KRÖFTUGUR EINAR MÁR
Krafa útifundar á Austurvelli í dag gekk út á að rjúfa þögn ráðamanna og aflétta þeirri leynd sem hvílir yfir samningaviðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Fundurinn var mjög öflugur. Talað var tæpitungulaust. Greinilega um of fyrir fréttastofur ljósvakamiðlanna, RÚV ohf og Stöð 2. Sjónvarpsstöðvarnar sýndu ekkert frá fundinum að því er ég best sá! Þær sýndu hins vegar frá fundi sem síðar um daginn var haldinn við Ráðherrabústaðinn. Hvers vegna þessir tveir fundir voru ekki sameinaðir er mér hulin ráðgáta. Nema þar spili pólitík inn í. Hörður Torfason, einn skipuleggjenda Austurvallarfundarins, upplýsti okkur um að Ráðherrabústaðarhópurinn hefði hafnað samstarfi!
Við Ráðherrabústaðinn var seðlabankastjóri hrópaður niður. Á Austurvelli fékk allur mannskapurinn go´moren. Líka ríkisstjórnin. Sannast sagna skil ég ekki hvað henni hefur verið hlíft í umræðunni. Það er bara eftirlilið sem brást. En hvað með ráðherrana sem sannanlega fengu að vita hvað í pípunum var en héldu samt sem áður áfram að mæra ruglið og fóru meira að segja í áróðurs- og ímyndarferðir til að tala bankana upp og telja saklausa sparifjáreigendur erlendis á að halda áfram að lána, vitandi hvernig fjármununum var ráðstafað og að íslenska þjóðin var í bakábyrgð! Það er ekki að undra að krafan um að ríkisstjórnin segi af sér og að efnt verði til kosninga gerist háværari.
Aftur að útifundinum á Austuvelli. Hörður Torfason var með ávarpsorð og tók lagið eins og honum einum er lagið. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins flutti mjög góða og skelegga ræðu sem má nálgast á heimasíðu hans. Svo var það Einar Már Guðmundsson, rithöfundur sem hreinlega fór á kostum. Hann flutti sannkallaða eldmessu. Skemmtilega, beitta, pólitíska, sanna. Einar Már sýndi að ritsnillingar eiga ekki bara erindi inn á blaðsíður bóka sinna heldur inn í kviku samtímans á róttækum útifundi á Austurvelli. Einar Már hefur skrifað góðar greinar að undanförnu í blöð og í dag fékk hann blóðið til að renna örar í æðum okkar sem hlýddum á hann á útifundinum á Austurvelli.
Einar Már var svo vinsamlegur að verða við bón minni um að leyfa mér að birta ræðu hans hér á heimasíðunni.
Ég hvet alla til að lesa hana. Ekki síst fjölmiðlafólkið sem hundsuðu Austurvöll í dag.
Hér er ræða Einars Más Guðmundssonar. Gjörið svo vel:
Það er til mannætubrandari sem er einhvern veginn svona: Mannæta flýgur á fyrsta farrými. Flugfreyja kemur með matseðil, skrautlegan með nokkrum valkostum. Mannætan er afar kurteis, einsog mannætur eru víst við fyrstu kynni. Mannætan rennir augunum yfir seðilinn og segir svo við flugfreyjuna: Ég sé ekkert bitastætt á matseðlinum. Vilduð þér vera svo vingjarnlegar að færa mér farþegalistann?
Ég ætla ekki að fara að líkja auðmönnum Íslands, sem komið hafa okkur á kaldan klaka ásamt stjórnvöldum, við mannætur, ekki í bókstaflegri merkingu, en eftir að hafa fengið nánast allt upp í hendurnar, banka og ríkisfyrirtæki, virðast þeir samt hafa sagt við stjórnvöld og eftirlitsstofnanir. Það er ekkert fleira bitastætt á matseðlinum. Vilduð þið vera svo vingjarnleg að rétta okkur þjóðskrána?
Og stjórnvöld ábyrgjast heilt spilavíti, rússneska rúllettu, og niðurstaðan er ónýtt mannorð heillar þjóðar, - og við sem vorum svo stolt og áttum stundum ekkert nema stoltið. - Nú hafa verið sett á okkur hryjðuverkalög þar sem við megum dúsa með skuggalegustu þjóðskipulögum heims og þjóðhöfðingjum sem enginn vill hitta í myrkri.
Hver er Osama bin Ladan í þessu dæmi skal ósagt látið, en margir af auðjöfrunum eru flúnir land og láta ekki ná í sig eða aka um með lífverði sér við hlið. Ég ætla heldur ekki að líkja neinum við feðgana Kim Yong Il og Kim Il Sung, en stjórnvöld og eftirlitsstofnanir þeirra virðast hafa sagt við þessa menn þegar þeir báðu þau um þjóðskrána: Já, gjörið þið svo vel, er það ekkert fleira sem við getum gert fyrir ykkur?
Þetta eru auðvitað ekkert annað en landráð, hafi það orði einhverja merkingu lengur, og það er því skýlaus krafa okkar að eignir auðmannanna verði frystar strax, og kerfið hætti að rannsaka sjálft sig, við viljum að fjármálaeftirlitið sé sett af og það og aðrar eftirlitsstofnanir séu rannsakaðar; líka Seðlabankinn, líka ríkisstjórnin. Menn sem hafa haft hagsmuni af sukkinu eru látnir rannsaka sukkið, og fjármálaspillingin teygir sig jafnvel inn í ríkisstjórnina, en við sitjum uppi með risavaxinn reikning, tólf þúsund milljarða, og þeir ætlast til að við borgum, við, börnin okkar og barnabörnin og barnabarnabörnin líka.
Ég hirði ekki um að halda romsunni áfram, slíkur er glæpurinn sem framinn hefur verið, og þessi glæpur hefur verið framinn með vitund stjórnmálamanna, þeirra sem einkavæddu bankana, gáfu þá raunar pólitískum vildarvinum, já létu þá í hendur fjárplógsmanna sem veðsett hafa okkur langt fram í tímann og gert okkur að bjónbjargarmönnum hjá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum og öðrum lánastofnunum.
Við erum gíslar á lögreglustöð heimskapítalismans, því reikningurinn sem skilinn var eftir á veitingahúsi hans er svo stór að enginn getur borgað hann og ríkisstjórnin segir ekki einsog strákarnir í Englum alheimsins: við erum öll saman á Kleppi heldur segir hún: Þjóðin borgar. Við munum pína skrílinn.
Marktækur hagfræðingur, sem var búinn að vara okkur við, segir að ríkistjórn Íslands og seðlabanki séu engu hæfari sem stjórnendur nútíma hagkerfis en þau væru sem stjarnvísindamenn. Þau skildu ekki að uppsveifla íslenska hagkerfisins árin 2005 og 2006 byggðist á skuldasöfnun - lán voru tekin til þess að standa í skilum með önnur lán - og nú vita þau ekki hvernig unnt er að ná jafnvægi aftur þegar pappírsauðurinn er horfinn.
Og hagfræðingurinn bætir við: Það er ólíklegt að nýir leiðtogar sem væru valdir af handahófi í símaskrá gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða og núverandi stjórnvöld.
Þarf frekari vitnanna við?
Og hvað segja stjórnvöld, og hvað segja fjárplógsmennirnir; Þau segja ekkert og þeir segja ekkert. Enginn segir neitt. Það ætlar enginn af þessu fólki að axla ábyrgð. Sigurjón bankastjóri, sem lýsti ICESAVE reikingunum sem tærri snilld, segist ekki bera neina ábyrgð, en þessum reikningum var komið á fót þegar engir marktækir bankar vildu lengur lána íslensku bönkunum. Já, þá var þeim komið á fót með ábyrgð í þjóðskránni. "Það eina sem ég þarf að gera er að kíkja í lok dags hvað er kominn mikill peningur inn," sagði bankastjórinn hlæjandi við blaðamann. "Það bættust við fimmtíu milljónir punda bara á föstudaginn!" Þetta hafa verið skemmtilegir föstudagar sem við fáum nú í hausinn.
Bera svona menn enga ábyrgð? Ekki segja þeir, og allir meðvirku stjórnmálamennirnir taka undir. Það má ekki dæma, það má ekki hafa skoðun. Ef afbrotamenn sem stela lifrarpylsukeppum og koníaksfleygum fengju sömu meðhöndlun þá væru fangelsin tóm. Svo eru auðvitað til lögbrot sem eru lögleg og gerast með blessun stjórnvalda.
Þessi hagfræðilega bóla, sem stjórnvöld settu engar skorður, var svo augljós vitleysa og stjórnvöldum var margsinnis bent á það, nei ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur hvað eftir annað. En í stað þess að taka mark á þessum ráðleggingum fóru ráðherrarnir út í lönd sem kynningarfulltrúar bankanna. Héldu Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún virkilega að ástandið myndi lagast ef þau héldu blaðamannafundi? Hvaða stjórnspeki er þetta eiginlega? En þetta fólk ber auðvitað enga ábyrgð. Þau gátu ekki séð þetta fyrir, segja þau. Nei, þau hlustuðu bara ekki á neinar viðvaranir, þar liggur ábyrgðin, og þess vegna á að skylda þau til að hlusta á það sem við erum að segja.
Það voru orðin hálfgerð trúarbrögð að hægt væri að kjafta ástandið upp og niður, enda réði ríkisstjórnin einn aðalkjaftaskinn til sín sem efnahagsráðgjafa. Við viljum líka sjá ábyrgð greiningadeildarfólksins, sem virðist hafa verið í vinnu við að ljúga að okkur. Skoðið tekjublað Frjálsrar verslunar og sjáið hvað þetta fólk var með í laun! Sjaldan undir fimm millljónum á mánuði. Fyrir hvað? Fyrir að ljúga? Skoðið líka hvernig fólk nátengt ríkisstjórninni hefur makað krókinn, og nú ætlar þetta fólk að fara að rannsaka sjálft sig.
Já, eigum við nú þegar skuldunum rignir yfir okkur að fara bara með reikningana okkar út í tunnu og halda síðan blaðamannfund? Hvað á fólkið sem nú missir húsin sín, vinnuna, að gera? Á það að halda blaðamannafund? Einsog stjórnvöld. Sjá menn ekki hvílík vanhæfni hér er á ferð? En þau bera enga ábyrgð. Samt stjórna þau landinu. Halló! Þetta er einsog að segja: Ég rústaði húsinu, en ég ber enga ábyrgð af því að ég gerði mér ekki grein fyrir að ég væri að rústa húsinu. Myndi einhver taka slíka röksemdarfærlsu gilda? Nei, en þetta er röksemdarfærslan sem okkur er boðið upp á.
Geir Haarde átti að vita að hann var á hriplekum báti, en hann sagði: Við róum bara áfram og sjáum hvað gerist. Það er best að gera sem minnst. Það var speki frjálshyggjunnar, að gera ekki neitt. Aðspurð um vanda bankanna sagði hinn leiðtogi ríkisstjórnarinnar, Ingibjörg Sólrún: Þetta er fræðilegt vandamál, og bætti við, ég fæ ekki betur séð en að bankarnir standi ágætlega.
Hún sagði ekki þetta er hræðilegt vandamál, heldur fræðilegt, og fór svo til Köben með Sigurði Einarssyni, fjármálafurstanum sem nú byggir sér níuhundruð fermetra sveitasetur í Borgarfirðinum og hefur nýverið látið bankann sem farinn er á hausinn kaupa handa sér hús í London upp á tvo milljarða? Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún ætla kannski að sitja með Sigurði Einarssyni og dást að sólarlaginu í Borgarfirðinum og segja: Þetta er fræðilegt vandamál, þegar allir verða farnir úr landinu, og Sigurður Einarsson, varla ber hann ábyrgð, þessi mikli snillingur, sem fyrir örfáum vikum fékk hundruðir milljóna í kaupauka, fyrir hvað? Þetta var maðurinn sem hótaði að fara úr landi ef hann fengi ekki ofurlaun.
Já, Ingibjörg Sólrún, hvað varð af hinni hagsýnu húsmóður kvennalistans? Það eru ekki bara unglingar sem lenda í vondum félagsskap. Stjórnvöld hafa verið í vasanum á ábyrgðarlausum fjármálafurstum og nú ber þeim að taka ábyrgð á því.
Nei, þetta er ekki þeim að kenna. Þau bera enga ábyrgð. Geir Haarde forsætisráðherra segir að kreppan sé bara einhver óþægilegur vindur sem kom frá útlöndum, svipaður óveðrinu í fyrradag, og ef það hefði ekki gerst, ef það hefði ekki blásið, þá væri allt í himnalagi. Það var sem sé ekkert að, bara ef bullið gat haldið áfram. Allt fjármálasukkið, ofurlaunin, kaupaukarnir, endalaus sala á verðlausum bréfum og endalaus niðurlæging á fólki sem vann heiðarleg störf. Laun Lárusar Weldings bara fyrir að byrja í bankanum voru hærri en ævistarf flestra vinnandi manna. Rithöfundur þyrfti líklega að skrifa fimmtíu metsölubækur til að vera andvirði eins fótspors hjá Lárusi Welding. Er þetta eðlilegt verðmætamat? Vita menn í hvað ICESAVE peningarnir fóru? Jú, þeir voru lánaðir til Baugsfyrirtækja sem nú skulda hundruði milljaða á meðan eigendur fyrirtækjanna monta sig af lystisnekkjum, einkaþotum, lúxusíbúðum, sveitasetrum og hótelum. Það virðist hafa verið samkomulag fjármálafurstanna að lána hver öðrum út á veð sem ekkert stóð á bak við. Og þetta finnst stjórnvöldum bara allt í lagi; og þau ætla að fara hægt í sakirnar og ekki að dæma.
Eini vandinn er sá að þetta fékk ekki að halda áfram. Það segir Geir Haarde. Nákvæmlega sama viðhorf birtist hjá Jóni Ásgeiri. Maðurinn heldur því blákalt fram, og virðist trúa því sjálfur, af svipbrigðum hans að dæma, að fyrst þeir fengu ekki meira lán til að halda vitleysunni áfram þá hafi bara allt stoppað og það sé allt Davíð að kenna. Maður gæti haldið að Jón Ásgeir væri alinn við einhverja sérstaka útgáfu af Davíðssálmum, svo hugleikinn er Davíð honum. Jón Ásgeir notar sömu rök og drykkjumaðurinn sem segir að það sé allt í lagi að keyra fullur, bara ef hann er ekki tekinn, og þegar hann keyrir á ljósastaur er það ljósastaurnum að kenna. Síðasti bankinn sem ekki gat lánað, hann gerði mig gjaldþrota! Eigum við að kaupa þetta bull?
Nei, við erum orðin þreytt á þessu bulli. Við krefjumst þess að auðmennirnir verði dregnir til ábyrgðar. Þeir verði látnir skila því sem þeir hirtu með óréttlátum hætti. Við þessar aðstæður er ríkisstjórnin rúin öllu trausti nema hún taki til hendinni og beri niður þar sem eitthvað er að sækja. Það er rétt, við ætlum ekki að borga skuldir óreiðumanna.
Nú erum við farin að heyra mjálmið og afneitunina. Stjórnmálamennirinir munu fylla eyru okkar af langlokum og afsökunum. Þeir vonast til að geta setið af sér storminn einsog þeir eru vanir að gera. Einsog Bjarni Ármannsson var sérfræðingur í. Hann hefur kannski kennt þeim trikkin.
Það er þess vegna sem við verðum að láta í okkur heyra, þess vegna verðum við að standa saman.
Eitt hafa stjórnvöld þó framkvæmt, það er að koma sér upp sérsveit lögreglu, en ég get ekki ímyndað mér annað en að lögregluþjónarnir sjái líka í gegnum bullið og standi með fólkinu, þjóðskránni sem nú hefur verið veðsett en við munum enduheimta.