LANDHELGISGÆSLAN OG ALÞINGI
Við þessa fyrirsögn mætti bæta fangelsi á Hólmsheiði og Landlæknishúsi. Það síðastnefnda, gamla Heilsuverndarstöð Reykvíkinga, eftir Einar Sveinsson arkitekt frá miðri síðustu öld, er glæsilegt hús, hreinlega hannað og hugsað til að vera opinber bygging. Fyrir ekki svo ýkja mörgum árum var Heilsuverndarstöðin illu heilli seld úr opinberri eigu en síðan leigð dýrum dómum tilbaka á kostnað skattgreiðenda og hýsir nú Landlæknisembættið en á því fer að sjálfsögðu vel að vista embættið þar þótt heppilegra hefði verið að ríkið hefði fest kaup á húsinu í stað þess að leigja það.
Sala Heilsuverndarstöðvarinnar á sínum tíma var hluti af þróun sem byggði á tvennu: Viljanum til að einkavæða heilbrigðisþjónustuna og síðan þeirri bábilju að opinberar byggingar ættu að vera í einkaeign og að ríki og sveitarfélögum bæri alfarið að leigja af einkaaðilum. Stórfenglegasta dæmið um þessa dellu er náttúrlega illt hlutskipti Reykjanesbæjar sem nú er á kafi í skuldum einmitt vegna þessarar stefnu, að ekki sé minnst á Hafnfirðinga sem hafa borgað milljarða fyrir leigu og rekstur á Áslandsskóla í einkaframkvæmd. Enn eitt dæmið má nefna úr þessari miklu mistakasmiðju undangenginna ára en það eru skrifstofur Alþingis. Þingið leigir nefnilega dýrum dómum undir sig húsnæðið og munu nú vera vangalveltur uppi um að leigja gamla Landssímahúsið undir þingstarfsemina í stað þess að byggja nýtt. Það væri illa ráðið að mínu mati.
Þess vegna fagna ég hugmyndum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, um að ráðast í byggingar á Alþingisreitnum með það fyrir augum að hafa þingið í eigin húsnæði til frambúðar. Slíkt væri hagstæðara fyrir skattborgarann þegar til langs tíma er litið auk þess sem þær hugmyndir sem forsætisráðherra hefur sett fram um að byggja á gömlum teikningum Guðjóns Samúelssonar eru um margt skemmtilegar.
Ég skal játa að fyrst þegar ég las um þær á forsíðu Fréttblaðsins hélt ég að um aprílgabb blaðsins væri að ræða - ágætlega heppnað - að vísu svolítið absúrd. Það var ekki fyrr en ég fletti á blaðsíðu tvö í sama blaði, þar sem gat að líta frétt af skóflustungu við nýja mosku í Sogamýri með tilheyrandi fórn á innfluttum úlfalda sem söfnuður múslíma hefði fengið að gjöf frá konungi Saudi Araíbíu og Ali Hassan Abd al-Majid al-Tikriti, verkstjóri í sláturhúsi Kaupfélags Skagafjarðar, hafði skorið niður til dreifingar í Fiskikónginum, að ég áttaði mig á alvöru málsins.
Ég er löngu hættur að hlæja og bara forvitinn að sjá gamlar teikningar Guðjóns Samúelssonar sem á meira en lítið í arkítektúr Reykjavíkur og reyndar Íslands á tuttugustu öldinni. Hvort hann á heima í nýbyggingu á Alþingisreitnum á hinni tuttugustu og fyrstu öld skal ósagt látið. En þessi nálgun er óneitanlega forvitnileg og rétt að taka henni með opnu og jákvæðu hugarfari. Vissulega er það hárrétt hjá forsætisráðherra að viðfangsefnið í hönnun miðborgarinnar er að láta gamalt og nýtt ríma saman. En grundvallaratriði er þó að hugmyndirnar rími við notagildi og fegurðarskyn okkar í samtímanum.
Gott þótti mér að sjá á prenti hugmyndir forstjóra Landhelgisgæslunnar, Georgs Lárussonar, sem hann kynnti um síðustu helgi um að keyptar verði þyrlur fyrir Gæsluna til eignar í stað þess að leigja þær einsog gert hefur verið undanfarin ár. Þetta er ekki ný skoðun forstjóra Landhelgisgæslunnar heldur sjónarmið sem við höfum lengi verið sammála um. Leigan er miklu kostnaðarsamari fyrir ríkissjóð en kaupin. Þetta er mér vel kunnugt um sem fyrrverandi innanríkisráðherra og ábyrgur fyrir þessum málaflokki á síðasta kjörtímabili. Allir vissu að leigan var dýrari en kaupin en vegna bókhaldsfyrirkomulags og blöndu af íhaldssemi og þeirri áherslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að við sýndum jafnan jákvæða stöðu ríkissjóðs og því ekki þyrlukaup debetmegin í kladdanum, varð niðurstaðan sú að mjatlað yrði inn leigugreiðslunum frá ári til árs en ekki keypt.
Litlu munaði að fangelsið á Hólmsheiði og nýr Landspítali færu sömu leið þrátt fyrir að vitað væri að fangelsið yrði með því móti miklu dýrara en sá kostur sem á endanum varð fyrir valinu, það er að ríkið ætti fangelsið en ekki einkaaðliar. Ekki er enn séð fyrir endann hvað varðar Landspítalann.
Undir lok síðasta kjörtímabils leitaði ég eftir þverpólitískri samstöðu um að sérstök lög yrðu sett um þyrlukaup fyrir Landhelgisgæsluna - vitandi að stjórnarfrumvarp þar að lútandi ætti á hættu að velkjast lengi í þinginu. Margir sýndu þessari hugsun velvilja í orði kveðnu en of margir þáverandi stjórnarandstöðuþingmenn kusu engu að síður að hreyfa sig að hætti snigilsins enda lenska að taka afstöðu á Alþingi eftir því hvaðan tillögusmíð er ættuð. Vonandi verður það ekki hlutskipti hugmynda forsætisráðherra um nýtt Alþingishús.