LAGAHEIMILDIR SKORTIR FYRIR FRAMKVÆMDUM VIÐ ÞJÓRSÁ!
06.12.2007
Hinn 9. maí síðastliðinn samþykktu ráðherrar þáverandi ríkisstjórnar fyrir hönd ríkisins samkomulag um yfirtöku Landsvirkjunar á vatnsréttindum ríkisins í neðri hluta Þjórsár án nokkurs fyrirvara í þágu fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs andmælti þessu á þeirri forsendu að þetta væri gert án heimildar í lögum og fór fram á að Ríkisendurskoðun kannaði hvort þetta stæðist lög.
Í dag birti Ríkisendurskoðun niðurstöður sínar þar sem fram kemur að gagnrýni VG var á rökum reist og að umrætt samkomulag væri ekki bindandi fyrir ríkið enda skorti nauðsynlegar lagaheimildir.
Í niðurstöðunum segir m.a. um þetta efni:
„Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að afla sérstakrar lagaheimildar til þess að ráðstafa þeim réttindum sem samkomulag íslenska ríkisins og Landsvirkjunar frá 9. maí 2007 um yfirtöku vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár mælir fyrir um. Því hefði verið rétt og eðlilegt að gera umrætt samkomulag með fyrirvara um samþykki Alþingis. Á meðan sérstök lagaheimild liggur ekki fyrir er samkomulagið að mati Ríkisendurskoðunar ekki bindandi fyrir ríkissjóð.“
Ástæða er til að vekja athygli á því að Ríkisendurskoðun fjallaði um andmæli ráðuneytanna varðandi ráðstöfun á eignarrétindum ríkisins en komst að þeirri niðurstöðu að röksemdir þeirra dygðu ekki „til að hagga þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að samkomulagið feli í sér ráðstöfun á eignarréttindum ríkisins, sem klárlega falli undir ákvæði 29. greinar fjárreiðulaga, þó tímabundin séu.“
Niðurstaða Ríkisendurskoðunar hlýtur að teljast áfellisdómur yfir vinnubrögðum stjórnvalda.
Krafan er augljós: Þegar í stað verði fallið frá fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum við Þjórsá enda eru ekki fyrir þeim lagaheimildir.