Kröftugur fundur gegn réttindaskerðingu
Heildarsamtök starfsfólks í almannaþjónustu, BSRB, BHM og Kennarasamband Íslands, efndu í gær til fundar með stjórnum aðildarfélaga bandalaganna. Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags Hjúkrunarfræðinga stýrði fundinum, Elna K. Jónsdóttir, varaformaður Kennarasambandsins ræddi drög að ályktun og Jens Andrésson, formaður SFR og varaformaður BSRB, flutti ávarp. Á fundinum var hið umdeilda frumvarp fjármálaráðherra reifað og svaraði Erna Guðmundsdóttir, lögfræðingur BSRB spurningum fundarmanna um álitamál sem frumvarpinu tengjast. Ljóst var af svörum hennar að verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir bullandi réttaróvissu. Þrennt er hins vegar ekki óvissu háð:
Það er ljóst, að með þessu frumvarpi er stefnt til fortíðar, starfsmönnum á ríkisstofnunum send skýr skilaboð um það hverjir eru "húsbændur" og hverjir "hjú". Nái frumvarpið fram að ganga munu "húsbændur" geta rekið "hjúin" án fyrirhafnar. Annað atriði sem ljóst má heita, er að frumvarpinu er stefnt gegn tjáningarfrelsi. Einstaklingar eru sviptir rétti sínum til þess að skýra mál sit og bera hönd fyrir höfuð sér. Þetta er einnig tilræði við tjáningarfrelsið í öðrum skilningi: Þrengt er að fólki, sem starfar á viðkvæmum sviðum, til dæmis á vettvangi umhverfismála þar sem skoðanir eru skiptar en jafnframt mikilvægt og í þágu almannahags að starfsmenn eigi þess kost að tala opinskátt og óþvingað án þess að eiga á hættu að fá pólitískan refsivönd í bakið. Við skulum ekki gleyma því að ríkisstofnanir lúta á endanum pólitísku valdi. Við þetta er ekkert að athuga nema síður sé. Þetta er einfaldlega hluti af því fulltrúalýðræðisskipulagi, sem hér er við lýði. Hins vegar þurfa að vera fyrir hendi varnaglar sem koma í veg fyrir að hinu pólitíska valdi sé misbeitt. Starfsmenn, sem búa við þau skilyrði sem hér var lýst, þurfa að njóta starfsöryggis. Með frumvarpinu er grafið undan því. Þriðja atriðið sem mönnum má vera ljóst við framlagningu fjármálaráðherra á makalausu frumvarpi sínu, er að með því ögrar hann stéttarfélögunum í þann veginn að þau búa sig undir komandi kjarasamninga. Þetta er sem blaut tuska í andlitið á samninganefndum félaganna. Hvers vegna í ósköpunum fjármálaráðherra grípur til tuskunnar blautu er flestum hulin ráðgáta.
Sjá ályktun fundarins á heimasíðu BSRB