Fara í efni

KÚVENDING VG!

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sagði í umræðu um Orkupakka3 á Alþingi að ekkert væri þar að óttast. Þetta má til sanns vegar færa að því gefnu að fólk vilji á annað borð undirgangast markaðsvæðingu orkumála á forsendum ESB. Þá er vissulega ekkert að óttast.

En þótt þingflokkur VG sé sameinaður um þessa stefnu þá er, samkvæmt skoðanakönnunum, yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem hafa til þessa stutt flokkinn á öndverðum meiði. Sjálfur er ég engu hlynntari markaðsvæðingu raforkunnar nú en ég var þegar haldið var út á þessa braut um aldamótin síðustu. Þá beittum við okkur gegn markaðsvæðingu innviða - þar á meðal raforku -undir merkjum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Kúvending VG nú – ekki fyrir heldur eftir þingkosningar - er mér mikið umhugsunarefni og hryggðarefni. Mér brá líka óneitanlega við að heyra formann flokksins segja að betra væri að hafa óháðar eftirlitsstofnanir en íhlutun stjórnvalda á markaðstorginu. Þarna liggur hvorki meira né minna sjálf skurðarlínan á milli markaðshyggju og lýðræðis, almannaviljans og kapítalismans og einmitt þarna eru garðyrkjubændur ósammála ríkjandi stefnu VG svo dæmi sé tekið. Og ég er á þeirra máli.

Forsætisráðherra og formaður VG, segir að fólk hafi áhyggjur af því að í stjórnarskrá vanti ákvæði sem kveði á um þjóðareign á auðlindum. 80% þjóðarinnar hafi samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslu viljað fá slíkt ákvæði í stjórnarskrá. „Geta hátt­virt­ir þing­menn”, spurði Katrín Jakobsdóttir á þingi,” kannski tekið sig sam­an um að þetta þing ljúki af­greiðslu slíks ákvæðis?”
Þessu væri ég að sjálfsöðgu sammála en leyfi mér jafnframt að minna á að meirihluti þjóðarinnar styður samkvæmt sömu mælingu, einnig réttinn til þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál. Þótt ákvæði þess efnis sé ekki enn að finna í stjórnsarskránni hefði Alþingi verið í lófa lagið að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðdslu um þetta umdeilda mál. Seint hefði því verið trúað að Vinstrihreyfingin grænt framboð tæki ekki undir áskoranir um þjóðaratkvæðagreiðslu þegar sótt er að innviðum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, segist von­ast til að þing­menn muni sam­mæl­ast um að setja skýr­ari ramma um landa­kaup á Íslandi. Meðal ann­ars mætti ræða hvort það sé eðli­legt að vatns­rétt­indi eigi að fylgja landrétt­ind­um. Orðrétt sagði hún: „Ég heyrði ekki and­stæðinga þriðja orkupakk­ans hafa mikl­ar áhyggj­ur af því að hér eru er­lend­ir fjár­fest­ar að fjár­festa fyr­ir á fimmta millj­arð í vatns­verk­smiðjum. En í hverju eru þess­ir fjár­fest­ar að fjár­festa? Þeir eru að fjár­festa í vatns­rétt­ind­um og vatns­auðlind­inni.”

Ég hef verið virkur í samtökunum Orkan okkar sem telur um átta þúsund félaga. Við sem erum þarna á báti hljótum að taka það til okkar þegar vísað er í “andstæðinga þriðja orkupakkans,” sem sagðir eru áhugalausir um fjárfestingar auðkýfinga í vatnsréttindum!  
Margoft hefur á fundum andstæðinga markaðsvæðingarstefnu ESB verið rætt um eignarhald á landi og vatni og miklar áhyggjur viðraðar í því sambandi. Þúsundir hafa skrifað undir áskorun um að koma í veg fyrir að auðmenn safni jörðum á sína hendi og að eignarhaldið færist úr landi – þar með vatnið og aðrar þær auðlindir sem landareign fylgja.
Sjálfur hef ég ekki skrifað lítið um þetta málefni - á þriðja tug greina reiknast mér sé aðeins litið til tveggja undangenginna ára. Áður hafði ég beitt mér á þingi, í ríkisstjórn og innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir því að tryggja að litið væri á frjálsan aðgang að vatni sem mannréttindi og að undir öllum kringumstæðum ætti vatn að vera í almannaeign. Með fullri virðingu fyrir formanni VG leyfi ég mér því að bera af mér og miklum fjölda skoðanasystkina í Orkunni okkar þessar sakir.

Ég ber hins vegar þær sakir á núvernadi ríkisstjórn að hafa sýnt fullkomið áhugaleysi og andvaraleysi í þessu efni og virt að vettugi kröfur frá almenningi um tafarlausar aðgerðir.