Kröftugir klerkar
Grein séra Arnar Bárðar á heimasíðunni þótti mér góð. Hann gerir það sem mér finnst flestir prestar vanrækja: Að skoða samtímann undir kastljósi trúar og siðfræði. Prestum hættir því miður til að forða sér út úr samtímanum og virðist líða best í þokukenndum heimi þar sem ekki þarf að taka afstöðu – nema þá með almennu orðagjálfri. Ég fór inn á heimasíðu Neskirkju – og viti menn þar gat að líta margar kröftugar ræður séra Arnar Bárðar sem ég las mér til ánægju. Prestunum er ekki alls varnað – sumum – en hinir áhugaverðu í þeirra hópi eru því miður í minnihluta. Það er greinliegt Ögmundur minn að þú laðast að hinum gagnrýnni í prestastétt. Séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum sem skrifaði hjá þér um fjölmiðla á áramótum var sá maður sem bar höfuð og herðar yfir flesta Íslendinga – og sannarlega alla úr klerkastétt – í friðarbaráttunni í byrjun 9. áratugar síðustu aldar. Hann sýndi þá mjög gott fordæmi – reyndar gerði þáverandi biskup Pétur Sigurgeirsson það líka. Þetta þótti ekki gott í íhaldskredsum á þessum tíma. Síðan hef ég alltaf borið viðingu fyrir séra Gunnari Kristjánssyni. Ég tel mig vera róttæka og vinstrisinnaða en mínar pólitísku skoðanir hafa alltaf rímað ágætlega við trúarbrögðin. Sérstaklega þegar þau eru boðuð og borin uppi af mönnum sem í senn eru hugrakkir og með sterka siðferðiskennd.
Með kveðju, Guðfinna.