SPÁÐ Í SPILLINGUNA...
Ég, sem svarinn andstæðingur Framsóknarflokksins, hlýt að fagna því að í forystusveit þess ömurlega flokks veljist maður einsog Björn Ingi Hrafnsson, maður sem á mettíma nær að skipa sér á bekk með nokkrum af spilltustu mönnum þjóðarinnar. Það er ekki dónalegt að vera nefndur í sömu andrá og menn einsog Alfreð Þorsteinsson og Finnur Ingólfsson. Það er ekki slæm frammistaða að vera innmúruð sleikja hjá íhaldinu og geta sagt að flestir sem á framboðslista Framsóknar þorðu að vera séu hæfasta fólk til allra starfa. Og þegar kosningastjóri flokksins fyllir einnig þann bekk sem bitlingana þiggur þá er einsog ekki þurfi að nefna flokkinn á nafn.
Nú eru sjónvarpsmenn loksins byrjaðir að spyrjast fyrir af miklum krafti því nú á að opinbera spillinguna í eitt skipti fyrir öll.
Ég geri mér grein fyrir því að framsóknarmenn ætla að reyna að varpa ljósi á eitt og annað sem hjá R-listanum átti sér stað, jafnvel þótt þeir sjálfir hafi átt aðild að því samstarfi. Björn Ingi byrjaði að reyna að fletta ofanaf spillingu R-listans í Kastljósþætti gærkvöldsins.
Menn eiga eftir að spyrja að því hvort e.t.v. verði hægt að spyrða fulltrúa vinstrimanna við spillingu. Menn munu kafa djúpt og kalla eftir viðbrögðum við hverju því sem kann að finnast. Og svona ykkur að segja þá hræðist ég ekki ofsóknir á hendur borgarfulltrúum Vinstri - grænna, því ég mun sjálfur taka þátt í því að opinbera allan þann sannleika sem þarf að koma fram.
Menn eiga eftir að rifja það upp að Árni Þór Sigurðsson, sem fulltrúi okkar sem segjumst vera vinstrimenn, nýtti sér það sem forseti borgarstjórnar að láta einkabílstjóra aka sér um borgina á þýskum eðalvagni.
Ég orti um þetta vísu og menn hlógu vel og lengi.
Ég ætla að vona að okkar flokkur þurfi ekki að svara til saka fyrir afglöp og ég ætla svo sannarlega að vona að mitt fólk verði ekki staðið að því að misnota aðstöðu sína á einhvern hátt.
Ég fæ að vísu yrkisefni við hvert glappaskotið sem menn gera. En ég vona engu að síður að mitt fólk hafi ekkert að fela. En hafi eitthvað úrskeiðis farið, eigum við sjálf að vera óhrædd við að gera hreint fyrir okkar dyrum.
Í ráðhúsi menn ræða og þinga
og reyna að fela hryllinginn
í borgarstjórn með Birni Inga,
þó blasir við þeim spillingin.
Kristján Hreinsson skáld