ÍRAK OG PALESTÍNA
Reyndar vissu það allir sem eitthvert vit hafa að aðild okkar Íslendinga að stríðinu í Írak var byggð á röngum forsendum. Og reyndar sjá það margir í dag að helreið þessi verður vart talin annað en glæpur gegn mannkyninu þegar fram líða stundir. Jafnvel þótt sá glæpur verði að lúta því lögmáli að flokkast sem tæknileg mistök þá verður ekki framhjá því litið að þeir misvitru menn sem á málum héldu eru sekir um alvarleg afglöp í starfi.
Nú keppast Geir Haarde og Jón Sigurðsson um að tala í tuggum og hálfkveðnum vísum og segja að líklega hefði nú verið betra að fara einhvern veginn öðruvísi að. Þeir forðast þó eins og heitan eldinn þann möguleika að einhver verði dreginn til ábyrgðar. Og auðvitað mun ríkisstjórn Íslands ekki biðja neinn afsökunar á meðan þetta tvíeyki ræður för.
Á alþjóðavettvangi erum við í klefa með hinum sinnulausu þjóðum og á meðan þeir kumpánar Geir og Jón ráða verðum við Íslendingar alltaf settir í hóp með þeim sem Himnafaðirinn flokkar á efsta degi sem bleyður. Við höfum nefnilega sett okkur á bekk með raggeitum einsog Bretum, Bandaríkjamönnum og Ísraelsmönnum – mönnum sem hugsa fyrst um að ráðast á aðrar þjóðir og svo einhvern tíma seinna er spurt um tilgang og ástæður innrásanna.
Einn vemmilegasti málflutningur allra tíma er kominn frá leiðtogum okkar Íslendinga – sagan af brauðinu dýra – vonin um að koma einhverjum uppgjafarþingmanninum í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Menn hafa jafnvel látið þeirri hugdettu fylgja von um að fá laun fyrir nokkra menn sem sjaldnast hafa gert annað en svíkjast um í vinnunni.
Hér er talað um raggeiturnar okkar og hugleysingjana sem skríða í skjól um leið og færi gefst. Menn sem koma sér í nefndir og í stöður seðlabankastjóra og eru skyndilega stikkfrí og lausir undan allri ábyrgð. Það eru svona menn sem við viljum setja í fremstu víglínu. Já, það er sorglegt um að hugsa.
Vesælasti og ljótasti bletturinn í allri okkar utanríkisflóru er án efa eilífur stuðningur íslensks ríkisvalds við árásir Ísraelsmanna á saklausa borgara í Palestínu. Þar er nú komin upp sú staða að Palestínumenn hafa einvörðungu umráðarétt yfir litlum hluta þess lands sem taldist þeirra land samkvæmt tillögu Sameinuðu þjóðanna frá 1947. Ísraelsmann hafa með stuðningi Bandaríkjamanna og með óhóflegri notkun hins svonefnda neitunarvalds í öryggisráði SÞ komist upp með að sölsa undir sig nær allt land Palestínumanna. Og núna ganga þeir svo langt að þverbrjóta allar samþykktir og reisa múra sem hafa það eitt að markmiði að gera Palestínumenn að föngum á því litla landssvæði sem eftir stendur.
Það sem íslensk stjórnvöld hafa gert með aumingjadómi sínum er til háborinnar skammar og hver sá sem hefur snefil af sómatilfinningu hlýtur að líða fyrir það að tilheyra slíkri hjörð siðblindingja.
Við verðum að sýna manndóm. Við verðum að finna menn sem þora að taka á vandanum. Við verðum að skipta um stjórn. Lyddurnar sem hingað til hafa smjaðrað fyrir amerísku stríðsbrölti með dollaramerki í augunum verða að fá frí. Og dusilmennin sem trúa því að síonistarnir séu Guðs útvalda þjóð verða að átta sig á því ef þessi algóði Guð er svo góður sem hann er sagður vera, þá mun hann væntanlega ekki sjá sér annað fært en steypa hræsnurum heimsins í eilífa glötun.
Kristján Hreinsson, skáld