Fara í efni

MISTÖK ERU MEINHOLL

Ég heyrði eitt sinn viðtal við lækninn, Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs. Hún var spurð um hagtölur og þegar hún svaraði þá sagði hún eitthvað á þá leið að hún skildi spurninguna, vissi ekki svarið og vildi ekki segja eitthvað sem hún ætti síðar eftir að harma að hafa sagt.

Bæði eru tilsvörin eftirminnileg, svo og orð fréttamannsins sem hafði aldrei heyrt getið um slíka hreinskilni í fórum stjórnmálamanna.

Skiptar skoðanir voru meðal manna um það hvort það teldist ásættanlegt að forsætisráðherra konungsríkisins léti hanka sig á spurningum um hagtölur og hvort það væri forsvaranlegt að kerlingin í brúnni segðist ekki hafa hugmynd um gang mála í hagkerfinu. Ýmsir töluðu um mistök en aðrir töluðu um heiðarleika. Og sumir töldu það mistök af ráðherranum að hafa ekki kynnt sér tölurnar fyrir viðtalið.

Nokkrum vikum eftir atvikið mátti heyra það á fólki að fyrst og fremst hefði Brundtland sýnt kjark og þor þegar hún viðurkenndi að hún notaði höfuðið ekki sem hirslu fyrir hagtölur.

Ég tel að íslenskir stjórnmálamenn geti lært eitt og annað af þessari sögu, því margur maðurinn á Íslandi hefur jafnvel gengið í berhögg við yfirlýsta sannfæringu sína og hefur borið það eitt úr býtum að vera baktalaður. Mistök sín játa menn yfirleitt ekki en hafa hengingarsnöru réttlætisins hangandi fyrir augunum öllum stundum.

Mér er minnisstætt þegar kjósendum var fært það fóður að fulltrúar allra flokka á þingi hefðu sammælst um það að gera þingmönnum og ráðherrum sérstaklaga hátt undir höfði þegar þeir færu að taka við lífeyrisgreiðslum. Ekki nóg með að þeim skyldi greitt ríflega, heldur áttu þeir að fá að halda lífeyrisgreiðslum jafnvel þótt þeir réðu sig til nýrra starfa.

Öllum landslýð var ljóst að hér fóru þingmenn fram með mikið óréttlæti. Þingmennirnir sáu auðvitað að þeir yrðu að standa vörð um þennan ágalla, einkum vegna þess að þeir horfðu á eigin hagsmuni. En þessi stétt manna er í þeirri aðstöðu að samtrygging þeirra er ómetanleg þegar þeir vilja hana við hafa.

Nú tel ég að tími réttlætisins sé að rísa. Ég trúi því að einhver af okkar ágætu þingmönnum muni koma fram með frumvarp sem eyðir í eitt skipti fyrir öll þeim óréttlátu reglum sem tryggja þingheimi lífeyrisgreiðslur sem alþýðan getur ekki einu sinni látið sig dreyma um.

Ég á von á að formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs gangi í fylkingarbroddi, viðurkenni mistökin og losi okkur við þennan ljóta blett siðleysis sem þingmenn skömmtuðu sér hér um árið.

 Kristján Hreinsson, skáld