Fara í efni

FLUGVÖLLUR Í LAUSU LOFTI...

Flugvöllurinn í Vatnsmýri á að vera þar sem hann er, allt þar til menn hafa fundið lausn sem er sambærileg eða betri en sú sem nú er að virka. Auðvitað eru menn alltaf að koma með lausnir, en þær lausnir sem þegar hafa komið fram í máli þessu eru hver hinni verri. Sumar hverjar jafnvel svo kjánalegar að á þær er ekki hægt að minnast ógrátandi.

Mál þetta má ekki sækja á þeirri forsendu einni, að menn vilji eignast dýrt land undir byggingar svo þétta megi byggð í borginni, því slík hugsun nær ekki að segja okkur hvernig flugsamgöngurnar eiga að vera um ókomin ár. Og það er einfaldlega ekki nógu skýr hugsun, að setja af stað samkeppni um skipulag í Vatnsmýrinni, á meðan framtíð flugsamgangna milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hangir í lausu lofti. Það er ekki heldur nóg að stofna samtök um flutning bækistöðva innanlandsflugs til Keflavíkur, því ef sú lausn væri ásættanleg, þá væri hún fyrir löngu orðin að veruleika.

Þetta mál má ekki reka á hagsmunum fárra sem vilja maka krók á lóðabraski og hún má heldur ekki fá á sig einhverja klístraða glansímynd sem á að gefa okkur fegurra mannlíf en við getum höndlað með góðu móti.

Það þarf einfaldlega eitthvað annað og meira en draumsýn og þéttingu byggðar til að kenna Íslendingum að aka sjaldnar og ganga oftar.

Að þétta byggð á stað sem er ekki í námunda við flugvöll, ekki í námunda við stærstu verslanakjarna, ekki í námunda við þau svæði sem eru í hve mestri uppbyggingu, ekki í námunda við helstu íþróttamannvirki og ekki í námunda við neitt nema gamla miðborg, er einsog að falsa veruleikan á útópískum forsendum.

Það sem þarf, er samstaða sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um nýjan miðbæ, skipulagðan á þann hátt sem raunhæfur þykir, en ekki byggðan á draumórum og uppskrúfuðu drambi, manna sem einvörðungu vilja ódýrar lóðir.

Ný miðborg þarf að vera miðsvæðis en ekki útá nesi, hún þarf að vera þannig staðsett að til hennar megi auðveldlega komast og hún þarf að vera í námunda við flugvöll og aðrar samgönguæðar sem tengja landsbyggð og höfuðborg.

Flugvöllurinn á að vera – en miðborgina þarf að færa.

Kristján Hreinsson, skáld