Fara í efni

ÉG HELD...

Ég held að það sé til lausn á vanda R-listans, hún er svo einföld að menn hafa ekkert komið auga á hana. Hún felst í því - sem ég held að standi ennþá í lögum sem fjalla um kosningar og framboð. En þar held ég að sé að finna klásúlu sem leyfir frambjóðendum að spyrða sig í fylkingu fyrir kosningar með því að nota sama auðkenni að hluta. En þegar auðkenni er hið sama að hluta, þá nýtast þeim sem í slíku bandalagi eru öll atkvæði sem ella myndu ekkert vægi hafa. Framkvæmdin yrði þá t.d. þannig: flokkarnir þrír sem boðið hafa fram sem R-listinn, nota allir bókstafinn R sem aðalauðkenni, en síðan hefur hver flokkur sitt sérkenni þannig að flokkarnir bjóða fram hver í sínu lagi sem RV, RS og RB, um leið og þeir bjóða sameiginlega fram sem R.

Þetta er nú svona skelfilega einfalt.

Ef þessi leið yrði farin þá gætu menn kannski hætt opinberu skítkasti inna R-listans og reynt að snúa sér að lausnum þeirra málefna sem þeim var falið að leysa.

Þetta fyrirkomulag með sameiginlegt auðkenni og sérkenni var í umræðunni þegar menn voru að karpa í D-listanum á Reykjanesi - hér um árið - en þá vildi ein af óánægjuröddunum fá leyfi til að bjóða fram undir listaheitinu DD. Ekki náðist samstaða um málið þar og þá, en ég held að þetta hafi þá þótt sá kostur einn sem menn gátu hugsað til að týna ekki atkvæðum.

Ef farin yrði sú leið að bjóða fram undir aðalauðkenni og sérkenni, þá gætu menn hætt þessu bévítans karpi um menn og snúið sér að umræðum um málefni. Og ef þetta kæmist nú í framkvæmd, þá væri á réttlátan hátt tryggt að hver flokkur fengi þá borgarfulltrúa sem atkvæðamagn gefur honum, en síðan myndu sameiginleg atkvæði nýtast þeim menni sem næstur væri inn hjá flokkunum í sameiginlega framboðinu.

Ég held að fólk hljóti að sjá að þetta er lausn sem vert er að skoða.
Þetta er nú það sem ég held...

Sundrun hefur hlálegt afl
sem heftað getur framann
en vilji menn í valdatafl
þeir veð’ að standa saman.

Kristján Hreinsson, skáld