LAFFER: VÍTI TIL VARNAÐAR
13.02.2008
Bogi Ágústsson leiddi Arthur B. Laffer fram fyrir þjóðina í viðtalsþætti sínum í Sjónvarpinu í gær. Laffer þessi er best þekktur fyrir svokallað Laffer-línurit sem á að sýna að undir vissum kringumstæðum geti skattalækkanir aukið tekjur hins opinbera. Þetta er að vísu ekki nein ný kenning en hún varð þekkt þegar Laffer hreif með sér þá félaga, harðlínu-hægrimennina í stjórn Bush Bandaríkjaforseta, Dick Cheeney og Donald Rumsfeld á vinnufundi sem hann átti með þeim ásamt fleira fólki fyrir nokkrum árum. Þá á Laffer að hafa dregið upp kúrfu sína á servíettu,sem síðan hafi gengið undir heitinu "Laffer's napkin of eponymity (ef ég skil rétt, "Laffer servíettan sem eignaði honum kenninguna!" )
Hvað um það. Laffer segir að skatttekjur skili engu ef skattprósentan er annað hvort 0% eða 100%. Spurningin er hvar þarna á milli hún eigi að liggja.
Af viðtalinu að dæma þurfti enginn að velkjast í vafa um að Laffer vill liggja nær núllinu en 100 prósentunum. Fannst honum greinilega meira máli skipta að ná niður sköttunum en að tryggja hinu opinbera tekjur. Þannig hryllti hann sig þegar hann minntist stjórnmálamanns sem aukið hafði útgjöld til félagsmála. Laffer lagði mat á forseta Bandaríkjanna eftir því hve lítilli skattlagningu þeir beittu sér fyrir í sinni forsetatíð. Því minni skattar, þeim mun betri forsetar!
Athygli mína vakti hve mjög hann hreifst af efnahagsstefnu demokrata ekki síður en repúblikana, og þá sérstaklega þeirra Johns F. Kennedys og Bills Clintons. Nixon var að vísu "wonderful man" og ekki síður vöðvatröllið, Schwarzenegger. En þessir meintu mannkostamenn urðu einfaldlega skattlagningaróðir og þá var að sjálfsögðu voðinn vís. Svo slæmt er ástandið orðið í Kaliforníu undir Schwarzenegger að vesalings Arthur þurfti að eigin sögn hreinlega að flytja þaðan og til Nashville í Tennessee. "Fólk flyst nefnilega búferlum út af sköttum", sagði Arthur B. Laffer. Ég saknaði þess að heyra hann ekki velta vöngum yfir því hvort til væri í dæminu að fólk flyttist búferlum vegna góðra lífsskilyrða fyrir einstaklinga og fjölskyldur, vegna góðs skólakerfis, heilbrigðiskerfis, velferðarþjónustu almennt, traustra lífeyrisréttinda, kerfis jafnaðar og réttlætis, góðra elliheimila. Ég vona að móðir Laffers sé hraust og að hún sé vel tryggð! Vonandi á hann heilbrigð börn. Og hvað með New Deal og Keynesismann á fjórða áratugnum í Bandaríkjunum? Hafði inngrip ríkisins í New Deal stefnu Roosevelts ekkert að gera með að efnahagsvél Bandaríkjanna sem hafði nánast stöðvast fór í gang á ný með atvinnutækifærum fyrir milljónir atvinnulausra? Ekki gaf Laffer mikið fyrir slíkt pjatt.
Athyglisverðast við þáttinn var að vera minntur á hve hægri sinnuð bandarísk stjórmál eru. Gildir þá einu hvort um er að ræða demókrata eða repúblikana. Vonandi höldum við aldrei inn í þennan pólitíska veruleika - þar sem æðsta takmarkið er að finna leiðir til að takmarka samfélagsleg umsvif! Ég veit að á meðal vor eru margir sem langar. Þeir sátu með glýju í augum á fremsta bekk á fyrirlestri Laffers í Þjóðmenningarhúsinu í haust. Bogi brá upp mynd af þeim mannskap. Hollt að vera minntur á allt þetta. Boðskapinn og mannskapinn á bekknum. Gott að vera minntur á. Sem víti til varnaðar. Takk Bogi.