggð upp í efstu hæðir.
Það sem upp úr stendur í mínum huga eftir þessa heimsókn er hve lítið maður hefur um þetta vitað. Bernd Ogrodnik er greinilega listamaður á heimsmælikvarða - tvímælalaust í allra fresmtu röð í krefjandi listgrein.
Eitt er víst að oft eigum við sem þarna komum eftir að leggja leið okkar í Brúðuheima og njóta veitinga í afar skemmtilegu umhverfi.
SJÁ NÁNAR: http://www.bruduheimar.is/
SJÁ NÁNAR: http://landnamssetur.is/default.asp?Sid_Id=26364&tId=99&Tre_Rod=001|001|&qsr